Bryndís Jónsdóttir (Binna)

Bryndís Jónsdóttir fæddist á Siglufirði 1. febrúar 1914. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 30. janúar 2008 - 

Foreldrar hennar voru Guðlaug Gísladóttir húsfreyja, f. 20.2. 1880, d. 14. 6. 1966 og Jón Jóhannesson fræðimaður og málafærslumaður, f. 2.7. 1878, d. 16.10. 1953. 

Systkini Bryndísar, öll fædd á Siglufirði, eru: 

 • Helga Jónsdóttir, bjó í Vestmannaeyjum, f. 18.7. 1902,
 • Dóróthea Sigurlaug Jónsdóttir, bjó á Siglufirði, f. 6.5. 1904, d. 24.3. 2001, 
 • Klara Valdís Jónsdóttir, bjó síðast á Akranesi, f. 14.6. 1906, d. 12.6. 1969,
 • Jóhannes Guðmundur eldri, f. 1908, d. 1914,
 • Anna, bjó lengst af í Vestmannaeyjum, f. 1.12. 1909, d. 2.8. 1983, 
 • Ófeigur Trausti, f. 7.3. 1912, d. 8.1. 1938, 
 • Jóhannes Guðmundur yngri, bjó síðast í Reykjavík, f. 20.7. 1916, d. 14.12. 2004,
 • Ingibjörg, bjó á Siglufirði, f. 22.11. 1918, d. 20.10. 1973 og Finnbogi, f. 29.3. 1928, d. 1930.
 • Einkasonur Bryndísar og Guðbjörns Helgasonar, kjötiðnaðarmanns í Reykjavík, f. 26.8. 1909, d. 4.1. 1977 er 
Bryndís Jónsdóttir (Binna)

Bryndís Jónsdóttir (Binna)

Gunnar Trausti Guðbjörnsson, prentari og skiltagerðarmaður í Garðabæ. Gunnar kvæntist á Siglufirði Halldóra Jónasdóttir, áfengisráðgjafa hjá SÁÁ, f. 2.5. 1955.

Dætur Gunnars og Dóru eru tvær: 

 1. Edda Rósa Gunnarsdóttir, f. 24. 10. 1972 gift David Jarron og eiga þau: Adam Jarron og Andra Jarron. 
 2. Bettý, maki  Óðinn Gústafsson og eiga þau Arna Mjöll Óðinsdóttir, Freyja Óðinsdóttir og Embla Óðinsdóttir.

Eftir barnaskólanám á Siglufirði hóf Bryndís þátttöku í hinu iðandi atvinnulífi Siglufjarðar við silfur hafsins. Hún fór einnig á vertíðir til Grindavíkur og Vestmannaeyja og inn á milli gætti hún barna. Þegar síldin hvarf vann hún við saltfiskverkun og í frystihúsum bæjarins, auk þess að gera hreinar samtímis þrjár fjölmennar skrifstofur.

Bryndís var létt í lund og létt á fæti, hvers manns hugljúfi og barnagæla hin mesta. Hún hlaut í vöggugjöf ágæta teikni- og leikhæfileika sem ekki síst börn og vinkonur fengu að njóta í ríkum mæli. Bryndís starfaði lengi með Kvenfélaginu Von á Siglufirði og á 75 ára afmæli þess var hún kjörinn heiðursfélagi.
------------------------------------------------------------------------------------------------- 

Bryndís Jónsdóttir 

(1. febrúar 1914 – 30. janúar 2008) 

Útför gerð frá Siglufjarðarkirkju 9. febrúar 2008. 

Kæru aðstandendur og vinir.

Það er ekki á hverjum degi að ég gleymi mér við lestur minningargreina, hvað þá að ég stend mig að því að skella upp úr hvað eftir annað.

En þetta gerðist samt í gærkvöldi, þegar ég var að skoða kveðjur allra þeirra fjölmörgu sem kynnst höfðu henni Bryndísi Jónsdóttur og voru að

rifja það upp sem á dagana hafði drifið forðum og síðar.

Ég hafði fengið þetta sent í tölvupósti á pdf formati frá Morgunblaðinu fyrr um kvöldið, áður en blaðið fór í prentun, og vildi renna yfir þetta, til að fá gleggri mynd af þessari konu, sem við erum komin hingað í Siglufjarðarkirkju til að kveðja um sinn.

