Jónas Þórarinn Ásgeirsson, Siglufirði (skíðakóngur)

mbl.is 23. júní 1996 | Minningargreinar 

Jónas Ásgeirsson fv. kaupmaður og sölufulltrúi var fæddur á Húsavík 25. ágúst 1920.
Hann lést á heimili sínu í Kópavogi 14. júní síðastliðinn.

Foreldrar hans voru hjónin Sólveig Helga Gísladóttir húsmóðir, ættuð úr Svarfaðardal, f. 31. október 1890, d. 14. maí 1968, og Ásgeir Jónasson, kaupmaður á Siglufirði, ættaður úr Þingeyjarsýslu, f. 31 október 1890, d. 28. maí 1957.

Þau hjón fluttu til Siglufjarðar árið 1922 og bjuggu þar alla tíð. Jónas var einkasonur þeirra hjóna.

Jónas Ásgeirsson - Ljósmynd Kristfinnur 
(ef smellt er á mynd, þá birtist hún stór, talsvert her neðar)

Jónas Ásgeirsson - Ljósmynd Kristfinnur
(ef smellt er á mynd, þá birtist hún stór, talsvert her neðar)

Hinn 13. júní 1945 kvæntist Jónas eftirlifandi eiginkonu sinni, Margréti Ólafsdóttur, f.v. læknaritara frá Hlíð í Siglufirði, f. 1. september 1921.

Foreldrar hennar voru Þorfinna Sigfúsdóttir matráðskona á Sjúkrahúsi Siglufjarðar, f. 3. maí 1903, d. 4. febrúar 1990, og Ólafur Vilhjálmsson, skrifstofumaður, f. 25. mars 1898, d. 30. janúar 1947.

Börn þeirra eru:

1) Sólveig Helga Jónasdóttir myndlistarkennari, f. 12. apríl 1945, eiginmaður hennar er Einar Long Siguroddsson aðstoðarskólastjóri, f. 2. nóvember 1944.
Dætur þeirra eru:
 • Margrét Einarsdóttir nemi í MHÍ, f. 2. maí 1967, og
 • Fanney Long Einarsdóttir nemi í HÍ, f. 27. júlí 1974.
2) Ásgeir Jónasson, lærður stýrimaður, starfar hjá Osta- og smjörsölunni, f. 26. ágúst 1948. Eiginkona hans er Ásdís Hinriksdóttir hjúkrunarfræðingur, aðstoðardeildarstjóri á Borgarspítala, f. 3. júlí 1955.
Sonur þeirra er
 • Jónas Ásgeir Ásgeirsson, f. 2. júlí 1993.

Jónas Ásgeirsson rak verslunina Ásgeir á Siglufirði ásamt konu sinni í ellefu ár. Þau fluttust til Reykjavíkur 1968. Þar vann hann sem sölufulltrúi hjá Sveini Egilssyni fram til ársins 1989 er hann lét af störfum. Útför Jónasar Þ. Ásgeirssonar fer fram frá Fossvogskirkju á morgun, mánudaginn 24. júní, og hefst athöfnin klukkan 13.30.
-----------------------------------------------------------

mbl.is 29. júní 1996 | 

Fátt kemur manni jafn mikið á óvart og dauðinn þótt ekkert sé jafn víst og þau endalok.

Það var vitað að hverju dró en samt hélt maður í vonina um sigur lífsins. Því fáa menn hefi ég þekkt, sem voru jafn lifandi allt sitt líf.

Jónas fæddist á Húsavík og fluttist til Siglufjarðar 1921 með foreldrum sínum, Ásgeiri Jónassyni kaupmanni og Sólveigu Helgu Gísladóttur, og taldi sig alla tíð Siglfirðing þótt hann afneitaði ekki landfræðilegum uppruna sínum.

Kynni okkar hófust fyrir 62 árum er ég fluttist til Siglufjarðar með fjölskyldu minni í Norðurgötuna með viðkomu í Bakka. Þarna í Norðurgötunni var þá mikið úrval ungra manna, sem ég var svo heppinn að kynnast og starfa með. Þar má segja að hafi verið tápmikill kjarni, sem starfaði í Skíðaborg og Knattspyrnufélaginu og Jónas varð þar snemma fremstur meðal jafningja.

Samskipti okkar Jónasar urðu mest á íþróttasviðinu og því von að ég tíundi það nokkuð. Hann var frábær á vellinum, jafnvígur í vörn og sókn. Harður en prúður. Á því tímabili var Knattspyrnumót Norðurlands eina stórmótið, sem Siglfirðingar tóku þátt í. Þá kom fram sú hugmynd á Akureyri að setja saman lið til að herja á Reykvíkinga. Fjórir eða fimm Siglfirðingar voru tilnefndir í liðið. Jónas var auðvitað einn þeirra. Af þessari skemmtilegu hugmynd varð þó ekki og má þar kenna um samgönguerfiðleikum.

