Bragi Valgarður Erlendsson verkfræðingur

Bragi Erlendsson fæddist á Siglufirði 20. Júlí 1930. Hann lést að morgni 24. desember 1996.

Foreldrar hans voru  Valgerður Hallsdóttir, f. 4. september 1904, d. 6. febrúar 1982, og Erlendur Þorsteinsson, f. 12. júní 1906, d. 10. júlí 1981. 

Bróðir Braga er 

Birgir Erlendsson skipstjóri, f. 12. febrúar 1928.

(Þau áttu heima við Hvanneyrarbraut 30)

Bragi kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Árnína Guðlaugsdóttir, 7. febrúar 1953. 

Börn þeirra eru

  • Sigríður Valgerður Bragadóttir,
  • Birgir Þór Bragason,
  • Jón Árni Bragason,
  • Bragi Þorsteinn Bragason,
  • Ásta Hólmfríður Bragadóttir og
  • Helga Björg Bragsdóttir.
Bragi Erlendsson

Bragi Erlendsson

Bragi varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1949. Hann lauk fyrrihluta prófi í verkfræði frá Háskóla Íslands 1952 og M.Sc. prófi í raforkuverkfræði frá Danmarks Tekniske Höjskole 1955. Hann hóf fyrst störf hjá Elding Trading Co. í Reykjavík 1955.

Síðan starfaði hann hjá Íslenskum aðalverktökum sf. 1955­56, aðallega við gerð tilboða, undirbúning og eftirlit með framkvæmdum.

Árið 1956 stofnaði hann, ásamt öðrum skólafélögum, ráðgefandi verkfræðistofu, Traust hf., og starfaði þar til 1960, einkum við hönnun raflagna í byggingar. Bragi hóf síðan aftur störf hjá Íslenskum aðalverktökum sf. 1960 og var þar deildarverkfræðingur frá 1963 til 1968. Árið 1968 réðst hann til Íslenska álfélagsins hf. í Straumsvík.

Eftir námsdvöl á þeirra vegum í Sviss starfaði hann sem rekstrarstjóri viðhaldsdeildar frá 1968 til 1984. Forstöðumaður söluframleiðslu steypuskála og flutningadeildar var hann 1984 til 1988, og forstöðumaður aðfanga- og flutningadeildar 1988 til 1994 og sá þá um innkaup, birgðahald, tölvumál og flutninga innan- og utanlands.

Bragi var nýkominn á eftirlaun, þegar stækkun álversins var ákveðin, og vegna ómetanlegrar reynslu, var hann beðinn að koma aftur, tímabundið, til að sjá um ákveðna þætti við stækkun álversins, aðallega útboð og samninga um innkaup og verkþætti. Starfi þessu sinnti hann til dauðadags.

Bragi var einn af stofnendum Rotaryklúbbsins í Görðum, og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Ennfremur tók hann mikinn þátt í störfum Bridgefélags Reykjavíkur og var formaður þess félags 1972 til 1974