Og það verð ég að segja, að augu mín voru sem límd við þessi skrif, sem öll voru og eru hreint yndisleg, undantekningarlaust, spennandi og ákaflega fagur vitnisburður um þennan bjarta og mjög svo hlýja geisla, sem hún Binna greinilega var. Um það ber öllum saman, ekki bara þessu fólki sem ég nefndi, ástvinum hennar, heldur öllum öðrum sem ég hef rætt við að undanförnu.

Mikið lifandi skelfingar ósköp hefur hún verið vel af Guði gerð. Ósjálfrátt kemur upp í hugann spakmæli, sem ég rakst á fyrir ekki svo löngu. Þar sagði eitthvað á þessa leið: Þegar þú komst í þennan heim þá varst þú grátandi, en allir í kringum þig brosandi, af gleði. Hagaðu lífi þínu þannig, að þegar þú hverfur á braut sért þú brosandi, ánægður með gjörðir þínar og alla breytni, en allir í kringum þig grátandi, af söknuði.

Hafi þetta einhvern tíma átt við, er það núna. Þetta er líka ástæðan fyrir því, að ég kaus að lesa sem fyrri ritningarlestur úr 31. kafla Orðskviða Salómons, sem í nýju Biblíunni okkar ber yfirskriftina Lof um dugmikla konu, og sem síðari ritningarlestur úr Óðinum til kærleikans, í 13. kafla Fyrra Korintubréfs. Af því að þetta tvennt fannst mér lýsa henni best.

Hún er miklu dýrmætari en perlur…
Hún sér um ull og hör
og vinnur fúslega með höndum sínum.
Hún er eins og kaupförin,
sækir björgina langt að.

Hún fer á fætur fyrir dögun,
skammtar heimilisfólki sínu…
Hún gyrðir lendar sínar krafti
og tekur sterklega til armleggjunum...
á lampa hennar slokknar ekki um nætur. 

Hún réttir út hendurnar eftir rokknum
og fingur hennar grípa snælduna.
Hún er örlát við bágstadda
og réttir fram hendurnar móti snauðum.
Ekki óttast hún um heimilisfólk sitt þótt snjói 

því að allt heimilisfólk hennar er klætt skarlati.
Hún býr sér til ábreiður,
klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura…
Kraftur og tign er klæðnaður hennar
og hún fagnar komandi degi. 

Mál hennar er þrungið speki
og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar.
Hún vakir yfir því sem fram fer á heimili hennar
og etur ekki letinnar brauð…
Hún njóti ávaxta handa sinna
og verk hennar skulu vegsama hana í borgarhliðunum. 

Það er engu líkara, en að þetta hafi verið skrifað um hana Binnu. En hver var hún, þessi snaggaralega, lágvaxna, brosmilda kona, með stóru sálina og stóra hjartað? Jú, hún var fædd hér á Siglufirði 1. febrúar árið 1914.

Foreldrar Binnu voru Guðlaug Gísladóttir húsfreyja og Jón Jóhannesson fræðimaður og málafærslumaður, og var Binna sjöunda í röð 10 systkina.

Elst var

 • Helga Jónsdóttir, fædd árið 1902, þá
 • Dóróthea Sigurlaug Jónsdóttir, fædd árið 1904, því næst
 • Klara Valdís Jónsdóttir, fædd árið 1906, síðan
 • Jóhannes Guðmundur Jónsson eldri, fæddur árið 1908, svo kemur
 • Anna Jónsdóttir, fædd árið 1909, sjötti er 
 • Ófeigur Trausti Jónsson, fæddur árið 1912, áttundi
 • Jóhannes Guðmundur Jónsson yngri, fæddur árið 1916, níunda
 • Ingibjörg Jónsdóttir, fædd árið 1918, og tíundi og yngstur
 • Finnbogi Jónsson, fæddur árið 1928.

Er Binna síðust barna þeirra Guðlaugar og Jóns til að kveðja þetta jarðlíf. 

Hún var skírð þriggja vikna gömul, 22. febrúar 1914, á heimili foreldra sinna, að Suðurgötu 26, og vor guðfeðgin hennar eða skírnarvottar Theódór Pálsson í Höfn, Jón Gíslason, bróðir Guðlaugar, og svo móðirin.