Afrek Jónasar voru þó mest í skíðaíþrótt. Þar bar hann af í öllum greinum, þótt skíðastökkið væri hans sérgrein.
Hann var margfaldur Íslandsmeistari í skíðastökki og norrænni tvíkeppni og var valinn til að keppa fyrir Íslands hönd á vetrarólympíuleikunum í St. Morits 1948. Hann keppti þar að auki á Holmenkollen í Noregi og Östersund í Svíþjóð, og ég veit ekki betur en 54 metrarnir hans á stökkbraut byggðri úr snjó á Stórhólnum í Hvanneyrarskál standi óhaggaðir enn sem lengsta stökk hérlendis. Það var á skíðamóti Siglufjarðar 1946.

Jónas lagði líka stund á frjálsar íþróttir og var m.a. góður langhlaupari.

Þá er ótalið, þótt nýrra sé af nálinni, starf hans og annarra Siglfirðinga, búsettra syðra, í þágu Skíðafélags Reykjavíkur, er hleypti af stað þeirri skriðu, sem áhuginn fyrir notkun gönguskíða er á þeim bæ núna.

En lífið var ekki bara íþróttir á þriðja og fjórða áratugnum, heldur vinna og aftur vinna. Eins og aðrir ungir menn tók Jónas fullan þátt í síldarævintýrinu og vann þá á planinu hjá Ingvari Guðjónssyni, en þar var mest um að vera. Við söltun var aðalstarf hans að aka fullum tunnum af síld frá stúlkunum.
Söltun gat staðið í margar klukkustundir og allan tímann varð að hlaupa til að hafa undan kvenfólkinu og þess á milli var enn verið að fást við fullar síldartunnur, velta þeim og stúa. Nótt lögð við dag meðan síld barst. Þetta var harður skóli fyrir ungling, en þarna held ég að Jónas hafi öðlast þá undirstöðu að styrk sínum og þreki, sem dugði honum vel á íþróttasviðinu.

Ásgeir, faðir Jónasar, efndi til verslunar fljótt eftir að hann kom til Siglufjarðar, stofnaði Verslunarfélag Siglufjarðar og veitti því forstöðu til dauðadags. Hjá honum steig Jónas sín fyrstu spor á verslunarmannsferli sínum, sem varð langur. Er Ásgeir féll frá stofnaði Jónas sína eigin verslun, Verslunina Ásgeir. Jónas var góður kaupmaður og gott að versla við hann, leysti vanda manna fljótt og vel.

Fleyg er sagan af því þegar togarajaxlinn kom til hans eftir árangurslausa leit í hinum búðunum að ullarbrók og lá á.
Jónas hafði ekki vöruna á boðstólum, en "bíddu við," sagði hann, brá sér inn á kontór og kom að vörmu spori aftur með vel saman brotna brók og sagði: "Gerðu svo vel, þetta er mín eigin, ég get ekki betur gert," og togarajaxlinn hélt ánægður um borð tilbúinn í vetrargaddinn.

Eftir að Jónas hætti verslunarrekstri starfaði hann að ýmsu, var m.a. tvö sumur í lögregluliði Siglufjarðar. Þá störfuðum við saman. Það var skemmtilegur tími. Við það starf nutu mannkostir Jónasar sín vel. Þau hjón fluttu til Reykjavíkur 1968. Jónas réðst til Sveins Egilssonar hf. og starfaði þar af bifreiðasölu til 1989, er hann lét af störfum vegna vegna heislubrests.

Á Siglufjarðarárunum var hann meðlimur Rotary-klúbbs Siglufjarðar og söng með Karlakórnum Vísi í mörg ár.

Það getur verið beggja blands að segja um menn að þeir hafi verið hvers manns hugljúfi. Það má nefnilega túlka það svo, að í kringum þá hafi ríkt lognmolla. Í kringum Jónas ríkti engin lognmolla en hann var vinsæll og eftirsóttur félagi. Fáa eða enga menn hefi ég þekkt honum fyndnari og jafnhlaðna kímni svo að small í. Margar sögur hans af samferðamönnum og honum sjálfum eru löngu landsfleygar og læt ég kyrrt liggja. Það leiddist engum í návist Jónasar, svo mikið er víst.

Jónas hafði heillandi framkomu, var hreinn og beinn og kunni vel að vera í fjölmenni. Dætur mínar höfðu á orði að hann kæmi fram eins og heimsmborgari og þær höfðu á réttu að standa.

Mesta gæfuspor sitt sté hann er hann kvæntist unnustu sinni 13. júní 1945, Margréti Ólafsdóttir í Hlíð. Magga í Hlíð var meðal fegurðardísa bæjarins, vönduð og góð stúlka, sem alla tíð stóð við hlið eiginmanns síns, á hverju sem gekk, og kom það vel í ljós er hún annaðist mann sinn í síðustu veikindum hans af stakri alúð, þá sjálf heilsulítil.

Jónas og Margrét stofnuðu heimili sitt í Hlíð. Þangað var gott að koma og á ég þaðan margar góðar minningar.

Um leið og þessi góði drengur er kvaddur af stórum vinahópi votta ég Möggu og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Bragi Magnússon.
-------------------------------------

Jónas Þórarinn Ásgeirsson

 • Og þar eru fjöllin svo hátignar há,
 • svo hljómfagurt lækirnir niða.
 • Og þar eru útmiðin blikandi blá
 • með bjargráð ­ og öldurnar kliða.

