Eggert Páll Theódórsson lagerstjóri

Eggert Theódórsson - Fæddur 1. júní 1907. Dáinn 9. mars 1984.

Allir dagar eiga kvöld, og svo er því einnig farið um ævidag mannsins á jörðu hér. Vinurinn okkar góði, Eggert Theódórsson, var borinn til grafar í heimabyggð sinni.

Gömlum og sjúkum er gott að hvílast, en eftirsjá er þó að manni eins og Eggert var. Í persónu sinni og eðli sameinaði hann flest af því skemmtilegasta og besta, sem einkennt hefur hið litríka bæjarfélag í áranna rás.

Bautastein bjartra minninga hefur hann því reist sér í mörgu hjarta, enda var hann fáum líkur og manna ólíklegastur til að gleymast. Siglufjörður á sér einstæða og ævintýralega sögu. Á sínum tíma var síldin það gull, sem seiddi til sín fólk úr öllum áttum. Á stuttum en björtum sumrum Siglufjarðar mátti þar fyrirhitta fólk af öllum landshornum, fólk, sem kom til að afla sér fjár, — en e.t.v. ævintýra um leið.

Eggert Theódórsson

Eggert Theódórsson

Margir upprennandi menntamenn áttu það uppgripunum í Siglufirði að þakka að þeir gátu brotist áfram af eigin rammleik. Stundum varð Siglufjörður einn alþjóðlegasti bær á Íslandi, því að mörg voru þau erlend skip, sem þá sóttu á norðlensk mið. í landlegum var margt um manninn á götum Siglufjarðar, og mörg gerðust þar ævintýrin. 

En síldin hvarf úr sjónum, og Siglufjörður var í sárum um hríð. Af bjartsýni og dugnaði var þó hafin ný uppbygging með góðum árangri. Alla þessa margþættu sögu þekkti Eggert betur en flestir aðrir. Hann lifði þetta allt sjálfur, bæði sem áhorfandi og lifandi þátttakandi. ógleymanlegt var að hlusta á frásagnir hans af lífi fyrri ára, því að frásagnarlist hans var einstök. En þó var Eggert ávallt maður nútíðarinnar meir en fortíðarinnar. Mannlífið var honum alltaf jafnáhugavert á hvaða tíma sem var og hvar sem var. Hann fylgdist vel með öllu. Athyglisgáfa hans var næm, og eiginlegt var honum að brjóta brodd erfiðleika með bjartsýni og skopskyni.

Ómetanlegt er að hafa átt Eggert að vini. Enginn var trúrri og tryggari en hann. Hann var ekki aðeins fróður og skemmtilegur, heldur einnig sá elskulegasti og einstakasti sem hægt var að finna. Alvöru lífsins þekkti hann mörgum betur, og átti þess vegna næman skilning á kjörum og aðstæðum annarra. En miðpunktur gleðinnar var hann einnig á góðra vina fundi. Fyndni hans var hugvitssöm og smitandi, en um leið græskulaus og full góðvildar. Málefni fatlaðra lét hann sig miklu skipta og var þar traustur liðsmaður. Verkalýðssinni var hann einnig af heilum hug. 

En þó var hann þeirrar gerðar í sjón og raun að erfitt var að skipa honum í flokk eða bás. Hann var dæmigerður maður allra stétta, gat átt sálufélag við alla, átti allstaðar heima. Hálfvolgur var Eggert aldrei í vináttu sinni, og þess fengum við að njóta. Hvar sem leið okkar lá á landi hér, var öruggt að hann sækti okkur heim eða hefði samband við okkur í síma. Síðasta símtalið átt sér stað fyrir fáum mánuðum og þá var hann enn hinn gamli og góði Eggert. Börnum okkar ungum bauð hann að kalla sig afa. Þau tóku því fagnandi, því að þá höfðu þau ný- verið misst Arna afa, sem var þeim með öllu óskyldur, en bar nafnbótina með mestu prýði. Þar sem hinn raunverulegi afi var óþægilega langt í burtu, var uppbótarafi alger nauðsyn. 

