Tengt Siglufirði
Bjarki Árnason (fæddur 3. maí 1924, dáinn 15. janúar 1984).
Fæddur Þingeyingur, sjálfmenntaður harmonikkuleikari sem spilaði fyrir dansi í sinni heimasveit. Bjarki flutti til Siglufjarðar 1943 og bjó þar síðan. Hann starfaði fyrst að Hóli í Siglufirði, síðar sem byggingameistari og kaupmaður.
Að Hóli samdi hann meðal annars Dísir vorsins 1943 og Hólasveinabrag, sem urðu fljótt mjög vinsæl og fóru um allt land sem „húsgangar“ án þess þó að vera nokkurntíma hljóðrituð. Bjarki var vinsæll dansspilar á síldarárunum á Siglufirði og spilaði mikið, oftast undir sínu eigin nafni, einn eða með öðrum, svo sem Þórði Kristinssyni, Sæmundi Jónssyni, Guðmundi og Þórhalli Þorlákssonum (Gautar) og fleirum.
Hann var þekktur hagyrðingur og liggur eftir hann mikið magn af gamanvísum og lausavísum, margar landöskunnar.
Um 1963 fer Bjarki að gera texta við ýmis lög fyrir karlakórinn Vísir til dæmis Okkar glaða söngmál, Siglufjörður (lag og texti) og fleiri. Guðmundur Þorláksson (Gauti) sló svo í gegn með texta Bjarka, Sem lindin tær, við erlent lag.
Það er svo í kringum 1970 að þeir félagar Bjarki og Þórður Kristinsson leiða saman hesta sína að nýju, hefja ballspilamennsku og stofna upp úr því hljómsveitina Miðaldamenn ásamt Magnúsi Guðbrandssyni og Sturlaugi Kristjánssyni.
Á þeim árum semur Bjarki marga dægurlagatexta við erlend lög svo sem Mónika, Ævisaga, Vilt'ekki eiga mig, Kysstu mig og svo framvegis.
H. Ísmús.
----------------------------------------
Bjarki Árnason Siglufirði - Fæddur 3. maí 1924 Dáinn 15. janúar 1984
....................Við fráfall vinar sest sorgin að og við eigum bágt með að trúa raunveruleikanum. Við sjáum núna, hve bilið er mjótt milli lífs og dauða. Sunnudaginn 15. janúar andaðist í Sjúkrahúsi Siglufjarðar Bjarki Árnason kaupmaður.
Bjarki fæddist á Stóru-Reykjum í Reykjahverfi í S.-Þing., en ólst upp í Holtakoti og á Litlu Reykjum í sömu sveit.
Foreldrar hans voru sæmdarhjónin Laufey Sigtryggsdóttir frá Stóru-Reykjum og Árni Þorsteinsson frá Litlu-Reykjum.
Móður sina missti Bjarki ungur en naut samvista ömmu sinnar og skyldfólks á sama bæ.
Til Siglufjarðar kemur Bjarki fyrst árið 1943, þá sem starfsmaður í nokkra mánuði
við Hólsbúið.
Ári seinna kemur Bjarki aftur til Siglufjarðar og hefur dvalið hér alltaf síðan.
Á Siglufirði kynntist Bjarki eftirlifandi konu sinni, Margrét Vernharðsdóttir, og gengu þau í hjónaband 1. febrúar 1945.
Börn þeirra hjóna eru:
Áður hafði Bjarki eignast eina dóttur,
Laufey Bjarkadóttir, fædd 23. júlí '41, maki; Karl Sigurður Björnsson og búa þau á Hafrafellstungu í Öxarfirði, eiga þau 4 börn.
Alla tíð hefur verið mikið og innilegt samband milli heimilanna.
14 ára gamall eignast Bjarki sína fyrstu harmonikku, og má segja að þar hafi tónlistarferill hans byrjað.
Snemma byrjaði hann að leika á dansleikjum og með hljómsveitum.
Hagyrðingur var hann með afbrigðum góður og eru lög hans og ljóð löngu landskunn orðin.
Eiginkona og börnin hans öll eiga hlýjar og góðar minningar um hann, því oft var safnast saman, harmonikkan þanin og lagið tekið. Bjarki var húsasmíðameistari að mennt og starfaði lengi að þeirri iðngrein, bæði við byggingu húsa og við verkstæðisvinnu. Fyrir um 20 árum keypti Bjarki byggingavöruverslunina „Einco" ásamt fleirum, en eignaðist hana síðar einn.
Á síðasta ári seldi hann verslunina en vann hjá hinum nýju
eigendum þar til hann lést.
