Björn Marinó Dúason

Björn Dúason fæddist á Ólafsfirði 20. júlí 1916. Hann lést á dvalarheimilinu Hornbrekku í Ólafsfirði 14. desember 2009 

Foreldrar hans voru  Dúi Kristinn Stefánsson organisti og verkstjóri, f. 19.8. 1890, d. 9.7. 1931, og Steinunn Björnsdóttir Schram fátækrafulltrúi, f. 25.8. 1888, d. 11.10. 1974. Foreldrar Björns fluttust til Siglufjarðar þegar hann var á öðru ári og þar ólst hann upp.

Björn var þríkvæntur.
Fysrta kona hans var Ólöf Margrét Bjarnadóttir, f. 17.9. 1918, d. 12.10. 1977.
Foreldrar hennar voru Bjarni Pálmason, skipstjóri, og Salóme Jónsdóttir. 

Dætur Björns og Ólafar Margrétar eru: 

  • Steinunn Dúa Björnsdóttir , f. 14.4. 1938, d. 18.9. 1996, 
  • Salóme Herdís Björnsdóttir, f. 15.6. 1939, og 
  • Gunnhildur Birna Björnsdóttir, f. 12.7. 1940.
  • Ólöf Margrét átti einnig dótturina Edda Bragadóttir, f. 21.3. 1943.
Björn Dúason - Ljósmynd; Kristfinnur

Björn Dúason - Ljósmynd; Kristfinnur

2. kona hans var Olga Þórarinsdóttir, f. 11.1. 1924, d. 30.7. 1967.
Foreldrar hennar voru Þórarinn Kristjánsson símritari og Kristín Sigtryggsdóttir húsfreyja. 

Björn og Olga voru barnlaus en ólu upp Ólafía Margrét, f. 10.1. 1956, dóttur Steinunnar

  • Dúa Björnsdóttir.

3. kona hans var Kristín Sigurðardóttir, f. 9.5. 1922, d. 21.10. 2001.
Foreldrar Kristínar voru Sigurður Jónsson verslunarmaður, f. 16.11. 1891, d. 23.7. 1963, og Sigríður Vilhjálmsdóttir húsfreyja, f. 19.11. 1891, d. 11.11. 1965.

Börn Björns og Kristínar eru

  • Helga Björnsdóttir, f. 4.11. 1948, og 
  • Sigurður Björnsson, f. 20.1. 1950.
  • Kristín átti einnig dótturina 
  • Sigríður Vilhjálmsdóttir, f. 9.9. 1943.

Björn stundaði á unglingsárum nám í kvöldskóla Siglufjarðar en fór síðan til náms við Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan prófum 1936. Hann vann við skrifstofustörf hjá Síldarútvegsnefnd og hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði 1936–1937, var kaupfélagsstjóri hjá Samvinnufélagi Fljótamanna í Haganesvík 1937–1941, deildarstjóri hjá Kaupfélagi Siglfirðinga 1942–1944.

Á árunum 1945–1954 var hann skrifstofustjóri og framkvæmdastjóri hjá Friðrik Guðjónssyni útgerðarmanni og Hraðfrystihúsinu Hrímni hf. á Siglufirði og rak einnig um árabil umboðs- og heildverslun á Siglufirði. 1955–1958 var hann skrifstofustjóri hjá Hraðfrystihúsi Keflavíkur hf., sveitarstjóri Miðneshrepps í Sandgerði var hann 1958–1962, við skrifstofustörf í Keflavík og Reykjavík 1963–1967 og við bókhald hjá Hraðfrystihúsi Ólafsfjarðar hf. 1968–1989.

Björn var alla tíð mikill félagsmálamaður, söng með karlakórnum Vísi á Siglufirði og starfaði með Leikfélagi Siglufjarðar sem leikari og leikstjóri. Síðar starfaði hann með Leikfélagi Ólafsfjarðar, taflfélagi Ólafsfjarðar og var einn af stofnendum félags eldri borgara í Ólafsfirði. Meðhjálpari var Björn í Ólafsfjarðarkirkju í 24 ár.

