Jón Guðmundur Jónsson fv. bóndi (Jón í Tungu)

Jón Jónsson - Hann fæddist á Gautastöðum í Stíflu norður hinn 28. maídag árið 1880 - Dáinn, 14. febrúar 1971, nýlega orðinn 90 ára 

Jón Jónsson, Jón í Tungu f. 28. maí 1880 á Gautastöðum í Stíflu. Bóndi á Brúnastöðum í Fljótum, 1906-10 og í Tungu 1910-44. 

Af Jóni stóðu stofnar mikilhæfs og dugandi bændafólks. Jón hóf snemma störf til sjós og lands og vann á heimili foreldra sinna eins og títt var í þá daga. Jón var einn af fáum sem gat farið og veitt sér menntun umfram það sem skyldan bauð. Hann var einn vetur í Möðruvallaskóla. 

Jón var umsvifamikill keypti jarðirnar Háakot og Þórgautsstaði og sameinaði þær Tungu.

Á þeim 34 árum sem hann var í Tungu rak hann stórbú á landsvísu og var vel efnum búinn. Jón naut trausts og virðinga sveitunga sinna og gegndi flestum opinberum störfum í sveit sinni. Hann stofnaði með öðrum málfundafélagsins Vonar í Stíflu 1918 og fyrsti formaður þess. Hann sat í hreppsnefnd Holtahrepps 1923-37 þar af oddviti 1925-34, Sýslunefndarmaður 1920-37.Hreppstjóri 1938-44 , árið 1944 brá hann búi og flutti til Siglufjarðar. d. 14. febr. 1971 á Siglufirði

Jón Guðmundur Jónsson fv. bóndi (Jón í Tungu) Ljósmynd: Kristfinnur

Jón Guðmundur Jónsson fv. bóndi (Jón í Tungu) Ljósmynd: Kristfinnur

Kona hans frá 18. s ept. 1906 Sigurlína Ingibjörg Hjálmarsdóttir, f. 6. júlí 1886 á Uppsölum í Staðarbyggð Eyf. Húsfreyja á Brúnastöðum og Tungu. d. 9. mars 1977 á Siglufirði.
For.:  Hjálmar Jónsson, f. 8. sept. 1857, bóndi á Helgustöðum í Fljótum, d. 8. febr. 1922. - k.h. Sigríður Jónsdóttir, f. 7. júlí 1863 frá Strjúgsá í Eyf., d. 19. ág. 1893. -

Börn þeirra Jóns og Sigurlínu:

  • a) Hjálmar Jónsson, f. 15. maí 1907.
  • b) Sigríður Jónsdóttir, f. 26. maí 1909.
  • c) Herdís Ólöf Jónsdóttir, f. 11. ág. 1912.
  • d) Hilmar Jónsson ,f. 8. okt.1914. (Faðir Jónmundar)

-----------------------------------------------------------

Jón G Jónsson frá Tungu

"Nú fækkar þeim óðum, sem fremstir stóðu". Þessi setning kom mér í hug þá er mér barst sú fregn, að Jón frá Tungu hefði látizt í Siglufirði hinn 14. febrúar

Ég hef ekki það í huga, að ekki komi maður í manns stað. En hver maður hefur sín vissu sérkenni og persónuleika.

Og þegar við, sem til elli erum komnir, missum einhvern úr fylkingu okkar, finnum við að autt er sviðið og í minningu okkar er einnig autt sæti, sem áður var skipað.

Jón Guðmundur Jónsson hét hann fullu nafni. Hann fæddist á Gautastöðum í Stíflu norður hinn 28. maídag árið 1880, sonur Jóns Jónssonar og konu hans, Sigríðar Pétursdóttur frá Sléttu.

Var hann af kjarnakyni kominn í báðar ættir. Langafi hans í föðurætt hét Jón Jónsson. Fluttist hann ungur úr Eyjafirði, þá blásnauður, og tók sér bólfestu í Fljótum; keypti Brúnastaði þegar jarðir Hólastóls voru seldar í byrjun 19. aldar og bjó þar stórbúi unz hann lézt skömmu eftir 1840. Var hann rómaður sjósóknari og atorkumaður, höfðingi í lund og stóð í fremstu röð samtíðar manna sinna, vel metinn og vinsæll.

Ungur að árum fluttist Jón með foreldrum sínum að Brúnastöðum og ólst þar upp.
Kom snemma í ljós atorka hans og kappgirni, stórhugur og raunsæi.

Hann sótti fyrstu árin eftir að skólinn fluttist þangað frá Möðruvöllum. Hann stundaði nokkuð sjómennsku jafnframt vinnu á búi föður síns og reyndist snemma harðsækinn og kappsamur atorkumaður, sem hafði yndi af vel ræktuðu búfé og fór vel með það. Hann kvæntist árið 1906 Sigurlína Hjálmarsdóttir frá Stórholti. Lifir hún mann sinn.