 • Þar hef ég lifað og leikið mér dátt
 • með lífsglöðum vinum á kveldin.
 • Við trúðum á sjálfra okkar megin og mátt.
 • Ég man það var leikið með eldinn.

(Signý Hjálmarsdóttir)

Á morgun er kvaddur hinstu kveðju Siglfirðingurinn Jónas Ásgeirsson, vinur minn til margra ára. Ég man fyrstu samskipti okkar ákaflega vel. Jónas var að vinna að skíðamóti á Siglufirði og var óspar á að hvetja okkur drengina til dáða. Ég var 8 eða 9 ára gamall og svo ákafur keppnismaður að í göngukeppni missti ég báða stafina og kom án þeirra í mark. Jónasi þótti þetta miður og bað mig að koma daginn eftir í kennslustund í stafanotkun. Hann rak á þessum tíma verslunina Ásgeir og seldi aðallega matvörur.

Hann var þekktur fyrr og síðar fyrir lipurð við afgreiðslu og skemmtilegheit en Jónas var hafsjór af sögum og leitun að annarri eins skemmtun og þegar hann fór á kostum. Í verslunina til Jónasar mætti ég á tilsettum tíma til að læra á stafina en sú kennslustund leiddi af sér annað og meira því á staðnum var ég innritaður í skóla Jónasar og Möggu konu hans og með titilinn sendill lærði ég jöfnum höndum heimspeki, verslunarfræði og sagnalist. Allt var það gott en þó mest um vert að bindast þeim vináttuböndum. Þetta voru mikil forréttindi og mikið lán fyrir ungan dreng á þessum árum hér á Siglufirði.

Alltaf var nóg að gera við að sendast, fara með vörur til kaupenda og sækja vörur til seljenda og ég var hvorki gamall né hár í loftinu þegar Jónas leyfði mér að keyra bílinn sinn frá Leikskálum og "yfrum" og til baka. Bílinn var þó ekki alltaf hægt að nota og í miklum snjó fórum við með sendingar í bakpokum á gönguskíðum. Ýmsar sögur væri hægt að rifja upp hér af samskiptum Jónasar og vina hans en kímni og léttleiki voru þar allsráðandi.

Eftirminnileg er veiðisagan þar sem farið var með stangir en komið heim með fisk með netaförum. Þar reyndi á ráðsnilld Jónasar eins og oft áður. Til góðs vinar liggja gagnvegir segir í Hávamálum. Jónas og Magga fluttu til Reykjavíkur í atvinnulægð Siglufjarðar 1968. Samverustundir okkar eftir það voru ekki eins margar og við hefðum viljað en vel nýttar þegar þær gáfust.

Frásagnir Jónasar alltaf jafn stórkostlegar og strákarnir mínir jafn hugfangnir af þeim og ég fyrrum, gleyptu í sig hvert orð og hverja athöfn hans. Jónas var á yngri árum, og reyndar fram yfir þau, mikill afreksmaður í íþróttum, skíðum og fótbolta. Hann keppti í göngu, svigi og stökki og gerði garðinn hvað frægastan í stökkinu. Hann er einn fárra Íslendinga sem stokkið hefur á Holmenkollen en það gerði hann árið 1947 á 50. Holmenkollenmótinu.

Þar var einnig sveitungi hans og vinur Jón Þorsteinsson. Þeir stukku tvö stökk og stóðu báðir bæði stökkin og það var meira en hægt var að segja um þekktari kappa á því móti. Jónas keppti einnig á Ólympíuleikunum í St. Morits árið 1948 og stóð sig með ágætum. Auk þess að vera virkur keppnismaður lét hann ekki sitt eftir liggja í félagsmálum íþrótta bæði hér á Siglufirði og í Reykjavík. Jónas var kominn á fimmtugsaldur þegar honum þótti ráðlegt að fara að hætta í íþróttum og sagðist hafa hugsað eins og séra Sigvaldi í Manni og konu: "Ég held að það sé nú sé best að ég fari að halla mér."

Góður Siglfirðingur er genginn. Hann fylgdist vel með íþróttamálum og öðrum málefnum bæjarins fram til þess síðasta og heimsókn til þeirra hjóna og viðræður við þau voru á við bestu vítamínsprautu. Jónas sagði á síðustu árum að honum þætti erfitt að koma til Siglufjarðar því flestir vina hans væru komnir í kirkjugarðinn.

Það er trú mín að hann sé nú búinn að hitta þá á ný, sögurnar farnar að streyma og hlátrasköllin að glymja. Örugglega er sögð sagan ómetanlega af húsmóðurinni sem fékk boltann í pottinn hjá kvöldsoðningunni, en eldhúsglugginn hjá henni sneri út að fótboltavellinum. "Það steinleið yfir hana," endaði sagan hjá Jónasi.

