Guðný Jónína Sigurbjörnsdóttir Fanndal, tónlistarkennari og hjúkrunarfræðingur

Guðný Fanndal, fæddist á Seyðisfirði 4. mars 1913. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 30. ágúst 2004.

Foreldrar hennar voru  Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, f. 21.6. 1884, d. 31.12. 1966 og  Sigurbjörn Stefánsson, f. 1.8. 1880, d. 11.4. 1948.

Bræður hennar voru

Alfreð Dan, f. 21.2. 1911, d. 29.7. 1947, og

Snæbjörn Friðmundur, f. 17.10. 1917, d. 23.6. 1926.

Dóttir Guðnýjar og Þórður Oddsson læknir, f. 23.9. 1910, d. 24.12. 1996, er  Erla Jóhanna félagsráðgjafi, f. 19.2. 1938, maki Valur Páll Þórðarson fjármálastjóri, f. 6.2. 1940. Börn Erlu og Vals eru: 

1) Jónína Valsdóttir efnafræðingur, f. 22.2. 1959. 

Guðný Fanndal - Ljósmynd: Kristfinnur

Guðný Fanndal - Ljósmynd: Kristfinnur

Sonur hennar og Jóhann Guðmundsson búnaðarhagfræðingur, f. 19.6. 1958, er Þórður Páll Jóhannsson, f. 29.11. 1991.

2) Kristín tónmenntakennari, f. 26.6. 1961, maki Eiríkur Hjálmarsson blaðamaður, f. 9.11. 1964. Börn þeirra eru 

Valur Páll, f. 4.2. 1994, 

Þröstur, f. 4.2. 1994, d. 5.2. 1994, og 

Hrafnhildur Erla, f. 22.2. 1996.

Fyrir átti Eiríkur  Birna Kristín, f. 11.8. 1984 og  Orra, f. 13.3. 1990.

3) Snorri leiðsögumaður, f. 6.2. 1963, maki Jóhanna Rútsdóttir kennari, f. 16.10. 1964. Synir þeirra eru 

Tómas Örn, f. 15.4. 1986, 

Davíð Ingvi, f. 2.8. 1988 og 

Daníel Kári, f. 4.3. 1991

4) Eyrún læknanemi, f. 6.7. 1976.

Guðný Jónína giftist 23. september 1941 Gestur Helgi Fanndal, kaupmaður á Siglufirði, f. 10.7. 1911, d. 2.12. 1995. 
Foreldrar hans voru  Soffía Gísladóttir Fanndal, f. 5.4. 1877, d. 4.7. 1966, og Sigurður Jóhann Sveinsson Fanndal, f. 6.4. 1876, d. 17.10. 1937. 

Börn Guðnýjar og Gests eru:
1) Sigurður Fanndal verslunarmaður, f. 2.10. 1942, kona hans Rannveig Guðrún Pálsdóttir heilbrigðisstarfsmaður, f. 29.10. 1942, þau slitu samvistir. 

Börn Sigurðar og Rannveigu eru: 

1) Hrönn Fanndal skrifstofumaður, f. 19.6. 1961, maki Magnús Stefán Jónasson framkvæmdastjóri, f. 4.8. 1963.  Börn þeirra: 

Rannveig háskólanemi, f. 13.3. 1981, 

Rósbjörg Jenny, f. 14.6. 1991 

Páll Sigurvin, f. 21.5. 1996.

2) Páll Sigfús Fanndal verslunarmaður, f. 16.8. 1965. Maki I (skildu): Þórdís Ólöf Eiríksdóttir félagsliði, f. 13.4. 1964. Synir þeirra eru:

Andri, f. 22.8. 1983 og 

Sigurður Ingi, f. 20.4. 1989.

Maki II. Ingibjörg Guðrún Kristjánsdóttir skrifstofumaður, f. 18.12. 1960. Dóttir þeirra er 

Karitas Guðrún, f. 13.1. 1998.