Björn gaf út bókina Síldarævintýrið á Siglufirði sem hefur að geyma minningar hans og samantekt frásagna frá fjórða, fimmta og sjötta áratug síðustu aldar þegar Siglufjörður var mesta síldarverstöð landsins.

Björn gaf einnig út bækurnar Heims um ból um jólasálminn alkunna og Hagyrðingur af Höfðaströnd. Björn skrifaði blaðagreinar og flutti fjölda útvarpserinda um áhugamál sín sem tengdust þjóðlegum fróðleik.
-------------------------------------------------

Dagur 3.11.1988
Björn Dúason 

Síldarævintýrið á Siglufirði - spjallað við Björn Dúason um nýútkomna bók hans.

Út er komin bókin „Síldarævintýrið á Siglufirði" eftir Björn Dúason, sem hann sjálfur hefur gefið út. Þetta er fyrsta bók höfundar og jafnframt sú síðasta að hans sögn, „þetta er eins erfitt og að eiga barn," sagði hann. I bókinni er brugðið upp myndum frá þeim árum í sögu Siglufjarðar þegar bæjarlífið snerist allt um síldina og greint frá mönnum sem settu svip á bæinn á þeim tíma. Þá eru og þættir úr atvinnu- og menningarsögu bæjarins.

Á kápu bókarinnar er sagt, að verið sé að reyna að bæta við köflum í sögu síldarævintýrisins á Siglufirði. „Þetta eru minningar og samantekt manns sem allt frá barnsárum lifði þennan umbrotatíma og kynntist af eigin raun síldveiðum og síldarvinnslu . . .

Uppistaða í síðari hlutanum eru kvæði og bragir, sem höfundur byrjaði snemma að safna. Margir þeirra munu nú í fárra eigu og hafa hvergi birst." Björn Dúason er fæddur í Ólafsfirði en fluttist með foreldrum sínum til Siglufjarðar árið 1917, þá á öðru ári og ólst þar upp. Hann starfar nú sem skrifstofumaður í Ólafsfirði.

Tvisvar landnám á Siglufirði? „Ég er einkabarn og það skemmdi ekki fyrir því það var aldrei gerður greinarmunur á nóttu eða degi þegar síldin var. Maður gat alltaf verið úti á kvöldin þegar maður vildi og fylgst með, en ég byrjaði snemma að eltast við síldina með  móður minni," sagði Björn þegar hann leit inn á ritstjórn Dags nýlega. „Það má segja að tvisvar hafi verið gert landnám á Siglufirði, í bæði skiptin af Norðmönnum.

Fyrst kom Þormóður rammi hinn forni og nam Siglufjörð og síðan komu hvalfangararnir. Þeir komu auga á þetta ágæta hafnarstæði og þeir sögðu frá því þegar heim kom, að sjórinn væri þar svartur af síld. Peningamenn í Noregi fóru upp frá því að senda til Siglufjarðar sína menn. í fyrstu söltuðu þeir á flotpöllum utan við bæinn og fengu stúlkur úr landi til vinnu. Það dugði ekki lengi svo þeir fóru að byggja bryggjur. Þá fór fólk alls staðar af landinu að flykkjast til Siglufjarðar og bærinn verður merkilegur bær.

Þangað kom fyrsti sóknarpresturinn 1888 sr. Bjarni Þorsteinsson sem var einstakur maður og það var mikið lán að fá hann til bæjarins. Nú, fyrst eftir að Norðmenn komu til Siglufjarðar, varð að fá mann til að fara með símskeyti til Ólafsfjarðar því enginn var síminn. Þá voru engin salerni og ekkert vatn eða rafmagn." Kvennafar og lauslæti - Hvað kom til að þú fórst út í ritun bókarinnar? „Það sem fyrst og fremst hvatti mig til þess var að ég átti svo mikið safn af vísum og gömlum kvæðum um Siglufjörð sem ég hafði safnað saman.

Þetta eru í mörgum tilfellum gamanvísur sem samdar voru á þessum tíma og sungnar á mannamótum. Auk þess þykir mér sérstaklega vænt Ég byrjaði snemma að eltast við síldina, segir Björn Dúason, um Siglufjörð og lít ávallt á mig sem Siglfirðing. Það liggur því ekki svo mikil vinna á bak við bókina og ég styðst líka við aðrar bækur sem ritaðar hafa verið um sögu Siglufjarðar, eins og tekið er fram í inngangi bókarinnar." Aðspurður um hvort hann ætlaði ekki að halda áfram skrifum, sagðist hann ekki reikna með því.

