Tengt Siglufirði
Jónas Stefánsson fæddist á bænum Berghyl í Fljótum í Skagafirði 22. september 1917. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans 1. júní 2000
Foreldrar
hans voru Stefán Benediktsson, f. 17.10.1883, d. 13.5.1922, og Anna Jóhannesdóttir, f. 12.9.1882, d. 15.7.1973.
Systkini Jónasar eru
Sigrún Stefánsdóttir, f. 8.12.1905, d. 17.6.1959,
Steinunn Stefánsdóttir, f. 12.11.1907, d. 23.6.1995,
Guðný Ólöf, f. 4.4.1911,
Þórunn Jóhanna Stefánsdóttir, f. 4.10.1912, d. 21.11.1984,
Benedikt Stefánsson, f. 27.4.1915, d. 5.1.1999, og
Sigurbjörg Stefánsdóttir, f. 20.1.1922.
Jónas Stefánsson kvæntist árið 1953 Rósbjörg Kristín Magnúsdóttir frá Ólafsfirði, f. 10.9.1925, d. 30.7.1998. Börn þeirra eru
1) Maríanna Jónasdóttir, f. 15.3.1955
2) Jónína Sigurlaug Jónasdóttir, f. 1.9.1957,
3) Anna Hugrún Jónasdóttir, f. 9.2.1959, og
4) Magnús Stefánsson, f. 4.8.1963. (Magnús Jónasson)
Jónas og Rósa eiga ellefu barnabörn;
Soffía, J
Jónas Reynir,
Ólaf Kristinn,
Kjartan Valur,
Hjalti Jón,
Ragnheiður,
Guðmundur
Egill Daði,
Rannveig,
Rósbjörg Jenný og
Páll Sigurvin
og eitt barnabarnabarn;
Maríanna Hlíf.
Á sínum yngri árum starfaði Jónas við vertíðarstörf og verkstjórn á Keflavíkurflugvelli.
Árið 1957 fluttu þau Rósa til Siglufjarðar, þar sem hann hóf störf sem verkstjóri við síldarverksmiðjuna Rauðku. Lengst af starfaði hann þó sem verkstjóri hjá Siglufjarðarbæ og síðar Hitaveitu Siglufjarðar þar til hann lét af störfum árið 1987.
-----------------------------------------------------------
Jónas Stefánsson
Varnarleysi lífsins gagnvart dauðanum er mikið. Á uppstigningardag lést á sjúkrahúsi Reykjavíkur Jónas Sigurður Stefánsson, oftast kenndur við Síldarverksmiðjuna Rauðku á Siglufirði. Hann verður til moldar borinn frá Siglufjarðarkirkju í dag, og lagður til hinstu hvílu við hlið sinnar kæru eiginkonu Rósbjargar, látinnar fyrir nokkrum árum, eftir erfið veikindi.
Þau hjón eru öllum sem til þekktu mikill harmdauði. Kynni okkar Jónasar hófust snemma. M.a. sökum nágrenndar, innan LIONS hreyfingarinnar og svo auðvitað í búðinni. Við urðum nánari síðar.
"Mér leiðast lofgerðarrullueftirmæli um fólk," sagði Jónas, eitt sinn þegar við bárum saman bækur okkar um minningargrein í blaði um manneskju sem við þekktum báðir.
Reynt verður að sneiða hjá því hér.
Í aumingjaskap og heigulshætti nútímans vantar hnunndagshetjur eins og Jónas í Rauðku var. Þar fór maður hár vexti, myndarlegur á velli og ljúfmenni. Stundum hafði hann hátt, en aðeins þegar það átti við.
Maður vissi hvar Jónas fór.
Fyrir fáeinum dögum síðan, á okkar hinstu stund í sól og sumaryl sitjandi útá svölum hjá Hrönn og Magnúsi, í afmæli Palla, afaguttans okkar, sagði Jónas að hann gæti ekki lifað svona lengur með sjúkdómi sínum. "Mér finnst ég vera í fangelsi og ætla í þessa aðgerð þó ég komi heim í kistu." Sú varð raunin, því miður. Svona talar bara fólk sem meinar það sem það segir.
Þessum hetjum fer fækkandi.
Mér er í unglingsminni reglusemin og myndarskapurinn að Hverfisgötu 2 hérna á Siglufirði, heimili Jónasar og Rósbjargar. Hún var kjólasaumameistari að mennt, einstaklega smekkleg, myndarleg og mikil manneskja. Eftir hana liggja margar fallegar og minnisstæðar flíkur.
Já, Húsið í Hverfisgötunni. Ávallt snjóhvítt eins og nýmálað uppí brekkunni, og þótt komið væri til ára sinna sást hvorki rispa eða blettur á. Blómin, trén og grasið í garðinum minnti á suðrænar slóðir, stelpurnar og Maggi til fara eins og á 17. júní. Zephyrinn (F-122) sem Ólafur læknir átti, og síðar Cortinan (F-119) sem Ási skipstjóri átti, stífbónaði þær á götunni fyrir neðan. -- Það var ekki algengt í þá daga að daglaunamenn ættu einkabíl. Jónasi hélst einstaklega vel á.
Hann kom oft og verslaði í búðinni hjá mér, bæði fyrir Rauðku, bæjarsjóð, hitaveituna o.fl. Þegar innkaupum fyrir vinnuveitandann var lokið, þá kom yfirleitt þessi gullvæga: "og svo einn Grúnó Siggi minn".
Þeir sem Jónas þekktu muna hann með pípu í munni.
"Það er erfitt að vinna með fólki sem ekki getur tekið ákvarðanir," sagði Jónas. Hann var stærstur þegar mest lá við. Stresslaus en ákveðinn og rólegur, oftast verkstjóri.
Þess minnast þeir sem með honum störfuðu.
Sjón Jónasar hrakaði síðustu árin sem hann lifði, og háði það honum fjarskalega. En hann heyrði samt vel og fylgdist mjög vel með. Þegar við hittumst vildi hann fá fréttir, því ekki gat hann lesið. Jónas þekkti nefnilega fólk á röddinni. Gömlu dagana mundi hann eins og gerst hefðu í gær, sérstaklega æsku sína og uppvaxtarár. Aðallega úr Fljótum, hans kæru sveit.
Ég kveð þig nú, eins og við kvöddumst yfirleitt: "Bless vinur og hafðu það gott."
Sigurður Fanndal.