Gunnar Jens Þorsteinsson

Gunnar Þorsteinsson fæddist 9. júní 1938. Hann lést 18. ágúst 2017.

Móðir Gunnars var Dagmar Jensdóttir og faðir hans Þorsteinn Hannesson söngvari.

Gunnar var ungur tekinn í fóstur af föðursystur sinni Kristín Hannesdóttir, Kiddu, bóksala á Siglufirði og gekk Kidda honum í móðurstað.

Systkini Gunnars samfeðra sem Þorsteinn eignaðist með konu sinni Kristín Pálsdóttir eru:

Páll Þorsteinsson, 

Kristín Björg Þorsteinsdóttir og 

Hannes Þorsteinsson.

Gunnar bjó alla tíð á Siglufirði fyrir utan nokkur ár sem hann stundaði nám við Heyrnleysingjaskólann í Reykjavík. Gunnar var starfsmaður Iðju á Siglufirði meðan heilsa leyfði.

Gunnar Þorsteinsson, ljósm. ?

Gunnar Þorsteinsson, ljósm. ?

Útför Gunnars fór fram frá Siglufjarðarkirkju

Gunnar Jens Þorsteinsson. Gunnar ólst ekki upp með okkur systkinum sínum en við vorum samfeðra. Hann var ungur tekinn í fóstur af föðursystur okkar, Kristínu Hannesdóttur – Kiddu – bóksala á Siglufirði. Samgangur var þó mikill; við systkinin dvöldum oft hjá þeim mæðginum á Sigló á sumrin og þau heimsóttu og dvöldu hjá okkur í Kópavoginn.

Gunnar var gæfumaður í lífinu. Hann fékk dásamlegt uppeldi hjá Kiddu sem elskaði þennan myndarlega son sinn skilyrðislaust. Og Gunnar var afskaplega hændur að Kiddu.

Skólaganga Gunnars var ekki löng eins og oft vill verða með fatlað fólk – hvað þá á þeim tímum sem hann var að alast upp. Hann var þó í nokkur ár í Heyrnleysingjaskólanum og Kidda talaði oft um að þær hefðu verið erfiðar kveðjustundirnar þegar hann var skilinn eftir á heimavistinni.

Á unga aldri var Gunnar sundmaður mikill og hafði krafta í kögglum sem hann var stoltur af.

Hann var einnig einstaklega handlaginn og eftir hann liggja mörg undurfalleg flugvélamódel sem hann setti saman af mikilli þolinmæði enda mikill áhugamaður um flug og flugvélar.

Þegar Gunnar nálgaðist fimmtugt þá var opnað á Siglufirði sambýli að Lindargötu 2 og þangað flutti hann skömmu eftir opnun. Og Kiddu var mikið létt – nú væri Gunnar í öruggu skjóli eftir að hennar nyti ekki við.

Gunnar ferðaðist nokkrum sinnum til sólarlanda með sambýlingum sínum og starfsfólki sambýlisins og naut þess að sitja í sólinni og skoða mannlífið. Og ekki síður naut hann þess að klæða sig upp og fara út að borða á hlýju sumarkvöldi.

Gunnar elskaði mat og ekki síður elskaði hann þá sem bjuggu til matinn fyrir hann og kunni vel að þakka fyrir sig.

Ég var svo lánsöm að geta fagnað með honum bæði sextugs- og sjötugsafmæli hans. Þegar hann varð sextugur vorum við tvö systkina hans á ferð með Dómkórnum á Siglufirði og í upphafi veislunnar mætti kórinn og söng nokkur lög. Og það sem minn maður var glaður. Þó hann heyrði ekki einn tón þá fann hann tónlistina. Skáldið Bill Holm var með kórnum í þessari ferð og skrifaði stórskemmtilega um þessa uppákomu í bók sinni Eccentric Islands.

Á sjötugsafmælinu hélt hann líka flotta veislu og var í tilefni dagsins heiðraður af skátunum. Það þótti honum svo sannarlega vænt um því þó hann væri ekki sjálfur skáti var Kidda mjög virk í skátastarfi.

Þegar Kidda lét af rekstri bókabúðarinnar tóku við henni Birgir Steindórsson bróðursonur hennar og kona hans Ásta Margrét Gunnarsdóttir. Þau fluttu norður með drengina sína þrjá og sá yngsti fæddist á Siglufirði. Hjá Birgi og Ástu áttu þau mæðgin skjól og var afskaplega kært með þeim.

Kidda dó 1996 og sama ár lést Birgir langt um aldur fram. Ásta sýndi Gunnari alltaf jafna mikla hlýju og var honum einstaklega góð. Fyrir það vil ég þakka henni sérstaklega.

Að lokum við ég þakka öllu heimilisfólkinu á sambýlinu góð kynni og starfsfólki fyrr og nú þakka ég einstaka umönnun og elskulegheit.

Hvíl í friði, kæri Gunnar. Þín systir, Kristín Björg Þorsteinsdóttir