Jóhann Bragi Friðbjarnarson

Mbl.is  21. júní 1990 | Minningargrein

Bragi Friðbjarnarson, mágur minn elskulegur. lést á hjartadeild Landspítalans 12. júní 1990 eftir nokkurra vikna erfiða sjúkdómslegu, aðeins tæplega fimmtíu og fimm ára að aldri. Bragi, eins og hann var jafnan kallaður, var yngstur sex systkina en fellur frá fyrstur þeirra. Hin eru Níels, bankamaður á Siglufirði, Kjartan, kaupsýslumaður í Hafnarfirði, Anna Margrét fv. umboðsmaður Olíuverzlunar Íslands í Vestmannaeyjum, Stefán blaðamaður á Morgunblaðinu og Kolbeinn fv. formaður Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði.

Foreldrar þeirra voru Sigríður Stefánsdóttir frá Móskógum, skagfirskrar og eyfirskrar ættar, og Friðbjörn Níelsson, frá Hallandi á Svalbarðsströnd, kaupmaður og síðar bæjargjaldkeri á Siglufirði. Þau eru bæði látin.

Bragi varð unglingur fyrir vinnuslysi í Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði. Afleiðingar þess fylgdu honum öll hans æviár. Hann gekk engu að síður til fullrar vinnu lengst af. Hann var um langt árabil starfsmaður Olíufélagsins Skeljungs í Reykjavík og þar starfandi er hann veiktist nú.

Bragi á tvö börn uppkomin, Önnu Margréti og Agnar Viðar. Anna er gift Birgi Smára Jóhannessyni á Hvammstanga og eiga þau tvo syni, Ólaf Kára og Markús Braga.

Bragi Friðbjarnarson - Ljósmynd: Kristfinnur

Bragi Friðbjarnarson - Ljósmynd: Kristfinnur

Sambýliskona Braga síðari árin var Sigríður Ásta Guðmundsdóttir. Þau komu sér upp góðu heimili í Hábergi 3. Þar undi Bragi hag sínum vel.

Bragi var víðlesinn og fylgdist vel með framvindu mála erlendis sem hérlendis. Hann setti sig vel inn í öll mál, sem hann þurfti að taka afstöðu til eða sinna, og byggði skoðanir sínar á gaumgæfinni at hugun. Hann vann og öll verk sín af stakri samviskusemi og var vel látinn af samstarfsmönnum og öðrum, sem höfðu af honum kynni.

Sigga og Bragi ferðuðust töluvert um heiminn og þau höfðu lagt drög að utanferð þegar hann snögg veiktist og var lagður inn á hjartadeild Landspítalans. Og nú hefur hann lagt upp í þá ferð sem okkur öllum er búin fyrr eða síðar. Hafi hann fararheill og góða heimkomu.

Er leiðir skilja þakka ég Braga mági mínum hlýtt viðmót hans og velvild alla og færi ástvinum hans dýpstu samúðarkveðjur fjölskyldu minnar. Minningin um góðan dreng lifir í hugum þeirra.

Þorgerður Sigurgeirsdóttir