Jónína Guðbjörg Braun

Jónína Braun, Siglufirði Fædd 26. mars 1916 Dáin 17. janúar 1994 

Ég veit þú heim
ert horfin nú, 
og hafin þrautir yfir, 
svo mæt og góð, 

svo trygg og trú, 
svo tállaus, 
falslaus reyndist þú, 
ég veit þú látin lifir.

(Steinn Sigurðsson)

Mér er bæði ljúft og skylt að minnast tengdamóður minnar með örfáum orðum, en hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar hinn 17. jan. sl., eftir tveggja mánaða legu þar. Áður var hún oft búin að liggja á sjúkrahúsi, en alltaf reis hún upp aftur af óbugandi viljaþreki, til að takast á við störfin, unz yfir lauk. Nú er kallið mikla komið, Jónína er komin heim, og vissulega hefur heimkoma hennar verið góð, eftir hennar langa og farsæla starf hér í jarðheimi.

Jónína Braun

Jónína Braun

Fósturforeldrar Jónínu voru hjónin Jón Gunnlaugsson og Ingibjörg Sigurjónsdóttir, í Ási í Glerárhverfi. Þar ólst hún upp við gott atlæti.

Ung að árum fluttist hún til Siglufjarðar, í síldarævintýrin þar. Hennar beið þó annað og meira ævintýri. 

Hún kynntist þar mannsefni sínu, Sæmundur Jónsson, af Lambanesætt, sonarsonur Kristján Jónsson, sem lengi bjó í Lambanesi í Fljótum, og lést árið 1959, á 105. aldursári.

Þau Jónína og Sæmundur gengu í hjónaband hinn 17. júlí árið 1937. Reistu þau bú í Siglufirði, fyrst á Hvanneyrarbrautinni, en lengst bjuggu þau á Hólavegi 36. Þar byggði Sæmundur hús, þegar fjölskyldan stækkaði.

Þau hjón eignuðust sjö börn, og eru sex þeirra á lífi. Þau eru:

1) Stefanía Þórunn Sæmundsdóttir, f. 16.1. 1937, húsmóðir í Syðra-Vallholti, maki Gunnar Gunnarsson Þau eignuðust tvær dætur.

2) Jón Örn Sæmundsson, f. 13.5. 1938, smiður að atvinnu. Kona hans var Þórunn Freyja Þorgeirsdóttir, nú látin. Þau eignuðust tvær dætur og tvo syni.

3) Jórunn Gunnhildur Sæmundsóttir, f. 28.11. 1943, húsmóðir á Akureyri.Maki Jón Ævar Ásgrímsson, verslunarmaður, og eiga þau eina dóttur.

4) Úlfar Helgi Sæmundsson, f. 5.10. 1945, vélvirki, veitustjóri í Reykjahlíð í Mývatnssveit. Hann er í sambúð með Unur Einarsdóttir, og eiga þau eina dóttur saman. Úlfar á tvo syni frá fyrra hjónabandi og dóttur og son frá því fyrir hjónaband, auk tveggja stjúpbarna.

5) Anna Kristín Sæmundsdóttir, f. 17.11. 1948, húsmóðir á Siglufirði. Maki Ámundi Gunnarsson, vélvirki, og eiga þau þrjú börn.

6) Sigrún Sæmundsdóttir, f. 10.1. 1951, d. 14.1. 1951, 

7) Sigrún Björg Sæmundsdóttir, f. 21.7. 1957. Hún býr að Hofi í Öræfum, maki Ari Magnússon, og eru þau ferðaþjónustubændur þar. Þau eiga þrjár dætur.

Langömmubörnin eru orðin 17. - Þau Jónína og Sæmundur voru mjög samhent hjón og komust farsællega frá sínu.
Börnin voru mörg, heimilið vissulega stórt, svo mikils þurfti við að koma öllu fram. Það tókst vel með elju og útsjónarsemi.

Sæmundur var mikill völundur, þúsund þjala smiður. Hann var jafnvígur á margt, hugmyndaríkur og útsjónarsemi hans góð, og finnst mér þó einhvern veginn að hann hafi ekki notið mikillar skólagöngu í æsku. Samt lék allt í höndunum á honum, var honum meðfætt. Mér finnst það sannast best á honum, að skóli lífsins er besti skólinn. Hann hóf ungur að vinna að hugðarefnum sínum, og vissi hvað hann vildi.

Hann var rafvirki, vélstjóri og sjómaður, svo fátt eitt sé nefnt. Skip sín smíðaði hann sjálfur. Það var varla til sá hlutur, að hann gæti ekki smíðað hann, hvort heldur var um skip að ræða, tíu tonna fagurrendar fleytur, eða þá smærri hlutir, sem of langt yrði hér að telja. Síðast, en ekki síst, má svo nefna að hann lék fyrir dansi á fiðluna sína um áratuga skeið, ásamt félögum sínum.

Nú er hann orðinn aldraður maður, dvelur í Skálarhlíð, dvalarheimili aldraðra á Siglufirði. Það er aðdáunarvert hversu vel hann reyndist konu sinni í veikindum hennar. Þau hafa verið hvort öðru allt, allt frá því þau fundust í síldinni norður á Siglufirði, forðum daga.

Jónína var mikil atgerviskona, sívinnandi, og leysti sérhvert verk vel af hendi. Hún var rösk og kvik í hreyfingum, glaðvær og skemmtileg. Þennan vitnisburð er mér ljúft að gefa henni eftir 30 ára kynni, sem aldrei féll skuggi á. Hún kom hér stundum í Syðra-Vallholt, alltof sjaldan þó. Henni var létt að lífga upp á heimilislífið. Ævinlega gleðiauki er hún kom, en eftirsjá að, er hún fór.

Nú er hún öll. Glaðvær hlátur hennar ómar ekki lengur í hlustum okkar nema sem minning. Þær eru margar fagrar og bjartar minningarnar sem við eigum um Jónínu Braun frá liðnum dögum og árum sem gott er að eiga og una við í annríki daganna. Persónulega vil ég þakka henni hjartanlega fyrir allt og allt, og um leið og ég lýk þessum fátæklegu minningarorðum, vil ég votta eftirlifandi eiginmanni hennar, ættingjum öllum og vinum, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Góður Guð verndi ykkur öll. Blessuð veri minning Jónínu Braun.

Gunnar Gunnarsson.