Bjuggu , þau fyrstu árin á Brúnastöðum í sambýli við foreldra hans, en fluttust svo að Tungu í Sléttu vorið 1910. Voru þau jafnan síðan kennd við þann bæ. Keypti Jón fyrst hálfa jörðina ásamt Þorgeirsstöðum. Hinn helminginn keypti hann síðar ásamt Háakoti. Hafði hann þar jafnan síðan stórt bú og gagnsamt; undi aldrei við lítinn hlut eða hálfunnið verk. Hann undi sér jafnan bezt þegar mikið þurfti að vinna, starfsfús og starfsglaður. Búfé hans var valið að gæðum, vel fóðrað og gaf góðan arð. 

Hann húsaði vel bæ sinn, sem áður var í vanhirðu, og gerðist mikill framkvæmdamaður.

Er mér í ljósu minni þegar ég kom fyrst að Tungu, veturinn 1912-1913, hve búfénaður hans var vel ræktaður og vel hirtur. Bar hann bóndanum gott vitni. Féll mér þá þegar, sem og jafnan síðan, vel við Jón að ræða. Kom í ljós að hann lét sér vera fátt mannlegt óviðkomandi, þótt land' búnaðurinn væri hans mesta áhugamál og hugðarefni. Ekki hallaðist á með þeim hjónum um myndarskap og góðan þokka.

Þau voru bæði höfðingleg í sjón og raun. Gerðu þau snemma garð sinn frægan með höfðingsskap sínum og látlausri reisn, vinmörg og vinföst.

Fleiri störf hafði Jón með höndum en búskapinn. Hann var lengi í hreppsnefnd og oddviti hennar tíu ár, mörg ár í skattanefnd, úttektarmaður jarða, sýslunefndarmaður átján ár og hreppstjóri frá 1938, unz hann hvarf frá Tungu. Ýmis fleiri störf hafði hann með höndum í þágu sveitar sinnar, þótt ekki séu þau hér talin. Svo breyttust tímar og jafnframt viðhorf.

Skömmu eftir 1940 var reist rafvirkjunarstöð við Skeiðsfoss. Hafði sú framkvæmd þær orsakir að mikið af landi Stíflujarðanna fór undir vatn, þar á meðal mestallt engjatún Tungu, svo að vatnið flæddi upp undir bæ, sem þó var efst í túni.

Engjar fóru að sjálfsögðu allar undir vatn.

Fluttust þau hjón þá frá Tungu til Siglufjarðar og keyptu sér snoturt íbúðarhús í bænum, sem almennt var nefnt Tunga. Mun þetta hafa verið á árabilinu 1942 til 1944. Bjuggu þau þar við sæmilega starfsorku allmörg ár eða þar til fyrir skömmu, er þau þraut svo þrek, að þau kusu sér vist á elliheimilinu í Siglufirði. Oft kom ég til þeirra hjóna eftir að þau fluttust til Siglufjarðar. Þar var gömlum vinum gott að koma, þótt breytt væri um híbýli og háttu. Ekki rofnaði tryggð þeirra við gróður jarðar og gamla vini.

Áhugamálin voru mörg og sífrjó sem áður, reisn hin sama. Aldrei létu þau orð falla á þá leið, að mikils væri að sakna frá því sem áður, var, heldur tóku þau ellinni með einskærri stillingu og virtust una hlutskipti sínu vel. Má vera, að þau hafi hugsað fleira en tjáð var í orðum.

Þeim hjónum varð fjögurra barna auðið. Verða þau hér talin:

Hjálmar Jónsson, dó í bernsku. 

Sigríður Jónsson kennari í Reykjavík. 

Ólöf Jónsdóttir húsfreyja í Kópavogi, maki Eiríkur Guðmundssyni trésmiður og verkstjóri frá Þrastastöðum.  

Hilmar Jónsson, lézt af slysförum fyrir 17 árum, maki Magnea Þorláksdóttir frá Gautastöðum.

Ein dóttir fæddist Jóni áður en hann kvæntist. Er það 

Dagbjört Jónsdóttir maki séra Kristni Stefánssyni í Reykjavík. öll eru þau systkin vel gerð og mannvæn.

Fjögur voru fósturbörn þeirra hjóna. Hafa þau öll komizt til góðs þroska. Að síðustu þetta: Hinum látna vini mínum og frænda sendi ég hugheilar þakkir og árnaðaróskir yfir geimdjúpið, en konu hans og niðjum votta ég heilhuga samúðarkveðjur.

17/2 1971 Kolbeinn Kristinsson.