Tengt Siglufirði
Jón Þorsteinsson - Fæddur 27. apríl 1921 Dáinn 10. apríl 1993
Foreldrar Jóns voru þau Jóna Aðalbjörnsdóttir og Þorsteinn Gottskálksson, sem bjuggu allan sinn búskap í Siglufirði og var Jón næstelstur átta barna þeirra.
Á yngri árum var Jón fyrirmynd annarra ungra manna sökum afreka sinna í skíðaíþróttinni.
Aðeins 16 ára að aldri var hann í fremstu röð, bæði í göngu og stökki. Jón var fjölhæfur skíðamaður og haft var á orði hversu góðan íþróttaanda
hann sýndi í allri framgöngu, hvort heldur hann hrósaði sigri eða ekki.
Jón bar hróður Skíðafélags Siglufjarðar hvar sem hann kom, sökum prúðmennsku og drengilegrar framgöngu og var hann vel á sig kominn, jafnt til sálar og líkama, hvar sem á var litið.
Snemma fór Jón að vinna fyrir sér, bæði við síldarsöltun og einnig mörg sumur hjá Síldarverksmiðjum ríkisins í Siglufirði.
Mesta gæfuspor Jóns í lífinu steig hann hinn 17. maí 1941, en þann dag kvæntist hann Ingibjörg Jónasdóttir, sem fædd er á Nefstöðum í Fljótum 2. september 1920.
Stofnuðu þau heimili á Hverfisgötu 3 í Siglufirði og bjuggu þar alla tíð síðan.
Ingibjörg er dóttir Jónas Jónasson og Jóhanna Jónsdóttir sem þá bjuggu á Nefstöðum, en fluttust 1924 til Siglufjarðar.
Þeim hjónum varð fjögurra barna auðið, sem eru í aldursröð:
1) Jónas Jónsson,
2) Jónsteinn Jónsson,
3) Ari Jónsson
4) Jóhanna Jónsdóttir.
Öll hafa þau stofnað sín eigin heimili og bera foreldrum sínum fagurt vitni.
Ingibjörg bjó manni sínum gott og hlýlegt heimili og fylgdi honum vel eftir að settu marki beggja; að hlúa sem
best að heimilinu og börnunum.
Jón var í mörg ár vörubifreiðarstjóri, en síðustu árin starfaði hann hjá Þormóði ramma hér í Siglufirði.
Jón var maður dulur í skapi, en góður viðræðu, glettinn og gamansamur á góðri stundu.
Það skal ekki dylja, að Jón var skapmaður mikill, en fór vel með það.
Árið 1947 fór Jón, ásamt Jónasi Ásgeirssyni, til Holmenkollen í Noregi og tók þar þátt í skíðastökkkeppni og bar þar hróður Íslands og þá ekki síður Siglufjarðar, á stórmóti.
Jón var sæmdur gullmerki ÍSÍ á sjötugsafmæli hans og þótti honum vænt um þann heiður. Eftir að Jón tók þann sjúkdóm sem lagði hann að velli 10. þ.m., þá áttum við nokkrum sinnum tal saman. Þá fór það ekki fram hjá mér, hversu sterkur persónuleiki Jón var. Aldrei æðruorð, en sá hið jákvæða við alla hluti. Á fundum okkar var ég undantekningarlítið þiggjandi.