Birgitta Pálsdóttir - Bigga Páls

Birgitta Pálsdóttir fæddist á Siglufirði 24. ágúst 1953. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 24. janúar 2014.

Birgitta var dóttir hjónanna Páll Ágúst Jónsson, f. 9.9. 1921, d. 13.2. 1995, og Una Sigríður Ásmundsdóttir, f. 16.6. 1927, d. 4.4. 2008.

Systkini Birgittu eru

 • 1) Ásmundur Pálsson, f. 1943,
 • 2) Jón Hólm Pálsson f. 1946,
 • 3) Róbert Pálsson f. 1947,
 • 4) Anna Pálsdóttir f. 1949,
 • 5) Jóhanna Pálsdóttir f. 1952,
 • 6) + Birgitta 1953
 • 7) Pálína Pálsdóttir, f. 1959,
 • 8) Hólmfríður Pálsdóttir, f. 1961 og
 • 9) Haraldur Pálsson, f. 1965.
Birgitta Pálsdóttir - Bigga Páls

Birgitta Pálsdóttir - Bigga Páls

Árið 1971 kynntist Birgitta eiginmanni sínum, Þórður Georg Andersen, (Þórður Andersen) f. 21.9. 1950, og gengu þau í hjónaband 17. nóvember 1973.

Birgitta og Þórður eignuðust tvær dætur, sú eldri er

1) Katrín Sif Andersen
börn þeirra
, f. 23.9. 1973, maki
Einar Áki Valsson
, f. 17.5. 1968,
 • Ágúst Orri Andersen, f. 8.3. 1994,
 • Joachim Birgir Andersen, f. 27.2. 2002,
 • Margrét Sigurlína Andersen f. 27.09. 2011. 

2) Vigdís Rut Andersen 
synir þeirra
, f. 12.7. 1980, maki Sveinn Svavarsson, f. 10.2. 1982 og
 • Þórður Indriði Sveinsson, f. 22.8. 2012.
 • Svavar Diðrik Sveinsson f 17.03.2017

Birgitta, eða Bigga, eins og hún var alltaf kölluð, lauk námi frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Bigga hefur alltaf verið þekkt sem dugnaðarkona og byrjaði mjög snemma að vinna. Aðeins sex ára gömul byrjaði hún að aðstoða í eldhúsi hjá vegavinnunni á sumrin og við bústörfin á ýmsum sveitabæjum.

Hún vann einnig í frystihúsinu á Súgandafirði, í Sjóla í Hafnarfirði og hjá Sigló Síld. Oftar en ekki vann Bigga erfiðisvinnu sem í þá daga voru kölluð „karlastörf“ og þótti hún ekkert gefa hinu kyninu eftir. Til dæmis starfaði hún við húsasmíði hjá Húseiningum og sem sendill hjá KEA og Verslunarfélagi Siglufjarðar.

Hún tók vaktavinnu í loðnubræðslu hjá Síldarverksmiðjum Ríkisins, síðar SR-Mjöl hf. Að lokum rak hún Gistihúsið Hvanneyri ásamt eiginmanni sínum, eldri dóttur og tengdasyni. Hennar helsta ástríða var Sálarrannsóknafélagið á Siglufirði en hún gegndi formennsku þar í um 15 ár. Hún sá um fjáröflun fyrir húsnæði félagsins og lögðu þau hjónin mikla vinnu í að gera það upp fyrir félagið. Biggu þótti alltaf vænt um Sjálfsbjörg og varði miklum tíma þar í að innrétta húsnæðið með eiginmanni sínum og að mála vörur til styrktar Sjálfsbjörg.

Bigga var mikill ökumaður og byrjaði sjö ára á dráttarvél í sveitinni hjá ömmu sinni og ók mikið um Siglufjörð sem sendill að keyra út vörur til bæjarbúa. Hún hikaði ekki við að keyra um allt land við allar aðstæður og virtist ekkert óttast.

Bigga tók einnig þátt í ökuleikni til fjölda ára og varð ítrekað Íslandsmeistari og hélt svo áfram að sigra í kvennaflokki þegar hann kom til. Flestir Siglfirðingar kannast við Biggu Páls og muna eftir henni sem kraftmikilli og jákvæðri konu sem lét aldrei deigan síga, jafnvel ekki þó hún væri með ólæknandi krabbamein og hefði það alltaf „ljómandi fínt“ til allra síðasta dags.

Útför Birgittu fór fram frá Siglufjarðarkirkju 1. febrúar 2014, og hófst athöfnin kl. 14.

 Frá okkur systrunum; Katrín og Vigdís, dætur.
------------------------------------------------

Okkur langar að minnast hennar Biggu, systur, mágkonu og frænku en umfram allt góðs vinar. Hún var alltaf til staðar fyrir okkur ef á þurfti að halda. T.d. þegar ég var við nám í Háskóla Reykjavíkur og það var prófsýning sem mig langaði til að skoða, þá var hún fljót að segja „hvað, við skutlumst bara til Reykjavíkur og heim aftur sama dag, það er nú ekki mikið mál“ en prófsýningin var 23. desember, en svona var hún, taldi aldrei eftir sér að hjálpa hvenær sem var.