3) Guðný Erla Fanndal klæðskerameistari, f. 2.2. 1971, maki Magnús Þórðarson vélfræðingur, f. 1.3. 1972, sonur þeirra er

Magnús Gauti, f. 24.3. 2004.

4) Ósk, f. 13.10. 1973, d. 13.10. 1973.

5) Perla Fanndal bankaritari, f. 10.5. 1977. Börn hennar með Jóhann Þór Línberg Kristjánsson verkamaður, f. 1.11. 1974, eru 

Kári, f. 30.7. 2000, og 

Freyja, f. 16.1. 2002.  

2) Sigurbjörn Fanndal tannsmíðameistari, f. 17.6. 1948, maki Hrönn Ágústsdóttir, kennari og námsráðgjafi, f. 17.6. 1948. Börn þeirra eru:

a) Guðný Rósa kennari, f. 26.8. 1970, maki Hákon Kristinsson múrari, f. 25.5. 1971. Dætur þeirra eru 

Ylva Örk, f. 30.1. 1999 og 

Högni, f. 16.3. 2002. 

b) Gestur Már Fanndal tannlæknir, f. 6.3. 1972. Synir hans og Bjartey Sigurðardóttir verkfræðingur, f. 18.9. 1972, eru 

Ísar Hugi, f. 3.11. 2001 og óskírður, f. 22.8. 2004.    

c) Þorbjörn viðskiptafræðinemi, f. 29.1. 1978, unnusta hans er Arna Grímsdóttir laganemi, f. 1.4. 1979.

Guðný Fanndal ólst upp á Seyðisfirði allt til þess tíma að hún fór til námsdvalar í Þýskalandi haustið 1931, þar sem hún nam söng og píanóleik um rúmlega eins árs skeið. Heimkomin hélt hún tónleika á Seyðisfirði, ásamt æskuvinkonu sinni, Katrínu Jónsdóttur frá Firði. Hún lauk prófi í hjúkrunarfræðum í júní 1939, stundaði framhaldsnám í geðhjúkrun og heilsuvernd, en réðst til hjúkrunarstarfa á Siglufirði haustið 1940.

Samhliða húsmóðurstörfum vann hún lengi við skólahjúkrun og síðar heilsugæsluhjúkrun og á Sjúkrahúsi Siglufjarðar, hafði umsjón með krabbameinsleit á vegum Krabbameinsfélagsins. Hún kenndi píanóleik við Tónskóla Siglufjarðar og í einkatímum um árabil. Hún var píanóleikari Karlakórsins Vísis um tíma, raddæfði og var undirleikari Kvennakórs Siglufjarðar. Guðný var virkur félagi Kvenfélagsins Vonar og formaður þess um 18 ára skeið.

Útför Guðnýjar fór fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
-------------------------------------------

Í dag er kvödd hinstu kveðju tengdamóðir mín, Guðný Sigurbjörnsdóttir Fanndal. Hún leit dagsins ljós á Seyðisfirði og naut þar bernsku- og unglingsáranna í öruggu skjóli foreldra sinna, sem bæði voru austfirsk að ætt og uppruna, hann frá Guðmundarstöðum í Vopnafirði, en hún frá Firði í Seyðisfirði. Þau hófu búskap sinn á Vopnafirði, en fluttu til Seyðisfjarðar, líklegast 1910. 

Á Seyðisfirði bjó þá jafnframt margt ættmenna Guðnýjar. Það var góðæri í athafna- og atvinnumálum á Seyðisfirði á fyrri hluta síðustu aldar og a.m.k. þeir sem næst henni stóðu bjuggu við allgóð efni, eftir því sem þá gerðist.

Það skiptust að sjálfsögðu á skin og skúrir í lífi manna rétt eins og nú til dags, en Guðný minntist alltaf uppvaxtaráranna með gleði, Seyðisfjörður skipaði alla tíð stóran sess í hennar hjarta og hún minntist oft bernskuleikja í klettastöllum Bjólfsins.

