Sofus Jörgen Holm

Jörgen Hólm var fæddur á Flateyri við Önundarfjörð 11. mars 1899. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 7. júlí .

Foreldrar hans voru Sofus Henrik Holm, forstöðumaður Ásgeirsverslunarinnar á Flateyri, og Sophia Holm, fædd Nilsen.

Jörgen Hólm var fjórði í röð sex barna þeirra hjóna sem upp komust, en þau voru:

María Holm, 

Wilhelm Holm, 

Ásgeir Holm, 

Gunnlaugur Holm og 

Jörgen Hólm

Jörgen Hólm

Adolf Holm. 

Þau eru öll látin.

Hinn 17. júní 1932 kvæntist Jörgen  Sigurbjörg Gunnarsdóttir Bóassonar frá Teigagerði í Reyðarfirði. Hún lést 22. febrúar 1963. Börn Jörgens og Sigurbjargar eru:

1) Kristín Jóhanna, kjördóttir, maki Aðalsteinn Gíslason vélfræðingur. 

Þeirra börn eru:

Rúnar Jörgen,

Bára,

Sigurbjörn Gísli 

Gunnar Kolbeinn. 

2) Daníel Pétur Baldursson fiskverkandi, fóstursonur, maki Þórleif Alexandersdóttir.
Þeirra börn eru:

Baldur Jörgen Daníelsson,

Sigurbjörg Daníelsdóttir og

Daníel Pétur Daníelsson.

Útför Jörgens fór fram frá Siglufjarðarkirkju.
-----------------------------------------------------------------------

Jörgen Holm f. 11.3/.1899, d, í júlí 1997 

Þegar afi skrifaði eitt sinn í afmælisdagbók sem ég átti, setti hann tölurnar 99 fyrir aftan nafnið sitt. "Ég er sko fæddur á hinni öldinni," sagði hann kankvís. Ég var þá þrettán ára og einhverra hluta vegna er þetta augnablik mér alltaf minnisstætt.

Fæddur á hinni öldinni. Þetta var eitthvað svo fjarstæðukennt. Afi var þá 77 ára en það var eins og hann kynni ekki að vera gamall. 77 fannst mér alveg hellingur og hefur verið næg ástæða hingað til fyrir fólk að leggjast í kör. En ekki fyrir afa. Hann var ekki einu sinni hættur að vinna þá.

Sjötugur að aldri hafði hann hætt að vinna hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. En þá fór hann bara að vinna við flökun hjá fóstursyni sínum, Daníel Baldursson. Þar vann hann þar til hann varð 87 ára. Í mínum augum sem barns og unglings, var afi ekkert gamall og ég held að hann hafi ekki litið á sjálfan sig sem gamlan heldur.

Hann talaði um að dvalarheimilið á Siglufirði væri bara fyrir gamla fólkið og þangað fluttist hann aldrei. Hann bjó ennþá heima hjá sér á Hafnargötunni þegar hann lést, 98 ára að aldri. Þá var hann nýkominn úr ferð til Hornafjarðar. Um hann lék lífsorka, langt umfram þá sem honum yngra fólk hafði.

Þessari orku fylgdi kraftur sem ég hef sjaldan séð í eldra fólki. Mér fannst afi alltaf vera brosandi og glaður þegar hann kom suður og gisti hjá okkur. Þessar suðurferðir voru einkum í tengslum við ferðir afa til útlanda, en þær stundaði hann reglulega þar til hann varð níræður. Einu sinni sýndi afi mér mynd af torkennilegum fararskjóta sem hann sat í. Þetta var kínverskur "leigubíll", rickshaw, dreginn áfram af öðrum manni. Myndin var gömul, tekin í Shanghæ. Ég leit aftur með undrun á afa. 

Ekki nóg með að hann væri fæddur á hinni öldinni. Hann hafði líka komið til Kína. Það bjó alltaf eitthvað flökkueðli í honum. 25 ára gamall tók hann sér far með gufuskipi til Kaupmannahafnar til að fá pláss á skipi sem sigldi um heimshöfin. Það var ekkert sjálfgefið að reynslulaus maður fengi slíkt pláss, en fyrir þrautseigan mann var slíkt engin fyrirstaða. Afi byrjaði á seglskútum sem fluttu varning milli hafna.

Síðar fór hann á gufuskip og loks á skólaskip. Eftir það var leiðin greið og hann varð fullgildur háseti á skipum sem sigldu til fjarlægra landa. En ekki voru allar ferðir hans til útlanda farnar af frjálsum vilja. Árið 1919 var afi bátsverji á ms. Jenný. Hann lenti í hrakningum suður af landinu ásamt bátsfélögum sínum tveimur. Svo fór að formaðurinn ákvað að þeir skyldu yfirgefa bátinn og fara um borð í nærstatt skip. Þetta var enskur togari sem var þá að verða uppiskroppa með kol og var á leiðinni til Englands.