Hún var glaðvær manneskja og hlátur hennar þekktu flestir Siglfirðingar og var ekki annað hægt en hlæja með henni þegar hún byrjaði.

Þau hjónin voru mjög samheldin og unnu saman sem eitt við að byggja við húsið sitt við Eyrargötuna, innrétta húsnæðið fyrir Sjálfsbjargarfélagið á Siglufirði og gera upp hús Sálarrannsóknarfélags Siglufjarðar og fleiri hús og allt var þetta unnið í sjálfboðavinnu. Núna síðast á meðan hún hafði heilsu til, þá lagði hún alla sína krafta í Gistihúsið Hvanneyri á Siglufirði sem þau hjónin, dóttir og tengdasonur hafa rekið í nokkur ár.

Bigga greindist með krabbamein árið 2012 og tók því eins og algjör hetja, „þetta er verkefni sem ég verð að takast á við“ var hún vön að segja. Þegar hún missti máttinn fyrir neðan mitti, þá sagði hún við okkur „hvað, ég er nú búin að fá að ganga í 60 ár en sumir fæðast lamaðir og fá aldrei að ganga“. Þannig var hún, sá alltaf björtu hliðarnar á öllu.

Elsku Bigga, við eigum eftir að hittast seinna á betri og bjartari stað eða eins og þú sagðir alltaf „þetta er allt í lagi, ég er bara að flytja“ en þú trúðir því staðfastlega að það sé líf eftir þetta líf. Við erum alveg viss um að þar bíða þín ótal verkefni sem þú átt eftir að leysa vel af hendi.

Elsku Þórður, Kata, Vigdís og fjölskyldur, við vottum ykkur innilega samúð.

Pálína, Kristján (Kiddi), Kristján og Guðrún.
--------------------------------------

Elsku frænka, nú kveð ég þig í bili. Í mínum augum gast þú gert allt, superwoman. Á meðan venjan var sú að karlmaðurinn keyrði og frúin sat með krosslagða fætur í farþegasætinu, þá tókst þú þátt í ökuleikni og sigraðir, ítrekað. Sannkölluð kjarnakona. Þú kveinkaðir þér sjaldan og tókst til hendinni þegar þess þurfti. Labbaðir um bæinn með smíðabelti um þig miðja, hlaðin verkfærum, enda varst þú þá að fást við smíðar. Ég lærði það af þér að konur geta allt það sem þær vilja. Það hefur verið meitlað í kjarna minn síðan og komið sér vel fyrir mig í þeim verkefnum sem lífið hefur fært mér.

Húmor þinn og léttleiki var aldrei langt undan, þú gast fundið leik í flestu. Ég gleymi aldrei bingóferðunum með þér. Bingó, sem mér leiddist hrikalega, varð að ævintýri og keppni. Þú bauðst upp á brenni og malt og stakkst svo upp á því að lágu tölurnar væru staðsettar í kjallaranum, miðtölurnar á miðhæðinni og hæstu tölurnar væru upp á háalofti og svo áttum við að keppa í því að hlaupa um húsið og finna tölurnar. Já, það var gaman í bingó með þér. Þá var mikið hlegið.

Ég er þakklát því að hafa tengst þér meðan ég var barn og ég er þakklát ykkur Þórði að hafa tekið á móti mér sumar eftir sumar þegar ég heimsótti heimabæ minn. Heimili ykkar var opið og þið gáfuð ykkur tíma fyrir bæði spjall og spil við eldhúsborðið. Ég er líka þakklát fyrir að hafa fengið þann heiður að gista í Andabæ. Það hríslaðist um þig þegar þú nefndir húsið með nafni.

Elsku Bigga, ég get þakkað þér svo margt og á svo margar minningar um þig eins og þegar þú tókst mig með þér á fótboltaleiki hjá KS og þegar þú keyrðir alla leið frá Siglufirði til þess að mæta í fermingu Sunnevu. Þannig sýndir þú okkur að við ættum þig að. Mér þótti einstaklega vænt um að þú hafðir fyrir því að mæta í afmælið mitt þrátt fyrir veikindi þín. Þá ómaði systrasöngur og hlátur í stofunni minni.

Þú hafðir einstakt viðhorf sem endurspeglaðist í samtali okkar eftir að þú greindist með krabbameinið. Þú sagðist ætla að njóta þess sem þú hefðir, njóta tímans sem þú ættir. Þú sagðir að það væri ekkert annað í stöðunni en að vera bara til.

