Friðrik Stefánsson skrifstofumaður

Friðrik Stefánsson fæddist í Vatnshlíð í Bólstaðarhlíðarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu 24. febrúar 1924. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði 10. október 2004. 

Foreldrar Friðriks voru Guðrún H. Friðriksdóttir, f. 8. febrúar 1896, d. 2. janúar 1939, og Stefán Sveinsson, f. 16. janúar 1893, d. 17. júlí 1966. 

Systkini Friðriks sammæðra

 • Þórunn Hallgrímsdóttir, f. 31. mars 1916, d. 24. janúar 1995, og samfeðra
 • Elísabet Stefánsdóttir, f. 30. október 1949,
 • Stefán Stefánsson, f. 27. ágúst 1953,
 • Birna Stefánsdóttir, f. 25. febrúar 1955.

Eiginkona Friðriks er Hrefna Einarsdóttir, f. 9. ágúst 1926.  Foreldrar hennar voru Sigrún Jónasdóttir, f. 17. júní 1907, d. 11. nóvember 1991, og Einar Magnússon, f. 7. sept. 1904, d. 20. febrúar 1993. 

Friðrik Stefánsson - Mynd úr safni: Kjartan Jónsson

Friðrik Stefánsson - Mynd úr safni: Kjartan Jónsson

Börn Friðriks og Hrefnu eru: 

1) Gunnar Friðriksson, f. 1. febrúar 1945, d. 29. júlí 2003, kona Kristrún Sigurbjörnsdóttir, f. 28. nóvember 1947.
Börn þeirra eru: 
 • Jóhanna Hrefna Gunnarsdóttir, f. 4. maí 1969, 
 • Sigurður Jón Gunnarsson, f. 6. desember 1971, og 
 • Dagur Gunnarsson, f. 12. maí 1975.
 • Dóttir Gunnars frá fyrri sambúð er Hanna Kristjana Gunnarsdóttir, f. 19. desember 1963. 

2) Sigrún Friðriksdóttir, f. 11. júlí 1947, maki Jens G. Mikaelsson, f. 8. júní 1948. Börn þeirra eru: 
 • Katrín Þórný, f. 26. febrúar 1970, og
 • Heimir Þór, f. 14. október 1974.
  Börn Sigrúnar og Frímanns Ingimundarsonar frá fyrri sambúð eru
 • Friðrik Ingi, f. 7. febrúar 1966, og
 • Sigríður, f. 23. maí 1967, d. 17. maí 2003, sem var alin upp hjá Friðriki og Hrefnu móðurforeldrum sínum.
3) Jónína Gunnlaug Friðriksdóttir, f. 17. febrúar 1949, ættleidd af hjónunum  Sigrúnu Ásbjarnardóttur og Ásgeiri Björnssyni, 
maki Jónínu er Magnús Guðbrandsson, f. 16. desember 1948.
Börn þeirra eru
 • Guðbrandur Magnússon, f. 11. september 1967, 
 • Ásgeir Rúnar Magnússon, f.19. maí 1970, 
 • Anna Júlía Magnúsdóttir, f. 24. febrúar 1975, og 
 • Kristinn Magnúsdóttir, f. 26. febrúar 1980. 

4) Kolbrún Friðriksdóttir, f. 24. nóvember 1950, maki Hjálmar Jóhannesson, f. 31. júlí 1948.  Börn þeirra eru
 • Jóhannes Hjálmarsson, f. 25. nóvember 1969, 
 • Sandra Hjálmarsdóttir, f. 19. júní 1974, og 
 • Einar Hrafn Hjálmarsson, f. 9. ágúst 1983. 

5) Sigurður Friðriksson, f. 5 ágúst 1952, kona Jónína Kristín Jónsdóttir, f. 12. nóvember 1955.
Börn þeirra eru
 • Jón Kristinn Sigurðsson, f. 11. febrúar 1971, 
 • Jónas Halldór Sigurðsson, f. 13. febrúar 1975 og 
 • Trausti Sigurðsson, f. 28. september 1982. 

6) Stefán Einar Friðriksson (Stefán Friðriksson) , f. 12. október 1960, kona hans Jónbjörg Katrín Þórhallsdóttir, f. 6. september 1960.
Börn þeirra eru
 • Stefán Gauti Stefánsson, f. 1. nóvember 1980, 
 • Dagný Sif Stefánsdóttir, f. 7. júní 1985.

Friðrik Stefánsson ólst upp í Eyjafjarðarsveit og vann við almenn bústörf.

Friðrik kynntist Hrefnu er hann réðst að kúabúi á Hóli í Siglufirði vorið 1942 og hófu þau sambúð 30. september 1943 og giftu sig 31. desember 1954. 

Þau bjuggu allan sinn búskap á Siglufirði. Um tíma vann hann við byggingavinnu, þar til hann réðst sem skrifstofumaður til Siglufjarðarbæjar, vann um tíma hjá útibúi KEA í Siglufirði og Skattstofu Norðurlands vestra frá 1980 til starfsloka, rúmlega 67 ára.