Nýi afi — Siglufjarðarafi — eða bara Eggert afi, þetta voru nafnbætur, sem unga kynslóðin á heimilinu sæmdi vin okkar af einlægu hjarta. Alltaf var eins og Eggert væri í andlegri nálægð við okkur, þó að vík yrði milli vina. Og alltaf var gestrisnin söm hjá honum og hans ágæta fólki, þegar við áttum leið til Siglufjarðar. Fimm ógleymanlega daga dvöldumst við á heimili Eggerts og Elsu konu hans sumarið 1973. Þá beið eitt af börnum okkar eftir sjúkrahúsvist vegna óvenju slæmra afleiðinga umgangsveiki. En þessir fimm dagar í brennheitri Siglufjarðarsól gerðu kraftaverk, svo að sjúkrahúsvistin varð óþörf.

Það var skemmtileg tilviljun að annar helmingur okkar hjónanna skyldi eiga sama afmælisdag og Eggert — 1. júní. Á 65 ára afmæli sínu var Eggert staddur á heimili okkar, sem þá var á Hvanneyri í Borgarfirði. Þann dag varð húsmóðirin 35 ára, svo að samanlagt var þetta 100 ára afmæli. Upp á þetta afmæli var haldið með mikilli gleði, sem margir vinir okkar hjónanna á staðnum voru boðnir til. 

Einn gestanna misskildi lítillega hvað um var að ræða, því að hann átti von á að hitta þarna fyrir 100 ára öldung, og spurði því varfærnislega, þegar hann kom: „Hvar er gamli maðurinn?"

Vakti það bæði hlátur og gleði, er gesturinn sá, að hinn aldraði var snöggtum yngri og ernari en hann hafði átt von á. Ekkert af þessu fólki hafði Eggert augum litið áður, en fljótur var hann að renna inn í samfélagið, var hrókur alls fagnaðar og umgekkst alla eins og gamla vini. 

Oft minntist Eggert síðar þessarar björtu vornætur í Borgarfirði og fólksins góða, sem hann kynntist þar. Minningarnar eru margar, og bjart er um þær allar. En hratt líður stund, og strítt rennur lífsins straumur. Margar helgar stundir í gleði og sorg áttum við með Eggert og fleiri vinum í Siglufjarðarkirkju. Þar hefðum við gjarnan viljað vera í dag, er hann er kvaddur. En prestur ræður ekki alltaf við hvers gröf hann stendur. í öðrum helgidómi verðum við stödd í dag á kveðjustund, en í andlegri nálægð við Eggert vin okkar eins og alltaf áður. 

Bjartsýnn var Eggert í trú sinni, og björt mun hans framtíð. f trú kveðjum við okkar góða vin og þökkum honum samfylgdina á brautum lífsins bæði í gleði þess og alvöru.

Eiginkonu hans og vinkonu okkar, Elsa Þorbergsdóttir, og öllum afkomendum þeirra þökkum við órofa tryggð og vináttu, sendum þeim hugheilar kveðjur og biðjum þeim blessunar Guðs.

Auður Guðjónsdóttir og Kristján Róbertsson. 

---------------------------------------------------------------------

Eggert andaðist að morgni 9. þessa mánaðar eftir stutta legu. Hann hafði um áraskeið átt við vanheilsu að stríða, en létt lund hans og æðruleysi áttu sinn stóra þátt í því að hann bugaðist ekki fyrr fyrir Elli kerlingu og liðsmönnum hennar.

Hann var fæddur 1. júní 1907 í Höfn í Siglufirði. Foreldrar hans voru þau hjón Svanhildur Ólöf Þorsteinsdóttir sem lést 1910 og Jónas Theódór Pálsson víðkunnur hákarlaskipstjóri, sem lést 1957.

Móðir hans var húnvensk en faðir hans Skagfirðingur. Þau hjón fluttust til Vesturheims árið 1903 ásamt syni sínum sem fæddur var á Dalabæ við Siglufjörð. Þessi sonur þeirra bar nafnið Eggert en hann andaðist vestan hafs svo og dóttir þeirra, Marta Laufey.
Eftir það eða árið 1906 fluttust þau Svanhildur og Theódór heim til Íslands og settust að í Höfn í Siglufirði og þar fæddist Eggert, sem hér er minnst með nokkrum orð- um. 

