Björgvin D. Björnsson

Það haustar snemma í ár hér á Siglufirði.  Undanfarnar vikur hefur verið kaldranalegt um að litast en þó aldrei eins drungalegt og sunnudagsmorguninn er bæjarbúum barst fréttin um að ungur Siglfirðingur, Björgvin Davíð Björnsson, væri látinn og hefði farist í umferðarslysi daginn áður. Haustið hafði hrifsað til sín ungan dreng í blóma lífsins.

Björgvin Davíð var sonur frænku minnar Halldóru S. Björgvinsdóttur og Björns V. Gíslasonar, sjómanns og bæjarfulltrúa á Ólafsfirði. Þau hófu búskap sinn á Ólafsfirði en slitu síðar samvistir og fluttist Halldóra þá heim til Siglufjarðar með Björgvin Davíð.

Tengsl þeirra feðga voru ávallt góð og mikil þó að þeir byggju ekki saman og einnig reyndist seinni maður Halldóru, Ólafur Þór Ólafsson, aðalbókari hjá Siglufjarðarkaupstað, Björgvini sem besti faðir og mikill félagi. Hann átti því í raun tvo elskulega feður sem báðum var jafn annt um vöxt hans og þroska. Frændgarðurinn í báðum þessum norðlensku fjörðum var honum líka jafn náinn og traustur.

Björgvin Davíð ólst upp hér á Siglufirði og tók virkan þátt í æskulýðs- og íþróttastarfi eins og margir aðrir unglingar. Hann stundaði skíði, badminton og knattspyrnu en hún var hans aðaláhugamál og þar náði hann mikilli leikni og árangri. Björgvin lauk prófi í vor frá Grunnskóla Siglufjarðar og hugurinn stefndi til framhaldsnáms. Tilhlökkunin var mikil, á sunnudaginn skyldi haldið ásamt mörgum skólasystkinum í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Framtíðin virtist björt og skýr við nám í vinahópi.

Við Siglfirðingar höfum misst einn af okkar glæsilegustu ungu sonum og það er erfitt að sætta sig við. Ég kveð Björgvin Davíð, frænda minn, með þakklæti fyrir kynnin og flyt öllum ástvinum hans dýpstu samúðarkveðjur með ósk um að þeim veitist styrkur Guðs og huggun í þungum harmi.

Kristján L. Möller.

12. september 1992 
-----------------------------------------------------

Björgvin D. Björnsson Kveðja frá árgangi 1976 á Siglufirði 

Björgvin, vinur okkar og skólabróðir, er dáinn. Það er sárt að hugsa um það. Hann var vinur okkar allra, góður félagi, sem lét sig aldrei vanta þegar bekkurinn ætlaði að gera eitthvað í sambandi við skólaskemmtanir og annað félagslíf. Hann var traustur vinur og félagi. Við eigum eftir að sakna hans mjög mikið. Hann mun alltaf vera í huga okkar allra. Hann var mikilvægur í félagsskap okkar og lífi. Þannig er fráfall hans mikill missir fyrir okkur öll.

Björgvin stóð sig vel í íþróttum eins og öllu öðru sem hann tók sér fyrir hendur. Þegar eitthvað bjátaði á hjá einhverjum í hópnum gat Björgvin alltaf komið manni til að brosa með léttleika sínum og fyndni. Við vitum að lífið er ekki alltaf eins og við viljum hafa það. Við söknum hans sárt. En þá hugsum við til fjölskyldu hans, sem missir svo mikið. Foreldrar hans voru Björn V. Gíslason og Halldóra Björgvinsdóttir. Fósturfaðir hans var Ólafur Þór Ólafsson. Við vottum þeim og systkinum Björgvins og öðrum nánum ættingjum hans dýpstu samúð okkar.

Í Spámanninum segir um vináttuna: "Vinur þinn er þér allt. Hann er akur sálarinnar, þar sem samúð þinni er sáð og gleði þín uppskorin . . . vertu glaður með vini þínum og njóttu með honum lífsins. Því að í dögg lítilla hluta finnur sálin morgun sinn og endurnærist."

Okkur þótti vænt um Björgvin og við söknum hans sárt. Við munum aldrei gleyma öllum góðu stundunum sem við áttum með okkar ástkæra vini.