Birgir Runólfsson bifreiðarstjóri m. fleiru

Birgir Runólfsson Fæddur 2. janúar 1917. — Dáinn 5. maí 1970. Ég vil með örfáum orðum leyfa mér að kveðja þennan sérstæða samferðamann og fyrrum húsbónda minn. — Flestum ókunnugum kom hann fyrir sjónir sem nokkuð misbrestasamur oft á tíðum vegna vínnautnar.

En þau sumur, sem ég vann hjá honum og raunar nokkru áður, eða þegar ég var í lögreglunni, kynntist ég honum betur.  Varð mér þá ljóst, hve hlýr og elskulegur hann gat verið. Ég kveið fyrir að fást við hann er hann var með víni, en það fór á annan veg. Mér virtist hann þá gæflyndið sjálft.

Eitt sinn bað hann okkur um að loka sig ekki inni um stund, og kvaðst skyldi vera kyrr á þeim stað, sem hann til tók og við það stóð hann. En í sambandi við þetta litla atvik varð ég áheyrandi að hinum mestu harmatölum, sem ég nokkurn tíma hefi heyrt. Næstum allt sem hann sagði, talaði hann til konu sinnar, þótt hann vissi fullvel, að hún heyrði ekki til hans, og bað þá bæði hana og góðan guð að fyrirgefa sér bresti sína. 

Birgir Runólfsson

Birgir Runólfsson

Eitt sinn bauð hann mér að sitja í hjá sér heim frá Reykjavík, sem ég auðvitað þáði. Í þeirri ferð varð ég undrandi á því, hvílík feikn hann kunni af vísum og kvæðum og hversu víða hann gat vitnað í Laxness. Hann gat haft yfir heil kvæði eftir ýmsa höfunda, m. a. eftir Sigfús Elíasson guðspeking.   

Ég hefi aldrei kynnzt neinum manni sem ég veit til, að hafi lesið ljóð Sigfúsar, hvað þá heldur lært þau. Hvað sem annars má um Birgi sáluga segja, var hann mér höfðingi í raun, og ég á honum margt gott upp að unna, sem ég vil hér með þakka honum fyrir. Þegar ég heyrði lát hans, komu mér í hug gömul vísuorð sem mælt voru eftir annan stórbrotinn mann, Gísla lögmann Hákonarson á Hlíðarenda: „Hver mun upp rísa stykkjastór stórmennið í burtu fór“. 

Birgir var sannarlega stór í sniðum, andlega og líkamlega og töluverður framkvæmdamaður. Hann stundaði vöruflutninga um margra ára skeið og vann oft nótt með degi sem hamhleypa. Mörgum var hann búinn að gera greiða, enda ótvílráður. Ættir átti hann að rekja til Húnvetninga. Faðir hans var Runólfur Björnsson á Kornsá í Vatnsdal, en móðir hans hét Anna. Þau þekkti ég ekki. Börn hans voru sjö, sex synir og ein dóttir. Kona hans, Margrét Pálsdóttir frá Ölduhrygg í Svarfaðardal, lifir mann sinn. Ég votta þeim öllum samúð mína. 

Siglufirði, 17. maí 1970. Guðbrandur Magnússon                

---------------------------------- 

Birgir Runólfsson var fæddur að Kornsá í Vatnsdal í Austur Húnavatnssýslu. 

Foreldrar hans voru frú Alma Jóhannsdóttir Möller og  Runólfur Björnsson, er kunn voru á sinni tíð um Húnaþing og víðar fyrir reisn og skörungsskap.

Örlögin höguðu því á þann veg, að þessi Húnvetningur bast ungur tryggðaböndum við Siglufjörð, sem aldrei rofnuðu, þótt leiðir lægju um fjarlægar slóðir. 

Hann kom fyrst til Siglu fjarðar á unglingsárum til náms.

Stundaði að námi loknu, ýmsa vinnu til sjós og lands, var m.a. í siglingum á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

En leiðin lá á ný til Siglufjarðar og hingað flyst hann alkominn árið 1945 og þaðan í frá var Siglufjörður hans heimabyggð.

Árið 1947 komst Siglufjörður í vegasamband við þjóðvegakerfi landsins, að vísu aðeins sumarmánuðina, með lagningu fjallavegar yfir Siglufjarðarskarð. Þetta var merkur áfangi í sögu Siglufjarðar — en ekki síður í ævi Birgis Runólfssonar. Þetta ár hóf hann vöruflutninga með bifreiðum milli Siglufjarðar og Reykjavíkur. Starfræksla Birgis þróaðist með árunum í vaxandi fyrirtæki.

En það krafðist kjarks, framtaks og dugnaðar að sinna slíku starfi við þær aðstæður, sem þá voru fyrir hendi, en þá sannaðist í reynd, að hér var sannur manndómsmaður að verki. 

Aðstæður breyttust mjög til hins betra við Strákaveg og Strákagöng, en fyrir þessari framkvæmd hafði Birgir heitinn lifandi áhuga, meðan hún var aðeins orð og hugmynd, sem ýmsir voru þá vantrúaðir á.

Og fyrirtæki hans óx fyrir einstakan dugnað og áræði eigandans og annaðist um árabil vöruflutningana til og frá Siglufirði og umboðssölu hér á staðnum. Birgir heitinn átti verulegan hlut að stofnun Vöruflutningamiðstöðvarinnar h.f., Reykjavík, og sat í stjórn þess fyrirtækis frá stofnun þess og meðan ævin entist.

Birgir Runólfsson kvæntist Margrét Pálsdóttir, Hjartarsonar. Varð þeim margra barna auðið: 

Margrét og Birgir áttu saman 8 börn, sem öll lifa, utan eitt, 

  • Páll Birgisson, er lést af slysförum 1969, 21 árs að aldri. Hin eru 
  • Alma Birgisdóttir, búsett í Reykjavík, 
  • Runólfur Birgisson, 
  • Filippus Birgisson 
  • Þormóður Birgisson, búsettir í Siglufirði, 
  • Ellý Birgisdóttir á Akureyri, 
  • Björn Birgisson á Ísafirði og 
  • Þorsteinn Birgisson á Sauðárkróki.

(Páll Birgisson og Runólfur Páll Birgisson (tvíburar))

Þau hjón urðu fyrir þeirri sáru sorg að missa efni legan son sinn, Pál, á sl. hausti. 

Önnur börn þeirra, mannvænleg, eru úr grasi vaxin. Með Birgi Runólfssyni er genginn sérstæður persónuleiki, maður, sem átti til að bera óvenjulegan dugnað, framtak og ósérhlífni. En að baki áræðis og athafna sló gott hjarta, var góður drengur, sannur vinur vina sinna og trúr þeim málefnum og sjónarmiðum, sem hann hafði bundið tryggðir við. —

Við kveðjum þennan húnvetnska Siglfirðing með þökk og virðingu, biðjum honum góðra vega og Guðs handleiðslu á landi eilífðarinnar og vottum ástvinum hans og vandamönnum innilega samúð í sorg og missi. 

Siglufirði, 9. maí 1970 Stefán Friðbjarnarson.