Fridel Bjarnason Siglufirði

Fridel Bjarnason. Fædd 18. apríl 1899 Dáin 9. marz 1982  -

Siglfirðingar kvöddu þann 16. mars mikla heiðurskonu, sem setti svip sinn á þennan bæ og sem dvaldi öll sín beztu ár hér, þó útlend væri að ætt og uppruna.

Það var vissulega mikil gæfa fyrir Ásgeir Bjarnason, son sr. Bjarna Þorsteinssonar tónskálds, er þá var við nám í rafmagnsverkfræði í Karlsruhe í Þýskalandi, er hann gekk að eiga þá konu, sem hér er kvödd, því hún reyndist mikil húsmóðir og góður lífsförunautur þau 39 ár, er þau bjuggu saman, eða allt þar til Ásgeir andaðist þann 5. september 1960.

Fridel var fædd 18. apríl 1899 í Karlsruhe í Baden í Þýzkalandi. Foreldrar hennar voru Karólína og Hohann Franz og bræður hennar eru tveir Adolf og Hermann. Hefir það vart verið sársaukalaust að yfirgefa ættmenni sín og ættland til að dvelja við hlið eiginmanns síns í afskekktum bæ á Íslandi norður við heimskaut.

Fridel Bjarnason - ókunnur ljósmyndari

Fridel Bjarnason - ókunnur ljósmyndari

En þrátt fyrir fjarlægð og ókunnugleika á landi og þjóð og vart mælandi á íslenzka tungu, þá var ekkert hik eða efi í huga þessarar ungu, geðþekku konu; fyrir guði hafði hún lofað að standa við hlið eiginmanns sína í blíðu og stríðu og það heit skyldi haldið þar til yfir lyki, og það gerði hún vissulega með þeirri reisn, sem einkenndi allt hennar líf. Það var gagnkvæm ást, er náði út yfir gröf og dauða.

Þau áttu fallegt heimili að Hvanneyrarbraut 35, hér í bæ, sem bar merki smekkvísi húsfreyjunnar og þangað var gott að koma; þar ríkti hlýja og gestrisni — og ógleymanlegur var húsbóndinn, gagnmenntaður og fjölfróður og með afbrigðum músikalskur eins og hann átti kyn til. Stundum greip hann í píanóið og voru það óviðjafnanlegar stundir fyrir þá er á hlustuðu. Garðurinn við heimili þeirra var sá reitur, sem Fridel undi sér hvað bezt við er vora tók. Var hún þar flestum stundum að hlúa að gróandanum með þeirri nákvæmni og natni er var svo rík í lundarfari hennar.

Það sem einkenndi hjónaband þeirra var hin mikla virðing og ást er þau auðsýndu hvort öðru. Skapstilling var hennar aðall, þegar eiginmaður hennar átti við veikindi að stríða nokkrum sinnum í hjúskapartíð þeirra, var hún eins og klettur, haggaðist aldrei heldur sýndi óbilandi kjark og trúfestu þegar mest á reyndi.

Heimili hennar var sá möndull, er allt hennar líf snérist um. Hún lagði sinn skerf í þá þjóðfélagsbyggingu, sem íslenzk menning hefir grundvallast á gegnum aldir — þar sem heimilið er hinn trausti hornsteinn — og innan vébanda heimilisins naut hún sín bezt. En Fridel var einnig félagshyggjumanneskja, starfaði til dæmis um langt ára bil í kvennadeildinni Vörn hér í bæ og var gerður þar heiðursfélagi.
Börnin hennar þrjú,

  • Sigrid Fridel, (Hamelý Bjarnason)
  • Arnold Beinteinn  (Arnold Bjarnason og
  • Henning Ásgeir (Henning Bjarnason) — ól hún upp á sama hátt og það uppeldi er hún og eiginmaður hafði fengið og byggt var á reglusemi, heiðarleika og vinsemd — þetta voru þau leiðarljós er þau fengu í veganesti og sem þau aldrei geta fullþakkað.

Trúlega hefir heimþráin á stundum gripið Fridel á dimmum skammdegisdögum fjarri ættfólki sínu en það var aldrei merkjanlegt, hún bar ekki tilfinningar sínar á torg. Hún átti marga góða vini hér í bæ, sem kunnu vel að meta þessa mannkostakonu. Hún var ekki allra en trygg vinum sínum.

Hún átti ríka kímnigáfu og frásagnarmáti hennar var sérlega skemmtilegur. Þegar að því kom að hún ákvað að selja hús sitt hér í bæ þá var það ekki sársaukalaust en þar sem börnin hennar voru búsett í Reykjavík og nágrenni og maður hennar látinn, þá vildi hún gjarnan vera nálægt þeim og barnabörnum sínum, er hún unni mjög, en þau eru nú tíu að tólu.

Eftir að hún kom til Reykjavíkur, heimsótti hún tíðar æskustöðvar sínar í Þýskalandi, en aldrei held ég að það hafi hvarflað að henni að eyða síðustu æviárum sínum þar, til þess var hún of tengd Íslandi og öllu því sem íslenzkt er — og trúlega hefir hún verið meiri Íslendingur heldur margir þeir, sem hér eru fæddir og uppaldir. Það var ánægjulegt að sjá þessa spengilegu konu á götu. Það var áberandi reisn yfir öllu hennar fasi, allt að endalokum. Hún bar virðingu fyrir lífinu og öllu sem lífsanda dró.

ÖIl hennar breytni bar vott um trú á guð og hið góða í lífinu. Börnin hennar reyndu eftir megni að létta henni síðustu æviárin og virtist hún una hlutskipti sínu vel þar syðra, þó oft hafi hugurinn sjálfsagt leitað til Siglufjarðar og engin tilviljun er það að hún hafði valið sér grafreit við hlið ástvinar síns er hún batzt ástar og tryggðarböndum fyrir rúmum sextíu og einu ári eða 26. janúar 1921. Nú er þessi góða kona öll og siglfirzk mold umlykur hana, þar sem hún var lögð til hvílu við hlið ástvinar síns og þá má taka undir með skáldinu góða, sem sagði:

  • Háa skilur hnetti, himingeimur
  • blað skilur bakka og egg
  • en anda; sem unnast
  • fær aldregi eilífð aðskilið.

Hinn siglfirzki fjallahringur mun vaka yfir moldum þeirra, — óbifanlegur og traustur eins og skapgerð þeirra hjóna var.

Guð blessi minningu þeirra. Óli J. Blöndal