Tengt Siglufirði
22. júní 2012 | Minningargrein mbl.is
Hjördís Böðvarsdóttir fæddist á Siglufirði 22. júní 1944. Hún andaðist á Landspítalanum Fossvogi 12. júní 2012.
Heimili þeirra var mikið fjölskylduhús en í því bjuggu, auk Pálínu og Guðna, börn þeirra og fjölskyldur.
Systir Hjördísar er
Þann 28.3. 1964 giftist Hjördís Bergi Guðnasyni frá Reykjavík, f. 29.9. 1941, d. 5.11. 2009. Þeirra börn eru:
Hjördís fluttist til Reykjavíkur veturinn 1962 og starfaði fyrst við Heyrnleysingjaskólann eftir flutninginn suður. Síðar hóf hún störf hjá Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar og starfaði þar fram að giftingu og fyrstu hjúskaparár sín. Eftir að Bergur lauk laganámi varð húsmóðurhlutverkið aðalstarf Hjördísar en hún stundaði að auki verslunarstörf að hluta eftir að börnin komust á legg og meðan heilsan leyfði.
Útför Hjördísar verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, 22. júní 2012 og hefst athöfnin kl. 13. Hún verður jarðsett við hlið eiginmanns síns í Sóllandi, Fossvogskirkjugarði.
Þegar sumarið skartar sínu fegursta kveður tengdamamma okkur á afmælisdegi sínum. Hún hefur lokið lífsgöngu sinni.
Kynni okkar Hjördísar hófust þegar ég byrjaði með Guðna elsta barni hennar árið 1984. Hjördís tók mér opnum örmum frá fyrstu tíð. Mér er minnisstæð fyrsta jólagjöfin frá henni en hún var svo falleg að ég var hálf miður mín. Kannski var hún með henni að bjóða mig velkomna í fjölskylduna. Hjördís hafði ljúfa nærveru og mér leið alltaf vel í návist hennar. Ég hugsa til baka og sé mynd af fallegri og nettri konu, óaðfinnanlegri í klæðaburði.
Ég furðaði mig á því hvernig hún gæti sinnt heimilisstörfum með gullfestarnar og ekki krumpu að sjá á fötunum. Því miður hef ég ekki getað leikið þetta eftir. Heimili tengdaforeldra minna bar vott um smekkvísi hennar. Hún gat stjanað heldur of mikið, að mínum dómi, við fjölskyldumeðlimi. Sem dæmi um það hef ég hana grunaða um að hafa straujað íþróttafötin hans Guðna.
Kartöflur fóru heldur aldrei óskrældar á borðið hjá Hjördísi og var Guðni hvumsa þegar undirrituð skellti óskrældum kartöflunum á borðið í fyrsta sinn. Lífið var ekki alltaf dans á rósum og háði Hjördís marga hildi við Bakkus.
Fjölskyldan var þá hennar styrkur og hún var einnig sterk og stóð alltaf þétt við bakið á sínum nánustu þegar erfiðleikar steðjuðu að. Hún hugsaði líka fyrst um aðra og linnti ekki látum í byrjun júní á spítalanum fyrr en hún væri búin að gefa Bergi syni okkar farareyri á leið hans erlendis. Síðasta bón hennar til Guðna, nokkrum dögum fyrir andlátið, var að hann hætti ekki við að fara með Páldísi dóttur okkar til Spánar í fótboltaferð, en Hjördís lést þegar við vorum erlendis.
Líf tengdamömmu var erfitt eftir að Bergur tengdapabbi lést árið 2009. Hún glímdi við veikindi síðustu ár sem gerðu henni erfitt að lifa sjálfstæðu lífi og tengdapabbi var lífæð hennar út í heiminn. Það er því ljúfsárt að kveðja hana en hún er nú laus úr viðjum veikindanna. Ég er þess fullviss að tengdaforeldrar mínir séu saman á ný.
Minningin um tengdamömmu lifir áfram. Þakka þér fyrir allt saman, elsku Hjördís.
Hvíl í friði. Þín tengdadóttir, Elín.
-----------------------------------------------------
Í dag kveðjum við Hjördísi Böðvarsdóttur mágkonu mína sem andaðist þann 12. júní, södd lífdaga. Hún fæddist á Siglufirði 22. júní árið 1944 og hefði því orðið 68 ára í dag, á útfarardegi sínum.