Móðir Eggerts andaðist er hann var þriggja ára 1910 en Theódór kvæntist aftur 1912 Guðrún Ólafsdóttir og ólst Eggert upp hjá föður sínum og stjúpu ásamt hálfsystkinum sínum sem urðu þrjú. hann ólst upp að þeirrar tíðar hætti og fór 15 ára gamall til sjós með föður sínum, sem þá var skipstjóri á v/b „Æskan".

Skipið var á hákarlaveiðum og stóð vertíðin venjulega frá því í marsmánuði og fram í júnímánuð og eftir að hákarlavertíðinni lauk var hann á v/b „Ruby" frá Siglufirði og var gerður út á þorskveiðar. Góður afli varð á báðum skipunum en að sumarvertíð lokinni, var sjómennsku Eggerts lokið. 

Þá um haustið — 1924 — starfaði hann við kvikmyndasýningar við kvikmyndahús H.Thorarensen og um veturinn var hann á vélstjóranámskeiði, sem Jón Sigurðsson frá Hellulandi stóð fyrir og lauk Eggert þaðan prófi með 1. einkunn.

Við sýningar í Nýja Bíó í Reykjavík starfaði Eggert og hlaut sýningarréttindi eftir eitt og hálft ár og mun fyrstur Siglfirðinga hafa hlotið þessi réttindi.

Eggert starfaði eftir heimkomuna úr Reykjavík hjá Bíói, sem Thorarensen rak í Siglufirði en um vorið 1929 réðst hann til starfa hjá verksmiðjunni Bein, sem tók til starfa í júnímánuði það ár. 

Þá um haustið slasaðist hann í verksmiðjunni með þeim afleiðingum að hægri höndin varð ónýt til hverskyns nota eða beitingar síðan. Haustið 1930 hóf Eggert störf hjá Síldarverksmiðjum ríkisins í Siglufirði, fyrst sem aðstoðarmaður birgðavarðar, en frá árinu 1960 varð hann aðalbirgðavörður fyrirtækisins og gegndi því uns hann lét af störfum fyrir aldurssakir og hafði þá starfað hjá SR um hálfrar aldar skeið. 

Eggert var góður bridgespilari og var oddviti þeirra bridgemanna í Siglufirði um 10 ára skeið rúmlega þó og hafði hann mikið yndi af þessu spili, en hug hans átti þó allan Félag lamaðra og fatlaðra „Sjálfsbjörg" og var hann formaður þess félags um 20 ára skeið og vann þar af miklum áhuga og þegnskap fyrir þessi samtök. 

Eggert kvæntist 1931 Elsu Þorbergsdóttur, sem ættuð er úr Reykjavík. Eignuðust þau 6 dætur og 1 son, sem öll eru á lífi og hin mannvænlegustu. Elsa bjó manni sínum gott og vistlegt heimili að Suðurgötu 43 í Siglufirði, en þar bjuggu þau hjón allan sinn búskap. Þar er rausn í garði, hlýlegt og notalegt að sækja þau heim.
Þeim fækkar nú samborgurunum frá Siglufjarðarárunum. Og nú er Eggert farinn og hefur kvatt okkur kunningja sína og vini. Við kynntumst mjög fljótlega eftir komu mína til Siglufjarðar og vorum samstarfsmenn í 25 ár hjá Síldarverksmiðjum ríkisins þar. 

Er því að vonum margs að minnast en verður ekki talið upp hér, enda of langt mál. Eggert var leikbróðir glettninnar og vinur og hafa þau skötuhjúin margt sporið stigið saman, spaugsöm og spræk. Þó hann hafi hin síðari árin gengið hægar um götur en áður fyrr vegna heilsubrests þá átti hann ætíð gamanyrði á vörum þegar kunningja var mætt og boðinn góður dagur. Mörgum kynntist Eggert við störf sín hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, og mörgum námsmanninum kynntist hann og spauguðu þeir saman. 