Og fjórtán árum síðar, eða nánar tiltekið 3. júní árið 1928, kraup hún við gráturnar í gömlu kirkjunni á Eyrinni ásamt með 14 stúlkum og 15 piltum, og gaf þar fermingarheit sitt.
Prestur í báðum tilvika var sr. Bjarni Þorsteinsson. 

Eftir barnaskólanám hóf Binna þátttöku í hinu iðandi atvinnulífi Siglufjarðar við silfur hafsins. Hún fór einnig á vertíðir til Grindavíkur og Vestmannaeyja og inn á milli gætti hún barna. Þegar síldin hvarf vann hún við saltfiskverkun og í frystihúsum bæjarins, auk þess að gera hreinar samtímis þrjár fjölmennar skrifstofur - hjá Rafveitunni, Sparisjóðnum og Síldarútvegsnefnd. Og gerði það svo vel að eftir var tekið og um rætt. Eins og raunar allt sem hún tók sér fyrir hendur.

Alla ævi bjó hún í þessum fæðingarbæ sínum, ef frá eru talin nokkur ár sem hún bjó syðra. Binna var létt í lund og létt á fæti, hvers manns hugljúfi og barnagæla hin mesta. Hún hlaut í vöggugjöf ágæta teikni- og leikhæfileika sem ekki síst börn og vinkonur fengu að njóta í ríkum mæli.
Hún starfaði í áraraðir með Kvenfélaginu Von hér á Siglufirði og á 75 ára afmæli þess var hún kjörinn heiðursfélagi.

Og það sagði mér ein kona úr þeirra röðum í gær, að iðulega hafi Binna komið þangað færandi hendi, og þegar henni var bent á í fullri vinsemd að þetta væri nú kannski helst til oft og of rausnarlegt, svaraði hún víst að bragði, að þetta væri sitt félag og að því vildi hún hlúa eins og hún gæti. Hún var því virkur og góður félagi, alltaf tilbúin að liðsinna, hvort sem var á fundum eða í orlofsferðum, þar sem hún oftar en ekki var fengin til að bregða sér í eitthvert leikaragervið, við góðan orðstír. 

Einhverju sinni þegar hana vantaði spákúlu, til að gera þetta nú sem best úr garði allt, var ekkert verið að vandræðast í einhverju reiðileysi, ekkert verið að tvínóna við hlutina, heldur ljósakúpull skrúfaður úr loftinu og málið þannig leyst á svipstundu.

Einkasonur Binnu og Guðbjörns Helgasonar, kjötiðnaðarmanns í Reykjavík, sem fæddur var árið 1909, en dáinn árið 1977, er Gunnar Trausti Guðbjörnsson, prentari og skiltagerðarmaður í Garðabæ, fæddur árið 1953.

Eiginkona hans er Halldóra Jónasdóttir, áfengisráðgjafi hjá SÁÁ, fædd árið 1955.

Dætur Gunnars og Dóru eru

 • Edda Rósa Gunnarsdóttir og 
 • Betty Gunnarsdóttir.
 • Edda Rósa er fædd árið 1972 og maki hennar er
 • David Jarron og eiga þau synina  Adam Andra, 

Betty er gift Óðinn Gústafsson  og eiga þau dæturnar 

 • Örnu Mjöll, 
 • Freyju og 
 • Emblu. 

En þá aftur að minningargreinunum sem ég nefndi hér í upphafi, og sem heilluðu mig upp úr skónum. Allt sem ég hefði viljað segja í viðbót um hana Binnu er þar skráð, bara miklu betur en ég gæti nokkurn tíma gert, af því að þar halda um pennana einstaklingar sem þekktu hana Binnu persónulega.

Mig langar því að fá að lesa fyrir ykkur glefsur úr nokkrum þeirra, sem allar eiga það sameiginlegt að bregða ljósi á þá eiginleika sem prýddu hana mest.
Og satt best að segja held ég að það sé ekki hægt að fá betri eftirmæli en þarna kemur fram.

Fyrst er hér brot úr grein sem Hanna Birna Jóhannesdóttir skrifaði, og þar segir:

Yndislega Binna frænka mín var pínulítil kona í kápu með hatt og veski. Svolítið eins og Mary Poppins, bara aldrei ströng og allt var leyfilegt.