„Ég varð stundum að hætta og hvíla mig á þessu þegar ég var að gramsa í skúffum og taka þetta saman. Meinið er, að það er svo gróft það sem eftir er, að það er ekki hægt að láta það frá sér. Kvennafarið og lauslætið var svo mikið, eins og segir reyndar aðeins frá í bókinni.
Ég hefði t.d. ekki látið þetta ritverk frá mér, ef mér hefði ekki verið sagt að þetta væri þess virði. Sannleikurinn var nefnilega sá, að hver Íslendingur sem kominn var til ára sinna, tók þátt í síldarævintýrinu á einn eða annan máta. Þessi tími er ákaflega merkilegur.

Málið kom t.d. inn á Alþingi þegar reka átti alla Norðmenn frá Siglufirði." í bókinni er mikið af kvæðum þeim sem Björn hefur safnað. Sem dæmi, þá átti eitt sinn að byggja þar hafnarbryggju og um það voru ortir heilu bragirnir. Þá er í bókinni safn gamalla ljósmynda frá þessum tímum. Við birtum hér kafla úr bókinni þar sem segir frá norskum verkunarstúlkum sem komu til Siglufjarðar á hverju sumri. „ Var þetta fastbundinn félagsskapur, sem fylgdi síldinni eftir vertíðum, þrautæfður í sínu starfi.

Var hópur þessi nefndur „Flökkumeyjarnar". Hvorki voru þær fælnar né óframfærnar til orðs né æðis, enda frjálsar og óháðar. Aldrei varð þeim svarafátt og guldu andsvar við ávarpi. Mátti með sanni segja, að-þær væru prýðilega að sér til munnsins, eigi síður en í verklegri þjónustu og greiðvikni. Hvergi voru þær skráðar til heimilis, greiddu hvergi neina skatta né opinber gjöld.

Þar sem síldveiðin var - þar voru þær. . ." „. . . Samtíða norsku blómarósunum hér var ein íslensk og gaf hún frændsystrum sínum í engu eftir, hvorki til orðs né athafna. Hafði hún lengi verið í Noregi og starfað á norskum skipum. Sagðist henni sjálfri svo frá, að hún hefði eitt sinn verið háttsett skipsjómfrú á dýrlegustu strandferðaskipum Noregs, umgengist þar aðalsfólk og meira að segja verið við framreiðslu þar sem hans hátign Noregskonungur hefði setið til borðs.

Hefði hún þjónað fyrir háborðinu. En svo kom það slys fyrir eitt þetta dýrlega farþegaskip, að það strandaði úti fyrir Lister. Hefði hún bjargast ásamt tuttugu og tveim skipsmönnum upp á ofurlítinn hólma, fáklædd mjög. Kvað hún sig hafa misst öll „undirseglin", en sveipað sig í þeirra stað norska fánanum, að svo miklu leyti sem það kom að notum. Var hún síðan kölluð „Norska flaggið".

Ekki verður getið um nafn hennar né hvaðan hún var ættuð. Henni var vel liðugt um málbeinið og lét engan hjá sér eiga í orðaskaki." Þá grípum við niður í kafla sem segir, að bærinn hafi fengið á sig óorð, rógburð og álygar. „Þarna í bæ áttu manndráp að vera daglegir viðburðir. Sögumennina munaði ekkert um þótt þeir dræpu tvo og upp í þrjá á sérstökum tyllidögum. Allan sólarhringinn linnti aldrei blóðugum ölæðisbardögum.

En - verst varð þó kvenþjóðin úti. Siglfirskar konur og aðkomustúlkur, sem stunduðu síldarsöltun, voru hispurslaust stimplaðar hórur, eða vægast skækjur. Þær er til Siglufjarðar sóttu í atvinnuleit voru að almannarómi óumflýjanlega barnshafandi eftir vertíðina og löðrandi í kynsjúkdómum.!

VG