Bjarki gegndi mörgum trúnaðarstörfum hér á Siglufirði. Fyrir Framsóknarflokkinn sat hann í bæjarstjórn '70—'74.
Lionsmaður var hann mikill og söng með Karlakórnum Vísi, svo eitthvað sé nefnt.
Öll þessi störf rækti Bjarki af stakri vandvirkni, en átti þó aldrei svo annríkt að hann væri ekki boðinn og búinn að leggja öðrum lið, þá kosti þekkti ég vel. AAsamtökin voru honum mikils virði eins og öll önnur góð málefni. Að leiðarlokum þökkum við hjónin Bjarka Árnasyni trausta og hlýja vináttu.
Minningarnar geymum við um góðan dreng. Elsku Magga mín, ég votta þér og börnunum og öllum aðstandendum mína dýpstu samúð.
Brynja Stefánsdóttir
--------------------------------------
Það hefur verið eitt mesta happ Siglufjarðar í áranna rás, að þangað hafa komið ágætis menn og konur sem dvalið hafa að sjálfsögðu misjafnlega lengi.
Flest þetta fólk hefur lagt fram krafta sína til uppbyggingar þess mannlífs sem þar blómgast. Það er að sjálfsögðu eftir fjölhæfni hvers og eins, á hvað breiðu sviði viðkomandi leggur málum lið. Það er sjaldgæft að sami aðili sé það fjölhæfur að hann geti gripið inn á flest svið sem þróast í einu bæjarfélagi, en allt er háð undantekningum.
Þingeyingar hafa löngum getið sér gott orð einmitt fyrir fjölhæfni, þaðan hefur komið bæði duglegt og gáfað fólk, sem víða hefur haslað sér völl og reynst farsælt í störfum sínum, þó að þeim sé sveitin sín kær, brennur útþráin og löngun til að freista gæfunnar eins og gengur og gerist og sækja aðrar byggðir heim. Margir Þingeyingar hafa sótt Siglufjörð heim, og hefur hann notið góðs af þessu kraftmikla gáfufólki sem fest hefur þar rætur.
Einn af þessum kjarnakvistum var vinur minn Bjarki Árnason, byggingameistari, sem kvatt hefur nú þetta jarðlíf á svo snöggan hátt.
Bjarki Árnason kom ungur maður til Siglufjarðar og hóf störf á Hólsbúinu. Þar var kátt á hjalla eins og vera ber, þar sem ungir menn eru samankomnir. Þar var Bjarki driffjöðrin í gleði og glensi, því hann hafði svo miklu að miðla.
Ég minnist þess þegar Hólssveinar keyrðu á hestasleðum syngjandi um bæinn á fögrum vetrarkvöldum, þar þandi Bjarki harmónikuna af fullum krafti en hann varð snemma eftirsóttur harmónikuleikari á dansleikjum.
Í þá daga var alveg nóg að auglýsa að Bjarki spilaði, að þá var nokkuð öruggt að samkoman yrði vel sótt, en harmónikan fylgdi honum fram undir það síðasta, og það eru margir sem skemmt hafa sér vel undir taktfastri tónlist hjá Bjarka og félögum, sem kunnir voru síðustu árin undir nafninu „Öldin okkar".
Bjarki fór í húsasmíðanám hjá Pétri Laxdal, sem um árabil bjó á Siglufirði. Síðan rak Bjarki sjálfstæðan rekstur í byggingastarfsemi í mörg ár, þar til hann keypti Byggingavöruverzlunina Einco sem hann rak allt fram á sl. ár er hann seldi hana.
Hann var þá farinn að finna fyrir sjúkleika, sem gæti fyrirvaralítið komið í veg fyrir að hann gæti sinnt sínum störfum að fullu, en óskiptur vildi Bjarki ekki standa í störfum sínum.
Bjarki endurbætti verzlun sína mikið þrátt fyrir samdrátt í byggingastarfsemi í bænum á síðari árum. Í verzlun hans kynntust viðskiptavinirnir hinum lipra drengskaparmanni sem öllum vildi liðsinna eftir beztu getu. Félagsmálastörf Bjarka voru margþætt. Hann sat í bæjarstjórn í fjögur ár, og í slíku starfi reynir á lipurð og dómgreind, þegar semja skal um mál, og taka ákvarðanir.
Hann hélt sér utan við pólitískar deilur sem oft vilja blandast inn í slíkar umræður.
Í Iðnaðarmannafélagi Siglufjarðar starfaði hann mikið meðan það var og hét.
