Bjarni Daníel Friðbjörn - (Bjarni Finnu) sjómaður

Bjarni Bjarnason  sjómaður fæddist á Siglufirði 14. desember 1922. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 30. nóvember 2005.

Foreldrar hans voru  Margrét Guðfinna Bjarnadóttir, f. í Siglufirði 28. október 1882, d. 30 janúar 1968, og Bjarni Gíslason, f. 17. september 1891 í Fljótum, d. 12. maí 1922, er mótorbáturinn Samson fórst í hákarlalegu. 

Bjarni var skírður, samkvæmt kirkjubók 12. janúar 1923. 

Bræður hans voru þrír: 

  • 1) Sören Karl Bjarnason er þeirra elstur, f. 31. ágúst 1916, og er nú einn eftir á lífi, búsettur á Sauðárkróki. 

  • 2) Bjarni Friðbjörn Bjarnason var annar í röðinni f. 31. desember 1918, en hann lést úr berklum. 

  • 3) Bjarni Bjarnason var þriðji í röðinni og fjórði bróðirinn var 

  • 4) Jón Bjarnason sem lést ungur að árum.
Bjarni Bjarnason - Bjarni Finnu (Finna var móðir hans.

Bjarni Bjarnason - Bjarni Finnu (Finna var móðir hans.

Bjarni ólst upp á Siglufirði en fluttist til Vestmannaeyja í kringum 1960 eftir að hafa sótt vertíðir í Eyjum.

Hann bjó með Sigríði K Bjarnadóttir, (Sigga Bjarna) f. 6. maí 1905, d. 11. febrúar 1978. 

Þau ólu upp í fóstri Halldór Ragnarsson, f. á Siglufirði 2. október 1938.

Bjarni starfaði lengst af sinni ævi við sjómennsku.

Hann er látinn þessi ótrúlegi harðjaxl, sjómaður og verkamaður sem alla tíð vann eins og líkaminn þoldi. Bjarni Bjarnason þekkti ekki annað en taka á í lífinu. Bjarni tengdist okkur feðgunum frá Löndum vináttu- og tryggðaböndum sem byggðust á þeirri virðingu sem við berum fyrir dugnaðarforkum og listamönnum til allra verka eins og Bjarni var.

Faðir minn, Friðrik Ásmundsson frá Löndum, og Bjarni kynntust fyrst þegar þeir voru saman hásetar á togaranum Elliði SI 1 frá Siglufirði sem afi minn Ásmundur Friðriksson var skipstjóri á. Bjarni var skörinni hærra settur en pabbi, hann var hausari.

Saltað var um borð og vinnan var svakaleg. Þessi smávaxni maður þótti mikill hausari sem beitti hausingasveðjunni af list. Tvö nett hnífsbrögð inn með kinninni og hann reif hausinn af svo hnakkastykkið fylgdi allt með. Það hafði enginn við kallinum, hvort heldur það var eftir fyrsta halið í túrnum eða það síðasta í skítabrælu á 35. degi og skipið fullt upp í lúgur af flöttum saltfiski.

Bjarni var listamaður til allra verka og umgengni. Það er líka list að vera góður sjómaður og afburða flatningsmaður. Hann var ekki listamaður eins og þeir sem sækja kaffihúsin og bulla út í eitt um einskisverða hluti og sötra bjór. Bjarni gerði minna af því að tala, hann gat verið glettinn og hláturmildur en lét sér oftast nægja að láta verkin tala og þegar hann fékk sér í glas þá var það ekki gert samkvæmt einhverjum Dagsbrúnartaxta frekar en vinnan.

Bjarni fluttist til Eyja um 1965 ásamt Siggu eiginkonu sinni og Halldóri uppeldissyni þeirra. Bjarni réð sig í pláss hjá föður mínum á Öðlingur VE 202 og á þeim árum voru oft sagðar hetjusögur af Bjarna í eldhúsinu á Grænuhlíð 18. Bjarni var fíngerður maður, en hafði ekki þetta jaxlaútlit sem hann sannarlega var. Stakk aðeins við þegar hann gekk, hokinn og leit niður fyrir sig, gjóaði þó augunum annað slagið á samferðamenn sem honum komu ekkert við. Bölvaði sumum.