„Það er ekkert að mér.“ Þú sagðir þetta á facebook á sama tíma og þú lýstir hetjulegri baráttu þinni, þú sagðir þetta við mig þegar þú fannst að ég hafði áhyggjur af þér og þú sagðir þetta þegar við Fritz og Amanda hittum þig á Blönduósi. Örstuttu seinna sat ég við hlið Kötu þegar þú hringdir í Þórð og sagðir honum frá meininu. Nei, það var ekkert að hjá þér. En þú vildir að við myndum biðja fyrir þér. Það þótti mér vænt um. Ég vil að þú og aðrir viti að ég dáðist að þér, baráttuþreki þínu og trúnni.

Kæra frænka, á sama tíma og við kveðjum þig og þökkum samfylgdina viljum við senda innilegar samúðarkveðjur til allra sem sakna þín.

Díana Ósk Óskarsdóttir, Sunneva Smáradóttir og Amanda Líf Pétursdóttir.
---------------------------------------------------

Ákveðin, forkur dugleg, hjartahlý.

Þessi orð lýsa þér vel, Bigga mín. Þú varst alltaf að, alltaf að dytta að einhverju og bardúsa eitthvað. Nánast sama hvað það var, það lék allt í höndum þér. Smíðar, saumaskapur, sama hvað það var.

Ég hef þekkt þig frá því ég var lítil táta. Þú varst þá ráðskona á næsta bæ. Komst oft í heimsókn og alltaf fylgdi þér þetta grallaralega bros og hlátur.

Þakka þér viðkynninguna, Bigga mín, við sjáumst síðar.

 • Með ástarþökk ertu kvödd í hinsta sinni hér,
 • og hlýhug allra vannstu er fengu að kynnast þér.
 • Þín blessuð minning vakir og býr í vina hjörtum,
 • á brautir okkar stráðir þú, yl og geislum björtum.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Kæri Þórður, Kata, Vigdís og fjölskyldan öll, ég votta ykkur öllum mína dýpstu samúð.

Þín vinkona, Halla.
--------------------------------------------------

Verslunarfélagið Ásgeir var lítil matvöruverslun á Siglufirði með heimsendingarþjónustu og afgreiðslu um borð í skip og var það mikil vinna og burður. Sendill sá um það verk ásamt öðrum störfum, svo sem að keyra vörur í hús út um allan bæinn og jafnvel að raða vörunum í skápa og skúffur fyrir kúnnann. Það var ekki heiglum hent.

Dag einn snaraðist inn í búðina ung mær, dökk á brún og brá með bros á vör. Þetta var Bigga Páls og spurði hún hvort okkur vantaði ekki sendil, sem og var. Hún var ráðin á staðnum, okkur til gæfu. Bigga gaf ekkert eftir, fílefld og góður bílstjóri. Hún gerði góðan vinnustað betri með nærveru sinni. Það var oft glatt á hjalla í vinnunni, enda bara skemmtilegt fólk í Versló. Bigga var mikill gleðigjafi sem vildi allt fyrir alla gera með bros á vör. Bigga var góð í gegn.

Elsku Bigga, þökkum þér samfylgdina og vináttu. Við sendum Þórði og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

 • Alltaf fjölgar himnakórnum í,
 • og vinir hverfa, koma mun að því.
 • En þegar lýkur jarðlífsgöngunni,
 • aftur hittumst við í blómabrekkunni.

(Magnús Eiríksson)

Ásgeir, Guðmunda og Margrét.
------------------------------------------------

Hún Birgitta hefur kvatt þennan heim. Fyrir okkur sem þekktum hana kemur fyrst upp minningin um jákvæða, káta og lífsglaða konu sem geislaði út frá.

Við sem störfuðum með henni í Brautinni – bindindisfélagi ökumanna viljum þakka fyrir hennar óeigingjarna starf fyrir félagið. Í mörg ár var hún drifkraftur í að undirbúa og halda Ökuleikni á Siglufirði. Sjálf var hún frábær bílstjóri og varð meðal annars Íslandsmeistari kvenna í Ökuleikni árin 1997, 1999, 2003, 2004 og 2009.

Hún var mikill bílagrúskari og er það undirrituðum minnisstætt þegar við mættum á Siglufjörð til að halda Ökuleikni eitt árið og bönkuðum upp á hjá henni. Þá heyrðist kallað úr kjallaranum: „Ég er hér niðri“ og viti menn, þá lá hún undir VW bjöllu sem hún var að rífa í spað. Þessir bílar voru sérstakt áhugamál hennar og hún lagaði ófáa slíka bíla og byggði upp með góðum árangri.

Nú þegar að kveðjustund er komið viljum við í Brautinni – bindindisfélagi ökumanna votta aðstandendum samúð okkar og ítreka þakklæti okkar fyrir hennar störf í þágu félagsins. Minningin um hana mun lifa í hjörtum okkar.

F.h. stjórnar Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna,

Einar Guðmundsson formaður.

Þórður G Andersen og Birgitta Pálsdóttir

Þórður G Andersen og Birgitta Pálsdóttir