Guðlaugur Sigurðsson (Laugi póstur)

Guðlaugur Sigurðsson f. 19-02-1891 - d. 02-07-1971 - Guðlaugur fæddist á bænum Hamri í Stíflu árið 1891 en bjó sín æskuár á Þorgautsstöðum í sömu sveit, sem síðar fór undir stöðuvatn vegna Skeiðsfossvirkjunar.

Hann flutti síðan í Haganesvík, þar sem hann stundaði hákarlaveiðar en til Siglufjarðar flutti hann um 1920 og var lengst af póstberi á staðnum.

Laugi var hagmæltur mjög og hafsjór af fróðleik um kveðskap og hina ýmsu bragarhætti. Hann setti svip á lífið á Siglufirði á sinn hægláta hátt og var fólki gjarnan innan handar við að yrkja eftirmæli, afmælisvísur og slíkt auk þess sem hann sendi frá sér ljóðakver og ljóð hans birtust í ýmsum blöðum og tímaritum. Hann lést árið 1971
----------------------  

Stutt afmælisspjall Guðlaugur 80 ára (í Mjölnir)

Hinn 19. febrúar síðastliðinn varð Guðlaugur Sigurðsson Fyrrverandi póstur, áttræður. Guðlaugur er einn af elztu, og ég hygg ég megi segja einn af vinsælustu borgurum þessa bæjar. Hann fluttist til Siglufjarðar kringum 1920, og hefur því fylgzt með vexti bæjarins í hálfa öld.

Guðlaugur Sigurðsson (Laugi póstur)

Guðlaugur Sigurðsson (Laugi póstur)

Guðlaugur liggur nú á Sjúkrahúsi Siglufjarðar, og er farinn að heilsu, en heldur þó furðanlega andlegum kröftum og man ennþá vel gamla tíð. 1 tilefni afmælisins heimsótti tíðindamaður Mjölnis afmælisbarnið, en Guðlaugur var jafnan velunnari blaðsins og sá lengi um vísnaþátt í blaðinu, en hann er, eins og kunnugt er, sjálfur ágætlega hagmæltur og sjófróður um skáldskap og vísnagerð.

— Ég er fæddur að Hamri í Stíflu, en fluttist þaðan á unga aldri að Þorgautsstöðum í -sömu sveit, þar sem ég ólst upp til fullorðins aldurs.

Þegar ég fluttist þaðan í Haganes varð mér þessi vísa af munni:

 • Æskustöðvar mínar ég allar kveð í dag,
 • og allt sem þær í skauti sínu geyma.
 • Nú er ég að flytja í næsta byggðarlag,
 • og nú finnst mér ég eiga hvergi heima.

— Hefur þessi tilfinning fylgt þér alltaf síðan?

— Lengi fannst mér ég ætti hvergi heima nema á æskustöðvunum, eins og þessi slaka gæti gefið til kynna, sem ort var þegar ég fór úr Fljótum, og var þá ekki viss í hvert mig mundi bera:

 • Nú kveð ég alla og allt, sem er mér kært
 • og allt það, sem er ekki létt að gleyma.
 • Nú finn ég að óyndið verður varla bært
 • í verstöð þeirri er á mig næst að geyma.

— Þú dvelst í Haganesi fram að þrítugsaldri, hvað vannstu aðallega á þeim árum?

 --  Ég stundaði hákarlaveiðar með Jóhanni í Haganesi. Hann var öðlingsmaður, og mér líkaði vel á sjónum. Svo stundaði ég póstferðir með Sölva Jóhannessyni milli Haganesvíkur og Siglufjarðar. Sölvi var ferðagarpur mikill og mesta hraustmenni, eins og allir Siglfirðingar vita. Hann var líka skemmtilegur ferðafélagi. Aðeins einu sinni lá nærri að við villtumst, í hríð og vondu skíðafæri. Annars var hvorugum okkar villugjarnt.

-- þú hefur sennilega ekki notið mikillar skólagöngu ?

 -- Skólagangan var engin, nema stopul farkennsla fram að fermingu; mig langaði í skóla, en það kom alltaf eitthvað sem hindraði, þegar til kastanna kom. Maður varð bara að bjargast við það, sem maður gat kennt sér sjálfur af lestri bóka. Ég hef einkum lagt mig eftir sögulegum fróðleik og kveðskap.

— Sjálfur hefur þú ort mikið. Hefurðu ekki ort rímur?

 — Jú, ég hef ort þrennar rímur og sett saman fjölda af lausavísum. Mamma mín las mikið og hafði sérstakt yndi af rímum. Eins var um Guðlaug bróður hennar. Hann kom oft og kvað fyrir hana, þegar hann hafði komizt yfir nýja rímnaflokka. Þó að margir vilji nú ekki meta rímurnar mikils, hafa þær verið aflvaki íslenzkrar tungu og eru margar listavel gerðar.