Allir Siglfirðingar þekktu hana og dáðu. Hún fór ekki í manngreinarálit. Hún var í fullri vinnu við að hlúa að Siglfirðingum og mátti ekkert aumt sjá. Það gustaði af henni frænku minni þegar hún labbaði um Siglufjörð hnarreist með hatt og veski og gaukaði að öllum sem á vegi hennar urðu einhverju og ávallt var það akkúrat það sem viðkomandi vanhagaði um.

Hún frænka mín var dýrkuð og dáð þar sem hún fór og allir þekktu Binnu Jóns.

Hún átti fullt af vinum og enga óvini. Hún var alltaf raulandi í góðu skapi, alltaf brosandi og alltaf gefandi. Hennar hús stóð mér ávallt opið.

Ég þurfti ekki að boða komu mína. Þegar ég birtist tók hún mér eins og um konunglega heimsókn væri að ræða. Mér fannst ég svo mikils metin þegar frænka var annars vegar. Veitingar voru bornar á borð og við settumst og við ræddum málin yfir vínarbrauði og kakói. Mikið var gott að fá að tala og Binna hlustaði og sagði sögur sem oft á tíðum voru hreint ótrúlegar. Veit ekki hvort þær voru allar sannar en Binnu tókst að setja þvílíkan ævintýraljóma á þær allar að ef einhver drungi eða leiði var í mér við komu þá afmáðist hann um leið og frænka fór á söguflug. 

Og næst í röðinni eru nokkur orð sem Erla Nanna Jóhannesdóttir skrifaði, þar sem segir:

Binna frænka, sem alltaf sveiflaði töfrasprotanum ósýnilega og gerði lífið að tómu ævintýri, hefur nú yfirgefið þennan heim, smávaxin og nett kona, létt á fæti, alltaf á ferð og flugi og hafði fengið í vöggugjöf þessa léttu lund og jákvæða viðhorf til lífsins og tilverunnar. Hún hafði næmt fegurðarskyn, var listræn í sér, flosaði stórar myndir á yngri árum og málaði á silki…

Binna var nokkurs konar álfkona í lífi okkar, hrókur alls fagnaðar í barnaafmælum þar sem hún skipulagði leiki og skemmtan sem aldrei gleymist. Tók okkur oft með sér í berjamó, fjöruferðir að tína skeljar svo sem kúskel, eins og hún sagði, og kuðunga.

Á veturna var leiksvæðið oft í námunda við húsið á bökkunum og oft mættum við snjóugar upp fyrir haus með ísklepraða vettlinga eins og ekkert væri sjálfsagðara en vaða þannig inn.

Móttökurnar alltaf jafn hlýlegar, fötin á ofn og vermdar kaldar hendur og síðan kakó með kexbitum út í og ekki má gleyma flókaskónum hennar Binnu sem okkur var stungið í á meðan. Á eftir var ekki óalgengt að hún spilaði við okkur á spil eða spáði í bolla, leyndardómsfull á svip og það voru ekki fáir pakkarnir eða ferðalögin sem birtust í bollunum, dýrlegt innlegg í tilveruna í innilokuðum firðinum þá, og rættist bara nokkuð oft svo við höfðum tröllatrú á spádómsgáfu Binnu.

Þriðja innleggið á hún Hrafnhildur Jóhannesdóttir, sem segir m.a. þetta:

Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til Binnu - líkast ævintýri. Hún kom brosandi til dyra og fagnaði komu okkar. Hláturinn hennar var líkastur bjölluhljómi og hún var umlukin geislandi orkusveip. Hún alltaf svo kvik og glöð. Húsið var fullt af ævintýrum, vínarbrauðum og hennar fallegu umhyggju.

Og svo koma nokkur orð frá Gunnar Trausta, sem eins og hin minningaleiftrin segja svo margt. Og þau eru svona: 

Henni fannst mest gaman að gefa. Úr einni togarasiglingunni kom sonurinn með mun meiri ávexti og sælgæti en hann var vanur og þá var veisla hjá Binnu Jóns. Þegar ég var að rakna úr bjórrotinu þá sá ég að hún var búin að skipta jarðaberjadósum og cocktail-ávöxtum í nokkra poka sem stóðu á eldhúsborðinu og sjá mátti Binnu þjóta um hverfið til vinkvenna sinna. 

