Tengt Siglufirði
Björn Stefánsson f.1910 - d.1997
Björn Stefánsson Björn Stefánsson fv. kaupfélagsstjóri andaðist í sjúkrahúsinu í Neskaupstað 5. ágúst, rúmlega 87 ára.
Eins og títt var um unglinga á landsbyggðinni vandist Björn snemma allri vinnu til sjós og lands og löngum var það svo að krakkar vissu ekki gjörla hvenær barnleikar hættu og alvörustörf tóku við, því að snemma var unnt að vera í verki með fullorðna fólkinu. Um langa skólagöngu var ekki að ræða þótt hvorki skorti gáfur né dugnað. En haustið 1930 fór Björn í Samvinnuskólann og lauk þaðan prófi vorið 1932.
Í þeim skóla kynntumst við og sátum saman við borð
allan námstímann. Fyrir mig var satt að segja mikill munur að koma í þennan skóla úr "Ingimarsskólanum" (Gagnfræðaskóla Reykjavíkur) þar sem mér þótti
flest hvimleitt. Í Samvinnuskólanum komu menn til að læra, flestir fátækir, og vissu að þetta námstækifæri þurfti að nota vel, enda höfðu þeir sjálfir aflað
fjár með mikilli vinnu til þess að standast skólakostnaðinn.
Björn var ágætur námsmaður og vel metinn af skólafélögum og kennurum, glaðvær og yfirlætislaus.
Að námi loknu starfaði hann við kaupfélög á ýmsum stöðum, fyrst í heimabyggð sinni eystra, hjá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga 19341935 og Kaupfélagi
Stöðfirðinga 19371938. Þá gerðist hann forstjóri Kaupfélags Suður- Borgfirðinga á Akranesi. Á Siglufirði var hann kaupfélagsstjóri árin 19541961, en réðst
til Kaupfélags Héraðsbúa á Egilsstöðum frá ársbyrjun 1962 og gegndi þar forstjórastarfi til 1. júlí 1967.
Menn urðu misvinsælir sem kaupfélagsstjórar.
Verslunarárferði var oft erfitt og vandi að gæta bæði hags félagsins í heild og svo félagsmanna sem einstaklinga. En Björn Stefánsson var vinsæll og vel látinn á öllum
starfsferli sínum, enda með afbrigðum óeigingjarn maður og heiðarlegur og lagði sig fram um að greiða götu manna, en skaraði aldrei eld að sinni köku. Ég efast um að nokkur forstjóri
stórs fyrirtækis hafi lagt jafnlítið í búnað skrifstofu sinnar og hann, enda þótti sumum hann of sparsamur við sjálfan sig í þeim efnum. En þetta var þáttur í
skapgerð hans: að vera en ekki að sýnast.
Björn Stefánsson hafði nokkur afskipti af öðrum málum á starfsferli sínum en verslun og viðskiptum. Hann var í hreppsnefnd Stöðvarhrepps
19421954 og formaður skólanefndar þar um skeið. Þá var hann formaður skólanefndar Egilsstaðaskólahverfis 19631967. Hann var um tíma varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn
og sat skamma hríð á Alþingi 1950. Þegar Björn lét af kaupfélagsstjórn gerðist hann erindreki Áfengisvarnaráðs og fór á þess vegum víða um land, hélt
fundi og sinnti bindindismálum af miklum áhuga. Sjálfur var hann alla tíð alger bindindismaður á áfengi og tóbak.
Björn kvæntist 9. maí 1941 Þorbjörgu, dóttur
hjónanna Guðbjargar Erlendsdóttur og Einars bónda og símstjóra á Ekru í Stöðvarfirði. Þorbjörg lifir mann sinn. Börn þeirra eru Eysteinn, Lára, Guðbjörg
Ólöf, gift sænskum lækni og eru þau búsett í Bandaríkjunum, Björn og dr. Einar Stefán. Hjá Þorbjörgu og Birni ólst upp systurdóttir Þorbjargar, Nanna Ingólfsdóttir.
Eiginmaður hennar er Víðir Friðgeirsson. Þorbjörg er hin mesta merkiskona og hefur staðið fast við hlið manns síns í blíðu og stríðu. Á hlýlegu og fallegu heimili
þeirra hjóna hefur jafnan verið mikil gestakoma og vinnudagur húsfreyjunnar stundum ærið langur.
Þegar Björn lét af störfum settust þau hjónin að í Kópavogi,
en fluttust brátt til Stöðvarfjarðar og keyptu húsið Hól, sem stendur á fallegum stað efst í þorpinu. Þar hafa þau eytt ellidögunum. Björn reri löngum til fiskjar á
báti sínum og undi vel hag sínum í þessu fagra umhverfi.
Með Birni Stefánssyni er horfinn af sjónarsviðinu mikilsvirtur heiðursmaður. Margir nutu góðs af miklu og óeigingjörnu
starfi hans og hjálpsemi. Við hjónin sendum Þorbjörgu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur með þökk fyrir löng og góð kynni.
Birgir Thorlacius.