Jóhannes Hjálmarsson, íþróttakennari, sjómaður

Jóhannes Hjálmarsson frá Siglufirði Fæddur 3. október 1917  Dáinn 3. október 1991 

Minningarnar verða að myndum á stund tregans.  Ég geng inn í hús á firðinum, hús undir háu fjalli. - Það er alltaf svo hlýtt í þessu húsi. -

Það er blómstrandi rós í suðurglugganum, berjalyng fyrir ofan húsið og útsýni yfir fjörðinn. Í eldhúsinu sest ég á háa stólinn við stóra eldhúsborðið sem á eru heimabakaðar kökur. Jói frændi segir sögur með djúpri rólegri rödd og Kristbjörg hlær sínum dillandi hlátri. - Það er alltaf svo hlýtt í þessu húsi en það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.

Nú hefur Jóhannes Hjálmarsson kvatt okkur - síðastur af systkinunum þrettán frá Húsabakka í Aðaldal - sem flutti til Siglufjarðar með foreldrum sínum  Kristrún Snorradóttir og Hjálmar Kristjánsson. 

Öll hafa systkinin kvatt á þeim tíma ársins er litir og ljós taka að hopa fyrir skammdegisskuggunum, enda voru þau börn lita, ljóss og ljóða. Það er trúa mín að nú séu þau sameinuð þar sem tilveran er ljóð og ljós.

Jóhannes var íþróttakennari og starfaði við það framan af - og íþróttamaður var hann góður.

Jóhannes Hjálmarsson - Ljósmynd:ókunnur

Jóhannes Hjálmarsson - Ljósmynd:ókunnur

Hann lagði gjörva hönd á margt á starfsævi sinni, en best man ég eftir Jóa frænda sem sjómanni, og þá fyrst og fremst á trillunni sinni, sem hét Kristbjörg SI. Það sannaðist á Jóa að þeir fiska sem róa, því hann sótti björg í bú á sumrin, einn á trillunni og varð síðhærður og sæbarinn er haustaði og þá fannst mér hann verða eins og persóna úr sögum um frækna sægarpa. - Og hann kunni að segja sögur.

Jóhannes var gæfumaður. Hann kvæntist Kristbjörg Marteinsdóttir frá Ystafelli. Þau eignuðust sjö börn og bjuggu í húsi undir háu fjalli á Siglufirði. Börnin eru 

Marteinn Jóhannesson,  maki: Sigurlaug Haraldsdóttir og búa þau í Hveragerði.

Þorsteinn Jóhannesson maki: Helga Þorvaldsdóttir, þau búa á Siglufirði.

Sigríður Jóhannesdóttir maki: Eiríkur Jónsson, þau búa á Akureyri.

Hjálmar Jóhannesson maki: Kolbrún Friðriksdóttir, heimili þeirra er á Siglufirði.

Kara Jóhannesdóttir, hún býr í Hveragerði. 

Kristín Jóhannesdóttir, hennar maður er Þorkell Rögnvaldsson, þau búa á Akureyri.

Signý Jóhannesdóttir maki: Þórður Björnsson, þau búa á Siglufirði.

Áður en Jóhannes kvæntist eignaðist hann dóttur, Kristbjörg Jóhannesdóttir, maki hennar er Jón Þór Bjarnason og búa þau í Reykjavík. 

    Barnabörnin eru tuttugu og tvö og barnabörnin eru fjögur.

Jói frændi var jafnaðarmaður og trúr þeirri stefnu. Hann var ljóðelskur og unni náttúrunni og landinu. Hann var ekkert fyrir hjóm. Hann var hreinskilinn og var lítt fyrir að látast. Hann var hagmæltur en flíkaði því ekki. Áleit að aðrir væru færari.

Á kveðjustund áttum við okkur á því að sú stund veldur þáttaskilum í lífi okkar sem eftir lifum, lífið verður ekki eins og það var. Af því að Jói frændi er farinn. Minningarnar lifa og þakkirnar eru kærar fyrir að hafa átt móðurbróður með djúpa og rólega rödd og vinarþel sem aldrei gleymist.

Elsku Kristbjörg og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur. Guð blessi ykkur og minninguna um Jóhannes Hjálmarsson.

Sigríður K Stefánsdóttir