Eitt sinn gaf hún af mér skyrtu sem ég hafði keypt dýrum dómum í Grimsby og var alveg rasandi þegar hún fannst ekki. Hana grunaði nú líklega ekki að ég myndi nokkurn tíma nota þetta!

Og Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir segir m.a., þar sem hún er að tala beint til „ömmu Binnu“:

Þú varst engri lík, algjör ævintýrakona. Það var alltaf svo gaman að vera í kring um þig, þú hafðir alltaf nóg fyrir mig að gera í Kotinu, að láta sér leiðast var ekki til… Yfir þér var glæsileiki, þú varst alltaf í fallegum kjólum og kápum og með hatt.

Og Kristín Elfa Ragnarsdóttir rifjar upp eftirfarandi og segir:

Í fallega eldhúsinu þínu sátum við löngum stundum og snæddum, allt var reitt fram úr ísskápnum og stundum var erfitt að velja hvað átti að borða þá stundina. Ég gerði stundum að gamni mínu að leifa á diskinum en það þýddi að við gátum farið út að gefa fuglunum afganginn. Flestir fuglar bæjarins mættu tvisvar á dag, krummar, mávar og litlir smáfuglar.

Þú varst farin að þekkja þá alla í sundur og sumir áttu sitt nafn. Mávahjón mættu alltaf saman og þú kynntir mig fyrir þeim, en næst þegar ég kom til þín þá kom bara annar mávurinn og þú hafðir miklar áhyggjur af hvað hefði orðið af spúsu hans. Einu sinni úti í garði fyrir neðan risastóru grenitrén fundum við fallegan stein, hann var hvítur og glitraði. 

þú sagðir mér að þetta væri óskasteinn og ég ætti að gæta hans vel og hlúa vel að honum, þá gæti ég beðið hann að uppfylla óskir mínar. Steinninn fékk undir sig glæsilega öskju og undir hann var sett bómull svo honum myndi líða sem allra best. 

Steininn bað ég aðeins um eitt, að hann myndi hjálpa mér að flytja til Sigló svo ég gæti búið í Binnuhúsi og þyrfti þannig aldrei að yfirgefa ævintýraheiminn. Þú hafðir einstaka hæfileika til að láta stundirnar vera skemmtilegar og ógleymanlegar svo hinir hversdagslegustu hlutir urðu að heilu ævintýri. Ég vona að ég hafi tileinkað mér eitthvað af þínum hæfileikum, þó ekki væri nema brot, þá væri það besta gjöf sem nokkur getur óskað sér. Í hinu hefðbundna lífi í dag er hægt að gleyma sér í áhyggjunum, þeytingnum og stressinu, þá vildi ég nú heldur gleyma mér í ævintýrunum og láta ímyndunaraflið reika. Af þér var svo sannarlega hægt að læra og fyrir mín börn vonast ég til að geta kennt þeim hversu skemmtilegt lífið getur verið.

Og síðasta tilvitnunin úr minningargreinum Morgunblaðsins í dag er kveðja frá Birgir A Ingimarsson og Jón H. B. Snorrason, þar sem segir:

Nú er lífshlaupi Binnu Jóns frænku okkar lokið. Það er með sanni hægt að segja að hún hafi spilað vel úr sínum spilum. Binna er öllum sem henni kynntust minnistæð og kær.

Hún vann sér alls staðar vináttu og væntumþykju. Öllum mætti hún með opnum örmum og gaf til kynna að henni væri ánægja af að hittast. Tók upp spjall og skjall ef svo má að orði komast. Litlum frændum hældi hún þegar þeir urðu á vegi hennar með þeim hætti sem við átti. Framan af undraði hún sig á því hvað þeir hefðu stækkað mikið og væru myndarlegir. Síðar fyrir það hversu glæsilegir þeir væru orðnir og fulltíða menn.

Seinna hversu konur þeirra væru myndarlegir og þeir heppnir, sem þó í því tilviki hefði ekki getað farið öðruvísi.

Þá sá hún á löngu færi hver átti þessi myndarlegu börn sem safnast hafa í kringum okkur.

Loks að engin leið væri að gera sér grein fyrir því að við hefðum elst nokkurn skapaðan hlut.

