Fanney Vernharðsdóttir

Fanney Vernharðsdóttir fæddist á Siglufirði 18. nóvember 1929. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 2. janúar 2012. 

Foreldrar hennar voru hjónin Anna Konráðsdóttir og  Vernharður Karlsson. Þau eru bæði látin. Fanney ólst upp með þremur systrum.

Elst var

Margrét Vernharðsdóttir, síðan 

Fanney Vernharðsdóttir,

Anna Vernharðsdóttir og 

Jóhanna Vernharðsdóttir. 

Eru tvær þeirra á lífi, Anna búsett í Keflavík og Jóhanna á Siglufirði.

Fanney Vernharðsdótt - Ljósmynd Kristfinnur

Fanney Vernharðsdótt - Ljósmynd Kristfinnur

Fanney giftist Skarphéðinn Guðmundsson hinn 14. febrúar 1948, hann lést 9. desember 2003.

Þau eignuðust fimm börn: 

1) Guðmundur Jón Skarphéðinsson, (Guðmundur Skarphéðinsson vélsmiður) Maki Elín Anna Gestsdóttir og eiga þau þrjár dætur og tíu barnabörn. 

2) Anna Margrét Skarphéðinsdóttir, á hún þrjár dætur og sjö barnabörn, þar af er eitt látið. 

3) Sigríður Katrín Skarphéðinsdóttir, sambýlismaður hennar er Sveinn Ástvaldsson og eiga þau fjóra syni og átta barnabörn. 

4) Vernharður Skarphéðinsson, maki Hólmfríður Helga Jósefsdóttir og eiga þau sex börn og eitt barnabarn: 

5) Guðfinna Jóna Skarphéðinsdóttir, maki Þröstur Ingólfsson og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn.

Útför Fanneyjar fór fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, laugardaginn 14. janúar 2012, 

Það er oft erfitt að kveðja góða konu og á það svo sannarlega við núna. Er mér efst í huga þakklæti fyrir að vera svo lánsamur að hafa átt þig fyrir móður. Það er og verður alltaf órjúfanlegur kafli í minningu minni allur sá yndislegi tími sem ég átti með þér. Móðir mín var alla tíð mikil fjölskyldumanneskja og lagði ríka áherslu á að hlúa vel að fjölskyldu sinni og styðja börnin í leik og starfi.

Eftir að ég eignaðist fjölskyldu var alveg sama hvenær við þurftum á barnapössum að halda, foreldrar mínir voru ætíð tilbúnir að koma og passa dætur okkar. Móðir mín vann ýmis störf, síldarsöltun, fiskvinnslu o.fl. Á heimili foreldra minna kom frænka mín Margrét Konráðsdóttir 2. nóvember 1963.

Hún var lömuð og rúmföst og önnuðust þau hana í tæp þrjátíu og sex ár og var það ótrúleg vinna sem móðir mín lagði á sig við umönnun á henni. Öll þessi ár fóru þau aldrei í sumarfrí eða í neitt annað frí. Það var hennar mottó að hugsa vel um frænku sína og heimilið og fyrir það vil ég þakka sérstaklega.

Aldrei var skortur á neinu, sama hvenær maður kom í heimsókn á heimili foreldra minna, eldhúsborðið var alltaf fullt af tertum og öðru góðgæti. Eftir að frænka okkar, hún Margrét, féll frá varð foreldrum mínum að ósk sinni að fara til Dýrafjarðar þaðan sem faðir minn var ættaður. Sigríður systir mín og Sveinn maður hennar fóru með þau í nokkra daga vestur. Síðan í ágúst 2010 hafði mamma dvalið á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar á Siglufirði og fengið alla þá góðu umönnun sem hún þurfti á að halda.