Björn Þórðarson skipstjóri

Björn Þórðarson fæddist á Hraunum í Fljótum 19. sept. 1913. Hann andaðist á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 5. janúar 2006. 

Foreldrar hans voru Þórunn Ólafsdóttir, f. í Reykjavík 14. apríl 1884, d. 18. nóvember 1972, og Þórður Guðni Jóhannesson, f. á Sævarlandi í Skefilstaðahreppi í Skagafirði 13. júlí 1890, d. 15. mars 1978.

Þórður og Þórunn hófu sambúð á Hraunum, hún var lærður klæðskeri en hann résmíðameistari.Til Siglufjarðar fluttu þau 1915. 

Systkini Björns eru 

1) Davíð Þórðarson, f. 29. september 1915, 

2) Sigríður Ólöf Þórðardóttir, f. 2. janúar 1917, d. 20. apríl 2002, 

Björn Þórðarson

Björn Þórðarson

3) Jóhannes Þórðarson lögregluþjónn, f. 29. september 1919, 

4) Guðbjörg Auður Þórðardóttir, f. 14. júlí 1921, d. 20. nóvember 1928, og 

5) Nanna Þuríður Þórðardóttir, f. 30. apríl 1923, d. 23. nóvember 2005. Auk þessara alsystkina er hálfsystir Björns sammæðra Jóhanna Soffía Pétursdóttir, f. 3. nóvember 1904, d. 13. júní 1970, og hálfsystir hans samfeðra Anna Pálína Þórðardóttir, f. 8. apríl 1935.

Eiginkona Björns var Júlía Jónína Halldórsdóttir, f. á Vermundarstöðum í Ólafsfirði 8. maí 1911, d. á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 25. október 1997. Foreldrar hennar voru hjónin Halldór Jónsson, f. á Þverá í Svarfaðardal 7. mars 1864, d. á Siglufirði 19. mars 1941 og Margrét Friðriksdóttir, f. í Brekkukoti í Svarfaðardal 10. nóvember 1865, d. á Siglufirði 21. apríl 1954.

Þau bjuggu fyrst í Böggvisstaðagerði á Dalvík 1890-1894, síðan á Vermundarstöðum í Ólafsfirði 1898-1916 og á Staðarhóli í Siglufirði 1919-1924, er þau fluttu á Siglufjörð. Júlía var yngst 9 systkina sem öll eru látin.

Börn þeirra Björns og Júlíu eru: 

1) Þórir Björnsson rafvirki, f. 18.6. 1934, maki Jónína Víglundsdóttir, þau eiga sex börn. 

2). Auður Björnsdóttir, f. 16.2. 1936, maki Sverrir Sveinsson, þau eiga fimm börn. 

3) Birgir Björnsson bifvélavirki, f. 17.9. 1937, maki Hrafnhildur Stefánsdóttir, þau eiga fimm börn. 

4) Sverrir Björnsson skipstjóri, f. 4.1. 1939, maki Ragnheiður Rögnvaldsdóttir, þau eiga þrjú börn. 

5) Ægir Björnsson, f. 25. 4. 1940, hann á fjögur börn, sambýliskona nú Christine Johannsson. 

Afkomendur Björns og Júlíu eru orðnir fleiri en eitt hundrað.

--------------------------------------------------------

Niðurlag greinar:

Þórður faðir Þórðar byggði húsið á Hafnargötu 6 á Siglufirði og ólst Björn þar upp hjá foreldrum sínum. Björn gekk í barnaskóla á Siglufirði en fór snemma að vinna eins og algengt var á þeim tíma og nauðsyn var en mikil umsvif voru hafin á Siglufirði á þeim tíma í fiskveiðum og síldarsöltun á sumrin.

Björn kynnist Júlíu Halldórsdóttur sumarið 1932, þegar hún vinnur við beitningu við vélbátinn Magnús sem Ingólfur Árnason átti og gerði út frá Siglufirði. Júlía fór til Reykjavíkur í vist sem kallað var um veturinn en sumarið eftir takast með þeim kynni sem urðu til þess að þau fara að búa á efri hæðinni að Hafnargötu 6, hjá Þórunni móður hans. En þá höfðu þau Þórður slitið samvistum og hann flutt til Sauðárkróks.

Hinn 17.9. 1938 ganga Júlía og Björn í hjónaband, höfðu þau þá eignast þrjú börn, en börnin urðu fimm á sex árum. Trúlega hefur oft verið nokkuð mikið að gera hjá Júlíu, þar sem Björn stundaði sjómennsku á þessum árum og var oftast á vertíðum á vetrum bæði í Vestmannaeyjum, Sandgerði, Reykjavík og víðar og síld á sumrin.

Ég man að Júlía sagði mér að vertíðin 1936 hafi brugðist, þann vetur fæðist Auður og Björn var á vertíð í Vestmannaeyjum, það hefur því ekki alltaf verið úr miklu að spila hjá þeim.

Árið 1946 byggir Björn ofan á hús móður sinnar að Hafnargötu 6, og stóð heimili þeirra þar alla tíð.

Á stríðsárunum 1943-45 siglir Björn á Dagný SI 7 með fisk til Bretlands og má nærri geta hvað Júlía hefur átt erfiða daga og andvökunætur þegar ekkert fréttist af skipinu dögum saman meðan þeir voru í hafi og hún með fimm lítil börn heima.