Þá var auðvitað ekki sú loftskeytatækni sem gerði skipverjum kleift að láta vita af sér. Afi og félagar hans af ms. Jenný þurftu að bíða með að tilkynna að þeir væru heilir á húfi þar til þeir komu til Englands. En þar tók ekki betra við, því sæsímastrengurinn reyndist bilaður. Á sama tíma fannst ms. Jenný mannlaus á reki og þremenningarnir taldir af.

Það var ekki fyrr en eftir mánaðarvist erlendis að skipbrotsmennirnir fengu far heim á ný og gátu látið vita af sér. Afi hætti siglingum sínum um heimshöfin árið 1931. Hann var þó áfram til sjós; reri á vetrarvertíðum í Vestmannaeyjum, en á sumrin frá Norðurlandi, m.a. úr Flatey á Skjálfanda og á reknetum frá Siglufirði.

Og það var á Siglufirði sem hann kunni best við sig og bjó stærstan hluta ævi sinnar. Hann kvæntist árið 1932 Sigurbjörg Gunnarsdóttir, dóttur Gunnars Bóassonar útvegsbónda í Teigagerði við Reyðarfjörð.
Ég varð aldrei þeirrar lukku aðnjótandi að þekkja ömmu, því hún dó nokkrum mánuðum áður en ég fæddist. Sjálfur var afi fæddur í Önundarfirði en ólst að mestu leyti upp hjá afa sínum og nafna á Ísafirði.

Ævi hans spannaði næstum heila öld. 

Flest þessi ár var hann vel ern og sá um sig sjálfur, en hin síðari ár naut hann þess að eiga að fóstursson sinn Daníel og Þórleifu konu hans. 

Afi hefði aldrei komist hjá því að fara inn á dvalarheimilið ef aðstoðar og stuðnings þeirra hefði ekki notið við. Hin síðari ár var heilinn farinn að hrörna og ég fann að hann gerði ekki alltaf greinarmun á mér og bræðrum mínum þegar við töluðumst við í síma.

En mestan hluta ævi sinnar var hann sjálfstæður maður sem lét lítinn bilbug á sér finna. Hann vann alla tíð sjómanns- og verkamannavinnu og beitti sér m.a. fyrir stofnun vindumannadeildar innan verkalýðsfélagsins Þróttar á Siglufirði á fjórða áratugnum. Fram að því höfðu skipverjar séð sjálfir um uppskipunina. En fyrir tilstuðlan afa og félaga hans færðust þessi störf í land. Það munaði um minna í kreppunni. Ég kynntist afa mínum aldrei vel.

Hann bjó á Siglufirði og ég í Reykjavík. En þegar hann kom í bæinn, gisti hann hjá dóttur sinni og tengdasyni. Hann gaf aldrei mikið fyrir lífið í henni Reykjavík og kom varla þangað nema svo að hann væri að fara til útlanda. En það var alltaf tilhlökkun í mér þegar hann var að koma. Ég hafði það á tilfinningunni að hann væri alltaf í góðu skapi, alltaf brosandi. Hann horfði sposkur á mig, sagði eitthvað fyndið og dró augað í pung.

Afi var hjá okkur þegar Fischer og Spasskí tefldu í Laugardalshöllinni. Ég var níu, afi sjötíu og þriggja og við sátum löngum stundum og tefldum á taflborði sem var rautt og gult og gæti hafa fylgt með pakka af kornflögum. Ekki man ég hvernig þessu einvígi okkar lauk en ég man vel að afi fór alltaf halloka fyrir Gunnari bróður. Afi lék mannganginn, en Gunni, sem var þriggja ára, fékk að vaða fram og aftur taflborðið og drepa eins og hann lysti.

Þetta fannst mér ójafn leikur og ég var hissa á því með hversu miklu jafnaðargeði afi tók þessum ósköpum. Ef ég gerði athugasemd þegar Gunni drap hrók og kóng í sama leiknum sneri sá gamli sér brosandi að mér og dró augað í pung.

Og þannig man ég best eftir þér, afi minn. Sem kankvísum gömlum manni sem fannst gaman að grínast og virtist alltaf vera í góðu skapi. Fyrir þessar minningar langar mig til að þakka þér. Og fyrir að hafa verið lifandi sönnun þess að maður þarf ekki að vera gamall, þó maður sé orðinn gamall.

