Bjarni Ólafsson (Lindargötu 1 (?) "Bjarnaskúr"))

Í dag verður vinur okkar og félagi, Bjarni Ólafsson, jarðsettur frá Keflavíkurkirkju. Hann fæddist á Siglufirði 18. október 1932.

Foreldrar hans voru hjónin Guðmunda Jóhannsdóttir og  Ólafur Bjarnason, sem bæði eru látin.

Þau voru fjögur alsystkinin, 

Margrét Ólafsdóttir, 

Jóhann Ólafsson, 

Elísabet Ólafsson og 

Bjarni. Ennfremur ein hálfsystir, Fanney Jónsdóttir.

Bjarni var æskuár sín á Siglufirði og þegar hann óx upp vann hann algenga vinnu sem til féll. 

Bjarni Ólafsson - Ljósm: Kristfinnur

Bjarni Ólafsson - Ljósm: Kristfinnur

Um tvítugsaldurinn kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni Erla Olsen frá Hafnarfirði. Þau giftu sig 11. júlí 1953.

Hjónabandið var farsælt og eignuðust þau saman fjögur börn,

Fanney Bjarnadóttir, maki Gunnólfur Árnason, þau búa í Njarðvík. 

Aðalheiður Bjarnadóttir, maki Leifur Kristjánsson, þau búa í Kópavogi. 

Olga Sædís Bjarnadóttir, maki Árni Heiðar Árnason, þau búa í Keflavík. 

Ennfremur átti Erla dóttir fyrir hjónaband,

Laufey Dagmar Jónsdóttir, maki Kristinn Arnberg Sigurðsson, þau búa í Grindavík. 

Barnabörnin eru orðin 17.

Þau byrjuðu búskap í Hafnarfirði en fluttu síðan til Vestmannaeyja og bjuggu þar fram að gosi.

Í Eyjum vann hann fyrst í frystihúsi.

Fljótlega hóf hann að starfa við fyrirtæki Ársæls Sveinssonar, í slippnum sem slippstjóri og síðan sem kokkur á ms. Ísleifur VE 63. Þau urðu að flýja Eyjar þegar gosið hófst, fluttu þau þá í Kópavog og síðan til Keflavíkur þar sem þau hafa búið síðan.

Bjarni réðst til Íslenskra aðalverktaka og starfaði sem verkstjóri. Í því starfi var hann mjög vel liðinn jafnt af undir- og yfirmönnum sínum. Þar starfaði hann þar til heilsan bilaði Þau hjónin, Bjarni og Erla, voru í Félagi Vestmannaeyinga á Suðurnesjum og hann í stjórn þess mörg undanfarin ár. Hann var góður starfsmaður, áhugasamur og áræðinn ef því var að skipta. Hann var glaðvær og hafði góða kímnigáfu. Það var því jafnan glaðværð á fundum og í öðru starfi þar sem hann var.

Í félagsstarfi skiptast oft á skin og skúrir. Stundum getur jafnvel komið til álita hvort áfram skuli halda. Þegar svo bar við hjá okkur var aldrei uppgjafartónn hjá Bjarna. Eftir að heilsan brást tók hann eftir sem áður þátt í stjórnarstörfum félagsins og undirbúningi undir árshátíðirnar. Fyrir síðustu árshátíð var hann við símann, veitti upplýsingar og tók á móti aðgöngumiðapöntunum. Á skemmtunina mætti hann í hjólastól ásamt stórum hópi vina og vandamanna og virtist hann njóta sín betur en nokkru sinni áður.

Nú er hann horfinn. Það er því skarð fyrir skildi. Við söknum góðs vinar og félaga.

Kæra Erla, við sendum þér og fjölskyldum ykkar, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Stjórn Félags Vestmannaeyinga á Suðurnesjum.