Álfheiður Laufey Guðmundsdóttir

Álfheiður Guðmundsdóttir fæddist á Siglufirði 24. febrúar 1922. - Hún lést á Droplaugarstöðum 16. nóvember 2004.

Foreldrar Álfheiðar voru Theódóra Pálsdóttir Árdal og Guðmundur Hafliðason hafnarstjóri á Siglufirði.

Eiginmaður Álfheiðar var séra Emil Björnsson safnaðarprestur Óháða safnaðarins allt frá stofnun hans 1949 til 1983. Jafnframt var Emil fyrsti fréttastjóri Sjónvarpsins frá upphafi þess 1965 og til 1985. Um margra ára skeið þar á undan var hann fréttamaður hjá hljóðvarpinu. Séra Emil lést 1991.

Álfheiður og Emil áttu fjögur börn, þau eru:

Theódóra Guðlaug Emelsdóttir íþróttakennari,

Björn Emelsson dagskrárgerðarmaður,

Guðmundur Emelsson tónlistarkennari dr. í hljómsveitarstjórn og

Álfheiður Guðmundsdóttir - Ljósmyndari ókunnur

Álfheiður Guðmundsdóttir - Ljósmyndari ókunnur

Álfheiður Emelsdóttir skrifstofumaður.

Álfheiður dvaldist nokkur síðustu árin á Droplaugarstöðum.

Álfheiður Guðmundsdóttir var hæfileikarík glæsikona, m.a. gædd góðum sönghæfileikum en auk þess áhuga- og framkvæmdasöm í þágu góðra mála. Það gustaði af henni þar sem hún kom við sögu. Góðvild og umhyggja gagnvart þeim sem þurftu á aðstoð að halda voru ríkir þættir í fari hennar. Gilti það einu hvort var um að ræða menn eða málleysingja. Um þetta eru ótal dæmi sem ekki verða rakin hér.

Stofnun og uppbygging Óháða safnaðarins var mikið átak sem byggðist á samstarfi margra frábærra einstaklinga, þar sem fórnfýsi og frjálslyndi var í fyrirrúmi. Kjölfestan í hinu kristilega og veraldlega safnaðarstarfi voru sjálf prestshjónin. Heyrði ég þau oft viðhafa lofsamleg ummæli um það góða og athafnasama fólk sem lagði grunninn að Óháða söfnuðinum.

Álfheiður stóð dyggilega við hlið manns síns í smáu sem stóru. Hún var m.a. formaður kvenfélags safnaðarins - lét sér mjög annt um kirkjukórinn þar sem hún var félagi í áratugi. Almennt var hún þátttakandi í öllu því sem horfði til framfara og heilla fyrir hinn unga söfnuð.

Mér er kunnugt að um margra ára skeið, áður en kirkjan hafði verið byggð, fóru margháttaðar athafnir, svo sem giftingar, skírnir o.fl., fram á heimili prestshjónanna. Þá komu að góðu gagni söng- og tónlistarhæfileikar Álfheiðar.

En fleira hafði Álfheiður til að bera. Glaðværð og gestrisni var henni eðlislæg. Við vorum nokkrir kunningjar þeirra og vinir sem tókum okkur til á árabili að ferðast saman um okkar eigið land að sumarlagi. Aldursmunur ferðalanganna var mismikill en kynslóðabil var ekki til staðar. Hópurinn samanstóð af 10-14 manns.

Ferðast var í einum bíl í eigu eins í hópnum. Hafði bíllinn nafnið "María", nokkuð kominn til ára sinna en dugði vel. Sjálfkrafa hlutu því ferðirnar heitið "Maríuferðirnar". Farið var til ýmissa landshluta og lá leiðin ávallt um hálendið en komið víða við þegar komið var til byggða.

Lýsingar á landi og sögulegum stöðum voru vinsælar, mikið var sungið og einnig ort, enda hagyrðingar í hópi ferðalanga. Gleði og gott skap voru leiðarljósið í þessum ferðum. Ég vil í nafni okkar ferðalanganna þakka Álfheiði og Emil þeirra góða framlag og ógleymanlegar stundir. Þær eru geymdar en ekki gleymdar.

Það var hlutskipti mitt að gegna formannsstarfi í Óháða söfnuðinum um 17 ára skeið. Um leið og minnst er þess mæta safnaðarfólks sem þar kom við sögu og átti samstarf við Álfheiði, minnumst við öll Álfheiðar Guðmundsdóttur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hennar.

Sigurður Magnússon.