Björn Jónasson keyrari Siglufirði

Björn Jónasson  F. 23. júní 1886. D. 19. febr. 1966 

„Starfa því nóttin nálgast nota vel æviskeið." 

ÞAÐ er engin tilviljun að ég vitna til þessara kunnu ljóðlína, um starfið og gildi þess, þegar kvaddur er hinztu kveðjunni Björn Jónasson. 

Ég hygg, að óhætt sé að segja, að hann hafi í orðsins fyllstu merkingu verið maður starfsins og framkvæmdanna um ævina, og ekki látið tækifærin líða ónotuð hjá. Ég hygg, að fátt hafi verið fjær eðli hans heldur en það að eiga starfslausar stundir, því að hann þekkti gildi starfsins og vissi af eigin raun, að enginn verður nýtur maður eða virtur, ef hann leggur hendur í skaut og eyðir ævinni í iðjuleysi. Þegar ég kynntist Birni Jónassyni var starfsdagur hans að verulegu leyti á enda, þar sem hann var þá aldraður orðinn og heilsa hans tekin að bila.

En það gat engum dulizt, sem kynntist honum, að þar var nokkuð sérstæður maður á ferð, maður, sem hafði sterkan persónuleika, ákveðinn vilja og mikinn kjark, maður, sem hafði þorað að horfast í augu við erfiðleika lífsins og sigrað þá. Viðmót hans var einkar glaðlegt, tilsvör hans hnyttin, og oft fylgdu þeim kímni og gamansemi. Og ekki leyndi það sér, að þar talaði vel greindur maður. Það var alltaf hressandi og ferskur andblær í kring um hann, hvort sem við hann var rætt á heimili hans eða í sjúkrastofu. Björn Jónasson var fæddur 23. júní 1886 að Ytra Hóli í Kaupangssveit í Eyjafirði. 

Björn Jónasson - Ljósmyndari ókunnur

Björn Jónasson - Ljósmyndari ókunnur

Foreldrar hans voru  Jónas Einarsson og  Guðrún Jónsdóttir. 

Ólst Björn upp með foreldrum sínum og var elztur sjö bræðra, sem upp komust. Ungur fór hann að vinna fyrir sér, enda foreldrar hans fátæk og mörg börnin, sem fyrir þurfti að sjá. Átján ára að aldri fór hann til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður við bú frænda síns, Þórhalls biskups Bjarnarsonar í Laufási, og vann þar um tveggja ára skeið. Eftir það fór hann norður til æskustöðvanna og rak um skeið búskap og útgerð á Látraströnd.  Á þeim árum réðst ráðskona til hans: Guðrún Jónasdóttir. Felldu þau hugi saman og gengu í hjóna band árið 1911 og fluttust sama ár til Siglufjarðar og stofnuðu heimili sitt hér. 

Um það leyti var Siglufjörður og vaxa úr litlu þorpi í kaupstað, og voru því verkefnin ærin, sem leysa þurfti. Björn tók sér fyrir hendur keyrarastörf, sem svo voru nefnd, þ.e.a.s. fólks- og vöruflutningar á hestum og vögnum, lagning gatna og því um líkt. Var starf hans að sjálfsögðu mjög annasamt og umsvifamikið. Hesta átti hann marga og vagna, og jafnan fór hann mjög vel með hesta sína og þótti vænt um þá. Auk þessa rak hann nokkurn búskap á Hóli við Siglufjörð um árabil. Keyrarastörfin stundaði Björn allan vaxtartíma Siglufjarðar eða fram undir 1930, ex bifreiðin leysti hann af hólmi. Þeim hjónum,

Guðrúnu og Birni, varð fimm barna auðið. Fjórir synir komust til fullorðinsára, einn þeirra, Svavar, verzunarmaður í Reykjavík, er látinn. Var sviplegt fráfall hans mjög þungt áfall fyrir Björn. Hinir synirnir: 

Þórhallur Björnsson framkvæmdastjóri, 

Ásgeir Björnsson verzlunarmaður og

Jónas Björnsson, skrifstofumaður, eru- allir búsettir á Siglufirði. 

Konu sína missti Björn árið 1954. Hafði hún reynzt honum hin ágætasta eiginkona um dagana, samhent og kærleiksrík. Fjölskylda Björns hefir jafnan verið mjög samhent. Synir hans, tengdadætur og barnabörn báru til hans ást og virðingu og vildu í í sameiningu létta honum þyngstu sporin, er aldur og sjúkleiki sóttu hann heim. Björn andaðist á heimili sonar síns, Þórhalls og tengdadóttur, Hólmfríðar Guðmundsdóttur hinn 19. febrúar sl. • 

Björn Jónasson er horfinn úr hópnum en eftir lifir minningin um mætan samfylgdarman. Hann var einn þeirra, sem settu svip sinn á Siglufjörð.
Guð blessi minningu Björns Jónassonar. Ragnar Fjalar Lárusson.

                    Björn Jónasson og Guðrún Jónasdóttir

Björn Jónasson og Guðrún Jónasdóttir