Fræg er einnig sagan af kjötinu seiga sem boðið var uppá í einni fótboltaferðinni og allir höfðu hlakkað til að borða. Jónas kvað upp dóm um kjötið með því að biðja um mæðiveikigirðinguna í eftirmat! Sigrar hans og sögur munu lifa um ókomna tíð. Hann var skemmtilegur persónuleiki og drengur góður.

Möggu, Sólveigu, Ásgeiri og fjölskyldum sendir mitt fólk samúðarkveðjur.

 • Og þegar leiðin mín loksins er öll
 • og leystur úr fjötrum er andinn,
 • þá bergmálið yfir mér bláskyggðu fjöll,
 • og bárur gjálpið við sandinn.

(Signý Hjálmarsdóttir)

Hafi Jónas þökk fyrir gengin spor. Kristján L. Möller.
----------------------------------------------

Jónas Ásgeirsson

Genginn er góður vinur, Jónas Ásgeirsson. Minnist ég þess er við hittumst fyrst, tíu ára gamlir, á Norðurgötunni á Siglufirði. Vinskapur okkar hefur haldist æ síðan. Við höfðum í nógu að snúast á þessum árum, bæði við skíðaiðkun, íþróttir og veiðiskap. Í fyrstu vann Jónas við hin ýmsu störf í síldinni og fleiru.
Síðar var hann póstafgreiðslumaður og vann við verslunarstörf. Hann gerðist síðan kaupmaður og rak matvöruverslun í mörg ár með dyggri aðstoð ágætrar konu sinnar, Margrétar Ólafsdóttur. Síðan fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur árið 1968. Þar starfaði Jónas sem sölumaður bifreiða hjá fyrirtæki Þóris Jónssonar.

Jónas var mikil íþróttamaður og var einn af bestu skíðamönnum þjóðarinnar og keppti í öllum greinum skíðaíþróttarinnar, sérstaklega í stökki og stökk af stórbökkum erlendis, þar á meðal Holmenkollen í Noregi og einnig í Svíþjóð og á Ólympíuleikunum 1948 í St. Morits. Einnig var hann góður knattspyrnumaður og keppti víða með liði sínu, KS. Það voru mörg góð ferðalög sem farin voru í sambandi við knattspyrnuna.

Jónas var léttur og skemmtilegur félagi og sagði vel frá og kryddaði oft frásagnir sínar með glettni á góðum stundum. Hann gat þannig oft lífgað upp á samkvæmi og fundi.

Ég kveð Jónas með þökk fyrir liðnar samverustundir og votta frú Margréti, börnum hennar, tengdabörnum og barnabörnum einlæga samúð.

Eldjárn Magnússon.
------------------------------------------------------------------

Jónas Þórarinn Ásgeirsson

Jónas Þórarinn Ásgeirsson Jónas Ásgeirsson var einn úr hópi vaskra skíðamanna frá Siglufirði, sem settu mest mark sitt á skíðaíþróttina í upphafi. Árið 1938 fer nafn Jónasar að birtast í afreksskrá skíðamanna, en það ár vinnur hann til verðlauna bæði í svigi og skíðastökki, en Jónas var afar fjölhæfur íþróttamaður.

Árið 1939 vinnur Jónas í fyrsta sinn hinn svokallaða "skíðakóngstitil", sem var æðsta tign skíðakeppenda þess tíma. Þennan titil vann Jónas oftast allra, þar til hann hætti keppni. Jónas var einn af keppendum Íslands á fyrstu vetrarólympíuleikum sem Íslendingar tóku þátt í, árið 1948 í St. Morits. Árið áður keppti Jónas í skíðastökki á Holmenkollen í Noregi, ásamt félaga sínum Jóni Þorsteinssyni frá Siglufirði. Þetta var frumraun íslenskra skíðamanna í keppni á erlendri grund.

Siglufjörður fyrir stríðsára var þekktastur fyrir síld og frækna skíðamenn. Jónas tók þátt í hvorutveggja.

Lengstan tíma ævi sinnar starfaði Jónas við verslun og sölustörf. Hann rak verslun á Siglufirði árum saman, við góðan orðstír. Jónas hóf störf hjá Ford-umboðinu Sveini Egilssyni sem sölumaður bifreiða árið 1969. Sölumennska var í blóðinu hjá Jónasi. Þeir sem með honum störfuðu og ekki síst viðskiptavinir kunnu að meta þá gleði og þann anda er fylgdi með í kaupunum. Það var engin lognmolla í kringum Jónas. Hversdagsleg viðskipti urðu að stórkostlegum vangaveltum um lausn heimsmálanna.

Allir viðskiptavinir Jónasar fundu fyrir hjálpsemi hans og góðum vilja en leiðarljós hans var að allir skildu hafa sitt, og fyrir það var hann reiðubúinn að leggja allt í sölurnar. Það leiddist engum í návist Jónasar. Hann var frábær sögumaður með leiftrandi sýn, er gat komið öllum til að kætast. Hinn venjulegi viðskiptamaður fékk venjulega lausn lífsgátunnar í kaupbæti.

Að leiðarlokum þakka ég 20 ára samstarf sem aldrei féll skuggi á og um leið votta ég eftirlifandi ástvinum innilegustu samúð.