Eru ýmsar minningar við það tengdar og margar í bundnu máli, því margir þeirra voru snjallir hagyrðingar og sjálfur gat Eggert verið allliðtækur á því sviði ef hann vildi svo við hafa. Átti og töluvert safn slíkra vísna, sem allar eru að vissu marki mannlífslýsingar þess tíma meðan síldin var og hét.

Mundu þær ef heyrðust, minna margan stúdentinn eigi síður en sjómanninn á liðnar síldarvertíðir og lipur samskipti, liðnar stundir, smá glettni við starfsfélaga og jafnvel yfirmenn og yfirvöld. Þarna er að finna snjallar stökur ungra og lífsglaðra hagyrðinga úr stúdentahópnum, sem sumir hverjir urðu landskunnir síðar á ævinni. 

Lagerstörfin voru erilsöm þegar allt var í fullum gangi. Hundruð síldarskipa, allar verksmiðjur starfandi og búið þurfti margs við, og var margt af því sótt á lager verksmiðjanna. Allt er þetta nú liðin tíð og kemur aldrei aftur. Siglufjörður síldveiðitímans og síldaráranna er nú minning ein, harla kær og gaman að rifja upp ýmislegt frá þeim tíma eins og við Eggert gerðum er við hittumst á strjálum stundum nú seinni árin. 

Nú verða fundir okkar Eggerts og vina hans ei fleiri. En margar góðar og hugljúfar minningar á ég um hann. Hann var tryggur vinum sínum, glettinn og hýr, en gat þó verið allfastur fyrir og lét ekki hlut sinn. Ég þakka honum að leiðarlokum samfylgdina og vináttuna og margar skemmtilegar glettur bæði gerðar mér og sameiginlegum kunningjum. Við hjónin sendum eiginkonu hans og börnum þeirra og fjölskyldum samúðarkveðjur. 

Megi minning þeirra um kæran eiginmann og föður styrkja þau vera þeim huggun á þungri stund. Eggert verður jarðsunginn frá Siglufjarðarkirkju í dag 17. mars. 

Baldur Eiríksson
------------------------------------------------------------------

Kveðja frá „Sjálfsbjörg", Siglufirði Látinn er í Sjúkrahúsi Siglufjarðar Eggert Theódórsson eftir skamma sjúkdómslegu. Útför hans fer fram frá Siglufjarðarkirkju laugardaginn 17. mars. Með Eggert Theódórssyni er genginn einn þeirra manna, sem settu ákveðinn svip á sigfirskt athafna- og bæjarlíf um áratugaskeið. Eggert fæddist 1. júní 1907 í Siglufirði og þar átti hann heima alla tíð. Ekki er það ætlunin hér að rekja ættir hans, enda munu aðrir vafalaust færari um að gera það. Eggert var einn af stofnendum „Sjálfsbjargar" í Siglufirði vorið 1958, og formaður þess lengst af,

eða samtals í 23 ár. Hann var einnig fulltrúi á stofnþingi Landssambands sjálfsbjargarfélaganna 1959, og lengi kjörinn fulltrúi síns félags í Landssambandsstjórn og á Þing samtakanna. Eggert starfaði lengi að félagsmálum í heimabyggð sinni, svo sem í Verkalýðsfélaginu og um tíma var hann formaður í bridgefélagi staðarins. Þó munu engin félagsmál hafa verið huga hans nær, en starfið fyrir „Sjálfsbjörg" þar var hann ætíð heill og óskiptur. Hvorki ófærð né illviðri, hamlaði honum að takast langa ferð á hendur, til að sitja fundi landssambandsins. Hann var mjög áhugasamur í baráttumálum fatlaðra, og alveg óragur að setja fram skoðanir sínar, og benda á ýmsar nauðsynlegar úrbætur fötluðum til handa. 