Bókhneigð og tónlistaráhugi í þessu umhverfi uppvaxtaráranna hafði greinilega mikil áhrif á þroska Guðnýjar, sérstaklega tónlistin. Foreldrarnir voru bæði hneigð fyrir tónlist. Móðir hennar hafði lært á gítar og orgel og Guðný minntist þeirra beggja í blönduðum kór undir stjórn Inga T. Lárussonar á meðan hann var símstöðvarstjóri á Seyðisfirði.

Á Seyðisfirði bjó fram til 1917-18 Elín Tómasdóttir, sem kenndi m.a. píanóleik. Hún leigði í húsi afa og ömmu Guðnýjar og kenndi þar. Meðal nemenda hennar var Anna Stefánsdóttir, frænka Guðnýjar. Á meðan Anna naut kennslustundarinnar mun Guðný gjarnan hafa setið á stofugólfinu og lagt eyrað að veggnum, til þess að heyra betur það sem spilað var. Síðar varð Anna kennari Guðnýjar í píanóleik og hefur námshugur hennar vafalaust verið óblendinn, enda sigldi hún til frekara tónlistarnáms.

Haustið 1931 fór Guðný ásamt æskuvinkonu sinni, Katrínu Jónsdóttur frá Firði í Seyðisfirði, til Lübeck í Þýskalandi, til náms í söng, píanóleik og þýsku. Það hefur örugglega verið heldur fátítt að ungar stúlkur hleyptu heimdaganum með þeim hætti, en varð þeim báðum gagnlegt og happadrjúgt. Eftir heimkomuna héldu þær tónleika á Seyðisfirði hinn 18. desember 1932. Samkvæmt efnisskránni léku þær báðar einleik á píanó, en Guðný söng að auki einsöng.

Vinátta þeirra var kapítuli útaf fyrir sig. Báðar áttu sinn búskap við djúpa og þrönga firði, lengst af við misjafnar samgöngur og jafnvel einangrun. En þær voru báðar heimskonur og á efri árum fóru þær tvær saman, oftar en einu sinni, til þess að vitja helstu borga Evrópu og þeirrar menningar sem þær höfðu kynnst ungar. Allt fram á seinni helming síðasta áratugar, á meðan báðar höfðu þrek til, hittust þær og spiluðu á píanóið, hvor fyrir aðra eða fjórhent.

Fljótlega eftir heimkomuna frá Þýskalandi hóf Guðný nám í hjúkrunarfræðum og lauk námi frá Hjúkrunarskóla Íslands í júní 1939. Hún kynnti sér í kjölfarið sérstaklega geðhjúkrun og heilsuverndarstörf hjá Hjúkrunarfélaginu Líkn, en réðst til hjúkrunarstarfa á Siglufirði 1940.

Fljótlega eftir komuna til Siglufjarðar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum, Gesti Helga Fanndal, kaupmanni.  Þau gengu í hjónaband 21. september 1941.

Upp frá því helgaði Guðný heimilinu fyrst og fremst krafta sína. Hún stundaði þó hjúkrunar- og heilsugæslustörf, ýmist í afleysingum eða sem hlutastarf allt til ársins 1975 og annaðist umsjón með krabbameinsleit í leghálsi og brjóstum kvenna á Siglufirði frá árinu 1970.

Fljótlega eftir komuna til Siglufjarðar varð hún einnig píanóleikari Karlakórsins Vísis og sinnti því með hléum um árabil. Einnig raddæfði hún og lék undir hjá Kvennakór Siglufjarðar. Hún kenndi píanóleik við Tónskóla Siglufjarðar og í einkatímum í fjölda ára.

Guðný lét einnig til sín taka í félagsmálum á Siglufirði og var m.a. formaður Kvenfélagsins Vonar um 18 ára skeið. Hún lét sig kvenréttindi miklu skipta og var á meðal þeirra allra fyrstu, sem ég heyrði tala fyrir jafnrétti kynjanna.