Þórir Jónsson.
-------------------------------------------------- 

Jónas Þórarinn Ásgeirsson

Hinsta kveðja frá Skíðafélagi Reykjavíkur

Jónas Þórarinn Ásgeirsson Hinsta kveðja frá Skíðafélagi Reykjavíkur

Skíðakappinn Jónas Þ. Ásgeirsson er látinn. Margs er að minnast frá langri og viðburðaríkri ævi. Jónas var mjög fjölhæfur skíðamaður og keppti hann um árabil bæði hér heima og á erlendri grundu, með góðum árangri. Sunnlendingar höfðu séð og heyrt um þennan mikla norðlenska skíðakappa yfir heiðar. Þegar Jónas fluttist suður þá var það Skíðafélagi Reykjavíkur mikill heiður að hann gekk til liðs við félagið. Jónas þjálfaði lengi vel skíðamenn Skíðafélags Reykjavíkur, sat í mörg ár í stjórn þess og árið 1975 var hann kosinn formaður. Skíðamenn sunnan heiða þakka Jónasi fyrir langt og farsælt samstarf og senda fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Stjórn Skíðafélags Reykjavíkur.
------------------------------------------ 

Jónas Þórarinn Ásgeirsson

Ei glóir æ á grænum lauki sú gullna dögg um morgunstund, né hneggjar loft af hrossagauki, né hlær við sjór og brosir grund. Guð

Jónas Þórarinn Ásgeirsson

 • Ei glóir æ á grænum lauki
 • sú gullna dögg um morgunstund,
 • né hneggjar loft af hrossagauki,
 • né hlær við sjór og brosir grund.

 • Guð það hentast í heimi fann,
 • það hið blíða
 • blanda stríðu;
 • allt er gott er gjörði hann.

Svo orti Sveinbjörn Egilsson og þannig er nú komið, að Þórarinn Ásgeirsson hlær ekki lengur við veröldinni, en þannig minnist ég helst Jónasar tengdapabba, glettinn á brá með spaugsyrði á vörum. Sendandi frá sér beinskeyttar athugasemdir um menn og málefni og koma þannig þeim er með honum voru í umræðuham. Oftar en ekki voru hávaðasamræður einkenni á afmælisboðum á mínu heimili þar sem tekist var á um dægurmál líðandi stundar.

Hann hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum en fáa hef ég hitt sem hafa haft jafn ríka tilfinningu fyrir að allir menn ættu að vera jafnir fyrir Guðs og manna lögum og ættu jafnan rétt til lífsins gæða og möguleika í lífinu. Réttsýni hans var viðbrugðið og honum fannst sem fleirum að ýmislegt mætti betur fara í okkar litla þjóðfélagi.

Þátttöku Jónasar í íþróttum, einkum skíðakeppnum og árangri hans í þeim geri ég ekki skil, það vita aðrir betur um, en hitt veit ég að ýmsir munu minnast þátttöku hans í ýmsum öðrum íþróttagreinum. Það var honum mikið ánægjuefni á 70 ára afmælinu að hljóta gullmerki ÍSÍ sem verðskuldaða viðurkenningu fyrir störf sín að íþróttamálum á Siglufirði.

Það var með miklum söknuði sem Jónas varð að hverfa frá verslun sinni á Siglufirði, en flutti suður og hóf störf við bílasölu hjá kunningja sínum og skíðafélaga, Þóri Jónssyni, 1967, og hjá fyrirtæki hans starfaði hann þar til hann ákvað að hætta störfum og njóta elliáranna.

Fljótlega eftir að suður kom festu þau Magga kaup á íbúð í Vesturbergi 8 og þar undu þau vel í nærri 20 ár. Árið 1992 fluttu þau í Kópavoginn.

Hreyfing og útivera voru aðaláhugamál Jónasar eftir að suður kom. Skíðin voru sem fyrr í fyrsta og öðru sæti. Þegar vinnu lauk settu langir göngutúrar um nágrenni heimilisins einnig lit sinn á líf hans sem og lestur góðra bóka.

Hér að framan er ótalinn þáttur Jónasar í lífi fjölskyldu sinnar, dótturdætranna og síðar sonarsonarins. Hann var ávallt boðinn og búinn að gera það sem hann hafði tök á til að létta okkur lífið, að snúast eitt og annað. Það voru einkum stelpurnar sem nutu þessarar ósérhlífni hans og þær nutu ástar og umhyggju hans meðan heilsan leyfði. Litli sólargeislinn í fjölskyldunni, Jónas Ásgeir, varð strax eftirlæti afa síns. Einhvern veginn fannst mér Jónas aldrei verða gamall. Hann var ætíð ungur í anda og naut þess að vera með ungu fólki. Það hægði að vísu eitthvað á hreyfingum hans en hann var ávallt kvikur og snar í snúningum og tígulegur á velli.

En nú ertu burt kallaður, en eftir stendur minning um skemmtilegan, ógleymanlegan persónuleika sem fylgir okkur ætíð. Hafðu kæra þökk fyrir samfylgdina.

Einar Long Siguroddsson.
------------------------------------------

Jónas Þórarinn Ásgeirsson

Jónas Þórarinn Ásgeirsson Það er margs að minnast þegar litið er yfir farinn veg af kynnum mínum af Jónasi Ásgeirssyni, vini mínum og svila. Jónas var litríkur persónuleiki, fjölhæfur íþróttamaður og mikill keppnismaður. Hann fylgdist vel með þjóðmálum og voru umræður um íþróttir og hin margvíslegustu dægurmál oft fjörlegar á heimili þeirra Möggu og Jónasar í Hlíð á Siglufirði í gamla daga þegar félagarnir komu saman.

Skíðaíþróttin átti hug hans allan og varð hann fyrst Íslandsmeistari aðeins átján ára gamall. Hann var stórhuga og áræðinn. Á árinu 1947 keppti hann á Holmenkollen-pallinum í Noregi ásamt félaga sínum Jóni Þorsteinssyni. Hann tók þátt í fyrstu vetrarólympíuleikum, sem Íslendingar tóku þátt í, en það var í St. Morits í Sviss árið 1948. Jónas varð sjö sinnum Íslandsmeistari í skíðastökki og fimm sinnum í norrænni tvíkeppni.

Hann var einstaklega laginn og leikinn, en í stökkinu naut sín hans alkunna öryggi og áræði sem við hinir yngri dáðumst að. Jónas þreyttist aldrei á því að segja okkur sem yngri vorum til í stökkinu og sá áhugi hans dvínaði aldrei. Jónas gaf mér fyrstu stökkskíðin á árinu 1950, þá tólf ára gömlum, en erfitt var að ná í slík skíði þá. Síðan eignuðumst við bræður skíðin sem hann hafði stokkið á í St. Morits og voru þau mikið notuð. Hann var sífellt að hvetja okkur til dáða og leiðbeina hinum yngri.

Jónas fór yfirleitt ekki troðnar slóðir heldur hafði sinn stíl til orðs og æðis, líka sinn sérstæða en örugga stökkstíl. Hann var hrókur alls fagnaðar á keppnisferðum og hvar sem hann fór og var hvergi neinn meðalmaður. Jónas var myndarlegur á velli, alltaf snyrtilegur, bæði innan vallar sem utan, og drengilegur í allri framgöngu í íþrótt sinni.

Á Siglufirði stundaði Jónas lengst af verslunarstörf og ráku þau hjónin Verslunina Ásgeir á Siglufirði í rúman áratug. Jónas hóf síðan störf hjá Ford-umboðinu, Sveini Egilssyni hf. í Reykjavík á árinu 1967, þar sem hann starfaði í rúm 20 ár. Hann sat í stjórn Skíðafélags Reykjavíkur og í Skíðaráði Reykjavíkur. Á árinu 1990 var hann sæmdur gullmerki Íþróttasambands Íslands.

Við systkinin, Anna, Bogi og Gústav og fjölskyldur okkar sendum Margréti, börnum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur og þakkir fyrir ógleymanlegar stundir á liðnum árum. Minningin um góðan dreng mun lifa um ókomin ár.
Ólafur Nilsson.
-----------------------------------------------

Minning Jónas Ásgeirsson Það er að ljúka æfingu hjá Söngfélagi

Minning Jónas Ásgeirsson Það er að ljúka æfingu hjá Söngfélagi verklýðssamtakanna í risinu í Edduhúsinu. Framundan er skemmtikvöld og það spyrst að tvöfaldur karlakvartett ætli að verða eftir og fara yfir nokkur lög.

Nokkrir forvitnir kórfélagar staldra við utan dyra og leggja við hlustir: "Við unnum það sem unnið var/ um Íslands breiða vang -".
Er þetta ekki Söngur verkamanna eftir Áskel Snorrason við texta Kristjáns frá Djúpalæk? Jú, einmitt. -
Og lagið heldur áfram: "Við ruddum vegi byggðum brýr/ og brutum land í góðri trú ..." Hver er þarna með sólólínuna í öðrum bassa? Það er víst hann Jónas, er svarið. Hefur hann lært? Ég held ekki neitt að ráði, en hann hefur víst sungið í mörgum kórum. - Mannskapurinn ákveður að fá sér súkkulaði og rjómatertu á Höllinni og söngurinn berst út um glugga Edduhússins þegar við göngum upp Skuggasundið: "... að saman jafnt í sókn og vörn/ að sigri stöndum vér." -

Við nýliðar áttum eftir að kynnast umræddum Jónasi betur. Hann var einn af stofnendum þessa blandaða kórs sem hét fullu nafni Söngfélag verklýðssamtakanna í Reykjavík. Margir stofnendanna báru enn uppi starf félagsins á miðjum 6. áratugnum undir forystu eldhugans Sigursveins D. Kristinssonar, tónskálds.

Jónas fæddist á Stokkseyri 13. febrúar 1907. Foreldrar hans voru hjónin Ásgeir Jónasson sjómaður og Þorbjörg Guðmundsdóttir. Börnin voru átta, fimm systur og þrír bræður, og var Jónas næstyngstur. Almenn verkamannavinna og sjómennska var lifibrauðið heima á Stokkseyri en einnig fór Jónas í verið til Vestmannaeyja.

