Dagmar Fanndal

Dagmar Fanndal fæddist á Akureyri 24. september 1915. - Hún lést laugardaginn 24. ágúst 2002. 

Foreldrar hennar voru Sigurður J.S. Fanndal og  Soffía Gísladóttir Fanndal

Dagmar var næstyngst fjögurra barna þeirra. Systkini hennar voru

  • Gestur Fanndal, f. 1911, d. 1995,
  • Sigríður Svava Fanndal, f. 1913, d. 1991, og
  • Georg Fanndal, f. 1917, d. 1970.

Dagmars maki: Daníel Þórhallsson, útgerðarmaður og söngvara, frá Höfn í Hornafirði, f. 1. ágúst 1913, d. 7. sept. 1991. 

Börn þeirra eru:

  • 1) Þórhallur Daníelsson, f. 1941.
  • 2) Sigurður Gunnar Daníelsson, f. 1944. Sambýliskona hans um tíma var Elínborg Sigurgeirsdóttir, f. 1951, sonur þeirra er Daníel Geir Sigurðsson, f. 1984.
  • 3) Soffía Svava Daníelsdóttir, f. 1948, maki Birgir Guðjónsson, f. 1948. Börn þeirra eru: a) Bryndís Eva, f. 1972, sambýlismaður Tómas Orri Ragnarsson, f. 1973, dóttir þeirra er Theodóra, f. 2001. b) Hákon Örn, f. 1976. c) Dagmar Ingibjörg, f. 1983.
  • 4) Ingibjörg Daníelsdóttir, f. 1951. Maki I Sveinbjörn Ársæll Sveinbjörnsson, f. 1941, d. 1985. Synir þeirra eru Sveinbjörn Ársæll Sveinbjörnsson, f. 1981, og Gunnar Daníel Sveinbjörnsson, f. 1984. Maki II Sigurður Valdimarsson, f. 1937, d. 2001.
Dagmar Fanndal - Ljósm. ókunnur

Dagmar Fanndal - Ljósm. ókunnur

Dagmar var jarðsett í kyrrþey að eigin ósk.

Amma var mikill gleðigjafi í lífi okkar systkinanna. Hún fæddist á Akureyri og fluttist til Siglufjarðar með fjölskyldu sinni fimm ára gömul. Hún bjó á Siglufirði til ársins 1969. Þar vann hún verslunarstörf og síðar húsmóðurstörf á fjölsóttu heimili. Hún kynntist afa þegar hann kom sem einsöngvari til að syngja með karlakórnum Vísi.

Þar ól hún upp fjögur börn og upplifði ýmsar breytingar bæði jákvæðar og neikvæðar, sem oft tengdust duttlungum síldarinnar enda var afi útgerðarmaður og síldarsaltandi. Þegar öll börnin voru uppkomin fluttust afi og amma til Reykjavíkur. Fljótlega eftir það fór að bera á heilsubrest hjá afa og hann dó 1991. Þegar hún varð áttræð missti hún annan fótinn og var bundin í hjólastól upp frá því. Með dyggri hjálp dagdeildar Landakots varð henni kleift að búa ein á heimili sínu, þar til í vor að hún lagðist inn á sjúkrahús í síðasta skipti.

Amma var duglegasta kona sem við höfum kynnst. Þrátt fyrir þrálát veikindi bar hún ávallt höfuðið hátt og sýndi ótrúlega styrk í gegnum þau öll. Hún mat það mjög mikils að koma vel fram og vera vel til höfð, enda afskaplega glæsileg sjálf alla tíð. Hún var okkur góð fyrirmynd í einu og öllu (fyrir utan reykingarnar) og hafði alltaf mikinn áhuga á því sem við vorum að gera.

Hún spurði hiklaust um ástamálin og fylgdist vel með hvernig lífið gengi fyrir sig hjá okkur. Hún las mjög mikið, bækur frá öllum heimshornum og hafði þá oft landakort sér við hönd. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn og reyndum við að koma því við sem oftast. Var maður þá ósjaldan sendur til að kaupa eitthvað gott með kaffinu, eitthvað "slikk".

Hún var góð spilakona með mikið keppnisskap. Ósjaldan var setið löngum stundum heima hjá ömmu yfir kaffibolla og spilað yatsí, kasína, pikkí eða manni, sem oftar en ekki endaði með sigri ömmu. Þá sjaldan að hún var ekki að vinna heyrðist oft "Ja, nú reiddist góðmennið" og staðan breyttist mjög skjótt. Lífsgleði hennar, glæsileika og dugnaðar munum við alltaf minnast og láta okkur verða að leiðarljósi.

Elsku amma, við eigum eftir að sakna þín.

Bryndís Eva, Hákon Örn og Dagmar Ingibjörg.