Í Lionsklúbbi Siglufjarðar var hann mjög virkur félagi til dauðadags.
Hann hefur sungið í Karlakórnum Vísi um áratuga skeið. Vísismenn nutu bæði ljóða og lagasmíða hans í ríkum mæli, en hann átti létt með skáldskap og tónsmíðar.
Hann gerði t.d. bæði ljóð og lag við það sem við getum nefnt héraðssöng Siglufjarðar, sem heitir „Siglufjörður", en það syngur „Vísir" altíð í samsöng sínum. Af ljóði þessu má glöggt merkja hversu rætur hans hafa verið orðnar grónar í siglfirzka mold.
Viðkvæm blóm festa ekki rætur nema að þeim sé hlúð, en mestan og beztan þátt í því átti hans mikla fyrirmyndarkona, Margrét Vernharðsdóttir, sem hann kynntist á árunum sem hann var á Hóli, en þau gengu í hjónaband 1. febrúar 1945.
Brúðkaupsdagar eru oft mestu gleðidagar hverra hjóna og það veit ég að þeirra brúðkaupsdagur var þeim merkur. Þá gerðu tveir heilsteyptir einstaklingar heit sín og ekkert gat fengið þeim breytt nema dauðinn. Engum duldist sem inn á heimili þeirra hjóna kom, að þar fór saman gagnkvæmt traust, myndarskapur og sérstök hjartahlýja.
Það væri óskandi að sem flest heimili byggju yfir slíku viðmóti. Í þessu umhverfi ólu þau börn sín upp, en þau eru:
Laufey, maki Karl Sigurður Björnsson, en þau búa í Öxarfirði. Allt er þetta mikið manndóms- og myndarfólk og eru fjölskylduböndin sterk og traust.
Nú þegar leiðir skilja um stund, verða margir til að sakna þessa ljúfmennis sem aflaði sér svo margra vina á lífsleið sinni meðal samferðamannanna, en sárastur verður söknuðurinn hjá eiginkonunni, börnum, barnabörnunum níu, sem afa voru svo kær, og hinum aldna tengdaföður, en þar voru vináttuböndin sérstaklega traust.
Öllu þessu góða fólki sendum við hugheilar samúðarkveðjur. Við biðjum honum guðs blessunar á vegferð hans á æðri vegum. Um leið og ég og fjölskylda mín kveðjum kæran vin, kveðjum við sannan drengskaparmann og tryggan vin sem við munum ætíð geyma góðar minningar um.
Skuli Jónasson
--------------------------------------------------------
Bjarki Árnason andaðist á Sjúkrahúsi Siglufjarðar sunnudaginn 15. janúar 1984 eftir stutta legu þar, aðeins 59 ára.
Að vísu var ljóst að síðustu mánuði gekk hann ekki heill til skógar, en að endadægur væri komið voru fæstir viðbúnir.
Ég kynntist Bjarka þegar hann var við trésmíðanám hjá Pétur Laxdal, byggingameistara, og í Iðnskóla Siglufjarðar hjá Jóhanni Þorvaldssyni, skólastjóra, 1951-'52. Sveinspróf í trésmíði tók hann 5. marz 1953 og byggingarmeistarabréf þremur árum seinna. í skólanum vakti hann athygli mína fyrir hvað hann var fljótur að skilja t.d. stærðfræðina sem Hafliði Guðmundsson kenndi, en mér var kunnugt um að Bjarki hafði ekki aðra undirbúningsmenntun en einn vetur í Laugaskóla eftir venjulega barnafræðslu eins og hún gerðist til sveita um 1930.
Hann fæddist að Stóru-Reykjum í Þingeyjarsýslu 3. maí 1924, sonur hjónanna Árna Þorsteinssonar frá Litlu-Reykjum og Laufeyjar Sigtryggsdóttur frá Stóru Reykjum. Hófu þau búskap í Holtakoti en móður sína missti Bjarki þegar hann var 9 ára, fluttist faðir hans þá að Litlu-Reykjum með syni sína tvo, sem ólust þar upp.
Sigtryggur Árnason er tveimur árum yngri, býr nú á Litlu-Reykjum, giftur Aðalbjörgu Jónsdóttur frá Yzta-Hvammi í Aðaldal og eiga þau fjögur börn.
Mjög kært samband var milli þeirra bræðra og fannst Bjarka hann fara heim, þegar austur í Reykjahverfi var farið.
