Guðbjörn Hallgrímsson

Guðbjörn Hallgrímsson fæddist á Siglufirði 4. apríl 1934.  Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 6. júlí 2018.

Foreldrar hans voru Hallgrímur Georg Björnsson, f. 26. október 1908, d. 2. desember 1992, og Herdís Lárusdóttir, f. 13. desember 1911, d. 23. október 1980.

Guðbjörn átti fimm systkini, alsystir:

Ósk Pálína Anna, f. 1931, d. 1990, sammæðra:

Jóhanna Guðlaug Viggósdóttir, f. 1941, d. 2001,

Guðfinna Gunnarsdóttir, f. 1942, d. 2012,

Sigrún Lárusdóttir, f. 1945, d. 1945, samfeðra:

Guðbjörn Hallgrímsson - Ljósm. mbl

Guðbjörn Hallgrímsson - Ljósm. mbl

Þorvaldur Stefán Hallgrímsson, f. 1946.

Fyrstu tvö árin ólst Guðbjörn upp á heimili foreldra sinn en sökum heilsubrests móður sinnar fór hann í fóstur til hjónanna Jóns G. Jónssonar og Sigurlínu I. Hjálmarsdóttur að Tungu í Stíflu, Skagafirði. Foreldrar hans slitu síðar samvistir. Guðbjörn flutti síðar með fósturforeldrum sínum til Siglufjarðar þegar Tungujörðin fór undir vatn vegna Skeiðfossvirkjunar. Þegar hann var 16 ára flutti hann svo til Hafnarfjarðar til föður síns og seinni konu hans, Margrétar Þorvaldsdóttur, og fjögurra ára sonar þeirra, Þorvaldar Stefáns.

Guðbjörn lauk námi í vélvirkjun hjá Vélsmiðjunni Kletti og Iðnskóla Hafnarfjarðar og öðlaðist síðar skipstjórnarréttindi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Guðbjörn eignaðist soninn Hallgrím Georg Guðbjörnsson, f. 1953, d. 1975, móðir Hallgríms var Elín Frímannsdóttir, f. 1935, d. 2002.

Guðbjörn kvæntist 29. september 1962 Kristínu Jónu Guðmundsdóttur, f. 14 janúar 1943, d. 14 október 1995, og 1981 slitu þau samvistir. Þau eignuðust fjögur börn:

1) Guðmundur, f. 30. júlí 1964, kvæntur Margréti Benediktsdóttur, f. 12. mars 1964,
börn þeirra eru

Kristín, f. 1988, börn hennar eru Elísabet Ýr og Alexandra Margrét. Marta Rut, f. 1990,
börn hennar eru Natalía Kristín og Frosti Leó. Benedikt Fannar, f. 1996.

2) Sigurlína Herdís, f. 18. október 1965, sambýlismaður hennar Hjörtur Sigurðsson, f. 30. október 1962 ,
börn Sigurlínu eru Guðbjörn Már, f. 1991, d. 2010, Sylvía Svava, f. 1995,
Vignir Vatnar, f. 2003.

3) Guðrún Fjóla, f. 27. mars 1972, börn hennar eru
Arnar Snær, f .1995, og
Inga Lilja, f. 2001.

4) Hallur Örn, f. 13. maí 1981, sambýliskona hans er Sara Pálsdóttir, f. 13. september 1986, sonur þeirra er
Hilmar Páll, f. 2016.

Útför Guðbjörns fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 17. júlí 2018, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku afi minn.

Mig langar að segja nokkur orð. Fyrsta minning mín sem kemur upp í hugann er þú ert farinn er þegar ég og Marta vorum litlar á Suðurvanginum með risastóru dótafarsímana okkar sem þú, Bjössi afi okkar, gafst okkur og ekki má nú gleyma Bjössa afa sjoppunni góðu sem við vildum alltaf fara í (já, við skírðum sjoppu eftir þér, enda sælkeri mikill). Þú hafðir alltaf mjög mikla þörf fyrir að gleðja börn, hvort sem það vorum við eða barnabörnin þá var aldrei farið til Bjössa afa nema að fá nammi eða dót.

Alla páska var mikil hefð að þú gæfir öllum börnunum páskaegg og því fylgdi mikil spenna. Þegar ég var lítil varstu alltaf afi í Danmörku fyrir mér og ég hugsaði mjög mikið til þín því mér fannst mjög merkilegt að eiga eitt stykki afa sem átti heima í útlöndum. Svo beið maður spenntur eftir pakka frá þér, hvort sem það voru föt eða t.d. fyrstu súkkulaðidagatölin okkar Mörtu, sem við kláruðum á einum degi, foreldrum okkar til mikillar lukku.

Svo kom að því að heimsækja afa í Danmörku. Það var mjög skemmtilegt að koma til þín í Helsingør í íbúðina og sumarhúsið fallega. Við áttum góðar stundir saman, fórum með sundbussen yfir til Svíþjóðar og þú kynntir okkur fyrir nokkrum vinum þínum sem þú áttir í sumarbústaðahverfinu.

Þarna féll ég fyrir Danmörku líkt og þú hefur gert á sínum tíma. Ég er mjög þakklát fyrir dönsku hefðirnar sem þú komst með heim, eins og t.d flæskesteg sem klikkaði aldrei og þú matreiddir með mikilli ástríðu og varð að hefð í jólaboðunum góðu eftir að þú fluttir heim. Við áttum þó nokkur góð spjöll þegar ég kom til þín og klippti þig og alltaf varstu tilbúinn með gotterí fyrir stelpurnar mínar hvort sem þær komu með eða ekki.

 Eitt sem ég hef líka verið að hugsa eftir að þú fórst er að þú dæmdir engan. Það áttu allir jafnmikinn séns í þínum augum og það tel ég vera mjög mikinn mannkost. Ég fann líka alltaf að þú varst svo stoltur af mér að þú þurftir ekki einu sinni að segja það. Nýlega mættir þú í veislu í hvíta jakkanum með blómabindi og ég man að ég hugsaði „þvílíkur snillingur“ því þér var svo slétt sama hvað öðrum fannst um þig. Þú hafðir alltaf svo gaman af því að dansa og sé ég þig fyrir mér dansandi glaðan, verkjalausan, eins og ég get ímyndað mér þig í gamla daga á böllunum. Eins og ég sagði við þig afi minn þegar ég kvaddi þig á spítalanum, við sjáumst.

Þitt barnabarn,

Kristín Guðmundsdóttir.