Eins og átti við um svo marga af aldamótakynslóðinni mun áhugi á ýmsu því sem auðgað gat andann snemma hafa tekið hug Jónasar. Í fyrirrúmi voru tónlist, leiklist og bóklestur. Hann tók þátt í að stofna karlakór á staðnum og mér er sagt að hann hafi verið leikari af guðs náð; lék enda í leikritum bæði á Stokkseyri og í Vestmannaeyjum.

Til Reykjavíkur fluttist Jónas árið 1946. Hér starfaði hann samfellt hjá Hitaveitu Reykjavíkur til ársins 1965, en þá réðst hann til Osta- og smjörsölunnar og vann þar, að mig minnir, lengur en lög og elli kerling gera ráð fyrir.

Eins og ráða má af inngangi þessara orða var það einkum söng- og músíkmaðurinn Jónas sem ég þekkti best. Leiðir okkar lágu fyrst saman í Söngfélagi verklýðssamtakanna haustið 1955. Á síðustu árunum sem kórinn starfaði sungum við hjónin bæði með Jónasi í kórnum og með okkur og honum tókst góð vinátta sem entist æ síðan.

Jónas hafði áður, auk kórstarfsins fyrir austan fjall, sungið í Samkór Reykjavíkur og Tónlistarfélagskórnum. Upp af stofni Söngfélagsins varð til Alþýðukórinn, sem dr. Hallgrímur Helgason stjórnaði alla tíð og þar var Jónas auðvitað með í för. Eftir að Alþýðukórinn hætti störfum söng Jónas í mörg ár í Árnesingakórnum í Reykjavík og var áreiðanlega orðinn 75 ára þegar hann hætti að starfa með kórnum. Og til að halda öllu til haga verður að nefna Fríkirkjukórinn, en í þeim kór söng Jónas í rúm 30 ár jafnhliða starfi í fyrrnefndum kórum hér í borginni.

Jónas var að mestu sjálfmenntaður í músíkfræðum. Ég segi "músíkfræðum" því hann var ekki einasta vel læs á nótur, með næmt tóneyra og fljótur að læra lög, heldur lék hann líka á orgel "fyrir sjálfan sig" og hafði tileinkað sér talsverða þekkingu í tónfræði og hljómfræði. Meðan Jónas átti heima á Stokkseyri sótti hann nokkra tíma í orgelleik til Sigurður Ísólfssonar. Ekki er ósennilegt að Sigurður hafi komið honum eitthvað á sporið í tónfræði og auðveldað honum með því frekara sjálfsnám. Mig minnir líka að Jónas hafi einhvern tíma látið þess getið að hann hafi notið smávegis tilsagnar í söng hjá Einari Sturlusyni.

Sjálfsnám í tónfræðum verður vart stundað án góðs bókakosts. Ég held að óvíða hafi verið að finna jafngott einkasafn ljóða- og tónbókmennta eins og það sem Jónas hafði komið sér upp á langri ævi. Kæmist hann yfir lag eða fágætar nótur var hann fljótur að skrifa það upp. Rithöndin var falleg og handbragðið allt eins og fagmaður stýrði penna. - En Jónas lét sér ekki nægja að syngja eða skrifa upp lög annarra.

Hann átti það líka til að setja saman eigin lög. Aldrei minntist hann að fyrra bragði á þessa iðju sína, enda hlédrægur að eðlisfari. Söngfélagið og Árnesingakórinn æfðu og sungu a.m.k. lag hans við texta Hannesar Hafsteins, Blessuð sólin elskar allt, í útsetningu Sigursveins D. Kristinssonar. Þetta lag og sex önnur sá ég í snotru handriti hjá Guðmundu systur hans.

Ég minntist áðan á hógværð Jónasar. Það var sannarlega fátt sem raskað gat jafnvægi hans. Þó var það til. Færi einhver skakkt með lag eða texta, ellegar yrði einhverjum á að syngja lag í öðrum takti en höfundur hafði skrifað, þá gat honum hitnað verulega í hamsi. Og hann komst varla í jafnvægi fyrr en viðkomandi hafði játað "mistök" sín.

"Punkteraða" nótu skyldi syngja punkteraða; styrkleikatákn og aðrar leiðbeiningar höfundar bar að virða refjalaust! Og heyrði hann lag eða texta eignað skökkum höfundi, t.d. í Ríkisútvarpinu, fannst honum það heilög skylda sín að grípa tólið og vekja athygli á missögninni. Svona var Jónas nákvæmur í öllu sem hann gerði eða lét sig varða.

"Við unnum það sem unnið var/ um Íslands breiða vang ..." Þetta baráttuljóð Kristjáns frá Djúpalæk er sem greypt í hug minn þegar ég minnist þessa fjölmenntaða alþýðumanns. Í Söngfélagi verklýðssamtakanna sveif sá andi yfir vötnum að iðkun söngs og alhliða menningarstarfsemi væru þýðingarmiklir þættir í sókn og vörn alþýðu fyrir bættum kjörum og fegurra mannlífi. Þótt aðstæður í þjóðfélaginu og gildismat hafi um margt breyst frá þeim tíma sýnist ástæðulaust að kasta viðlíka hugsjónum fyrir róða. Það gerði Jónas aldrei. Gaman er að hafa um skeið orðið samferða slíkum manni.