Til Siglufjarðar kemur hann sumarið 1943 og vinnur þá á Hólsbúinu, sem Siglufjarðarkaupstaður átti og rak. Eitthvað hefur Bjarki séð við Siglufjörð sem eftirsóknarvert var, því að á þrettándanum 1944 er hann aftur kominn til Siglufjarðar og ráðast þá örlög hans skjótt. Hann kynntist eftirlifandi konu sinni, Margréti Vernharðsdóttur, og þau gifta sig 1. febrúar 1945. Eignuðust þau fjögur börn, Kristínu, f. 26. júlí 1945, gifta Hafsteini Sigurðssyni, þau búa á Ísafirði; Sveinsínu, f. 12. apríl 1949, gifta Hjálmari Guðmundssyni vélstjóra, Vestmannaeyjum, þau eiga tvo drengi; Brynhildi, f. 5. júní 1954, gifta Stefáni Pálssyni, Sandfelli, Skagafirði, þau eiga þrjú börn og Árna, f. 4. nóvember 1960, giftan Heiðrúnu Óskarsdóttur, þau búa á Siglufirði. Áður en Bjarki gifti sig eignaðist hann dóttur, Laufeyju, er hún gift Karli Sigurði Björnssyni og eiga þau fjögur börn og búa á Hafrafellstungu í Öxarfirði.
Í umróti hins daglega amsturs hrekkur maður við þegar samstarfsmaður er kallaður burtu langt um aldur fram. Minningarnar hrúgast upp, og á hugann leitar tilgangsleysi þeirra ágreiningsmála, sem mönnum hættir til að blindast af innan okkar þrönga fjallahrings, og við verðum svo oft upptekin af. Ég minnist þess þegar Bjarki hafði rétt lokið sveinsprófi að hann tók við rekstri trésmíðaverkstæðis Péturs Laxdal, sem hann lærði hjá og Pétur flutti þá til Reykjavíkur. Þá voru vissulega erfiðleikar í Siglufirði en Bjarki hafði þá þegar byggt húsið Laugarveg 5 í félagi við tengdaföður sinn. Einstaklega gott samband var alla tíð milli hæðanna og sterk fjölskyldutengsl.
Samband slitnaði í nokkur ár meðan ég dvaldi við frekara nám í Reykjavík, en þegar ég kom aftur 1957 og stofnaði fyrirtækið Raflýsingu ásamt öðrum var Bjarki orðinn umfangsmikill byggingameistari. Endurnýjaðist nú vináttan. Unnum við mikið á næstu árum bæði fyrir og í verkefnum með Bjarka. Byggði hann m.a. húsið okkar að Hlíðarvegi 17, um 1960. Hann teiknaði og byggði mörg hús í Siglufirði og var einstaklega nákvæmur um alla áætlanagerð, verkhygginn og samviskusamur. Mér er minnisstætt þegar Kaupfélag Siglfirðinga byggði verzlunarhúsið að Suðurgötu 4, 1964—'66. Verkið var boðið út í einu tilboði, uppsteypt með grunni og lögnum. Bjarki bað mig að áætla í verkið raflagnir.
Einhvern veginn fórst það fyrir svo að hann varð að leggja eigið mat á þann verkþátt. Ekki var laust við að við værum spenntir að vita niðurstöður tilboðanna, en skemmst er frá að segja að verkið fékk Bjarki og fyrir tilboð sem féll að kostnaðaráætlun svo ekki skeikaði nema örfáum krónum. Hefur mér oft verið hugsað til þessa verktilboðs ásamt því vaska liði, sem Bjarki hafði þá í vinnu og félagi við sig. Ég man þar Guðmund Þorláksson, sem lærði trésmíði hjá Bjarka, Hjört Ármannsson, sem lengi vann hjá honum, Trausta Árnason, kennara, Helga og Einar Hafliðasyni o.m.fl.
Árið 1964 kaupir Bjarki Einco að hálfu af Ólafur Ragnarsson og ráku þeir fyrirtækið saman nokkur ár. Þegar Ólafur flutti til Reykjavíkur keypti Þórður Kristinsson hlut Ólafs og ráku þeir Einco saman meðan Þórðar naut við en hann andaðist 22. maí 1975.
Bjarki keypti þá hlut dánarbúsins og rak Einco einn þar til að hann seldi Konráð Baldvinsson í maí 1983.
Hafði Bjarki þá kennt þess sjúkdóms, sem hann laut í lægra haldi fyrir og vildi draga sig út úr þeim rekstri sem hann hafði haft með höndum undanfarna áratugi. Verzlunin hafði vaxið mjög í höndum Bjarka einkum eftir að hann festi kaup á verzlunarhúsi KFS við Aðalgötuna. Um tíma störfuðu Brynhildur og Árni við verzlunina hjá honum.