Þinn dóttursonur, Sigurbjörn Gísli Aðalsteinsson.
---------------------------------------------------------------------------------- 

Sjómannadagsblaðið 1 júní 1996 -  

Fróðleg frásögn, skráð af Aðalsteini Gíslasyni 

Ósjálfráð utanlandsferð, þar sem Jörgen Hólm segir frá. Bátur var sendur af Austfjörðum að Meðallandssandi árið 1919.

Lenti í austanveðrinu mikla þetta ár og hafa verið gerðar fyrirspurnir um afdrif hans.

"Báturinn er nú fundinn mannlaus á Meðallandsfjöru." 

Hún lætur ekki mikið yfir sér þessi frétt í Vestmannaeyjablaðinu „Skeggja" laugardaginn 23. ágúst 1919, þar sem hún var innanum fréttir af slitnum sæsíma á milli Færeyja og Hjaltlands og heyfoki undir Eyjafjöllum.

Hætt er þó við að aðstandendum bátsverja á Fjörðum hafi ekki staðið á sama.

Frásögn Jörgens Hólm

Svo vill til að einn þeirra sem þekkir til þessa atburðar, Jörgen Hólm, er enn á lífi, kominn á tíræðisaldur, búsettur á Siglufirði, eldhress og minnugur.

Hann sagði undirrituðum þessa sögu árið 1988, og er hún birt hér að nokkru leyti orðrétt eftir honum skráð.

Jörgen er fæddur á Flateyri við Önundarfjörð árið 1899.
10 ára gömlum var honum komið fyrir á Sómastöðum í Reyðarfirði og þegar hann varð sjálfráða réðist hann til Gunnars Bóassonar, bónda og útgerðarmanns í Teigagerði við sama fjörð.

Hvalur sóttur á fjörur Hornfirðinga Gunnar lánaði Jörgen aftur Valdóri bróður sínum, sem einnig fékkst við útgerð, til sjóróðra á vélbátnum Jennýju.

Þegar straumur var hvað stærstur og ekki hægt að róa af þeim sökum sendi Valdór Jennýju í annað.

Eitt af því var að sækja hval sem rekið hafði suður á fjörum Hornfirðinga og Valdór hafði keypt í því skyni að selja Héraðsbúum kjöt og rengi. Kvöð var á seljendum að leggja til annan mótorbát til að draga hvalinn austur. Þeir voru búnir að koma fyrir tómum tunnum innan í hvalnum til að auka honum flot, gera göt á sporðblöðkurnar og draga þar víra í gegn.

Var nú lagt í hann. Þegar komið var austur undir Hvítinga var komin norðaustan bræla og rifnaði þá út úr annarri sporðblöðkunni og við sjálft lá að þeir misstu frá sér hvalinn, sem þá hefði rekið á fjörur Lónsbænda og orðið þar með þeirra lögmætur reki, en tapað fé Valdóri. Var því brugðið á það ráð að fara inn á Hvalneskrókinn og búa betur um festingar.

Hugmynd þeirra var að komast undir Papey og bíða þar af sér bræluna.

Svo langt komust þeir aldrei með hvalinn, þeir voru löngu búnir að missa hann frá sér áður og Hornfirðingar snúnir heim.

Ekki fannst tangur né tetur af hvalnum en eitthvað rak af tómum tunnum. Hugað að strandgóssi.

Eitthvað virðist Valdór hafa verið orðinn fráhverfur róðrum og kannske tregfiskiríi fyrir austan um að kenna.

I stað þess gerði hann félagsskap við vélsmíðameistara í Reykjavík, Gissur Filippusson að nafni, um að bjarga strandgóssi suður á fjörum Skaftafellssýsla, þar á meðal úr togaranum Clyne Castel, þegar útséð var um að togaranum sjálfum yrði bjargað, en til þess hafði verið gerð athyglisverð og djörf tilraun, en það er önnur saga. 

Var nú að halda á strandstað suður á Bakkafjöru í Öræfum, en þar var þá fyrir m.s. Skaftfellingur og var verið að skipa út í hann kolum úr togaranum. Var því ekki um annað fyrir þá á Jennýju að gera en að bíða þar til því væri lokið. Varð það að ráði með þeim Valdóri og Gissuri að Jenný færi með Gissur vestur á Síðufjörur, en þar hafði hann áður safnað saman kopar úr strönduðum skipum og vill hann nú nota tímann til að hirða það upp.

