Tengt Siglufirði
Guðmundur Jónasson fæddist á Eiðsstöðum í Blöndudal í Austur-Húnavatnssýslu 10. febrúar 1918. Hann lést á Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra, í Kópavogi, 4. nóvember 2016.
Guðmundur bjó lengst af á Siglufirði með eiginkonu sinni, Margrét María Jónsdóttir, f. í Hnífsdal 19. ágúst 1927, d. 16. september 2012. Þau giftu sig 15. júlí 1952. Þau fluttu árið 2004 til dóttur sinnar í Kópavogi. Hann dvaldi síðustu árin á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð.
Börn Guðmundar og Margrétar Maríu:
1) Jónas Guðmundsson, f. 27. júlí 1956, hagfræðingur; kona hans er Anh-Dao Tran, f. 8. febrúar 1959, nýdoktor í fjölmenningarfræði, og dóttir þeirra erForeldrar Guðmundar voru hjónin Ólöf Bjarnadóttir, f. 3. ágúst 1884 á Gerðum í Garði, d. 18. júlí 1957, og Jónas Guðmundsson, f. 19. janúar 1879 á Víðimýri í Skagafirði, d. 25. september 1933. Önnur börn þeirra sem upp komust:
Guðmundur lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1938 og stundaði framhaldsnám í landbúnaðarfræðum í Danmörku. Hann kom heim með Esju í hinni frægu Petsamóferð árið 1940.
Hann starfaði sem bústjóri á Hólsbúinu í Siglufirði og var síðar útibússtjóri Kaupfélags Eyfirðinga á Siglufirði. Hann var virkur í félagsmálum á sínum æskustöðvum í Húnavatnssýslu og á Siglufirði og var m.a. formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar. Hann söng um langt skeið með Karlakórnum Vísi og Kirkjukór Siglufjarðarkirkju.
Útförin fór fram frá Siglufjarðarkirkju
-------------------------------------
Það er gott að minnast góðs manns og hafa fengið að njóta hans við. Ég átti því láni að fagna að eiga tengdaföður, Guðmund Jónasson, sem var í senn góður maður og góður vinur. Hann var fæddur frostaveturinn mikla og naut langrar ævi. Þegar hann kveður á nítugasta og níunda aldursári er mér þökk í hug að hafa átt hann svo lengi að sem raun var. Ég þakka allt það sem ég hef lært af honum þótt hann hafi aldrei sagt mér beint til.
Hann svaraði vissulega ef ég spurði en vandaði orð sín vel. Það var ekki hans háttur að finna að né halla orði við nokkurn mann. Hann var hins vegar alltaf þakklátur og virðandi í viðmóti. Augun hlý og bros hans þannig að lét öðrum líða vel. Viljugur og hjálpfús ef eitthvað mátti fyrir aðra gera og gaf með fasi sínu og framferði fordæmi sem gott er að fylgja.
Hann naut gæfu og var trúað til ábyrgðarstarfa, hafði marga í vinnu þegar hann var bústjóri á mjólkurbúi Siglfirðinga á Hóli og einnig þegar hann rak mjólkursamsöluna á Siglufirði fyrir Kaupfélögin í Skagafirði og Eyjafirði og sömuleiðis öll árin sem hann var útibússtjóri Kaupfélags Eyfirðinga á Siglufirði. Í störfum sínum var hann farsæll og eignaðist jafnan góðan
vinskap og virðingu þeirra sem störfuðu hjá honum. Hann var ósérhlífinn og þeirrar gerðar að skrifa aldrei yfirtíð á sjálfan sig þótt hann væri öllum stundum vakinn og sofinn í vinnunni. Hann hafði ungmennafélagsandann í brjósti frá æsku, virkur í félagsmálum og stjórnmálum. Hann var skoðanafastur, vel að sér og víðlesinn, en sæktist ekki eftir vegtyllum.
Hann var ósínkur á tíma sinn til góðra málefna, kirkjumaður og góður félagi í áratugi í kirkjukórum og í karlakórnum Vísi þegar stjarna hans reis hæst. Guðmundur bar umhyggju til annarra, ekki aðeins þeirra sem nærri stóðu, heldur lagði sig eftir að búa til betra samfélag hvar sem hann kom.
Heimili hans og eiginkonu hans, Margrétar Maríu Jónsdóttur, sem lést 2012, stóð jafnan opið, og kom Guðmundur ósjaldan með gesti heim í mat. Hann var samvinnumaður og knúinn umhyggju og þeirri rót trúarinnar sem kærleikurinn er. Hann var skemmtilegur, glaðlyndur, hvetjandi og trúfastur. Þau hjónin bjuggu allan sinn búskap á Siglufirði en áttu síðustu árin einnig heimili hjá okkur Arnfríði í Kópavogi uns þau fluttu á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð. Þar nutu þau góðrar og nærfærinnar umhyggju sem við fjölskyldan þökkum heilum hug.
Ég þakka allt það sem Guðmundur skilur eftir sig, leiðsögn hans og góðan orðstír sem mun lifa. Guð blessi minningu hans.
Gunnar Rúnar Matthíasson