Tengt Siglufirði
Elías Ísfjörð - Fæddur 30. ágúst 1927 Dáinn 12. september 1988 -
Við heilsuðumst að vanda á vinnustað okkar þennan morgun. Hann virtist hress og kátur að vanda, þó að ég vissi, að hann gengi ekki heill til skógar. Elías Ísfjörð var ný kominn úr endurhæfingu eftir vandasaman uppskurð, en síðla dags var hann allur.
Það vannst ekki tími til að kveðjast. Það hefðum við báðir svo sannarlega viljað, því að við áttum mörg sameiginleg áhugamál og hann var sannur vinur vina sinna. Gömlu baráttufélögun um fækkar nú óðum. Það er tímans kall, sem enginn mannlegur máttur fær stöðvað.
Elías Bjarni Ísfjörð fæddist 30. ágúst 1927 á Ísafirði. Hingað til Siglufjarðar fluttist hann með móður sinni, Jóna Sigríður Jónsdóttir, 19 ára að aldri. Hér stundaði hann margs konar vinnu, var samt aðallega til sjós sem háseti og síðar matsveinn á ýmsum bátum og togurum.
Hann þótti góður matsveinn og var eftirsóttur til þeirra starfa enda mikið snyrtimenni.
Árið 1951, þann 8. júlí, gekk Elías að eiga eftirlifandi konu sína, Aðalheiður Þorsteinsdóttir, dugnaðar konu, dóttur sæmdarhjónanna Jóna Aðalbjörnsdóttir og Þorsteinn Gottskálksson.
Þau Aðalheiður og Elías eignuðust níu börn, en áður átti Aðalheiður
Árna Þorkelsson og
Jónu Þorkelsdóttur.
Maki Halldór Sigurðsson.
Börn Aðalheiðar og Elíasar eru nú öll uppkomin, en þau eru:
1) Kristján Elíasson, Makir Lilja Eiðsdóttir,
2) Þorsteinn Elíasson,
3) Rafn Elíasson og
4) Gísli Elíasson búa í heimahúsum,
5) Dagmar Elíasdóttir, Maki Magnús Ásmundsson,
6) Heiðar Elíasson, Maki Anna Júlíusdóttir,
7) Sólrún Elíasdóttir Maki Ómar Geirsson,
8) Sigurbjörg Elíasdóttir, Maki Friðfinnur Hauksson
9) Sverrir Eyland Elíasson, Maki Sigurrós Sveinsdóttir.
Barnabörnin eru orðin tólf. Elías mátti vera og var stoltur af þessu fólki sínu öllu.
Í nóvember 1976 hóf Elías störf hjá Síldarverksmiðjum ríkisins hér á Siglufirði. Fyrst vann hann við löndun, en síðar á lager verksmiðjanna. Þar reyndist hann ábyggilegur og traustur maður, sem ekki mátti vamm sitt vita í neinu. Elías var virtur og vel liðinn af starfsfélögum sínum enda glaðvær og skemmtilegur í allri umgengni.
Hann tók virkan þátt í starfi verkalýðshreyfingarinnar hér, fyrst sem sjómaður og síðar verkamaður hjá SR. Hann átti í mörg ár sæti í Trúnaðarmannaráði Verkalýðsfélagsins Vöku og var trúnaðarmaður verkamanna á vinnustað um skeið. Lengi var hann í samninganefnd verkamanna hjá SR. Hann reyndist allsstaðar tillögugóður, yfirvegaður og sanngjarn, en hélt vel á málstað umbjóðenda sinna.
Þannig kom hann mörgum málum í höfn ásamt félögum sínum. Hann þoldi heldur ekki óréttlæti og hafði samúð með þeim, sem minna máttu sín. Þannig var hann óvenjulega heilsteyptur verkalýðssinni. Baráttan skapaði honum ekki óvild yfirmanna hans, sem kunnu vel að meta hreinskilni hans og drenglyndi.
Hjá SR á Siglufirði hefur gegnum árin unnið samhentur hópur verkamanna, sem hafa staðið vel saman um málstað sinn. Elías Ísfjörð vareinn þeirra sem mótuðu þennan hóp síðari árin, enda hefur þessi vinnustaður verið í mörgu til fyrirmyndar og átt stóran þátt í því að gera SR að góðu fyrirtæki, sem gott hefur verið að vinna hjá. Hans er nú sárt saknað úr hópnum, sem þakkar honum samstarfið og samfylgdina. Aðalheiði, börnum þeirra og fjölskyldum svo og öðrum ástvinum hans flyt ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Elíasar Bjarna Ísfjörð.
Jóhann G. Möller, Siglufirði.