Egill Stefánsson, konsúll, kaupmaður, slökkviliðsstjóri.

Egill Stefánsson, f. 9.5.1896,  hann lést á sjúkrahúsi Siglufjarðar 7. júlí 1978

Hann hefur, sem kaupmaður, iðnrekandi, frammámaður í karlakórnum Vísi, Iðnaðarmannafélagi Siglufjarðar, og ekki síst sem bæjarfulltrúi og virkur þátttakandi í bæjarmálum Siglufjarðar, verið fulltrúi vaknandi vors og sumaranna. Hann hefur alltaf þorað að feta nýjar brautir og ekki hlífst við störfum og fyrirhöfn.

Egill Stefánsson var fæddur að Hólabaki í Vatnsdalshólum. Foreldrar hans voru hjónin 

Margrét Gestsdóttir og Stefán Jónsson. Þau fluttu síðar til Þingeyrar og þaðan til Akureyrar, þar sem Egill ólst upp frá 7 ára aldri til fullorðinsára.

Egill byrjaði snemma að vinna alla venjulega vinnu, eftir að hann brottskráðist frá lýðskólanum að Grund í Eyjafirði, og vann þá bæði í Reykjavík og Vestmannaeyjum, þar sem hann m.a. vann að hafnargerð. Egill kemur fyrst til Siglu fjarðar árið 1917, og síðan aftur árið eftir, og vann að smíði Gránuverksmiðjunnar.

Egill Stefánsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Egill Stefánsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Vann hann síðan hjá því fyrirtæki við vélgæslu og verkstjórn í um 10 ár, og síðan hjá Goos-verksmiðjunni. Síðar var hann vatnsveitustjóri í 2 ár. Er hér var komið, hóf Egill að stunda miðstöðvarlagnir og hafði þau störf með höndum að meira eða minna leyti í 25 ár. Árið 1930 hóf hann verslunarrekstur, sem hann hefur haft með höndum æ síðan.

Hann var og frumkvöðull að niðurlagningu síldar hér í Siglufirði, og hefur rekið um margra ára skeið fyrirtæki í þeirri fram leiðslu, sem sent hefur vörur bæði á erlendan og innlendan markað.
Árið 1921 hóf hann störf í slökkviliði Siglufjarðar, fyrst sem flokksstjóri, síðan sem varaslökkviliðsstjóri, og um áratuga skeið sem slökkviliðsstjóri.  

Hér er fljótt farið yfir sögu — og mörgu sleppt — en nóg er þó talið til að sýna fjölhæfni og frumkvæði framkvæmdamannsins, sem á margt hefur lagt gjörva hönd og hlotið trúnað samborgaranna. Egill Stefánsson er einn af stofnendum karlakórsins Vísis, sem víða hefur borið hróður Siglufjarðar; hann var formaður kórsins í 20 ár og gerður heiðursfélagi hans.

Egill er ennfremur einn af stofnendum Iðnaðarmannafélags Siglufjarðar, og hefur verið þar virkur félagi í yfir 30 ár; hann var formaður þess í 10 ár; sat í Iðnráði Siglufjarðar í 8 ár, og hann var sérstaklega heiðraður á 30 ára afmæli Iðnaðarmanna félagsins árið 1965, ásamt nokkrum öðrum forystumönnum í málefnum iðnaðarins.

Þá hefur Egill verið í Kaupmannafélagi Siglufjarðar frá stofnun þess, 1939, og frá 1954 formaður þeirra samtaka mörg árin. Enn er ótalið starf Egils í Rotaryklúbb Siglufjarðar, og starf hans í samtökum sigfirskra sjálfstæðismanna en þar hefur hann verið virkur og áhugasamur starfskraftur í áratugi og var um sinn formaður Félags sjálfstæðismanna á Siglufirði.

Egill Stefánsson sat í bæjarstjórn Siglufjarðar, sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á árunum 1940—1950, átti sæti í Allsherjarnefnd og fleiri nefndum bæjarstjórnar. Hann var og varaforseti bæjarstjórnar um skeið.

Egill var pípulagningameistari og lét mikið til sín taka á því sviði, og ekki má gleyma verslun hans og þjónustu sem nánast allir unglingar á þeim tíma sóttu reglulega. En það var hjólhestasala og varahlutir og þjónusta við hjólaeigendur og þá sem hugðust á kaupa reiðhjól, þangað sem mest var sótt af yngri kynslóðinni og ávalt vel tekið á móti öllum, til þjónustu reiðubúinn. Af öllu þessu má sjá, að Egill hefur notið trúnaðar samborgara sinna, og hafði hann ætíð verið fús til starfs og liðveislu góðra málefna, og hafði haft forystu um margt sem til heilla hefur orðið fyrir Siglufjörð. Það má telja líklegt, um svo starfsaman mann, sem auk margháttaðra starfa og atvinnurekstrar, hefur þurft að taka á sig fjölþætt og tímafrek félagsmálastörf, að hann hljóti að hafa átt góða konu og friðsælt heimili, enda er sú raunin á.

Egill var kvæntur hinni mestu myndarkonu, Sigríður Jóhannesdóttur, sem búið hefur manni sínum gott heimili.
Þau hjón eiga þrjú börn uppkomin, tvær dætur og einn son:

Jóhannes Egilsson, sem verið hefur hægri hönd föður síns í atvinnurekstri hans hin síðari ár, eða þar til hann sjálfur lét af störfum vegna veikinda. 

Ofanritað er samtíningur frá ýmsum upplýsingum á Internetinu, og eigin kynningu. Enga minningargrein fann ég um þennan frumkvöðul - sk

Myndin er af þeim hjónum: Egill Stefánsson og kona hans Sigríður Jóhannesdóttur -- Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson

Myndin er af þeim hjónum: Egill Stefánsson og kona hans Sigríður Jóhannesdóttur -- Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson