Lóreley Haraldsdóttir

31. október 2014 

Lóreley Haraldsdóttir fæddist á Akureyri 21. febrúar 1932. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 23. október 2014.

Foreldrar hennar voru Guðný Jónsdóttir, f. 21. júlí 1894, d. 11. janúar 1977, og Haraldur Gunnlaugsson, f. 4. desember 1898 og d. 1. mars 1992.
Þau bjuggu á Siglufirði frá 1936, en síðar í Kópavogi. Systkini Lóreleyjar voru:

Unnur Valdimarsdóttir, f. 24. nóvember 1914, d. 25. nóvember 1918;

Ásta Þóra Valdimarsdóttir, f. 11. október 1915, d. 28. desember 1996;

Hörður Haraldsson, skipasmiður, f. 25. janúar 1921, d. 2. ágúst 1995, hann var kvæntur Svövu Jónsdóttur;

Unnur Haraldsdóttir húsmóðir í Reykjavík, f. 26. september 1923, gift Þórði Kristjánssyni húsasmiði;

Lóreley Haraldsdóttir

Lóreley Haraldsdóttir

Þuríður Haraldsdóttir, f. 6. desember 1924, d. 22 apríl 2002, gift Bjarna Sigurðssyni;

Gunnlaugur Haraldsson, f. 4. desember 1925, d. 17. júní 1926;

Ágústa Haraldsdóttir húsmóðir í Hafnarfirði, f.12. júlí 1927, gift Árna Guðmundssyni skrifstofumanni;

Gunnlaugur Ingi Haraldsson, matsmaður, f. 7. september 1928, d. 23. mars 1992, kvæntur Önnu Vignisdóttur;

Kolbrún Haraldsdóttir, f. 6. júlí 1934, gift Hafsteini Sölvasyni;

Regína Haraldsdóttir, f. 26. desember 1936, d. 31. desember 1936; Herdís Haraldsdóttir sérkennari, f. 21. apríl 1938.

Hinn 24. júní 1961 giftist Lóreley Sigþóri Lárussyni, f. 14. maí 1921, d. 27. janúar 2005. Foreldrar hans voru Guðrún Halldóra Eiríksdóttir, f. 16. október 1892, d. 17. nóvember 1967, og Lárus Sigurðsson, f. 13. ágúst 1875, d. 18. mars 1924.

Þau Lóreley og Sigþór eignuðust eitt barn, Harald, sem er deildarstjóri á Samgöngustofu, f. 25. september 1961. Hann er kvæntur Esther Hlíðar Jensen, jarðfræðingi á Veðurstofunni, f. 1. janúar 1969.

Dóttir hennar er Inga María Árnadóttir, f. 2. ágúst 1991. Sonur Haralds og Estherar er Sigþór, f. 5. ágúst 2005.

Lóreley ólst upp á Siglufirði. Hún fluttist síðan til Reykjavíkur, þar sem hún vann við afgreiðslustörf. Árið 1953 var hún þjónustustúlka í Noregi. Hún vann lengi hjá Verslunarbankanum, var heimavinnandi um hríð, en árið 1977 söðlaði hún um og hóf nám við Sjúkraliðaskólann. Hún útskrifaðist þaðan árið 1980 og vann eftir það hjá Barnadeild Hringsins á Landspítalanum allt til ársins 2002. Í frístundum málaði hún á postulín og vann ýmist annað handverk.

Útför Lóreleyjar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 31. október 2014, og hefst athöfnin klukkan 13.
------------------------------------------

Í dag kveðjum við vinkonu okkar til margra ára, Lóreley Haraldsdóttur eða Lóló eins og hún var alltaf kölluð.

Okkar vinskapur byrjaði í kringum árið 1960 í Verslunarsparisjóðnum og síðar Verslunarbankanum. Fljótlega stofnuðum við saumaklúbb og urðum afar nánar, hittumst tvisvar í mánuði lengi vel. Síðari ár bættust makar við í jólakaffi og ferðir í sumarbústaði. Lóló hætti bankastörfum og lærði til sjúkraliða og starfaði á Barnaspítala Hringsins og þar naut hún sín vel.

Hún Lóló okkar var kát og skemmtileg kona, afar listræn á hvað sem hún tók sér fyrir hendur, málaði mikið á postulín en það lærði hún í Noregi er hún dvaldi þar. Síðustu ár hafa verið erfið fyrir elsku Lóló og er hún kært kvödd.

Innilegar samúðarkveðjur til Haraldar og fjölskyldu. Guð blessi minningu Lólóar okkar.

Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Alda Dagmar, Auður, Bergljót, Hrafnhildur, Inga Dóra, Katrín, Maja Veiga og Ragnheiður.
------------------------------------

Elsku Lóló eins og hún var alltaf kölluð hefur hvatt þennan heim.

Þegar við hugsum til hennar minnumst við þess er við unnum saman á barnadeild Hringsins. Lóló var alltaf kát og glöð og börnin elskuðu hana, í gríni kynnti hún sig fyrir börnunum með orðunum „ég er Lóló prinspóló“. Þetta fannst þeim fyndið. Hvenær sem Lóló birtist kom hún með gleði og kátínu sem fyllti allt herbergið hjá veiku börnunum. Hún var svo gefandi og natin við börnin. Þvílíkur persónuleiki er vandfundinn.

Oft var spurt hvort Lóló væri að vinna, svo kom bros á vangann þegar börnin vissu að hún væri á vaktinni eða kæmi á þá næstu. Enn þann dag í dag kemur fólk til okkar sem átti veik börn á þessum tíma og rifja upp allt sem Lóló gerði. Þvílíkur gleðigjafi sem hún var. Við unnum oft saman á kvöldvöktum. Eftir erfiða vakt var stundum farið á Bæjarins bestu til að spjalla og borða pylsur. Ekið var niður Laugaveginn, hlegið og gantast í bílnum.

Lóló var margt til lista lagt. Hún málaði mikið af postulíni. Fórum við nokkrum sinnum á námskeið til hennar. Hún sýndi mikla þolinmæði og var frábær listakona. Hún prjónaði, saumaði, yfirdekkti mublur og fleira.

Sambandið við Lóló var náið. Hringdi hún í okkur næstum á hverjum degi áður en hún veiktist, sagðist þurfa að heyra í okkur því það væru svo sterk tengsl á milli okkar. Rædd voru lífsins mál bæði erfið og gleðileg. Gátum við stutt hvor aðra og uppörvað þegar þess þurfti.

Saman fórum við í leikfimi. Hún var ótrúlega liðug, komin á þennan aldur. Alltaf var hún kát og glöð og til í ýmislegt. Hvar sem hún var geislaði gleði frá henni. Var þá rölt í bæinn, sest á kaffihús og spjallað.

Þegar Lóló fékk nöfnu geislaði frá henni og var hún skírnarvottur hennar. Hún spurði oft um hana og vildi fá myndir af henni.

Já, það sem má segja um Lóló er að hún var dugnaðarforkur, barngóð, mikil listakona og mikill gleðigjafi.

Elsku Lóló, takk fyrir allar minningar sem við áttum saman, þær gleymast seint.

Elsku Haraldur, Ester, Inga María og Sigþór við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Hann mun ekki láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki. Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann vörður Ísraels. Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein né heldur tunglið um nætur. Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína. Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

(Sálmur 121)

Kær kveðja. Vinkonur þínar, Ólöf og Hendrikka (Henna).