Hjördís fangaði hjarta Bergs bróður míns í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar þegar hann fór í síldarvinnu á Siglufirði sumarið eftir stúdentspróf. Þau gengu síðan í hjónaband árið 1964 og stofnuðu heimili í Drápuhlíðinni, beint á móti heimili foreldra okkar Bergs. Þar eignuðust þau Guðna árið 1965. Á þessum árum var bróðir minn í námi og eiginkonan studdi hann með ráðum og dáð og vann að hluta til fyrir þeim.
Þau Bergur fluttu síðan í Álftamýri, eignuðust einkadótturina Sigríði, og eftir nokkur ár í Vogunum og Smáíbúðahverfi fluttu þau í Fossvogsdalinn, þar sem þau áttu glæsilegt heimili um margra ára skeið. Þar naut Hjördís sín vel og voru það áreiðanlega hennar bestu ár. Þá stækkaði fjölskyldan enn, þeir Böðvar og Bergur Þór bættust við og börnin orðin fjögur. Hjördís var að mestu leyti heimavinnandi húsmóðir um dagana enda heimilið stórt, en vann einnig utan heimilisins við verslunarstörf, bæði á fyrstu árum hjónabandsins og þegar heimilisfólki tók að fækka. Naut hún alla tíð aðstoðar móður sinnar sem kom og gætti bús og barna hvenær sem þörf var á.
Hvar sem þau Bergur bjuggu var heimili þeirra opið fyrir vini og vandamenn sem sóttu í félagsskap þeirra því að Hjödda og Beggi, eins og þau voru kölluð, voru höfðingjar heim að sækja og var þar oft glatt á hjalla. Það hefur sjálfsagt reynt á unga eiginkonu, þegar heimilið fylltist skyndilega af yngri og eldri Valsmönnum að loknum einhverjum kappleiknum, hvort sem þeir komu til að fagna sigri eða hugga sig eftir tapleik. Þá reyndi á jafnaðargeð og styrk til að þola slíkar innrásir, þótt vinir ættu í hlut, og er trúlegt að stundum hafi mágkonu minni þótt nóg um slík atvik, sem voru tíð.
Meðan börnin voru að vaxa úr grasi ferðuðust þau Bergur mikið með þeim, einkum til Spánarstranda. Þar áttu þau margar gleðistundir á sumrin í mörg ár. Eru þessar stundir dýrmætar í minningasjóði barnanna, nú þegar báðir foreldrarnir eru horfnir héðan.
Síðustu árin var Hjördís veikburða og átti erfitt með að búa ein eftir að Bergur lést fyrir aðeins tveimur og hálfu ári. Hún flutti í þjónustuíbúð fyrir hálfu öðru ári þar sem börnin fjögur hafa sinnt henni af stakri alúð, ást og umhyggju og verið henni félagsskapur og styrkur þennan tíma. Þau ásamt barnabörnunum fimm eru arfur Hjördísar sem hún má vera stolt af.
Hjördísi var ljóst hvert stefndi síðustu dagana og fékk hún hægt andlát eins og hún vildi sjálf hafa það. Við Nenni kveðjum hana með þökk fyrir samferðina og vottum Guðna, Siggu, Bödda og Begga Þór, mökum og barnabörnunum okkar innilegustu samúð.
Jónína Margrét Guðnadóttir.
Hún Hjördís mín Böðvarsdóttir féll frá í síðustu viku, en þar kvaddi góð og hjartahlý kona.
Hún giftist einum af mínum bestu vinum, Bergi Guðnasyni lögmanni, sem kvaddi hinn jarðneska heim þann 5. nóvember 2009.
Hann hafði kynnst henni á síldarárunum þegar mikil rómantík sveif yfir vötnum á Siglufirði, þótt mér þyki ósennilegt að þau hafi lagt á sig að klifra upp í Hvanneyrarskál, þar sem mörg önnur ástarævintýri byrjuðu.
Við Bergur urðum traustir vinir þegar ég var aðeins 16 ára, en þá hófum við að leika saman hand- og fótbolta með Val.
Það var auðvelt að kynnast Hjördísi og þau hjónin reyndust mér alltaf vel, allt til hinstu stundar og þær voru ófáar ánægjustundirnar sem við áttum saman, enda má segja að ég hafi verið hálfgerður heimilisköttur hjá þeim í mörg ár.
Hjördís fékk sinn skammt af andstreymi í lífinu, reyndar eins og við flest, en ávallt stóðu þau hjónin saman í blíðu og stríðu og vissulega voru gleðistundirnar margar og góðar.
