Tengt Siglufirði
Jón Sigurbjörnsson Siglufirði Fæddur 27. júlí 1914 - Dáinn 31. október 1987 -
Laugardaginn 7. nóvember, fór fram frá Siglufjarðarkirkju útför Jóns Sigurbjörnssonar, sem andaðist í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 31. október 1987. eftir rúmlega tveggja mánaða erfiða legu, og var það hans fyrsta og síðasta sjúkrahúsdvöl.
Jón Sigurbjörnsson fæddist á Ökrum, Haganeshreppi, Fljótum, 27. júlí 1914.
Foreldrar hans voru Friðrikka Símonardóttir og Sigurbjörn Jósepsson, bóndi, síðar að Langhúsum í Fljótum.
Einnig stundaði Sigurbjörn sjósókn, meðal annars á hákarlaskipum, því ekki dugði búskapurinn til að framfleyta stórri fjölskyldu, en þau Friðrikka og Sigurbjörn eignuðust sjö börn.
Tvö þeirra létust í bernsku en Jón er sá fyrsti af fimm bræðrum sem kveður þennan heim.
Ellefu ára gamall fór Jón fyrst að heiman. Hann fór sem léttadrengur að Svaðastöðum í Skagafirði og dvaldist þar í tvö ár. Var síðan í foreldrahúsum þar til hann fluttist til Siglufjarðar árið 1943. Þann 29. júlí
Árið 1943 kvæntist hann eftirlifandi konu sinni, María Jónsdóttir, frá Steinavöllum í Fljótum, og hófu þau búskap að Skútu, nefnd eftir samnefndum dal í Siglufirði.
Þau Jón og María eignuðust fimm börn. Þau eru:
Barnabörn þeirra eru ellefu. Einnig dvaldi lengi hjá þeim í fóstri, Elín Gestsdóttir vegna veikinda móður Elínar, og hefur alla tíð síðan verið þar á milli mikill kærleikur og hlýja.
Óhætt er að fullyrða að alla tíð síðan hefur Elín og hennar fjölskylda þakkað umönnunina með ræktarsemi og vináttu.
Árið 1945 fluttu þau Jón og María frá Skútu að Hóli í Siglufirði, og gerðist Jón þar vinnumaður. Siglufjarðarkaupstaður rak þar kúabú, því þá voru samgöngur þannig, að Siglfirðingar urðu að vera sjálfir sér nógir með mjólk. Þar hófst starfsferill Jóns hjá Siglufjarðarbæ, sem átti eftir að endast í fjörutíu ár.
Árið 1957 fluttust þau Jón og María frá Hóli að Suðurgötu 30, bjuggu þar í tvö ár, síðan að Hólavegi 18, og árið 1968 eignuðust þau húseignina Lindargötu 6, þar sem heimili þeirra hefur verið síðan.
Þegar Jón og María fluttust frá Hóli hóf hann störf hjá áhaldahúsi bæjarins og starfaði þar til ársins 1985. Þar vann hann, eins og ávallt, störf sín að slíkri kostgæfni og dugnaði að ekki er mér grunlaust um að fleiri en einn mann hafi þurft til að fylla hans skarð.
Ekki voru það alltaf þrifalegustu störfin, sem hann vann, svo sem að hreinsa stíflur úr leiðslum frá húsum, og margar góðar sögur eru til um þau orð sem hann lét falla þegar hinir ýmsu hlutir komu úr leiðslunum er stíflan hvarf. Það var með þessi verk eins og önnur, sem Jón tók sér fyrir hendur, þau þurfti að vinna. Það gerði Jón og vann þau vel.
Mikill persónuleiki er gengin á vit feðra sinna; einn af þeim sem virkilega settu svip á bæinn. Hann hefur fengið hvíldina eftir erfiðan en farsælan starfsdag. Ég sendi Maríu og fjölskyldunni allri mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Minningin um heilsteyptan og góðan vin lifir. Guð fylgi mínum kæra vini, í nýjum heimkynnum.
Björn Jónasson