Halldór Guðmundsson í Frón, útgerðarmaður m.fl.

Halldór Guðmundsson f. 23/5 1889 D. 28/1 1975 var jarðsettur frá Siglufjarðarkirkju, 8. febr.sl. að viðstöddu fjölmenni. Halldór var þjóðkunnur athafnamaður, kenndur við hús sitt við Vetrarbrautina á Siglufirði sem heitir Frón. Allir kannast við Halldór í Frón, nánari lýsing óþörf. 

Hann var sonur Guðmundur Björnsson bóndi í Böðvarshólum í Vestur Húnavatnssýslu og Þórunn Hansdóttir frá Litla-Ósi.
Hann ólst upp á Bergsstöðum og Böðvarshólum til 18 ára aldurs við venjuleg sveitastörf en fór þá á Flensborgarskóla í Hafnarfirði og stundaði þar nám 1908-1910. 

Flensborgarskóli var í þá daga mjög góður skóli (og er sennilega enn) og margir ungir menn þeirra tíma fengu þar sitt veganesti, sem hefur dugað þeim vel, hver sem í hlut átti. Hitt var líka jafnvíst, að hann var langminnugri á það sem hún taldi sér vel gert, en almennt gerðist.

Halldór Guðmundsson í Frón

Halldór Guðmundsson í Frón

Árið 1910 fór Halldór til Noregs og dvaldist þar í nokkur ár. Þar nam hann beykisiðn ásamt ýmsu fleiru, sem að gagni mætti koma, norska hagsýni og fleira.

Eftir heimkomu frá Noregi byrjaði hann á síldarsöltun á Siglufirði, einn af hinum kunnu brautryðjendum á því sviði, og hefur alla tíð síðan verið Siglfirðingur í húð og hár. Þar setti hann upp fyrstu tunnuverksmiðju á Íslandi, rak umfangsmikla útgerð og verzlun um áratuga skeið.

Árið 1918 kvæntist Halldór Sigríður Hallgrímsdóttir og áttu þau 3 börn, sem öll urðu góðir og þekktir borgarar, öll búsett í Reykjavík, en þau eru: 

  • 1) Birna Halldórsdóttir maki Vilhjálmur Guðmundsson verkfræðingur og framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins, sem dó um aldur fram af slysförum, 

  • 2) Gunnar Halldórsson framkvæmdastjóri sem dáinn er fyrir tæpum tveim árum kvæntur  Guðný Óskarsdóttir Halldórssonar hins þekkta síldarútgerðarmanns, og 

  • 3) Sævar Halldórsson ljósmyndari, maki Auður Jónsdóttir Hannessonar múrarameistara.

Þau hjón Halldór og Sigríður slitu samvistir 1933.

Halldór var hógvær i framkomu allri, kurteis i viðmóti og hafði ávallt opin augu fyrir öllu sem að gagni mætti koma. Hann var maður stórhuga, iðinn og ástundunarsamur við hina breytilegu en sífellt nokkuð erfiðu lífsbaráttu og gekk á ýmsu á hans langa vinnudegi eins og vænta má . 

Það má segja um Halldór eins og Jóhannes úr Kötlum orðar það, að hann „hafi ýmist borið arfinn hátt eða varizt grandi". Hann var alla tíð æðrulaus, rólegur, ræðinn, fyrirmannlegur og skemmtilegur og hélt þessum mannkostum til æviloka. Halldór fékk hægt andlát, verðskuldaða náðargjöf frá forsjóninni, sofnaði að kvöldi dags og vaknaði ekki aftur.

Löngum og erilsömum vinnudegi lokið án langvarandi sviptinga við manninn með ljáinn.
Ég sendi þessum aldna heiðursmanni hinztu kveðjur og votta bornum hans, tengdadætrum, barnabörnum og öðrum ættingjum, vinum hans og venzlamönnum samúð við andlát hans og útför.

Guðfinnur Þorbjörnsson