Við treystum auðveldlega hvert öðru og mjög vel og fyrir það vil ég þakka af heilum huga.
Það var mörgum mikið áfall þegar Bergur féll frá, en engum eins mjög og Hjördísi, svo samofið var þeirra líf.
Hjödda mín, nú ertu kominn til Begga og hann tekur þér höndum tveimur og ástin mun áfram blómstra.
Hjördís mín, þúsund þakkir fyrir að hafa verið mér svo góð og sannur vinur í áratugi.
Megi góður Guð styrkja börnin þín og barnabörn og allt samferðafólk ykkar. Þið voruð mér svo dýrmæt, en minningin um ykkur mun lifa.
Hermann Gunnarsson.
Hjödda var sannur vinur og nú þegar hún kveður þá er margs að minnast. Hún og Beggi heitinn voru gestrisin með afbrigðum og útidyrahurðin á heimili þeirra var eins og vængjahurð. Alltaf opin fyrir vini og vandamenn.
Í upphafi hjúskapar þeirra Begga kynntumst við þessum líka úrvalshjónum afar vel og vorum miklir vinir og samgangur á milli heimila töluverður. Langflestir, ef ekki allir Valsmenn sem kynntust þeim eiga góðar minningar frá öllum skemmtilegu boðunum þeirra og þar var Hjödda eins og klettur í hópnum og Beggi var svona jötungrip í félagsskapnum. Aðeins eldri og reyndari en við hin og var alltaf gott að geta leitað til þeirra með ólíklegustu mál bæði erfið og líka þau skemmtilegu. Alltaf tók Hjödda vel á móti á dæmigerða íslenska vísu með góðgæti sem hún töfraði fram af sinni alkunnu snilld enda var hún húsmóðir af bestu gerð og einstaklega góður kokkur.
Hjödda hafði líka gaman af því að ferðast og áttum við ótal stundir með þeim hjónum og börnum sem fjölgaði jafnt og þétt. Þau voru nánast fastagestir á El Remo hótelinu á Costa Del Sol í mörg ár. Alltaf í byrjun júní að loknum skólum þá fórum við saman á þessar slóðir sem urðu nánast eins og okkar annað heimili.
Eftirminnilegust er þó ferðin sem við fórum saman í Karabíska hafið. Þar lék vinkona okkar á als oddi allan tímann. Allt var svo framandi og spennandi, nýjar eyjar á hverjum degi, ný menning og siðir. Það líkaði henni vel. Var eitt sælubros allan tímann. Var samt ekki alveg viss um að henni líkaði nektarnýlendan á einni eyjunni. Fannst það ganga aðeins of langt fyrir hennar smekk, eða þannig.
Þá má ekki gleyma að minnast á húmorinn hennar Hjöddu, hann var lúmskur. Innan um allan skarann af hressum háværum Völsurum og sprækum börnum sem áttu það sameiginlegt að hafa skemmtilega frásagnargáfu naut hún sín vel. Var ekki hávær en ávallt með á nótunum, hló mikið og skemmti sér konunglega í félagsskap léttleikans.
Við samhryggjumst börnum, barnabörnum og fjölskyldu Höddu.
Það er ávallt erfitt að kveðja góða vini, við vorum samt svo heppin að eiga með Hjöddu okkar góðan eftirmiðdag á heimili hennar fyrir nokkru síðan. Það var góður dagur. En það er líka gott á stundum sem þessum að eiga bara góðar og fallegar minningar um vini sína. Hjöddu tókst að skilja eftir sig fallegar minningar í okkar huga og fyrir það erum við henni þakklát.
Hvíl í friði góða vinkona.
Baldvin og Margrét.
---------------------------------------------------
Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Val
Látin er Hjördís Böðvarsdóttir, eiginkona Bergs Guðnasonar, fyrrverandi leikmanns Vals í áraraðir og síðar formanns félagsins á árunum 1977-1981. Það má til sanns vegar færa að þegar menn taka sér fyrir hendur umfangsmikil störf eins og formennska í íþróttafélagi er, kemur það niður á fjölskyldulífinu öllu og makar viðkomandi eru orðnir með beinum eða óbeinum hætti þátttakendur í starfinu. Með þessum fáu línum vil ég flytja þakkir frá Knattspyrnufélaginu Val fyrir stuðning Hjördísar við félagið í gegnum árin.
Sendum Guðna, Böðvari, Bergi, Sigríði, Elínu og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Hörður Gunnarsson, formaður.