Hann tekur með sér lítinn skjöktara sem þeir binda aftan í bátinn. Þetta var að áliðnu sumri, nótt orðin dimm og farið að halla degi þegar þeir koma vestur. Gissur biður þá að hafa ekki áhyggjur af því, hann viti nákvæmlega hvar góssið sé að finna og auk þess yrði bjart af tungli.

Að tilsögn hans róa þeir honum í land, hástamir tveir. Formaðurinn andæfir bátnum úti fyrir ströndinni á meðan. Þeir segja Jörgen að bíða við skjöktarann á meðan þeir hinir leiti þess sem þar átti að vera. Það dimmir, tungl veður í skýjum. Jörgen heyrir óminn af samræðum þeirra félaga. Stundum heyrir hann mál þeirra greinilega eins og þeir væru mjög nærri, en stundum eins og úr langri fjarlægð.

Ekki minnist hann þess að hafa áður fundið fyrir myrkfælni. Nú setur að honum ugg. Ótta! Honum verður hugsað til þeirra mörgu sem hér hafa farist, velkst um bjargarlausir í brimgarðinum á þessari eyðilegu strönd án minnstu vonar um björgun — enskir, franskir, þýskir, spænskir, hollenskir og hver veit hverra þjóða? Ljóstýran á Jennýju finnst honum ósköp dauf og langt í burtu. Það er farið að kula af austri og brima við ströndina. Seint og um síðir koma þeir félagar hans til baka. Þeir hrinda fram skjöktaranum og róa út í Jennýju, sem reynist þeim drjúgur spölur. 

Hvolfir undir Gissuri 

Um það bil sem þeir koma út í Jennýju sjá þeir hvar Skaftfellingur kemur að austan. Það er minnisstæð sjón lítt sigldum sveitamanni að sjá alla þá ljósadýrð. Skaftfellingur mun hafa verið með fyrstu skipum af þessari stærð sem var raflýstur.

Gissur vill hafa samband við þá á Skaftfellingi, segist jafnvel ætla að fara með þeim suður og lætur róa sér yfir í hann, en biður þá samt að doka eftir sér, hvað þeir gera drjúga stund, heila eilífð að þeim fannst, því alltaf er að bæta í austanáttina. Skaftfellingur lætur reka, enda á vesturleið, og Jenný fylgir á eftir. 

Loks kemur Gissur, hættur við að fara suður. Þeir eru nú komnir vestur undir Skaftárós og þegar um borð í Jennýju kemur, segist Gissur eiga erindi við bændur í Meðallandi og ætli síðan landleiðina suður og biður um að sér verði róið í land. En þá segir formaðurinn stopp, hingað og ekki lengra. 

Hann hætti ekki mönnum sínum í tvísýnu upp í sand, farið sé að brima eins og bæði megi sjá og heyra. Gissur sagðist þá sjálfur mundu róa í land á skjöktaranum.
Formaður segist ekki geta bannað honum það, skjöktarinn væri hans. Það sjá þeir síðast til Gissurar að það hvolfir undir honum við sandinn. 

Um borð í Mac Cenzie

Þá var farið að stíma austur móti vaxandi vindi og sjó. Gamli „Möllerupinn" var hálfgert skrapatól og ekki alltof gangviss, en við týru frá olíulukt reyna þeir að lappa upp á hann og halda honum gangandi.

Það var komið austan rok og sjólag eftir því. Jenný var 8 tonna súðbyrðingur. Mastrið mátti leggja niður ef með þurfti. Hún var búin stórsegli og fokku, en seglin komu ekki að notum í þessu tilfelli þar sem önnur masturstyttan var brotin. í birtingu sjá þeir hvar kominn er togari sem lónar í nánd við þá.

Um hádegið dúrar og þá kemur togarinn upp að þeim. Togaramenn kasta til þeirra kaðli og segja þeim að setja fast. Þegar lag gefst draga togaramenn þá til sín og gefa þeim bendingu um að koma um borð. Togarinn var enskur, Mac Cenzie frá Grimsby.

Hann var seinna keyptur til Reykjavíkur og fékk þá nafnið Kári.

Skipstjórinn var danskur maður, þekktur hér á landi og gekk undir nafninu „Danski Pétur."

Um borð í togaranum fá þeir góðan viðurgjörning sem er vel þeginn eftir volkið. Málin eru rædd og „Danski Pétur" gerir þeim grein fyrir stöðunni eins og hún kemur honum fyrir sjónir.

Hann segist ekki vera með nóg kol til þess að koma þeim til Vestmannaeyja, né heldur að fara með þá austur á firði.

Vegur sé að skjóta þeim í land í Færeyjum, en helst vilji hann fara með þá til Grimsby, hann fari hvort sem er strax á Íslandsmið aftur.