Fyrstu búskaparárin okkar Erlu voru ferðir hennar suður stundum tengdar landsfundum Kvenfélagasambandsins, en alltaf fylgdist hún með menningarlegum viðburðum hér sunnan heiða og sótti tónleika og leikhús, ef tök voru á.

Fundum okkar Guðnýjar bar fyrst saman sumarið 1960. Hún stóð þá enn í blóma lífsins, tæplega fimmtug. Ekki veit ég hvernig henni var innanbrjósts, þegar hún var kynnt fyrir verðandi tengdasyni. Hún tók mér af eðlislægri hæversku og vinsemd.

Áður en langt um leið fann ég þó að ég átti vísa vináttu hennar og traust, sem aldrei bar skugga á. Hún átti það meira að segja til að gera hlut minn meiri eða betri en efni stóðu til, eins og góðum mæðrum hættir til, þegar börn þeirra eiga í hlut. En þannig var Guðný, umtalsgóð, barði í brestina, en dæmdi ekki.

Við fráfall Gests í desember 1995 kaus Guðný sér athvarf á öldrunardeild Heilbrigðisstofnunar Siglufjarðar. Hún undi þar vel sínum hag. Fyrstu árin gerði hún sér daglega ferð yfir í Skálarhlíð til þess að spila nokkur lög á píanó sem þar var.

Árin og ellin skertu smám saman andlegt og líkamlegt þrek hennar og var hún á hjúkrunardeild síðustu árin. Allan tímann naut hún öryggis, umhyggju og frábærrar umönnunar starfsfólks Heilbrigðisstofnunarinnar, sem aðstandendur þakka af heilum hug.

Guðný Sigurbjörnsdóttir Fanndal var skarpgreind og listfeng. Um margt finnst mér að hún hafi í hugsun verið á undan sinni samtíð, hún var velviljuð og umburðarlynd, hógvær og lítillát, en stóð vel á sinni sannfæringu, ef því var að skipta. Hún var trygglynd, vinaföst og með afbrigðum frændrækin.

Að leiðarlokum þakka ég henni vináttu og tryggð.

Valur Páll Þórðarson. - 
-----------------------------------------

Elsku Guðný amma.

Við sáumst í síðasta sinn fyrir þremur vikum þegar við komum að kveðja þig áður en við héldum til New York. Við sátum frammi í setustofu og þú hlóst að spriklinu í Magnúsi Gauta. Þótt þú værir orðin ringluð, eins og þú sagðir sjálf, þá var grunnt á hjúkrunarkonunni í þér því þú varst snögg að setja höndina á borðshornið og segja mér að passa drenginn. Það var Guðný amma.

Þegar ég hugsa um ömmu þá sé ég píanóleikarann sem talaði lýtalausa þýsku og hjúkrunarkonuna Guðnýju Fanndal. Nákvæma en samt dreymna. Hún fylgdi uppskriftabókinni frá Húsmæðraskólanum á Ísafirði hundrað prósent. Sósan var alltaf nákvæmlega eins, svefnherbergið var ræst á mánudagsmorgnum, borðstofan á þriðjudögum o.s.frv. og helst ekki breytt út frá því.

Amma gerði morgunleikfimina í útvarpinu með Valdimari Örnólfs á morgnana, hljóp hringinn í stofunum með háum hnélyftum og lyfti þunga öskubakkanum til að styrkja sig. Ræsti fyrirfram ákveðið herbergi fram að hádegi og var tilbúin með hádegismatinn á bilinu ellefu til eitt eftir því hvenær afi var í fluginu.