Björn tók hið minna fiskimannapróf á Siglufirði árið 1943 og þar með skipstjórnarréttindi á sjötíu og fimm rúmlesta bát. Hann var á Eyfirðingi á Hvalfjarðarsíldinni árið 1947 en réðst til Kaupfélags Siglfirðinga sem verkstjóri við síldarsöltun og fiskverkun um páska það ár. Björn tekur próf sem eftirlitsmaður með síldarverkun í ágúst 1955. Hann hættir hjá Kaupfélaginu það ár og fer í samstarf við Jón Hjaltalín um síldarsöltun til ársins 1960. Þá kaupir hann dýpkunarskipið Björninn í félagi við Aage Johansen og er með það þar til í ágúst 1978 að það sekkur inni á Siglufirði.

Björn fór að starfa með Sverri syni sínum við fiskveiðar á Viggó SI 32 og fiskverkun þar til hann lét af störfum.

Björn var farsæll á sínum sjómannsferli, þó komst hann einu sinni í hann krappan út við Grímsey.

Björn var með dýpkunarskipið Bergfors sem Johansen og Snorri Stefánsson áttu og voru við hafnargerð við Grímsey.

Þeir voru að lagfæra vélina og lágu í vari austan við eyna, þegar vindáttin breyttist og skipið rak upp í fjöru. Komust þeir í land á gúmmíbjörgunarbáti og með hjálp þaulkunnugra heimamanna voru þeir leiddir eftir einstigi upp klettana heim á bæi í Grímsey, þar sem tekið var vel á móti þeim. Voru þeir fjórir á bátnum og björguðust allir.

Um morguninn þegar birti og þeir fóru að skoða ástand skipsins, voru þeir félagar sammála að þetta einstigi sem við þeim blasti og þeir fóru upp hefðu þeir aldrei farið í björtu.

Björn og Johansen voru miklir mátar, samhentir og áttu auðvelt með að vinna saman. Unnu þeir nánast við allar hafnir frá Siglufirði austur á Raufarhöfn.

Björn fékk í arf frá móður sinni mikið andlegt þrek, og hugarró. Má segja að ef mikið gekk á þá haggaðist hann ekki, en hann var dulur og flíkaði ekki tilfinningum sínum.

Hinsvegar fékk hann frá föður sínum mikla kímnigáfu og átti létt með að sjá það spaugilega sem fyrir hann bar í dagsins önn. Hann brynjaði sig gjarna með gríni og glensi en í raun var hann mjög viðkvæmur, og mátti ekkert aumt sjá. Ég hygg að margir afkomendur þeirra Júllu og Björns finni hjá sér þessa eiginleika.

Björn hafði gaman af því að spila bridge. Það var siður á Siglufirði að spila sitt á hvað heima hjá hvor öðrum. Man ég að um það leyti sem ég kynnist fjölskyldunni, spiluðu saman hjá Birni Óli Olsen, Eggert Theódórsson og Jóhannes Jósepsson en þeir eru allir látnir.

Björn starfaði í Skipstjórafélagi Siglufjarðar sem var mjög virkt félag um miðja síðustu öld. Einnig var hann félagi í Bridgefélagi Siglufjarðar og var snjall spilari. Lengst af spilaði hann við Steingrím Magnússon og síðar Jóhann Möller, sem báðir eru látnir, veit ég að þeir unnu til fjölmargra verðlauna.

Björn var kosinn heiðursfélagi Bridgefélags Siglufjarðar.

Björn og Júlía tóku mér einstaklega vel og fannst mér þau ætíð líta á mig sem einn af sonum sínum. Þegar við Auður höfðum eignast Björn elsta son okkar tóku þau ekki í mál annað en hafa hann einn vetur hjá sér svo við gætum klárað nám í Reykjavík. Fyrir það er mér ljúft að þakka.

Júlía og Björn voru oft nefnd samtímis eins og tíðkast um samhent hjón. Heimili þeirra stóð öllum opið á Hafnargötu 6, og þau voru bæði vinmörg og vinföst, hjá þeim var oft gestkvæmt, sérstaklega á sumrin er til Siglufjarðar komu ættingjar og vinir.

Björn missti Júlíu 1997, þá fannst mér hann missa alla lífslöngun, hann var þá búinn að ganga í gegnum mjög erfiða "stóma aðgerð" og mér fannst á honum að til lítils væri að lifa lengur.

Vissulega var hann búinn að skila sínu lífsstarfi afkomendum og þjóðinni til heilla, en trú okkar segir að enginn ræður sínum tíma og við það verður hver og einn að sætta sig.

Hann dvaldi sín síðustu ár á Sjúkrahúsi Siglufjarðar og áður á öldrunardeild Sjúkrahússins, þar sem ég veit að hann naut frábærrar þjónustu og þakka ég starfs- og hjúkrunarfólki og læknum frábæra umönnun, hlýlegt og elskulegt viðmót og meðferð.

Ég kveð nú tengdaföður minn sem er einn af þessum mönnum, sem þessi kynslóð sem nú lifir á hvað mest að þakka fyrir þær stórkostlegu breytingar sem urðu á síðustu öld, til sjávar og sveita.

Við stöndum í þakkarskuld við þá sem færðu okkur á þann stað sem við stöndum í dag.

Ég vil að leiðarlokum, kæri tengdafaðir, þakka þér fyrir öll okkar samskipti sem aldrei bar skugga á og vona að þú finnir þann frið sem þú þráðir og bið þér guðsblessunar.

Ljúfi faðir, leiðir skilja,
lífið tekur hverja gjöf.
Heilög minning veginn vísar,
veginn yfir dauða og gröf.

Blessuð sé minning þín.

Sverrir Sveinsson.