Tengt Siglufirði
mbl.is 8. júní 2018 | Minningargreinar
Bragi Einarsson fæddist á Siglufirði 9. ágúst 1935. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 30. maí 2018.
Foreldrar hans voru Einar Magnússon smiður, f. 7. september 1904, d. 20. febrúar 1993, og Sigrún Jónasdóttir húsfreyja, f. 17. júní 1907, d. 11. nóvember 1991.
Foreldrar Braga skildu þegar hann var ungur.
Alsystkini Braga eru
Bragi ólst upp á Siglufirði, gekk þar í barna- og unglingaskóla en fór snemma á sjó og varð ungur bátsmaður.
Bragi kynntist ungur Svanhildur Kjartansdóttir, f. 3. ágúst 1934, d. 31. mars 2013.
Gengu þau í hjónaband
haustið 1955 en árið 1957 fluttu hjónin á höfuðborgarsvæðið og settust fyrst að í Kópavogi, þá Háaleitisbraut og byggðu sér síðan raðhús
í Yrsufelli í Breiðholti og bjuggu þar frá 1972.
Bragi hóf störf hjá álverinu í Straumsvík fljótlega eftir að það tók til starfa og vann þar restina
af sinni starfsævi, lengst af sem verkstjóri.
Börn Braga og Svanhildar eru fimm, elst er
Barnabarnabörnin eru orðin 10.
Útför Braga fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 8. júní 2018, og hefst athöfnin klukkan 15.
Bragi Einarsson faðir minn er látinn á 83. aldursári. Það er óhætt að segja að þar hafi farið frekar skapstór maður sem átti erfiða æsku, alinn upp af einstæðri móður með sex börn. Eins og stundum vill verða höfðu þessi uppvaxtarár mótandi áhrif á lífsviðhorf og gerði það að verkum að pólitísk afstaða lá til vinstri. Þessi afstaða með lítilmagnanum kom í ljós þegar hann var búinn að fá sér aðeins í tána. Þá mátti heyra dimma og hrjúfa rödd fara með vísu eftir Bólu-Hjálmar:
Á unglingsárum stundaði pabbi íþróttir af kappi, var skíðamennskan í uppáhaldi. Bæði svig og ganga en ekki hvað síst skíðastökk. Aðeins 14 ára gamall fékk hann undanþágu til að stökkva á mótum er voru ætluð fyrir 17-19 ára og fullorðna.
Stökk hann á einu slíku móti það langt að hann hefði verið með efstu mönnum í fullorðinsflokki með 191,1 stig en sigurvegari varð Jónas Þ. Ásgeirsson með 199,2 stig (einn af ólympíuförum Íslands í St. Moritz 1948). Þá hafði pabbi gaman af skák og bridge og er mér alltaf minnisstætt þegar hann kenndi mér að tefla.
Fyrst auðvitað mannganginn, svo fékk ég drottninguna í forgjöf, þá hrók og loks riddara. Eftir það fengu allir menn að vera á borði. Hann var sókndjarfur spilari og lék óhefðbundna leiki og skákirnar því oft stuttar en skemmtilegar. Sem sjómaður kunni pabbi alla hnúta og reyndi hann að kenna mér hvernig festa ætti með öruggum hætti spún eða flugu á línu – þetta var þrautaganga.
Hann gafst ekki upp og get ég enn gert þetta þó stundum þurfi fleiri en eina tilraun til. Pabbi fékk sinn Maríulax í Fljótaánni fyrir norðan. Gleymi ég aldrei þegar við afi Kjartan stóðum á bakkanum, laxinn búinn að taka og kominn langleiðina í land þegar hann losnaði af flugunni og skyndilega var pabbi búinn að hoppa út í á, grípa laxinn og henda honum upp á land. Íþróttir hafa fylgt okkar fjölskyldu lengi og sýndi pabbi þessu áhuga, fyrst með okkur börnunum, svo með barnabörnunum.
Þá var hann duglegur að mæta á leiki og einu sinni sem oftar var handboltakappleikur í Höllinni, hann kom aðeins of seint og neitaði að borga inn, sagðist eiga hálft liðið – það hlyti að vera ígildi miðaverðsins. Þá var hann mikill sólardýrkandi. Mættur á stuttbuxum og ber að ofan löngu áður en öðru fólki fannst vorið vera komið og löngu eftir að öðrum fannst haustið ef ekki veturinn mættur.
Enda var hann brúnn svo til allt árið og byrjaður að slá grasið strax og fyrstu græðlingarnir létu sjá sig. Seinni ár fór að draga af honum og eftir að móðir okkar dó fyrir fimm árum urðu kaflaskil enda hafði hún verið honum allt og passað upp á að halda uppi máltíðum og sjá um hann að öðru leyti. Það var því gæfa þegar hann fékk hvíldarinnlögn á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund fyrir tveimur og hálfu ári – þar var hann í góðu yfirlæti hjá frábæru starfsfólki þar til yfir lauk. Takk fyrir allt og allt.