Lagði sig frá eitt til hálfþrjú, lagaði kaffi og fór með niður í búð handa afa og búðarfólkinu klukkan þrjú, spilaði á píanóið frá hálffjögur til hálffimm, vélritaði bréf eða setti áhugaverðar blaðagreinar inn í möppu frá fimm til sex. Ristað brauð með hunangi og hafragrautur klukkan sjö. Alltaf eins, hægt að stilla klukkuna eftir henni. Enda fylgdist mamma í seinni tíð með að gardínurnar væru dregnar frá svefnherberginu klukkan hálfþrjú. Svona til vonar og vara.

Guðný amma leit ekki á sig sem mikinn Siglfirðing, heldur Seyðfirðing, ættaðan úr Vopnafirðinum. Þegar hún sat á háa stólnum í eldhúsinu að gera eplakökuna frægu, sem var reyndar búin til úr skemmdum eplum úr búðinni, þá talaði hún um uppvaxtarárin á Seyðisfirði. Hvað hún og Kata, besta vinkona hennar alla tíð, höfðu fyrir stafni.

T.d. spiluðu þær undir þöglu myndunum í bíóinu þótt ömmu þætti lítið til þess koma. Amma lýsti Vopnafirði sem fegursta stað á jörðu því þar var faðir hennar fæddur að Guðmundarstöðum. Ég verð að viðurkenna að þegar Magnús maðurinn minn fór með mig til Vopnafjarðar í fyrsta sinn var rósrauður bjarmi yfir firðinum. Mér fannst eins og ég ætti að þekkja hvern stein.

Mér fannst skemmtilegt þegar ég fékk hana til að tala um söng og píanónámið í Þýskalandi á millistríðsárunum. Hún bjó í Lübeck og Berlín og sat á kaffihúsum með Jóni Leifs, hvílík heimskona. Amma hélt þýskunni vel við. Einu skiptin sem maður sá ömmu leggjast í sófann í stofunni var þegar Derrick var í sjónvarpinu. Þá breiddi hún ofan á sig blátt silkiteppi, lá með lokuð augun og hlustaði. Hún sagði að Derrick talaði svo sérstaklega vandaða þýsku.

Amma var í mörg ár skólahjúkrunarkona í barnaskólanum. Það voru blendnar tilfinningar að eiga ömmu sem var skólahjúkrunarkonan. Ekki vinsælt starf. Rífandi berklaplástrana af okkur með góðri klípu af skinni, sótthreinsaði minnstu sár svo við veigruðum okkur við að láta vita ef við meiddum okkur. En mikið var gott að misnota aðstöðu sína þegar veðrið var vont í frímínútum og segjast þurfa að tala við ömmu. Þá sat ég hjá henni og borðaði Opal hálsbrjóstsykur. Það var ljúft að vera í þurrum fötum fram að hádegi.

Amma og afi voru mikið tónlistarfólk. Amma með sína tónlistarmenntun og afi sem hafði lært af sjálfum sér. Ég fór til ömmu til að fá lánaðar nótnabækur, sem hún svo seinna gaf tónlistarskólanum. Svo þegar maður var að æfa fjórhent þá var amma meira en glöð að vera bassinn. Að vísu kostaði það að minnsta kosti heilan dag af æfingum því hún var svo rosalega nákvæm á fingrasetningu og ef maður sló feilnótu þá var byrjað upp á nýtt, frá byrjun.

Afi spilaði hljóma sálma á píanóið. Eitt sinn var hann að spila á píanóið í stofunni og amma ýjaði að því úr eldhúsinu að henni þætti þetta ekki mikil spilamennska. Enda höfðu þau sitthvort píanóið. Amma með fínstillta fallega píanóið í stofunni og afi með gamla falska rússneska garminn niðri á kontór. Svo skrítið sem það er þá enda ég þessa minningargrein með sömu orðum og greinina hans Gests afa fyrir 9 árum.

Elsku pabbi minn og fjölskylda. Við hugsum til þín á laugardaginn héðan frá New York og verðum hjá þér í huganum.

Guðný Erla Fanndal og fjölskylda.