Eggert fatlaðist sjálfur er hann var til sjós, þegar á unga aldri, og vissi því af eigin reynslu, hve hörð sú lífsbarátta er, að hasla sér völl á vinnumarkaði, með skerta starfsorku, til að sjá sér og sínum farborða. Lengst af starfaði hann sem verkstjóri á lager Síldarverksmiðja ríkisins, og í tilefni þess, að hann hafði lokið þar 50 ára þjónustu árið 1981, fæði stjórn SR honum forkunnarfagurt gullúr að gjöf. Af mörgum góðum eðliskostum Eggert Theódórssonar mun skapferli hans hafa verið honum dýrmætast. Hann var léttur í lund, og lék á alls oddi, með glens og gamanyrðum í góðra vina hópi. Frá slíkum stundum munu Sjálfsbjargarfélagar um land allt minnast hans best. 

Fyrir hönd félaganna í „Sjálfsbjörg" á Siglufirði, vil ég nú að leiðarlokum þakka sérlega gott samstarf, þakka allar ánægjustundir á fundum og ferðalögum, og ekki síst þær stundir, þegar einhugur og ábyrgð ríkti, er tekist var á við erfið verkefni. Eftirlifandi konu Eggerts, Elsu Þorbergsdóttur, og börnum þeirra sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin lifir um góðan dreng. Hulda Steinsdóttir.

Afmæliskveðja: 1982

Eggert Theódórsson fyrrum birgðavörður hjá Síldarverksmiðjum ríkisins í Siglufirði varð 75 ára í 1982  (d. 09-03-1984) Eggert er fæddur í Höfn í Siglufirði 1. júní 1907, en fluttist á fyrsta ári að Suðurgötu 43, og hefur átt heima þar síðan.

Foreldrar Eggerts voru Svanhildur Ólöf Þorsteinsdóttir og Theódór Pálsson, skipstjóri. Móðir hans dó þegar hann var þriggja ára, en Theódór dó 1957.

Eggert ólst upp við þau störf sem þá voru fyrir hendi, m.a. var hann sýningarstjóri við Nýja Bíó í Siglufirði, en lengst af var hann birgðavörður hjá Síldarverksmiðjum ríkisins eða í 51 ár. I því starfi kynntist hann fólki úr mörgum þáttum þjóðlífsins. Vegna starfsins hafði hann samskipti við fjölda sjómanna og verkamanna.

A áratugnum 1930—1940 höfðu margir verðandi menntamenn þjóðarinnar sumarvinnu hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Það eru því margir sem vita hver maðurinn er.

Ég kynntist Eggert á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 1929. Þá um haustið hafði hann orðið fyrir slysi í beinamjölsverksmiðjunni suður undir bökkunum — og er mér ekki grunlaust um að þá hafi Morgunblaðið birt andlátsfregn hans sem svo kom í ljós að ekki var tímabært.

Árið 1958 var fyrsta Sjálfsbjargarfélagið stofnað hér í Siglufirði að tilhlutan Sigursveins D. Kristinssonar. Eggert varð fyrsti formaður félagsins og er það enn. Hann var og formaður Bridgefélags Siglufjarðar í 11 ár. Einnig starfar hann í Rótarýklúbbi Siglufjarðar. Kona Eggerts er Elsa Þorbergsdóttir. Þau eiga sjö börn, fimm búsett hér í bæ, ein dóttir búsett í Ólafsvík og ein á Hellissandi. Elsa og Eggert! Ég færi ykkur bestu hamingjuóskir frá gömlu félögunum.

Eggert dvaldi á afmælisdaginn hjá dóttur sinni og tengdasyni í Ólafsvík. 

Jónas Björnsson

===================================================

Afmæliskveðja.

Eggert Theódórsson Siglufirði sjötugur(1977) Eggert leit ljós heimsins fyrst í Efri-Hafnarbænum á Siglufirði. Þegar hann hrein í fyrsta sinnið og gaf þar með til vitundar, að hann væri í heiminn borinn, má vera að nærstöddum hafi þótt sem hinn nýlaugaði sveinn kynni þá þegar að beita raddböndunum og mundi vita hversu ætti að tjá sig í fylling tímans. 

