Tengt Siglufirði
Mjölnir 26.janúar 1962
Hinn 6. janúar 1962 lézt Jónas Jónasson að heimili sínu, Hverfisgötu 3, Siglufirði. Jónas var fæddur 3. marz 1892 að Ökrum í Fljótum.
Foreldrar hans voru þau hjónin Sólveig Ásmundsdóttir og Jónas Jónasson, sem þar bjuggu. Jónas var næst yngstur
af 7 systkinum.
Hann dvaldist í foreldrahúsum til 1913.
Hann kvæntist Jóhanna Jónsdóttir frá Brúnastöðum. Jóhanna var mikil myndarkona og mikilhæf húsmóðir, eins og hún átti kyn til. Hin ungu hjón hófu búskap að Nefstöðum í Stíflu og bjuggu þar til ársins 1924, er þau fluttu til Siglufjarðar.
Þau eignuðust 5 mannvænleg börn og eru fjögur þeirra á lífi, öll gift:
Gísla son sinn, hinn mesta myndarmann, missti Jónas 1950. Fórst hann með skipinu Helga frá Vestmannaeyjum í aftakaveðri 7. janúar það ár, og er það slys eitt hið hörmulegasta, sem orðið hefur hér við land hin síðari ár. -- En sú harmsaga verður ekki rakin hér, enda flestum í fersku minni.
En meðal þeirra, sem þar fórust, Var annar Siglfirðingur, hinn mikli aflamaður og skipstjóri Arnþór Jóhannsson. —
Sonar missirinn var mikið áfall fyrir Jónas. Gísli Jónasson hafði, er hann fórst, lokið skipstjóraprófi og var í miklu áliti meðal sjómanna. Mun Jónas hafa bundið við hann miklar vonir. --
Jóhönnu konu sína missti Jónas 1942. Var sá missir mikið áfall fyrir hann og börnin, og mun Jónas hafa tregað hana til æviloka.
Jónas starfaði mikið að félagsmálum, fyrst í Fljótum og svo hér í Siglufirði. Hann var einn af stofnendum Ungmennafélag Holtshrepps og heiðursmeðlimur þess síðustu árin. Er hann flutti hingað gerðist hann strax virkur meðlimur í samtökum verkamanna, fyrst í Verkamannafélagi Siglufjarðar og síðar í Vmf. Þrótti, eftir að félögin voru sameinuð. Jónas var í stjórnum beggja þessara félaga í fjöldamörg ár, m.a. varaformaður Þróttar, og í trúnaðarmannaráði í áraraðir, ennfremur fulltrúi á Alþýðusambandsþingum og þingum Alþýðusambands Norðurlands, og fjölda annarra trúnaðarstarfa gegndi hann fyrir félagið.
Hann var um langt árabil formaður og framkvæmdastjóri Losunar- og lestunardeildar Þróttar, og lét sig miklu skipta hagsmunamál hafnarverkamanna. Jónas var Nokkur minningarorð glöggur og góður samningamaður, hélt af einurð og festu á málefnum umbjóðenda sinna og ávann sér traust og virðingu allra, sem hann starfaði með. Jónas var meðlimur sérstaklega glöggur og góður samningamaður, hélt af einurð og festu á málefnum umbjóðenda sinna og ávann sér traust og virðingu allra, sem hann starfaði með.
Jónas var meðlimur Skagfirðingafélagsins hér í Siglufirði og lét áhugamál þess sig miklu varða. Hann bar hlýjan hug til æskustöðvanna og vildi framgang þeirra í einu og öllu. Sem ungur drengur hefur hann að sjálfsögðu hrifist af fegurð héraðsins, og við æskustöðvarnar voru bundnar æskuminningar, sem gott var að rifja upp á alvörustundum. Eitt sinn er við ræddum Skagafjörð og félagið, hreyfði Jónas því, að það væri tilvalið verkefni fyrir félagið að beita sér fyrir því að reisa minnisvarða um Baldvin Einarsson, en hann var sem kunnugt er fæddur og uppalinn í Fljótum.
Ekki veit ég hvort hann hreyfði þessu við fleiri, en ég nefni þetta hér, ef einhverjir Skagfirðingar vildu taka hugmyndina til umhugsunar. Sjálfur varð ég hrifinn af henni, þótt ekkert hafi orðið úr framkvæmdum. Eftir að Jónas fluttist hingað vann hann margvísleg störf, sá m. a. um lagningu gatna í bænum, var verkstjóri hjá söltunarstöðinni Sunnu, stjórnaði losun og lestun skipa í fjölmörg ár, stundaði verslunarstörf og átti og rak verslun síðustu árin. Munu flestir, sem einhver skipti áttu við Jónas, minnast þeirra með ánægju. Þess má enn geta, að Jónas var mikill áhugamaður um málefni Náttúrulækningafélagsins, var formaður deildar þess hér og veitti verslun þess forustu meðan hún starfaði.
Jónas Jónasson var eindreginn verkalýðssinni. Fyrst framan af mun hann hafa fylgt Alþýðuflokknum að málum og verið í vinstri armi þess flokks. Þegar Alþýðubandalagið var stofnað, gerist hann einn af stofnendum þess. Vann hann þar af áhuga og festu og var einn af traustustu liðsmönnum þess hér í bæ. Ég hef hér í stuttu máli rakið nokkur helstu æviatriði og störf Jónasar Jónassonar. Að sjálfsögðu er ekki hægt í stuttri grein að minnast nema á fátt eitt. Jónas lifði og starfaði á mesta farmfaratímabili þjóðarinnar. —
Hann sá margar draumsýnir aldamótamannanna rætast. Hann sá verkalýðshreyfinguna vaxa úr grasi og verða að voldugri félagsmálahreyfingu, og var sjálfur virkur þátttakandi í að gera hana að því mikla afli, sem hún er í dag. Hann sá samtök bændanna vaxa og eflast, verslunarsamtök þeirra blómgast, og hann sá þjóðina öðlast sjálfstæði og sækja fram til ört vaxandi hagsældar og menningar. Að sjálfsögðu fór það ekki fram hjá honum, að nú eru margar hættulegar blikur á lofti. En hann bar svo mikið traust til þjóðarinnar, að hann trúði ekki öðru en að hún hlyti að sigrast á erfiðleikunum. Jónas var mjög vel látinn og vinsæll.
Ég held, að öllum, sem kynntust honum, hafi verið vel til hans. Hann var höfðingi heim að sækja, og hafði gaman af að sitja yfir glasi í góðra vina hópi. Hann var ræðinn og skemmtilegur og hafði oftast eitthvað nýtt og athyglisvert til mála að leggja. Nú er þessi ágæti félagi fallinn. Við, sem best þekktum hann, söknum vinar í stað, eins okkar ágætasta félaga. Við þökkum honum hin ágætustu störf hans í þágu verkalýðshreyfingarinnar, og störf unnin í þágu annarra félagssamtaka og bæjar okkar.
Ég vil leyfa mér, fyrir hönd okkar Þróttarfélaga, að senda eftirlifandi börnum hans og öðrum vandamönnum hans og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Ég kveð svo vin minn og félaga, Jónas Jónasson frá Nefstöðum, með orðum Hávamála:
Gunnar Jóhannsson.