Gunnlaugur Haraldsson yfirmatsmaður

Gunnlaugur Haraldsson yfirmatsmaður Fæddur 7. september 1928 Dáinn 23. mars 1992

Foreldrar hans voru Guðný Jónsdóttir, f. 21. júlí 1894, d. 11. janúar 1977, og Haraldur Gunnlaugsson, f. 4. desember 1898 og d. 1. mars 1992.  Þau bjuggu á Siglufirði frá 1936, en síðar í Kópavogi.

Systkini Gunnlaugs voru:

 • Unnur Valdimarsdóttir, f. 24. nóvember 1914, d. 25. nóvember 1918;
 • Ásta Þóra Valdimarsdóttir, f. 11. október 1915, d. 28. desember 1996;
 • Hörður Haraldsson, skipasmiður, f. 25. janúar 1921, d. 2. ágúst 1995, hann var kvæntur Svövu Jónsdóttur;
 • Unnur Haraldsdóttir húsmóðir í Reykjavík, f. 26. september 1923, gift Þórði Kristjánssyni húsasmiði;
 • Þuríður Haraldsdóttir, f. 6. desember 1924, d. 22 apríl 2002, gift Bjarna Sigurðssyni; 
 • Ágústa Haraldsdóttir húsmóðir í Hafnarfirði, f.12. júlí 1927, gift Árna Guðmundssyni skrifstofumanni;
 • Gunnlaugur Ingi Haraldsson, matsmaður, f. 7. september 1928, d. 23. mars 1992, kvæntur Önnu Vignisdóttur;
 • Kolbrún Haraldsdóttir, f. 6. júlí 1934, gift Hafsteini Sölvasyni; Regína Haraldsdóttir, f. 26. desember 1936, d. 31. desember 1936;
 • Herdís Haraldsdóttir sérkennari, f. 21. apríl 1938.
  -----------------------------------------------
Gunnlaugur Haraldsson - 
Ljósmynd: Kristfinnur

Gunnlaugur Haraldsson -
Ljósmynd: Kristfinnur

Gunnlaugur Haraldsson yfirmatsmaður naut mikillar virðingar samstarfsmanna sem og annarra er til hans verka þekktu í sjávarútvegi.  Þekking hans á veiðum sem vinnslu sjávarfangs var yfirgripsmikil og í starfi sínu miðlaði Gunnlaugur öðrum af þekkingu sinni og reynslu og sinnti þannig ómetanlegu starfi fyrir íslenskan sjávarútveg.

Gunnlaugi kynntist ég fyrir rúmum fimm árum er ég hóf störf hjá Ríkismati sjávarafurða en þekkti fyrir son hans Harald, en við Haraldur sátum saman á skólabekk nokkrum árum fyrr. Allt viðmót Gunnlaugs var sérlega hlýlegt og jákvætt auk þess sem glettnin var aldrei langt undan.

Gunnlaugur sinnti sérstaklega úttektum og gæðamati á saltsíld á síðari árum og var hann í hópi færustu matsmanna landsins á því sviði, auk þess sem hann hafði með höndum framleiðslueftirlit og mat á öðrum afurðum s.s. skreið, saltfiski og frystum fiski. Ósérhlífni og vinnusemi einkenndu Gunnlaug og var hann oft langtímum saman fjarri heimili sínu og ástvinum þegar álag var mikið m.a. við yfirtöku á saltsíld.

Við samstarfsfólk Gunnlaugs erum þakklát fyrir að hafa mátt njóta þess að hafa kynnst honum og fengið að starfa með honum í gegnum árin. Gunnlaugur var eins og ljósið sem gefur frá sér birtu og yl og þannig munum við minnast hans um ókomin ár.

Þá viljum við starfsmenn hjá Ríkismati sjávarafurða votta fjölskyldu Gunnlaugs innilega samúð okkar við fráfall hans.

Gísli Jón Kristjánsson fiskmatsstjóri.