Burðardagurinn var 1. dagur júnímánaðar þess herrans árs 1907. En hann var ekki einn í heiminum, því bæði þar og á öðrum stöðum fæddust fleiri, svo sem eðlilegt lögmál lífsins er. Sumir siglfirskir urðu leikfélagar afmælisbarnsins og samferðamenn á heimaslóðum. 

Nú er þessi dagur — 1. júní — nefndur Alþjóðabarnadagurinn, og því má vænta ýmissa tíðinda á vettvangi þeim, sem hann er helgaður, en það mundi önnur saga. Til skírnar var hnokkinn færður og ausinn vígðu vatni af séra Bjarna Þorsteinssyni og hlaut við þá athöfn nafnið Páll. Heitir því fullu nafni Eggert Páll, en Páls nafnið ekki almennt notað, en þegar mikið liggur við eins og t.d. núna og vitna þarf til postulanna gjörninga svo sem skýrt er frá í helgum fræðum, sem honum eru harla kær og ætti að vera hverjum þegni fyrirmynd, bæði sem tæki til veraldlegra átaka og um þroska á ævibraut.

Foreldrar Eggerts voru hjónin Svanhildur Ólöf Þorsteinsdóttir, ættuð úr Vestur-Húnavatnssýslu og Theódór Jónas Pálsson, skipstjóri, en hann fæddist að Óslandi í Skagafirði. Þau hjón fluttu til Vesturheims árið 1903 en undu þar ekki, enda lostin þungum hörmum vestra. Sneru þau heim til íslands aftur árið 1906 og settust að í Efri Höfn í Siglufirði og var Theódór lengi kenndur við þennan bæ.

Theódór Pálsson var kunnur hákarlaformaður og sægarpur. Skipstjóri m.a. á Njáli og Æskunni. Var hann snöggur upp á lagið, úrræðagóður, orðheppinn og eru þar um ýmsar frásagnir, harla merkar sumar, aðrar aðeins gamanmál en geyma þó mannlýsingar. Svanhildur móðir Eggerts dó er hann var 3ja ára að aldri og er hann einn á lífi af alsystkinum sínum. 

Theódór Pálsson kvæntist f annað sinn Guðrúnu Ólafsdóttur árið 1912 og eignuðust þau 3 börn. Ólst Eggert upp ásamt þessum hálfsystkinum sínum í föðurhúsum og gekk svo sem lögmælt var í barnaskólann í Siglufirði og naut þar fræðslu og uppeldisáhrifa þriggja mætra skólastjóra, sem allir voru ágætir kennarar, hver á sína vísu og áttu eftir að koma mikið við sögu Siglufjarðar.

Eru þau hjón, Guðrún og Theódór, löngu látin. Eggert varð háseti hjá föður sínum, 15 ára gamall, en Theódór var þá með Æskuna. Skipið fór til hákarlaveiða, sem stóðu venjulega frá því í mars mánuði og fram í júní, en er þeim veiðum lauk réði hann sig á bát sem „Ruby" nefndist og var gerður út á þorskveiðar. Á báðum skipum af afli góður, en þrátt fyrir það lauk þar með sjómennsku hans, vildi ei stíga „vikvakann á — völtum kvikubökum".

Vélstjóranámskeið var haldið í Siglufirði um þetta leyti og var kennari Jón vélfræðingur Sigurðsson, frá Hellulandi. Lauk Eggert þaðan góðu prófi og hlaut vélstjóraréttindi er því lauk. Starfar svo um tíma við kvikmyndasýningar í Nýja Bíó í Reykjavík og fékk sýningarréttindi að því loknu.

Þá er haldið aftur til Siglufjarðar og starfað að kvikmyndasýningu hjá H. Thorarensen, sem rak Nýja Bíó, þar er unnið uns fiskmjölsverksmiðjan „Bein" tekur til starf a sumarið 1929, en þangað ræðst Eggert sem vélstjóri.

Þá um haustið slasaðist hann í verksmiðjunni með þeim afleiðingum að hægri höndin varð ónýt til hverskyns beitingar síðan. Haustið 1930 hóf Eggert störf hjá Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði, fyrst sem aðstoðarmaður birgðavarðar en síðan 1960 hefur hann gegnt aðal birgðavarðarstarfi hjá fyrirtækinu, og hefur því starfað hjá SR í 47 ár, sennilega mun það hæsti starfsaldur þar nú.

