Gestur Helgi Fanndal kaupmaður

Gestur Fanndal kaupmaður á Siglufirði fæddist í Haganesvík í Fljótum í Skagafirði hinn 10. júlí 1911. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar aðfaranótt 2. desember 1995

Foreldrar hans voru Sigurður Jóhann Sveinsson Fanndal kaupmaður, f. 6.4. 1876, d. 14.10. 1939, og Soffía Gísladóttir Fanndal, f. 5.4. 1877, d. 4.7. 1966. 

Hann átti þrjú systkini:

2) Svava Fanndal Valfells, f. 5.9. 1913, d. 25.5. 1991; 

3) Dagmar Fanndal, f. 24.9. 1915; og 

4) Georg Fanndal, f. 13.7. 1917, d. 12.1. 1970. 

Gestur Fanndal -  Ljósmynd: Kristfinnur

Gestur Fanndal - Ljósmynd: Kristfinnur

Eftirlifandi kona Gests er Guðný Sigurbjörnsdóttir Fanndal (Guðný Fanndal) frá Seyðisfirði, f. 4.3. 1913. 

Börn þeirra eru: 

1) Sigurður Fanndal, f. 2.10. 1942, býr á Siglufirði, maki Rannveig Pálsdóttir og eiga þau fjögur börn; 

2) Sigurbjörn Fanndal, f. 17.6. 1948, býr í Reykjavík, maki Hrönn Ágústsdóttir og eiga þau þrjú börn. 

Stjúpdóttir Gests, dóttir Guðnýjar, er Erla Jóhanna Þórðardóttir, f. 19.2. 1938, býr í Reykjavík, maki Valur Páll Þórðarson og eiga þau fjögur börn.

Gestur Fanndal hóf verslunarrekstur árið 1934 og rak verslun á Siglufirði samfleytt í 57 ár ásamt ýmsum öðrum rekstri. Rauði kross Íslands sæmdi hann gullmerki sínu, og árið 1992 sæmdi forseti Íslands hann hinni íslensku fálkaorðu
===============================

Gestur Fanndal
"Hann Gestur afi er dáinn, Palli minn."

Þessi orð hljómuðu svo óraunverulega þegar faðir minn hringdi í mig á laugardagsmorguninn síðasta. Ég trúði því ekki að afi, þessi hressi og duglegi maður hefði kvatt svo snögglega, en maður huggar sig við að þetta hafi verið alveg eins og hann vildi hafa það, með stæl, 40 mínútum eftir að hann gekk sjálfur óstuddur út um horndyrnar á búðinni sinni út í bíl læknisins var hann allur. Engin sjúkrahúslega, ekki byrði á neinum.

Ég tel það forréttindi að hafa átt afa eins og Gest Fanndal. Hann hafði alltaf tíma fyrir mann þegar komið var í heimsókn. Þá lagði hann frá sér það sem hann var að gera, fór inn á kontór, hellti kaffi í tvær stórar kapteinskönnur, hallaði sér aftur í stólnum, krosslagði hendurnar yfir magann og spurði svo: "Hvað er að frétta, sonur?" þótt ég væri sonarsonur hans.

Margar góðar minningar koma upp í hugann síðan í bernsku. Þegar afi leyfði mér að opna einn búðarkassann í búðinni sinni í fyrsta skipti þá náði hakan akkúrat upp á borðbrúnina og þegar að peningaskúffan skaust út lenti hún beint í andlitinu á mér með tilheyrandi blóðnösum og gráti. 

Ótal ferðir fór ég með afa út á flugvöll í gamla Land-Rovernum en flugsamgöngur við Siglufjörð voru hans helgasta áhugamál alla tíð og fékk hann Fálkaorðuna 1993 fyrir að stuðla að bættum samgöngum við Siglufjörð og var vel að henni kominn.

Hann var fyrsti umboðsmaður land- flugfélaganna sem flugu til Siglufjarðar frá 1955 til 1992. 

Fyrst Flugsýn, síðan Vængir, Arnarflug og síðast Íslandsflug, og þegar þeir sögðu honum upp umboðsmannsstarfinu 81 ára gömlum, var hann mjög ósáttur við það. 

Hann gat alveg leikandi gert þetta áfram eins og hann hafði alltaf gert.

Áður en farþegaflugskýlið sem hann "lét" byggja var byggt fór allt fram í Land-Rovernum, farþegarnir settust inn hægra megin, í miðju sætinu var taskan með farseðlunum í og afi skrifaði farseðlana með stýrið fyrir borð, síðan kallaði flugvélin í fjarðarkjaftinum í gömlu talstöðina í bílnum, sem aldrei heyrðist í þegar mest lá við og þá var veðrið gefið án allra mæla; vindurinn ekki í hnútum og gráðum heldur norðan gola, sunnan andvari, o.s.frv., skýjahæð ekki í fetum heldur yfir Hvanneyrarskálinni, svo þið sjáið ljósið í sjónvarpsendurvarpinu, flennibjartur o.s.frv.