Bjarki starfaði mjög að félagsmálum og var félagi í Iðnaðarmannafélagi Siglufjarðar, Lionsklúbbi Siglufjarðar o.fl. Hann var í Framsóknarfélagi Siglufjarðar og fyrir flokkinn bæjarfulltrúi 1970—1974, sat í fjölmörgum nefndum á hans vegum um árabil. Sinnti hann störfum sínum þar af einstakri hógværð og sanngirni eins og honum var lagið. Hann sóttist ekki eftir metorðum en lagði sitt af mörkum til mála sem til framfara voru. í mörg ár sá hann um vinnumiðlun og skráningu fyrir Siglufjarðarbæ.
Bjarki hafði fengið tvo eðliskosti í vöggugjöf, sem báðir munu geyma nafn hans langt eftir að þær byggingar, sem hann byggði hafði þjónað sínu hlutverki. Hann var með einstaklega næmt lageyra, eignaðist sína fyrstu harmonikku 14 ára og spilaði fyrir dansi síðan hann kom fyrst til Siglufjarðar óslitið þar til á sl. ári eða samfellt í 40 ár. Síðustu 5—6 sumrin lék hann fyrir dansi með hljómsveit sinni „Miðaldamenn" á Hótel KEA og voru það eftirsóknarverð laugardagskvöld.
Fyrir um 30 árum spilaði ég með honum eftir að Þórður Kristinsson fór til Gautlandsbræðra og er mér í fersku minni ánægja sú og gleði sem ríkti í kring um hann. Á Siglufirði kom þá fyrir að dansað var á þrem stöðum sama kvöldið. Seinna lágu leiðir Þórðar og Bjarka aftur saman. Bjarki var mjög hagmæltur, oft var til hans leitað með litlum sem engum fyrirvara með gamanvísur á skemmtun sem halda átti eftir stuttan tíma, varð þetta að eins konar föstum lið í árshátíðum Siglfirðinga. Þetta leysti Bjarki og Þórður söng vísurnar ógleymanlega, en textinn var þannig að engan meiddi, en af var hin bezta skemmtun.
Frá 1970 hefur Magnús Guðbrandsson verið í hljómsveitinni ásamt Inga Eiríkssyni og Árni sonur hans tók við af Þórði Kristinssyni. Þessi hljómsveit var mjög vinsæl og landsfræg undir nafninu „Miðaldamenn". Það erfiði sem hann lagði á sig í ferðalögum, veit ég að hann fékk endur goldið í ánægjunni við að spila og gleyma þá um stund áhyggjum af amstri hins daglega starfs.
Bjarki var ein driffjöðrin í Karlakórnum Vísi um áratugi, hann hafði mjög góða söngrödd og söng í fyrsta bassa. Um árabil samdi hann texta við lög sem kórinn söng, t.d. voru 9 textar af 18 sem voru á söngskránni 1971 eftir hann. Hug sinn til Siglufjarðarbæjar tjáði hann í ljóðinu „Siglufjörður" sem hann gerði einnig lag við.
Hér við íshaf byggð var borin
bærinn okkar, Siglufjörður,
inn í fjöllin skarpt var
skorinn
skaparans af höndum gjörður.
Til að veita skjól frá skaða
skipunum á norðurslóðum,
sem að báru guma glaða
gull er fundu í hafsins sjóðum.
Hér er skjól og hér er ylur
hart þó ís að ströndum renni,
þó að hamist hörkubylur
hlýju samt hið innra kenni.
Fólkið sem að byggir bæinn
bestu lofgjörð honum syngur
um að bæti öllum haginn eitt,
að vera Siglfirðingur.
Í dag þegar við kveðjum þennan vin okkar leitar á hugann hversu tilviljanakennd okkar tilvera
er. Ef þýzka skipið sem Voga Jón, langafi Bjarka, beið eftir á Húsavík veturinn 1865—'66 hefði komið, en með því ætlaði hann til Vesturheims, hefði rás atburða
orðið önnur og við ekki notið samfylgdar Bjarka.
Siglufjörður hefði farið á mis við þá menningarstrauma sem hann flutti hingað og auðgaði með okkar bæjarlíf. Um
leið og ég þakka honum óeigingjarnt starf á vegum Framsóknarfélags Siglufjarðar, færum við kona mín, Margréti og fjölskyldu ásamt öðrum ættingjum okkar innilegustu
samúðarkveðjur, í vissu um að minningin um Bjarka megi lýsa upp sorg þeirra og góður Guð styrkja þau.
Sverrir Sveinsson