Það var ekki bara í þessum samskiptum sem hún var gefandi og veitandi því þrátt fyrir að vera einstæð móðir sem stundaði láglaunastörf var hún á þönum að hjálpa og hlaupa undir bagga með öðrum, með opið hús fyrir gesti og gangandi. Skaut oft skjólshúsi yfir þá sem ekki lánaðist að útvega sér húsnæði í húsnæðisleysi sem oft var þegar þúsundir flykktust til þess að taka þátt í síldarsöltun á Siglufirði. Aldrei þraut hana úrræði til þess að gera öðrum til góða.

Binna ætlaðist alls ekki til þess að vera sá miðdepill sem hún var allstaðar. Það kom af sjálfu sér. Hún var einstök sögumanneskja. Var minnug og sagði skemmtilega frá og hafði þann einstaka hæfileika að geta haldið þræði og athygli hlustenda þótt saga sprytti út úr frásögninni og síðan fleiri þannig að hún var gjarna með lifandi í frásögninni nokkrar í einu.

Jafnframt því að halda uppi skemmtan með góðum sögum spáði hún gjarna í spil. Sú spámennska, sem var mjög vinsæl, gekk aðallega út á að segja viðkomandi frá því sem hann hafði gott af og gagn að heyra, þótt með slæddist gjarna forspá um endurgreiðslu frá skattinum, óvænt gestakoma og ferðalag. Allt mjög uppbyggjandi. 

Þrátt fyrir að vera komin vel á tíræðisaldur hélt Binna Jóns reisn sinni og sínu striki.

Í haust fór að halla verulega undan fæti. Hún var flutt í skyndingu á sjúkrahúsið og talið tvísýnt með hana. Við vorum staddir á Siglufirði og skunduðum í heimsókn. Daufir. Binna var þegar við komum að sjúkrabeði hennar sest upp til hálfs og farinn að spá í spil fyrir vinkonu sína í næsta rúmi. Sem fyrr tók hún okkur fagnandi, brosmild, handtakið hlýtt og hún hélt því eins og jafna áður, á meðan á samtalinu stóð.

Eins og þið hafið nú heyrt er erfitt að toppa slíkar frásagnir, og ánægjulegt að vita til þess, að Binnu skuli vera minnst á jafn hlýlegan hátt og skemmtilegan og þetta ber með sér. Hér er bersýnilega talað út frá innstu hjartarótum, og hvert einasta orð þrungið merkingu.

Þótt ég muni ekki vitna í fleiri minningargreinar hér í dag, tímans vegna, hef ég ekki alveg sagt skilið við þetta form, því mig langar að bæta hér við tveimur kveðjum, annarri frá Edda Rós Gunnarsdóttir og hinni frá systur hennar, henni Betty Gunnarsdóttir.

Og fyrst er það hún Edda Rósa, sem setti á blað eftirfarandi hugrenningar:

Amma Binna mín er dáin. Mér finnst einhvern veginn að allir þekki ömmu Binnu. Sérstaklega fannst mér það þegar ég var lítil og hún bjó hjá okkur á Flyðrugranda. Ég fékk alltaf hafragraut og lýsi og Sanasól í morgunmat hjá ömmu Binnu.

Eins og kannski börn hugsa fannst mér tíminn með ömmu Binnu í þessi þrjú ár sem hún bjó með okkur vera heilt líf.

Við ferðuðumst með henni í strætóum til vinkvenna sinna og fengum kandís og gotterí.

Amma Binna sagði svo oft „Veriði glöð“ og líka „Nú er veisla.“ Við fengum að smakka kaffi og te í eggjabikurum og vorum í fínum kaffiboðum. Hún spáði í spil og bolla fyrir vinkonur og vini í afmælum. Kotið hennar var fullt af allskyns gömlu dóti sem gaman var að fara í búðarleik með. Amma Binna hafði alltaf tíma fyrir börn. Hún hafði alltaf tíma fyrir mig, hún var einhvern veginn alltaf til staðar. Hún var fyndin, skemmtileg, fjörug en samt alltaf róleg. Ég man svo vel eftir mjúku hlýju fíngerðu höndunum þínum sem ég leiddi. Höndunum sem struku yfir augnlokin mín þegar þú svæfðir mig og söngst fyrir mig, að mig minnir „Sofðu, unga ástin mín.“ Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þér og hafa haft þig að fyrirmynd.