Já, margir reyndustu og fræknustu flugmenn landsins fengu sína eldskírn hjá afa þegar hann sagði þeim skilmerkilega og tæpitungulaust hvernig ætti að fljúga í Siglufirði. Mislíkaði þessum flughetjum það oft. Síðar virtu þeir allir afa umfram aðra. Sýndu þeir það með kveðjum, kortum og gjöfum síðar.

Um helgar gisti ég oft hjá afa og Guðnýju ömmu, og þar var allt í föstum skorðum. Fyrir hádegi á laugardögum var maður settur í bað, eftir hádegi var leikið sér uppi á lofti í herberginu inni af kontórnum þar sem afi sat og vann í reikningum, og síðan þegar manni leiddist leikurinn settist maður hjá afa og vildi fá að vinna í reikningum líka og það var aldrei annað en sjálfsagt.

Seinni partinn fórum við félagarnir svo niður í búð og völdum okkur í sunnudagsmatinn sem amma eldaði svo ógleymanlega. Á sunnudagsmorgun var farið á flugvöllinn að afgreiða flugið, síðan beint heim í steikina hjá ömmu sem var alltaf borðuð inni í borðstofu og þá voru sko hvítar stífstraujaðar léreftsservíettur og silfurhnífapörin notuð.

Á eftir var teflt, spilað eða afi fór að segja manni sögur úr mannkynssögunni, af hershöfðingjum eins og Alexander mikla, Napoleon, Hitler og Patton eða fljótunum miklu í Síberíu. Afi sagði svo skemmtilega frá þessu öllu að maður lifði sig inn hverja stórorustuna af annarri og reyndi af öllum mætti að ímynda sér hvernig hinir og þessir generálar og hershöfðingjar gátu losnað úr herkvíum og búið til fleyga til að sleppa úr höndum óvinanna. En allt var þetta í föstum skorðum og aldrei breytt út af vananum. Afi átti nefnilega eitt uppáhalds orðatiltæki: "Þetta var svona, er svona og verður svona."

Ekki er hægt að láta hjá líða að minnast á hnyttin svör sem hann gat gefið. Eitt sinn var hringt og spurt um flugið, leiðindaveður var, snjókoma og hvasst. Hann svaraði: "Ef þú sérð um veðrið skal ég sjá um afganginn." Annað sem skýtur upp í hugann er þegar flugvélin var einu sinni fullbókuð. Inn í farþegaafgreiðsluna kemur einn af frammámönnum þjóðarinnar og þarf að komast suður í einum grænum hvelli á fund.

Fyrirmennið ber sig stórmannlega og krefst þess af afa að hann láti einhvern þeirra sem á bókað sæti sitja eftir. Afi svaraði: "Já, velkomið, ef að þér getið bent á þann sem á að sitja eftir." Þá brast stórmennið kjarkinn og hann fór út hálfsneypulegur.

Sem dæmi um lestraráhuga afa má nefna að ef einhver úr fjölskyldunni fór til Reykjavíkur var algjört skilyrði að koma með nýjustu dagblöðin til baka, svo að hann væri búinn að fá þau á undan Matta Jóhanns vini sínum. Síðan hringdi afi í Matta og sagði honum hvað væri í fréttum. Þá gátu þeir diskúterað fréttirnar fram og til baka og lá hvorugur á skoðunum sínum.

Í þau sex ár sem ég vann í búðinni hans kynntist maður afa sem stjórnanda, og jafnframt göfugmennsku hans. Ég held að flest börn sem alist hafa upp á Siglufirði hafi einhvern tíma fengið súkkulaði eða bolsjer í munninn hjá afa og þar voru synir mínir Andri og Sigurður Ingi engin undantekning. Um leið og þeir komu inn í búðina hlupu þeir í einum grænum í gegnum vöruhúsið og beint inn á kontór og upp í fangið á langafa sínum. Það mátti vart á milli sjá hver var glaðari að sjá hvern, þeir eða hann. Þar gátu þeir unað eins lengi og þeim hentaði, því afi hafði nefnilega lag á því að tala við börn eins og fullorðið fólk og byrjaði strax að kenna strákunum bókstafi, tölustafi og reikning.

Ég er stoltur af að hafa átt Gest Fanndal sem afa. Hann var einn af þeim mönnum sem hafa ráð við öllum vandamálum, og mátti auk þess ekkert aumt sjá.

Elsku Gestur afi, nú ert þú lagður upp í þína hinstu ferð og getur ferðast til allra landanna sem að þú sagðir manni frá og tekið þátt í öllum orrustunum sem við lásum saman um og þú útlistaðir svo skemmtilega. Ég veit að vegferð þín verður góð eins og þú sjálfur sáðir til.

Páll.