Gunndóra Jóhannsdóttir, af öllum kölluð, en hét fullu nafni Guðrún Steindóra Jóhannsdóttir

Gunndóra Jóhannsdóttir fæddist á Siglufirði 31. janúar 1919. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 28. september 2005. 

Foreldrar Gunndóru voru hjónin  Marsibil Herdís Baldvinsdóttir,  - Baldvin Jóhannsson, útvegsbóndi á Siglunesi, f. 22. apríl 1884, d. á Kristneshæli 25. febrúar 1923, og Jóhann Jóhannsson, f. á Engidal við Siglufjörð 19. maí 1882, d. á Siglufirði 11. mars 1958.

  • Marsibil og Jóhann eignuðust sjö börn. Þau voru, auk Gunndóru: 
  • Jóhann Sigurður Jóhannsson, f. 9. september 1906, d. 13. júlí 1993; 
  • Baldvina Marsibil Jóhannsdóttir, f. 12. september 1908, d. 23. október 1986; 
  • Kristrún Friðrika Jóhannsdóttir, f. 15. mars 1912, d. 30. ágúst 1982; 
  • Marta Laufey Jóhannsdóttir, f. 5. apríl 1914, d. 29. júní 1989; 
  • Oddur Guðmundur Jóhannsson, f. 5. október 1915, d. 2. september 1920;  
  • Halla Jóhannsdóttir, f. 18. ágúst 1917, d. 18. maí 1975.
    Hálfsystir, samfeðra, er
  • Anna Sigurbjörg Jóhannsdóttir, f. 1927.
Gunndóra Jóhannsdóttir

Gunndóra Jóhannsdóttir

Í kjölfar alvarlegra veikinda móður sinnar var Gunndóru á fyrsta aldursári komið í fóstur til Vopnafjarðar, til Þórunn Elísabet Kristjánsdóttir ljósmóðir og Guðni Kristjánsson kaupmaður.

Og þar ólst hún upp. Hún fluttist til Siglufjarðar 1944 og bjó þar upp frá því. Gunndóra var tvígift. Fyrri maki var Sigurður Einarsson smiður, ættaður úr sveitinni við Vopnafjörð, f. 26. apríl 1900, d. 10. ágúst 1969. Þau skildu eftir fimm ára hjúskap. Þau voru barnlaus. 

Seinni maki var Herbert Sigfússon málarameistari á Siglufirði, f. 18. maí 1907, d. 19. júní 1984. Þeim varð ekki heldur barna auðið. 

Útför Gunndóru var gerð frá Siglufjarðarkirkju 
--------------------------------------------------------------

Nú er frænka mín, hún Gunndóra, búin að kveðja þetta líf, 86 ára gömul. Mig langar í fáeinum orðum að minnast hennar. Hún fæddist á Siglufirði, var yngst sjö barna þeirra hjóna

Marsibil Herdísar Baldvinsdóttur og Jóhanns Jóhannssonar. 

Þegar móðir hennar veiktist alvarlega tvístraðist þessi stóri hópur og var að mestu komið til ættingja og vina. Gunndóra, sem þá var á fyrsta aldursári, er sett í fóstur til merkishjóna í Vopnafirði, þeirra Þórunnar Elísabetar Kristjánsdóttur ljósmóður og Guðna Kristjánssonar kaupmanns. Áður höfðu þau tekið að sér systurson Guðna, sem hét Guðni Þórarinn Jónsson (mublusmiður) og var fimm árum eldri en Gunndóra.

Gunndóra gekk í skóla á Vopnafirði og átti þar góða æsku. Hún talaði oft um það hve heppin hún hefði verið að fá að alast þar upp og hversu góða fósturforeldra hún hefði fengið.

Gunndóra var tvígift. Hún giftist 19 ára Sigurði Einarssyni smið, sem var ættaður úr sveitinni við Vopnafjörð. Var hún gift honum í fimm ár. Til Siglufjarðar kom hún í nóvember 1943, 24 ára gömul, að heimsækja systkini sín og fjölskyldur þeirra. Hún dvaldi ekki lengi í þetta sinn, en í febrúar á næsta ári kom hún aftur og þá alkomin. 

Seinni maður Gunndóru var Herbert Sigfússon málarameistari. Hann var einnig listamaður, málaði landslagsmyndir svo eitthvað sé nefnt og varð þekktur fyrir. Hann hélt líka margar sýningar sem fengu góða dóma.
Herbert var skemmtilegur maður og ekkert skrýtið að Gunndóra skyldi hrífast af honum. Gunndóra stundaði alla almenna vinnu. Má þar t.d. nefna vinnustaðina Ísafold, Siglósíld og Þormóð ramma. Hún var eftirsóttur starfskraftur, samviskusöm og dugleg.

Gunndóra tók virkan þátt í margs konar félagsstarfi í Siglufirði og ber þar e.t.v. hæst störf fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Sjálfstæðiskvennafélagið. Átti flokkurinn vissulega hauk í horni þar sem hún var. Hún var einlæg og kát að eðlisfari, það sýndi hún best síðustu mánuðina sem hún lifði. Hún hélt kjarki og reisn til hinstu stundar.

Henni varð ekki barna auðið, en kött einn átti hún til margra ára og þótti sérlega vænt um hann. Til marks um það er, að þegar hann dó var hann settur í kistu og Nýja testamenti með honum og hann jarðaður með viðhöfn í garði þeirra hjóna á Siglufirði. Einnig var hún góð við önnur dýr, og gaf fuglunum mat í vetrarhörkum.

Nú þegar Gunndóra er farin, rifjast upp minningar frá liðnum dögum. Hún var alltaf tilbúin að hjálpa öðrum, hún vildi öllum vel.

Starfsfólki Heilbrigðisstofnunarinnar á Siglufirði þakka ég góða umönnun hennar.

Með hryggð í huga kveð ég kæra móðursystur mína, með þakklæti fyrir samverustundirnar.

Vafalaust var erfið oft þín stund, nú er því lokið. - 

Heil á Drottins fund. 

Brynja Stefánsdóttir.