Tengt Siglufirði
mbl. 29.MAÍ 2010
Jón Þorsteinsson var fæddur á Siglufirði 10. júní 1940. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 20. maí 2010.
Jón var sonur hjónanna Kristín M Aðalbjörnsdóttir húsmóður og verkakonu frá Steinaflötum á Siglufirði, f. 17. október 1919, og Þorsteinn Einarsson sjómaður og verkamanns, f. 3. maí 1908, d. 29. júlí1987. Jón var elstur þriggja bræðra.
Bræður hans eru
Jón hóf snemma búskap með fyrrv. konu sinni Elíngunnur Birgisdóttir, dóttir Birgirs Runólfssonar og Margrét Pálsdóttir frá Siglufirði.
Jón og Elíngunnur, giftust árið 1962 og eignuðust fjögur börn saman. Börn þeirra eru:
Jón Þorsteinsson eignaðist dóttur
í Vestmannaeyjum
sem er
Jón Þorsteinsson ólst upp á Siglufirði og starfaði sem sjómaður og netamaður fyrri part ævinnar. Ungur hóf hann sjómennsku á togurunum Elliða og Hafliða frá Siglufirði, síðar á síðutogurunum frá Akureyri. Jón fór í fiskvinnsluskólann og lauk þaðan námi árið 1980.
Hann vann ýmis störf samhliða námi og sinnti verkstjórn í litlum útgerðum á sumrin víðsvegar um landið, s.s. í Sandgerði, Grundarfirði, Þórshöfn og Vogum á Vatnsleysuströnd.
Árið 1984 tók hann við verkstjórn hjá hraðfrystihúsinu Skildi á Sauðárkróki og var þar í 10 ár. Þá fór hann á frystitogara sem gæðaeftirlitsmaður og sinnti ýmsum öðrum störfum þar til hann veikist árið 1999, eftir það hefur hann meira og minna verið sjúklingur og dvaldist síðastliðið ár á dvalarheimilinu Sunnuhlíð Kópavogi þar sem hann lést á sjötugasta aldursári eftir margra ára veikindi. Jón var mikill skíðamaður á yngri árum og þótti mjög liðtækur dansari.
Hann var hörkuduglegur til vinnu og mikill nákvæmnismaður og hlaut hann viðurkenningu þegar hann starfaði sem yfirverkstjóri hjá Hraðfrystihúsinu Skildi Sauðárkróki, fyrir gæðaframleiðslu árið 1986-1987.
Útför Jóns var gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík 28. maí 2010.
Elsku Summi, Solla, Magga, Stína og fjölskyldur,
megi Guð vera með ykkur í gegnum þessa erfiðu tíma.
Þórunn Ester, Arndís og Sturla.
------------------------------------------------
Jón Þorsteinsson var fæddur á Siglufirði 10. júní 1940. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 20. maí 2010. Útför Jóns var gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík 28. maí 2010.
Jón Þorsteinsson var fæddur togarajaxl. Hann var munstraður á togarann Elliða frá Siglufirði 7. maí 1958, þá tæplega sautján ára, á „1/2 kaupi og 1/2 premíu“ eins og það er orðað í lögskráningarbók skipsins. Togaralífið heillaði piltinn og með herkju og þrautseigju tókst honum að komast í fremstu röð togarajaxlanna, sem voru einskonar lordar sjávarins á þeim tíma. Þeirra líf snerist um að koma sem mestum fiski niður í lestar togarana á sem skemmstum tíma.
Jóhannes úr Kötlum lýsir þessum mönnum svo:
En það þurfti líka að halda við veiðarfærum togaranna, trollunum, og það voru engir aukvisar sem kunnu að bæta trollnetið, splæsa togvírana og aðra víra og tóg sem til þurfti. Jón var fljótur að tileinka sér þessi vinnubrögð og það stúss sem trollunum fylgdi. Þau komu ekki alltaf klár upp úr hafinu.
Snúin og undin og slitin og rifin og stundum slitnaði allt draslið aftan úr og þá þurfti menn sem kunnu til verka við að fixa nýtt troll. Jón tók hið minna stýrimannspróf á Ísafirði árið 1963 og nýttist það honum vel í starfi. Síðar fór hann í land, gerðist verkstjóri í frystihúsi eftir að hafa aflað sér menntunar til slíkra starfa. Í desember sl. hittumst við nokkrir fyrrum skipsfélagar af síðutogaranum Hafliða SI 2 frá Siglufirði og áttum góða kvöldstund við söng og spil, góðan mat og enn betri sögur.
Jón var þar á meðal okkar og reytti af sér gamansögurnar, eins og hans var von og vísa. Nú er Jón horfinn á aðrar slóðir og víst að hans verður sárt saknað hérna megin. Hann hefur eflaust verið munstraður á eitthvert himnaskipið og á því vel við að vitna aftur í Jóhannes úr Kötlum:
Hvíldu
í friði, vinur. Fyrir hönd fyrrverandi skipsfélaga á Hafliða SI 2,
Kristján S. Elíasson.