Síðustu starfsár Bjarna vann hann hjá mér í aðgerð og hrognavinnslu, hann hafði því starfað með okkur þremur kynslóðum frá Löndum. Í aðgerðinni átti enginn möguleika í kallinn, hann sjötugur og strákarnir úr stýrimannaskólanum trúðu ekki sínum eigin augum, slíkur var krafturinn og vinnugleðin.

Kaffitímarnir og pásurnar voru stuttar hjá okkar manni, drakk kaffibolla og reykti eina sígarettu, kveikti í annarri stóð upp og sagði: "Ási, hvur djöfullinn er þetta, á að sitja hér í allan dag?" Þá gat hann fengið eitraða sendingu frá samstarfsfólkinu sem var alveg búið að fá nóg.

Slíkum athugasemdum var ávallt svarað eins: "Éttan sjálfur", hurðinni á kaffistofunni skellt aftur, hnífurinn stálaður, blóð- og slorslettur þeyttust út á gólf og upp í loft þegar hnífnum var brugðið aftur í gotrauf, skorið frá og innyflin lágu laus þegar hann renndi þeim nett í slorrennuna, auðvelt, hann var listamaður til verka, kallinn. Þá var Bjarni dixilmaður eins og þeir gerast bestir, sló til hrognatunnurnar, eitt högg og gjörðin flaug af, dixlinum skellt út við tunnustafinn og lokið laust.

Hann hataði sænska hrognakaupmenn. Þegar þeir tóku út hrognin og höfðu þrýst tunnurnar, stundum kvartað yfir vigtinni, fengu þeir kaldar kveðjur frá kallinum. Þá leit hann á mig, gretti sig og sagði gjarnan: "Ási, eigum við að festa nokkrar hrognabrækur utan á gjarðirnar fyrir helvítin?" Hann þekkti það frá síldarárunum á Siglufirði að ágirndin var þeim í blóð borin. 

Með Bjarna eru þeir að heyra sögunni til orginalarnir sem hófu starfsævina upp úr fermingu, við slíkar aðstæður að í dag væru menn lokaðir inni fyrir minni sakir en að bjóða tölvukynslóðinni upp á slíkt harðæri. Það mótaði hann og allt hans líf. 

Ég vil þakka honum samstarfið og tryggðina við okkur feðga alla tíð. Það var lærdómsríkt að vinna með slíkum manni sem gerði ekki meiri kröfur til lífsins og lífsgæðanna. Bjarni Bjarnason hefur barið nesti sitt eftir langan vinnudag og þeir sem hann vann fyrir uppskáru trúlega meira en hann. 

Ég má til með að láta eina góða sögu af Bjarna fylgja í lokin, ég var oft búinn að segja þessa sögu í kaffistofunni og þá kímdi kallinn á meðan en sagði mér svo að halda kjafti á eftir. Bjarni var að drekka með vini sínum og frænda Hannes Garðarsson (Hannes boy) í veiðarfæraskúr á Siglufirði í nokkurra daga landlegu. Siggu konu hans var farið að leiðast drykkjan og fór í króna til að finna Bjarna. Hún kom nokkrum sinnum þennan dag til að trufla þá vinina við drykkjuna.

Bjarni faldi sig bak við beitustampa haug í hvert sinn sem Sigga birtist. Þeir félagarnir gerðust þreyttir á þessu ónæði og ákváðu að hóta henni með haglabyssu sem vinurinn átti. Aftur kom Sigga og Bjarni faldi sig bak við stampana. Eftir að Sigga og vinurinn höfðu þrasað um stund tekur hann upp haglabyssuna og hótar Siggu fari hún ekki heim og láti hann í friði. Þegar hávaðinn er hvað mestur lyftir hann haglabyssunni og hleypir af skoti upp í gegnum þakið til að hræða Siggu út. Þá sprettur Bjarni á fætur og kallar: "Lá hún?"

Ásmundur Friðriksson. 

Ath: sk. Hér á tenglinum neðst, má lesa aðra frásögn af haglabyssuskotinu, sem Ásmundur segir frá hér fyrir ofan.>

BYSSUSAGA

Bjarni Finnu. Þessi myndkápa fylgdi minningargreininni frá Vesmannaeyju, Ásmundar Friðrikssonar.

Bjarni Finnu. Þessi myndkápa fylgdi minningargreininni frá Vesmannaeyju, Ásmundar Friðrikssonar.