Eggert er léttur og lipur bridge spilari og var oddviti þeirra í Bridgefélagi Siglufjarðar rúman áratug en hug hans allan hefur þó Félag lamaðra og fatlaðra „Sjálfsbjörg" átt, enda verið formaður Siglufjarðarfélagsins f 16 ár og unnið þar af miklum þegnskap. Gerðist Eggert félagi í Rótarýklúbb Siglufjarðar 1974.

Kona Eggerts er Elsa Þorbergsdóttir, ættuð úr Reykjavík. Gengu þau í hjónaband árið 1931 og hafa eignast 6 dætur og 1 son, allt mannvænlegir afkomendur, sem allir eru á lífi og eiga sumir þeirra börn og buru. Hefur Elsa búið manni sínum gott og vistlegt heimili að Suðurgötu 43 en þar hafa þau búið allan sinn búskap. Þar er rausn í garði, hlýlegt og notalegt að sækja þau heim og gamanmál á vörum og viðræður líflegar. 

Áður en byggð þéttist á heimaslóðum afmælisbarnsins var nægilegt olnbogarými fyrir glettinn, spaugsaman og sprækan strákling. Enda var þetta vel notað og sannast hér að lengi býr að fyrstu gerð. Leikbróðir og vinur glettninnar hefur hann alla tíð verið og hafa þau skötuhjúin margan stiginn saman gengið, innileg, ljómandi af ánægju og unaði sælunnar, en ekki ætíð við fögnuð annarra.

Þó hann gangi nú um götur öllu hægar en áður fyrr og brestur á heilsu bagi hann, þá er glettnisvipurinn enn hinn sami og viðeigandi gamanyrði á vör, þegar kunningja er mætt og boðinn er góður dagur. Enn hugar afmælisbarnið vel að öllu umhverfi, einkum öllum trjágróðri, sem prýða má húsagarða, enda hefur hann kynnt sér sérstaklega hversu auka megi hann með tilliti til grisjunar.

Einnig hefur hann áhuga á hversu hanna megi fjárhús og önnur gripahús, svo næg birta berist um glugga. Þá má geta þess, sem nú er ekki algengt að áhugi hans fyrir dýralækningum er mikill og hafa leiðbeiningar hans sumar gefið góða raun að því er f rásögur herma.

En hvað sem um allt þetta er ætti sú hýra mynd af afmælisbarninu, sem fylgir þessari afmæliskveðju, að minna margan stúdentinn eigi síður en sjómanninn á liðnar síldarvertíðir og lipur samskipti, liðnar stundir, liðin atvik, smá glettni við starfsfélaga, snjallar stökur ungra og lífsglaðra hagyrðinga i hópi sumarstarfsmanna SR, ýmis óræð fyrirbæri sem menn töldu sér trú um að þræðir þeirra kynnu að liggja frá lager SR. Allt er þetta liðið og kemur aldrei aftur. Aðeins minning fjörs og leikja á vordögum ævinnar.

Norður yfir heiðar sendum við hjónin hugheilar afmæliskveðjur og árnaðaróskir. Sjálfur flyt ég þakkir fyrir öll samstarfsárin hjá SR, allar glettur og gamanmál og þá fyrirmynd sakleysisins sem ætíð mátti sjá í spegli á vinnustað. „Sannmálar varir munu ávalt standast" segir í bókinni, sem hann hefur á koddanum hjá sér. Óskir um batnandi heilsu eru hér líka með og þess ber að minnast, „að glatt hjarta veitir góða heilsu".

„Allir hreinhjartaðir fagna
og leika á tístrengja
hörpu og knýja strengina
ákaft með fagnaðarópi"
„Syngja nýjan söng"
við upphaf nýs áratugs.  
(Lánað úr „Orðskviðunum")  B.E.
-----------------------------------------------------------------

Meira um Eggert:  Kattafárið og