Gunnlaugur Pálsson

Gunnlaugur Pálsson ­ Siglufirði Fæddur 21. maí 1963 - Dáinn 26. júlí 1988

Það eina sem við mennirnir eigum víst í þessari jarðvist okkar er dauðinn.
Dauðinn er óumflýjanleg staðreynd, líkn þeim öldruðu og sjúku en allt of oft er ungt fólk í blóma lífsins hrifið á brott án nokkurs fyrirvara og frá óloknu ævistarfi.
Þannig var því vissulega varið þann 26. júlí sl. þegar tveir ungir menn fórust af gúmmíbáti við Siglufjörð.

Annar þessara manna var systursonur minn, Gunnlaugur Pálsson, aðeins 25 ára gamall. 

Útför hans fór fram frá Siglufjarðarkirkju. að viðstöddu fjölmenni.

Það var 21. maí 1963 sem yngstu systur minni, Stella Einarsdóttir, og manni hennar, Páll Gunnlaugsson, fæddist sonur sem skírður var nafni föðurafa síns, Gunnlaugur, en í daglegu tali alltaf kallaður Gulli.

Gunnlaugur Pálsson -Ljósmynd DV 10. júlí 1987

Gunnlaugur Pálsson -Ljósmynd DV 10. júlí 1987

Áður voru fædd

Óli Þór

Ásdís 

Ásgrímur,

Sigurjón

Róbert. 

Gunnlaugur ólst upp með systkinum sínum við mikið ástríki á góðu og myndarlegu heimili. Eins átti hann góða að, þar sem voru móðurforeldrar hans, þau Dórothea og Einar, sem nú er látinn, og Ásgrímur móðurbróðir hans á Grundargötu.

Að hefðbundnu skólanámi loknu tók vinnan við, ungur fór hann til sjós en hin síðari ár vann hann við löndun á fiski. Hann þótti góður starfsmaður og var vel liðinn af félögum sínum.

Gulli var mikið náttúrubarn, allt útilíf freistaði hans mjög. Veiðimennska var eitt af áhugamálum hans og kom hann oft færandi hendi til móður sinnar, sem svo matreiddi gómsæta rétti úr bráðinni. 

Annað áhugamál Gulla var lyftingar og áskotnuðust honum margir titlar í þeirri grein. Hann þótti sterkur vel, enda kölluðu félagar hans hann "Gunnlaug stálfingur". Árið 1985 tók hann þátt í Heimsmeistaramóti unglinga í lyftingum, sem fram fór í Þýskalandi, og komst þar í úrslit. 

Á sl. ári varð hann þriðji í röðinni þegar keppt var um titilinn sterkasti maður Norðurlands.

Árið 1982 hóf Gulli sambúð með unnustu sinni, Guðlaug Sverrisdóttir, og áttu þau orðið eigin íbúð á Hvanneyrarbraut 62, Siglufirði. 

Þau eignuðust 2 börn,

Halldóra Guðlaug Guðlaugsdóttir, fædda í september 1984, og

Pál Guðlaugsson sem fæddist í mars á þessu ári.

Gulli hlúði vel að heimili sínu og man ég hvað hann var hreykinn þegar hann tilkynnti fæðingu barna sinna. Þau fara mikils á mis að fá ekki lengur að njóta samvista við föður sinn, en þau eiga góða móður og góða að sem munu styðja þau í framtíðinni.

Frá fyrstu tíð var Gulli frændi minn mér sérstaklega kær og þó að ég og fjölskylda mín flyttum frá Siglufirði aðeins rúmu ári eftir að hann fæddist rofnuðu tengslin aldrei. Bæði var að ég hef reynt að fara norður á ári hverju og ef Gulli var hér í Reykjavík kom fyrir að hann dveldi á heimili mínu tíma og tíma.

Gulli var hlédrægur maður, jafnvel feiminn, og hafði sig lítið í frammi. Hann gat líka verið glettinn og ræðinn og munum við hjónin margar ánægjulegar stundir með honum. Í apríl sl. dvaldi ég í tvær vikur í vonskuveðri á Siglufirði. Þegar veðrinu slotaði keyrði Gulli mig upp í Varmahlíð í veg fyrir rútu sem fór til Reykjavíkur. Í för með okkur var Dóra, litla dóttir hans. Veðrið var fagurt, allt var þakið snjó svo sá ekki á dökkan díl.

Hann var glaður og ánægður með lífið og ræddum við margt á leiðinni. Þetta var í síðasta skipti sem ég sá hann. Þessi síðasta samverustund okkar verður mér alltaf minnisstæð. Þegar ég lít til baka finnst mér eins og þessi dagur hafi verið táknrænn, því eins og bjart var yfir öllu, þá er bjart yfir öllum minningum mínum um hinn látna frænda minn og vin.

Hugur minn er hjá syrgjandi ástvinum. Þau hafa öll mikið misst. Guð gefi þeim styrk í sorg þeirra.
Að leiðarlokum viljum við Páll og fjölskyldur þakka hinum unga frænda samfylgdina. Sérstakar kveðjur eru frá Einari, því þeir voru miklir mátar.

Ég vil kveðja Gulla frænda minn með þessu fallega ljóði Stephans G. Stephanssonar:

Æ vertu sæll þú sefur vel og rótt,
hér sit ég einn og minningunni fagna
og ég skal brosa og bjóða góða nótt
uns brosin dvína og vinarkveðjur þagna.

Ásta Einarsdóttir

MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 29. JÚLÍ 1988

MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 29. JÚLÍ 1988