Jón Frímann Frímannsson

Jón Frímannsson -  Er mér barst sú frétt, að Jón mágur minn væri látinn, reikaði hugurinn ósjálfrátt til bernsku og unglingsáranna í Skagafirði og Siglufirði. Fáir eru mér minnisstæðari en Jón, frá þessum árum, hann var alltaf svo gamansamur, en jafnframt traustur persónuleiki, sem ég bar alltaf mikla virðingu fyrir.

Ég kynntist Jóni fyrst um 1940 er systir mín Auður og hann hófu búskap og giftu sig. Mér er minnisstætt þegar hann byggði þeim lítið heimili stofu og eldhús, sem viðbyggingu við bæinn okkar á Undhóli í Óslandshlíð. Efnivið fékk hann úr húsi, sem hann keypti til niðurrifts að Saurbæ í Kolbeinsdal og flutti hann efnið að Undhóli.

Hann var mjög góður smiður og hagsýnn. Var unun að sjá hve allt lék í höndum hans. Að þessu verki vann hann að mestu einn og vandaði hann til þess eins og kostur var. Ég minnist ferðanna inn í Kolbeinsdal með Jóni, er hann var að vinna þar, og að smíði þessa litla heimilis. Hann var alltaf að segja mér frá ýmsu skemmtilegu eða spennandi, sagnir um Hreðuklettinn uppi í fjallinu ofan við Saurbæ, sagnir af Barðs Gátt o.fl. og mér fannst alltaf ævintýralegt að heyra hann segja frá.

Jón Frímannsson

Jón Frímannsson

Ég á margar góðar minningar um Jón, bæði frá þessum tíma og síðar, er við áttum tíma saman á Siglufirði. Hann var sannur vinur. Því miður kom síðar langur tími er við vorum mjög fjarri hvor öðrum, en leiðir okkar lágu saman, síðast fyrir þremur árum, þá kom hann alltaf á móti mér með sínu hlýja brosi og glettni í augum. Viðmót hans var sérstaklega aðlaðandi og alltaf 

var hann reiðubúinn að rétta hjálparhönd, ef til hans var leitað og oft kom sú hjálparhönd óumbeðin.

Jón Frímannsson var Fljótamaður í húð og hár, fæddur þar, og ólst upp, elstur 16 systkina hjá foreldrum sínum að Austara-Hóli í Flókadal. Auðvitað var hann kallaður Nonni eins og allir góðir Jónar á Íslandi og þekktu flestir hans kunningjar hann með því nafni.

Fyrir tilstilli Jóns dvaldi ég nokkurn tíma á heimili foreldra hans að Austara-Hóli og fékk því að kynnast föður hans Frímanni Guðbrandssyni og konu hans Jósefínu og mörgum af systkinunum. Þetta er mér en minnisstæður tími. Þessi kynni af fjölskyldu hans staðfestu enn frekar, á hve traustum grunni hann stóð sem persóna. Þetta stóra heimili, sem hann kom frá, var bæði skemmtilegt og traust.

Jón og Auður bjuggu fyrst á Undhóli, en fluttu síðar út í Fljót, og voru meðal annars að störfum að Barði í Fljótum og síðar að Hraunum. Að lokum lá svo leiðin til Siglufjarðar þar sem þau hafa búið í áratugi.

Jón stundaði ýmis störf, sem ég kann ekki að rekja til hlítar. Þó man ég að hann starfaði við byggingu Skeiðsfossvirkjunar, en lengst af mun hann hafa starfað á vegum SR á Siglufirði. Hann lifði síldarævintýrið eins og það var í raun ­ þá var Siglufjörður stór bær. Ég sá aðeins endinn á því, en ég get hugsað mér, hve vel Jón hefur notið sín í því umhverfi þegar spennan ríkti og hlaðin skip komu til hafnar dag eftir dag.

Jón og Auður eignuðust fimm börn, sem öll eru uppkomin. Þau eru: 

1) Pála Hólmfríður Jónsdóttir, 

2) Álfhildur Hjördís Jónsdóttir, 

3) Dagbjört Jónsdóttir, 

4) Birgir Jónsson og 

5) Guðbrandur Jónsson. 

Þau hafa erft marga góða kosti frá föður sínum, sem nú er horfinn. Ég sendi þeim Auði systur minni innilegustu samúðarkveðjur vegna fráfalls Jóns Frímannssonar og bið guð að styrkja þau í hinum mikla harmi er sækir þau nú heim.

En munum alltaf: "Hann skildi eftir ljós í ganginum," gangi lífsins, sem við öll förum um. Þar verður alltaf birtan og hlýjan, sem fylgdi honum.  

Jóhannes Gísli Sölvason.