Var lengst af í stjórn Starfsmannafélags Siglufjarðarkaupstaðar og þar af formaður í 8 ár. Meðlimur í Lionsklúbbi Siglufjarðar í 20 ár. Félagi í Leikfélagi Siglufjarðar yfir 20 ár og tók þátt í flestum leiksýningum á þeim tíma. 

Þá var hann félagi í Hestamannafélaginu Glæsi og tók virkan þátt í starfsemi þessa félags og var gerður að heiðursfélaga árið 1994, þá 70 ára. Nú seinni árin var hann félagi í kór eldri borgara Vorboðunum.

Útför Friðriks fór fram frá Siglufjarðarkirkju. 
------------------------------------------------------------

Mig langar að heiðra minningu míns ástkæra afa og koma nokkrum minningabrotum honum tengdum í orð. Alltaf þegar ég hugsa um afa, þá sé ég fyrir mér "reffilegan" mann í svörtum mokkasíum og ljósum kakíbuxum. Undir vínrauðu vesti er hann í köflóttri skyrtu með axlabönd og á höfðinu er hann með svart og hvítt köflótt "pottlok" með dúski. Hann hallar undir flatt og um annan úlnliðinn er band sem í hangir svört "leðurtuðra". 

Þetta er Fiddi afi minn, svo elskulegur og blíður sem hann var. Hugurinn reikar samstundis í Túngötu 28 þar sem þau amma og afi áttu heima öll mín æskuár. Oft vorum við barnabörnin búin að skríða upp í sófann til afa til að hlusta á sögurnar hans, sem virtust óþrjótandi og alltaf jafn spennandi og aldrei þreyttist hann á að miðla visku sinn og lífsreynslu. Já, hann var lífsreyndur maður og hafði a.m.k. níu líf. 

Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um hann og þurfti hann að standa á eigin fótum frá fjórtán ára aldri, eftir að móðir hans lést úr krabbameini langt um aldur fram. Frá unga aldri stóð hann sjálfur oft frammi fyrir dauðanum og var í gegnum tíðina búinn að heyja marga orustuna við hina ýmsu sjúkdóma, s.s. berkla, lömunarveiki og krabbamein, en hann var alltaf sigurvegarinn og stóð uppi reynslunni ríkari og þakklátur sem aldrei fyrr.

Fiddi afi var vísdómurinn holdi klæddur og sem barn var ég þess fullviss að gáfaðri maður fyrirfyndist ekki á Íslandi, jafnvel ekki í öllum heiminum. Hann átti aragrúann allan af erlendum bókum og var búinn að lesa Íslendingasögurnar á hinum ýmsu tungumálum. Ljóðelskur var hann og með eindæmum hagyrtur. Þær eru ófáar vísurnar sem hann lætur eftir sig en þær eru flestar í léttari kantinum, enda var afi mikill húmoristi og óragur við að gera góðlátlegt grín að sjálfum sér og öðrum.

Margar góðar minningar á ég úr hesthúsunum og vorum við búin að fara í marga útreiðartúra saman. Einnig var farið á mörg hestamannamót og var þá sett kerra aftan í rauða Broncoinn og hún fyllt af reiðtygjum og tilheyrandi búnaði en í skottið var raðað alls kyns góðgæti, þ. á m. kótelettum að hætti ömmu, en þær skipta líklega orðið hundruðum ef ekki þúsundum í gegnum tíðina. 

Afi var dálítið sérvitur varðandi nafnaval á hrossin sín en hann átti m.a. Skolla, Skandal, Goldu Meir og Hremsu en Skandall var honum líklega kærastur enda mikill gæðingur og færði afa nokkrar medalíur. Seinni árin gat afi heilsu sinnar vegna ekki stundað hestamennsku en var alltaf jafn áhugasamur og fylgdist vel með.

Hún amma mín elskuleg hefur alltaf staðið eins og klettur við hlið afa og hjúkrað honum í veikindum hans af mikilli ástúð og óeigingirni. Megi hún hafa allar heimsins þakkir fyrir það og bið ég góðan guð að varðveita hana og styrkja í sorginni en hún hefur á rúmu ári misst tvö af börnum sínum og nú lífsförunaut sinn.

Elsku afi minn. Nú ertu kominn til pabba og Siggu og vonandi ertu laus við alla sjúkdóma og þrautir. Ég vil þakka þér samfylgdina og fyrir alla þína hlýju og ást mér til handa. Síðustu kveðju þinni til mín og fallegu orðunum þínum mun ég aldrei gleyma. Ég er stolt af því að eiga þig fyrir afa og óska þér guðs blessunar.

Þig leiði guð og lánið blítt,
um ljós og friðar vegi.
Og aftanskin þér orni hlýtt,
að æfi lægðum degi.   (Höf. ók.)

Þín Hanna Hrefna.