Formaðurinn tekur þetta ekki í mál, segist vilja fara aftur um borð í sinn bát og freista þess að koma honum til hafnar. Um kvöldið er farið að lægja og „Danski Pétur" segist ekki geta tafið lengur. Þegar þeir koma út á þilfar er Jenný horfin. Með einum eða öðrum hætti hafði hún losnað frá togaranum.

Haldið til Grimsby

Þá var sett á fulla ferð og stefna tekin á Pentil. Það er ekki örgrannt um að fiðringur hafi farið um maga þess úr áhöfn Jennýjar sem yngstur var og ekki þurfti síður að hafa áhyggjur af þeim sem heima biðu.

Engin loftskeytatæki voru um borð í Mac Cenzie.

Þegar til Grimsby kom lét skipstjórinn ræðismann Danmerkur vita af þrem skipbrotsmönnum frá Íslandi um borð í skipi sínu. Togaramenn fóru frá borði, hver til síns heima.

Um borð kom vaktmaður sem sér Íslendingunum fyrir mat, en lokar þá síðan niðri í káetu um nóttina og aðrar nætur og segir þeim óheimilt að fara í land.

Á öðrum eða þriðja degi birtist á bryggjunni stórglæsilegur maður sem reyndist vera Íslendingur búsettur í Grimsby, Árni Jóhanns- eða Jóhannesson. Hann sagðist hafa séð það í blöðum staðarins að þar væru komnir skipbrotsmenn af Íslandi og hafi hann farið að spyrjast fyrir um þá á sjómannaheimilum og hótelum en ekki fundið. Þeir sögðu honum aftur á móti frá boðunum sem danska konsúlnum hefðu verið send, en ekkert hafi frá honum heyrst. „Sá djöfull, láttu mig þekkja hann.

Hann gerir aldrei nokkurn skapaðan hlut þegar Íslendingar eru annars vegar. Ég skal tala við kauða." Að svo mæltu var Árni rokinn. Þetta var að áliðnum degi. Árni var ekki lengi í burtu. Að vörmu spori er hann kominn aftur, segist vera búinn að tala við ræðismanninn og í fyrramálið verði þeir sóttir. Morguninn eftir kemur Árni í leigubíl og fer með skipbrotsmennina á hótel, þar sem þeir höfðu verið innritaðir.

Og ekki nóg með það, hann fer með þá í verslun þar sem hann lætur þá fata sig yst sem innst og segir þá ekki þurfa að hafa áhyggjur af greiðslu þess fatnaðar. „Danski Pétur" kemur til þeirra á hótelið og er leiður mög. Segir að það hafi verið ætlun sína að gera annan túr á Íslandsmið, en nú hafi þetta breyst, hann fari hvergi, en að hann sé búinn að útvega þeim far til íslands með öðrum togara. Að skilnaði gefur hann þeim eitt pund hverjum og urðu þetta einu vasapeningar þeirra í þessari óvæntu utanlandsför. Þeir fóru síðan um borð í togarann Sir Alcott, sem fór með þá rakleitt til Vestmannaeyja. Þessi togari var síðar keyptur til Reykjavíkur og fékk nafnið Geir."

Heimtir úr helju

Í morgun kom hingað breskur togari „Sir Alcott", með skipbrotsmenn af bátnum sem rak mannlaus á Meðallandsfjörur á dögunum. Báturinn („Jenný") var frá Reyðarfirði og fór þaðan 13. ágúst...."

(Upphaf fréttar úr sama blaði laugardaginn 30. ágúst 1919)

Löngu eftir að þeir voru komnir heim til sín austur á Reyðarfjörð fá þeir boð frá sýslumanninum á Eskifirði um að þar sé reikningur frá ræðismanni Dana í Grimsby vegna fatakaupa þeirra félaga þar í borg.

Það fréttu þeir til Reykjavíkur að Gissur Filippusson hafi komist heilu og höldnu til Reykjavíkur.

Árið 1925 fórst vélbáturinn Oddur SU 414 frá Reyðarfirði. Hann var á leið á vertíð suður á Hornafjörð.

Með honum voru sjö manns og fórust öll, þar á meðal félagar Jörgens úr þessari eftirminnilegu ferð, þeir Jón Árnason formaður og Sigurður Magnússon háseti.

Blessuð veri minning þeirra.

Grein þessi birtist í Sjómannadagsblaði Neskaupstaðar árið 1989.

Þar sem frágangur hennar þar var ekki að skapi höfundar er honum ljúft að ljá hana til endurbirtingar í þessu blaði.

Aðalsteinn Gíslason.