Kjartan Broddi Bragason.
„Stella, ég er að deyja, Stella, ég er að deyja,“ þessi hróp voru fyrstu kynni mín af Braga fertugum og sannfærðum um að rykið í álverinu væri að drepa hann, og hann fór ekki dult með það sem honum fannst. Þessum stórskrýtna og óheflaða manni átti ég eftir að kynnast vel og þykja afar vænt um, þó að oft hafi hann reynt á öll þolrifin í manni.
Bragi átti að mörgu leyti erfiða æsku, fór snemma að vinna til að hjálpa til við þungan heimilisrekstur. Sem krakki lagði hann stund á íþróttir og vann mestu afrekin í skíðastökki. Enda er það íþrótt sem er hröð, hættuleg og tekur stutta stund. Nokkuð sem lýsti honum alla tíð. En hann lagði skíðunum ungur að aldri.
Einhverjum 30 árum síðar keypti hann sér skíði öllum að óvörum og vildi fara í Bláfjöllin. Hann harðneitaði að fara í toglyftuna vildi í stólalyftuna þó að hann hefði aldrei séð slíka lyftu. En hann ætlaði ekki að láta toga sig upp einhverja litla brekku þegar hann gat setið í stól upp á topp. Þegar þangað var komið stóð hann þögull í nokkurn tíma og ég hélt að nú hefði hann guggnað.
En þá snéri hann sér beint niður, ýtti stöfunum í sífellu og renndi sér niður allt Kóngsgilið án þess að taka eina einustu beygju.
Beint í stólinn og aftur beint niður og nú út á bílaplan, setti skíðin á toppinn og sagði: „Komum heim, þetta er fínt.“ Við áttum eftir að skíða oft saman og að lokum fékk ég hann til að beygja inn á milli. Og margar sögur eru til af honum í brekkunum, því það er ekki eins og hann hafi verið kurteisasti skíðamaður Bláfjalla.
En Bragi átti til að vera hrjúfur og óheflaður og eins og segir í fyrsta versi kvæðis sem dóttir mín orti til hans á 75 ára afmælinu:
Þetta lýsir honum vel. Hann var alls ekki allra en undir hrjúfu yfirborðinu var vænn maður sem börnin skynjuðu vel.
Ég vann hjá honum eitt sumar í Straumsvíkinni og maður fann að hann var mikils metinn af flestum á svæðinu þó svo að sumir hafi verið hálfhræddir við hann. Enda gat hann skammað. Einu sinni hundskammaði hann mig fyrir að koma of seint í mat. Ekki vegna þess að honum var umhugað að ég fengi mat, heldur vegna þess að það vantaði fjórða mann í bridge.
Bragi hafði gaman af því að fylgjast með barnabörnum sínum stunda íþróttir og mætti oft á kappleiki enda barnabörnin stundum í meirihluta leikmanna á vellinum.
Mér fannst það því táknrænt að hann yfirgaf þennan heim á sömu mínútu og dóttir mín hóf landsleik í handbolta. Hann hefur ekki viljað missa af þeim leik, frekar en öðrum.
En nú held ég að Stella hafi loks hlustað á orðin sem hann hrópaði fyrir rúmum 40 árum. Hún hefur eflaust tekið vel á móti honum því þó að stundum hafi verið stormasamt hjá þeim hjónum duldist engum ástin og væntumþykjan þeirra á milli.
Ég kveð því ástkæran tengdaföður með ekkert nema þakklæti í huga og votta öllum ættingjum samúð en um leið samgleðst ég gamla manninum að vera kominn aftur til Stellu.
Knútur G. Hauksson.
Í dag kveðjum við yndislega afa minn. Hann var hreinn og beinn í samskiptum en á sama tíma var hann dulur maður sem bar tilfinningar sínar ekki á torg. Afi var alltaf góður við okkur krakkana og ég minnist sérstaklega allra stundanna sem hann var með okkur í garðinum í Yrsufellinu að kenna okkur til verka og sýna okkur kartöfluuppskeruna. Það voru einnig ófáir kappleikirnir sem hann afi kom á og fylgdist með okkur barnabörnunum.
Á 75 ára afmæli hans sendi ég honum lítið kvæði sem ég hef uppfært og vil fara með nú á þessum degi.
Elsku afi, ég var svo lánsöm að eiga dýrmætar stundir með þér fyrir örfáum dögum. Þar sem ég er nú stödd handan við hafið mun ég lyfta rauðvínsglasi þér til heiðurs með þakklæti í huga fyrir allar samverustundirnar með ykkur ömmu Stellu.
Hildur Knútsdóttir.