Tengt Siglufirði
Þann 10. desember, andaðist af slysförum þann 10. desember 1989 Fjólmundur Karlsson vélsmíðameistari, Berg landi 2, Hofsósi. Hann fæddist í Garði í Ólafsfirði þann 16. júlí 1922.
Faðir hans var Karl Guðvarðarson og Sólveig Rögnvaldsdóttir, og bjuggu þau allan sinn búskap í Garði, Ólafsfirði. Fjólmundur var fimmta barn af sjö systkinum og eru öll hin á lífi.
Hann stundaði nám í Barna og unglingaskóla Ólafsfjarðar, en fór síðan til Grímseyjar og var þar var sjóróðra sem vélstjóri. Þaðan lá leið hans til Siglufjarðar í iðnnám og að því loknu vann hann bæði í Grímsey og Siglufirði við vélstjórn og vélavinnu. Skólagöngu lauk hann í Reykjavík.
Árið 1946 giftist hann eftirlifandi konu sinni, Steinunn H. Traustadóttir frá Grenivík, Grímsey, og eignuðust þau fjögur börn:
1) Trausti Bergland Fjólmundsson, fæddan 28. september 1945,
2) Fjólmund Bergland Fjólmundsson, fæddan 4. október 1947,
3) Kristínu Ruth Bergland Fjólmundsdóttir, fædda 17. júní 1950 og
4) Valbjörg Bergland Fjólmundsdóttir, fædda 1. september 1955.
Kjarkur og dugnaður voru aðalsmerki Fjólmundur og að vera sinn eiginn húsbóndi var það sem hlaut að verða. Hann flutti til Hofsóss 1950 til að búa í haginn fyrir fjölskylduna og ári seinna fylgdu kona og börn á eftir. Þeir byrjunarerfiðleikar sem urðu á vegi þeirra þessi fyrstu ár voru óteljandi, sem aðeins einbeitni og styrk hönd, sem aldrei missti sjónar á stefnunni, gat sigrað, ásamt því að eiga lífsförunaut sem alltaf gat búið til úr litlum efnivið það sem til þurfti.
Vélaverkstæði Hofsóss byggði hann í félagi við annan en keypti síðan hlut fé laga síns í fyrirtækinu og rak það einn í nokkur ár en seldi síðan. Árið 1965 stofnaði hann hljóðkútaverksmiðjuna Stuðlaberg hf. Rekstur Stuðlabergs þótti til fyrirmyndar bæði utan dyra og innan, og bera þær viðurkenningar er hann hlaut þess vegna, því glöggt vitni.
Síðasta viðurkenningin var er hann í október síðastliðnum var sæmdur æðsta heiðursmerki Landssamband iðnaðarmanna úr gulli fyrir framúrskarandi störf í þágu iðnaðar og iðnaðarsamtaka á Íslandi. Hann taldi veg iðnaðar á Íslandi bæði grýttan og torsóttan og það hugvit sem við ættum í fórum okkar á Íslandi ætti sér enga hliðstæðu og við gætum verið stolt af.
Seinustu árin var hann farinn að gefa sér meiri tímatil að sinna sínum hugðarefnum og hvíldi þá allur daglegur rekstur á herðum Gunnlaugs Steingrímssonar. Áhugamálin sem voru mörg tók hann sömu tökum og allt annað sem gert var, með eldmóði.
Sumarbústaðurinn í Fljótum var byggður upp og þar var myndarlegur bústaður sem var sannkallaður unaðsreitur fyrir alla, börnin, barnabörnin, ættingjana og vinina sem voru margir og allir velkomnir. Söfnin hans voru orðin mörg og margþætt og alltaf var ánægjan mikil þegar eitthvað bættist við, en mesta ánægjan var þó þegar auka eintak barst og hægt var að láta vinina í safnarahópnum hafa líka.
Honum voru falin ýmis trúnaðarstörf á vegum hrepps og félagasamtaka og engum duldist að hann hafði skoðanir á mönnum og málefnum og fór ekki leynt með hverjar þær voru.
Heimilið á Berglandi ber þeim fagurt vitni sem það sköpuðu, og hlýjan og persónuleikinn tala þar til okkar.
En hann pabbi okkar er dáinn. Hann sem taldi alltaf að árstíðirnar væru unaðstími hver fyrir sig, en jólin sú ljóssins hátíð sem væri kraftaverkið mikla. Hann pabbi var kletturinn okkar sem alltaf upp úr stóð í boðaföllum og brimi lífsins.
Hann kenndi okkur að elska náttúruna og virða. Hann sýndi okkur með sínu fordæmi, að mesta gleðin væri fólgin í því að gleðja aðra. Hann lét okkur skilja að viðskilnaður væri það sem koma skyldi, en ást hans til okkar allra mundi alltaf lifa og að hinsta kveðja milli ástvina væri ekki til. Við hittumst öll aftur og hann er enn sem fyrr að búa í haginn. Með ást og þakklæti.
Trausti, Fjólmundur, Kristín Ruth og Valbjörg.