---------------

Og hún Betty ritar svo þetta að lokum:

Amma Binna var stórmerkileg kona sem fór lítið fyrir. Eintómur kærleikur; minnir mig á versið í Biblíunni um kærleikann, sem er bara, þarf ekki orð né annað til að útskýra sig. Hún tók öllum jafnt. Hvort sem það var náinn ættingi eða ókunnugur sem átti leið hjá.

Það fengu allir sömu meðferð. Hún var amma Binna allra. Sagði alltaf „Krossblessuð“ við fólk sem hún kvaddi, eða „Ævinlega blessuð.“ Ég held að það sé ekki hægt að lýsa henni í orðum. Það fór ekki mikið fyrir henni, en hún skilur eftir sig góðar minningar hjá hverjum sem hitti hana. Móðir vinkonu minnar hitti hana t.d. bara einu sinni, en talaði um hana alla tíð eftir það. Hún var svo þakklát, og ef hún fékk mat, þá var þetta besti matur sem hún hafði borðað, sagði hún. Takk, amma Binna, fyrir að vera fyrirmynd sem ég mun alltaf vera með í hjartanu.

Takk fyrir nammipokana sem þú bauðst úr - öllum sem vildu fá.

Takk fyrir hlýju höndina þína sem strauk mér með umhyggju og ást. Takk fyrir kotið sem ég á svo mikið af bernskuminningum frá.

--------------

Nú er hún Binna Jóns, þessi alþýðuhetja, búin að kveðja okkur um sinn, farin þann veg sem við munum öll eitt sinn ganga. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 30. janúar síðast liðinn, 94 ára að aldri. Hún, sem lifði lífi sínu hér á jörð á þann hátt, að allt sem hún gerði varð að ævintýri fyrir öll þau sem kynntust henni, eins og hér hefur mátt heyra hvað eftir annað, nú er hún sjálf horfin á vit mesta ævintýrisins, inn í eilífðina, í ríki himnanna, í faðm liðinna ástvina. Við þökkum henni af alhug fyrir allt það sem hún var, og biðjum henni allrar blessunar.

Gott fólk er besti boðberi þess að Guð sé með okkur og láti sér annt um manneskjuna. Með því að tileinka sér orð hans í elsku, tillitssemi, og kærleika gagnvart öðrum manneskjum, verður fagnaðarerindi hans lifandi. Manngæska, einlægni og alúð í öllu því sem lýtur að fjölskyldunni er sannarlega göfugt verkefni hvers kristins manns. Á því byggir komandi kynslóð og þannig lifir þjóðfélagið í sátt og samlyndi. Börn þessa lands búa að því að meginreglan sé einmitt í samræmi við hina gullnu reglu: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra. 

Trúmennska í starfi, þolgæði og vandvirkni er svo það sem snýr út á við og varðar afkomu og framtíð hvers samfélags, í stóru og smáu. Fólk sem lifir eftir þessum sjónarmiðum er ómetanlegt hverri þjóð, en fyrst og fremst þeim sem eignast hafa náið samfélag við þá í fjölskyldu- og vinahópi. Bryndís Jónsdóttir var góður liðsmaður almættisins á jörð, um það ber öllum saman. Þekking hennar á Guði birtist einmitt í því hve mikið hún lagði sig ávallt fram við allt sem hún tók sér fyrir hendur og henni var trúað fyrir, auk gjafmildinnar og hjartahlýjunnar.

„Það sem er farið burt snýr ekki aftur. En hafi það horfið í björtu, mun endurskinið vara lengi.“ Þetta segir þýski skáldjöfurinn Goethe á einum stað. Þegar hann minnist á birtuna, er hann ekki að tala um daginn andspænis nóttinni, ekki um ljósið andspænis myrkrinu, heldur um myndina, sem viðkomandi hefur skilið eftir í hjörtum þeirra, sem eftir lifa. „Það sem er farið burt snýr ekki aftur. En hafi það horfið í björtu, mun endurskinið vara lengi.“

Bryndís Jónsdóttir skilur eftir sig sterka minningu, djúp spor; hún kvaddi í björtu, eins og þið öll vitið, sem hér eruð. Og endurskinið mun því vara lengi.

Amen.

Sigurður Ægisson