— Öfundar þú nú ekki nútímakynslóðina, sem á kost á skólagöngu og lærdómi, sem þið fóruð á mis við, eldri kynslóðin? Guðlaugur hugsar sig um andartak.

— Nei, ég get vel unnt henni þess, þó að ég færi á mis við það sjálfur. Ég held ég hafi aldrei verið öfundsjúkur.

 — Þú hefur nú samt lengi verið sósíalisti, og sumir segja nú, að það sé öfund?

— Já, ég hef alltaf verið andvígur íhaldi, og ekki skilið, að þeir, sem vinna, eigi að hafa minna en þeir, sem ekki vinna. Ég er verkamaður og verkalýðsflokkum hef ég alltaf fylgt. Mér fannst snemma að Alþýðuflokkurinn væri of hægfara, og þá fylgdi ég þeim flokkum, sem sóttu hraðar fram, og erlend herseta á Íslandi hefur alla tíð verið eitur í mínum beinum. 

— Og hvernig segir þér svo hugur um framtíðina? Heldurðu að íslenzka þjóðin eigi sér bjarta framtíð?

— Já, ég óska þess og vona það, að allt fari vel að lokum. Svo fórust Guðlaugi orð að lokum, og heilsa hans leyfir ekki að þreyta hann með löngu samtali.

Það hendir okkur einatt, meðalmenn, að okkur skortir orð til að tjá hugsanir okkar á verðugan hátt. Þá verður okkur stundum það að grípa traustataki orð snillinganna og gera þau að okkar. Nú vil ég leyfa mér að fremja slíkar gripdeildir og tilfæra hér orð Guðmundar skálds Böðvarssonar og tileinka þau vini mínum, Guðlaugi Sigurðssyni:

 • Samt er í samfylgd
 • sumra manna andblær
 • friðar án yfirlætis,
 • áhrif góðvildar,
 • inntak hamingju
 • þeim er njóta nær.

H. S.
------------------------------------------------------------------------- 

Guðlaugur Sigurðsson 

þar sem góðir menn fara, þar eru guðs vegir," sagði stórskáldið Björnstjerne Björnsson. Það er ekki að ástæðulausu, að mér flugu þessi orð í hug, þegar ég vildi minnast vinar míns Guðlaugs Sigurðssonar. Engan mann hef ég þekkt hreinhjartaðri og góðgjarnari en hann var.

Heiðarleiki hans og samvizkusemi var svo frábær, að engum hefði betur hæft að taka sér í munn orð Kolskeggs að níðast aldrei á því, sem honum var tiltrúað. Það var því ekki furða, þótt Guðlaugur yrði óvenju vinsæll.

Ég hygg, að allir sem þekktu hann hafi verið vinir hans. En þar kom fleira til en þessir mannkostir hans.

Hann var allvel hagmæltur og afburðafróður einkum á rímur og annan gamlan fróðleik. Eins og flestir jafnaldrar hans af alþýðustétt, fór hann á mis við skólalærdóm, en hann aflaði sér þó allmikillar menntunar með lestri góðra bóka. Guðlaugur var fæddur og upp alinn í Fljótum, en átti heima á Siglufirði allan seinni hluta ævinnar.

Alla tíð var hann fátækur af hinum þétta leir, þó að honum tækist að sjá sér og sínum farborða með vinnu og eljusemi, því að aldrei mun hann hafa fallið fyrir þeirri freistingu að sinna fremur sínum andlegu hugðarefnum, ef vinna  bauðst, þótt hann væri eflaust meira hneigður til fræði iðkana en venjulegrar stritvinnu. Hann skráði ýmsan fróðleik og hafði næmt auga fyrir því, hvað var frásagnarvert og vert að geymast og varðveitast frá glötun.

Átthögum sínum unni Guðlaugur meira en, almennt gerist, og þótt skapgerð hans væri þannig, að hann ætti auðvelt með að aðlagast bæði öðru fólki og nýjum aðstæðum, mun hann þó alltaf hafa þráð átthagana. Síðustu stundirnar lá Guðlaugur sjúkur á sjúkrahúsi Siglufjarðar. Honum mun því hafa verið hvíldin kær og átt góða heimvon. Guðlaugur var einn þeirra manna, sem hollt var að kynnast. Ég get að lokum ekki fundið betur viðeigandi kveðjuorð til vinar míns Guðlaugs, en þessar linur eftir uppáhaldsskáld okkar beggja:

 • „Nú opnar fangið fóstran góða
 • og faðmar þreytta barnið þitt.
 • Hún býr þar hlýtt um brjóstið móða
 • og blessar lokað auga þitt."

Vandamönnum Guðlaugs votta ég dýpstu samúð mína. 

Hlöðver Sigurðsson