Guðmundur Ingimar Antonsson

Guðmundur Antonsson fæddist 23. júlí 1915 að Deplum í Stíflu í Fljótum.  Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 2. desember 1997. 

Foreldrar hans voru hjónin Anton Grímur Jónsson, f. 11. desember 1882, d. 26. apríl 1931, og Jónína Stefanía, f. 15. maí 1881, d. 24. apríl 1954. 

Fimm ára að aldri fluttist Guðmundur með foreldrum sínum að Reykjum í Ólafsfirði og að Nefstöðum í Stíflu 1924. Þar átti hann heima fram til 1938 að hann flytur með systur sinni og mági að Skeiði í sömu sveit.

Á haustdögum 1942 gengur hann að eiga Árný Sigurlaug Jóhannsdóttir, f. 31. desember 1921, d. 13. mars 1996. Foreldrar hennar voru hjónin  Jóhann Benediktsson, f. 14. júní 1889, d. 9. júní 1966, og Sigríður Jónsdóttir f. 17. maí 1890, d. 14. október 1939, búendur í Fljótum á ýmsum jörðum. 

1943 flytja þau Guðmundur og Árný að Tungu í Stíflu og eru þar til 1945 að þau fóru að Nefstöðum og búa þar í eitt ár er þau flytja til Siglufjarðar og eiga þar heima æ síðan, fyrst á Laugarvegi 25 og síðan á Hávegi 26, í húsi sem þau byggðu. 

Guðmundur Antonsson

Guðmundur Antonsson

Frá 1980 áttu þau heima á öldrunarheimilinu Skálarhlíð á Siglufirði. Systkini Guðmundar voru:

1) Guðrún Antonsdóttir f. 29. júlí 1906, nú dáin.

2) Jónas Antonsson, f. 14. ágúst 1909, nú dáinn.

3) Steinunn Antonsdóttir, f. 13. sept. 1911, nú dáin.

4) Jóhanna Antonsdóttir, f. 9. des. 1913.

5) Sigríður Antonsdóttir, f. 1. okt. 1923.

6) Helga dó þriggja nátta.

Þá átti Guðmundur fóstursystur,

Stefaníu Guðnadóttur, f. 17. okt. 1926, og voru þau systrabörn. 

Börn þeirra Guðmundar og Árnýjar voru: 

1) Jóhannes Gunnar Guðmundsson, áður yfirlögregluþjónn, f. 1943, maki Sóley Þorkelsdóttir og eiga þau tvö börn,

Birgir og 

Margrét. 

2) Skarphéðinn Guðmundsson, kennari, f. 1946, maki Margrét Hallgrímsdóttir og eiga þau þrjá syni,

Guðmund Þór, 

Árna Gunnar 

Hallgrím Smára. 

3) Stefanía Sigríður Guðmundsdóttir, húsmóðir, maki Friðrik Hannesson, 

hennar börn eru 

a) Árný Sigurlaug Eggertsdóttir, 

b) Guðmundur Friðrik Eggertsson

c) Olga Björk Friðriksdóttir. 

4) Margrét Guðmundsdóttir , þroskaþjálfari, sambýlismaður hennar er Andrés Magnússon læknir og eiga þau eitt barn,

Magnús Andrésson.

Barnabarnabörn Guðmundar eru níu. 

Eftir að Guðmundur kom til Siglufjarðar vann hann við ýmis störf, t.d. var hann sjómaður bæði á togurum og minni bátum. 1958 gerðist hann verkstjóri á síldarplani og var lengst af hjá Kaupfélagi Siglufjarðar, við síldarsöltun á sumrin en afgreiðslumaður hjá byggingavöruverslun þess á vetrum allt fram til 1969 að Kaupfélagið hætti rekstri.

Eftir það gerðist hann verkstjóri og matsmaður hjá fiskverkunarfyrirtækinu Degi, í nokkur ár, þá hjá Þormóði ramma í eitt ár og eftir það var hann verkstjóri og síldareftirlitsmaður hjá Siglósíld, er breyttist í Sigló hf. þar til hann lét af störfum vegna veikinda.