Gunnar Guttormsson.
-----------------------------------------

Afmæliskveðja: Jónas Ásgeirsson skíðakappi ­ sjötugur Jónas Ásgeirsson frá

Afmæliskveðja: Jónas Ásgeirsson skíðakappi ­ sjötugur Jónas Ásgeirsson frá Siglufirði er sjötugur í dag, en hann var um árabil einn af fremstu skíðamönnum þessa lands. Jónas ólst upp á Siglufirði þar sem vagga skíðaíþróttarinnar var á þeim tíma. Um árabil rak hann þar verslunina Ás geir, en hann flutti til Reykjavíkur á árinu 1968 þar sem hann hefur síðan stundað verslunarstörf.

Á þessum tímamótum er tilefni til að rifja upp í örstuttu máli af skipti Jónasar og afrek á sviði íþrótta. Við sem kynntumst Jónasi í íþróttum dáðum mjög leikni hans, áræði og öryggi í skíðastökkinu, en skíðastökkið var hans uppáhaldsgrein. Annars var hann liðtækur í öllum greinum skíðaíþróttarinnar og keppti í þeim öllum. Hann var sérlega laginn og hafði gott vald á tækninni.

Fyrst varð Jónas Íslandsmeistari í norrænni tvíkeppni á árinu 1939 aðeins 18 ára gamall. Íslandsmeistari í skíða stökki varð hann fyrst árið 1943 en það endurtók hann síðan sjö sinnum. Ég minnist þess enn þegar Jónas var síðast Íslandsmeistari í skíðastökki, en það var á Akureyri árið 1957 þá 36 ára gamall. Það varð að gera hlé á stökkinu eftir fyrri ferð vegna skafrennings og slæms veðurs. Okkur keppendum leist ekki meira en svo á framhaldið, en stökkinu var haldið áfram. Þá naut sín vel hin mikla reynsla og yfirburðaöryggi hans, en það stóðst honum enginn snúning.

Á þeim árum sem skíðastökkið var og hét hér á landi var ómetanlegt fyrir okkur yngri þátttakendurí íþróttinni að njóta samfylgdar Jónasar á Siglufirði. Hann var mikill ærslabelgur og alltaf var mikið líf og fjör í kringum hann, en hann þreyttist aldrei á því að leiðbeina þeim yngri og miðla þeim af reynslu sinni. Í nokkur ár stundaði Jónas skíðakennslu víða um land. Enn er hann fullur af áhuga á því að leiðbeina og leita leiða til eflingar íþróttum, einkum skíðastökkinu, sem vissulega hefur dalað mikið frá gullaldarárunum á Siglufirði.

Á árinu 1946 fór Jónas fyrst utan bæði til Svíþjóðar og Noregs til æfinga og keppni, en með í för voru þeir Haraldur heitinn Pálsson og Sigtryggur Stefánsson nú bú settur á Akureyri. Þetta mun hafaverið fyrsta ferð íslenskra skíðamanna til annarra landa til æfingaog keppni. Árið 1947 keppti Jónas síðan, ásamt Jóni Þorsteinssyni frá Siglufirði, í hinni frægu stökkbraut Holmenkollen í Noregi. Það hefur þurft talsverðan kjark fyrir stráka norðan úr landi til að keppa í þeirri braut án þess að fá nokkurt tækifæri til æfinga í brautinni eða í hliðstæðum brautum.

Jónas tók þátt í fyrstu Ólympíuleikum vetraríþrótta sem Íslendingar tóku þátt í, en það var í St. Morits í Sviss árið 1948. Íslenskir keppendur voru fjórir, Jónas einn í stökkinu, en þrír í alpagreinum, þeir Guðmundur Guðmundsson, Magnús Brynjólfsson, báðir frá Akureyri, og Þórir Jónsson, Reykjavík. Fararstjóri var Einar B. Pálsson verkfræðingur og þjálfari Hermann Stefánsson kennari. Jónas stökk af sínu alkunna öryggi og stóð sig vel þótt ekki yrði hanní fremstu röð.

Jónas lék knattspyrnu með meistaraflokki KS í fjölda ára og var þar í fararbroddi, laginn og leikinn með boltann. Skíðin eru þó alltaf hans uppáhald og eftir að hann flutti til Reykjavíkur hefur hann átt sæti bæði í Skíðafélagi Reykjavíkur og Skíðaráði Reykjavíkur fullur af áhuga á skíðunum.

Það var oft glatt á hjalla hjá Jónasi og Möggu í Hlíð á Siglufirði þar sem áhugamenn um skíði og knattspyrnu mættu og ræddu málin. Umræður voru oft líflegar enda húsráðandinn ekki í vandræðummeð að glæða þær fjöri með glettni sinni og frásagnarsnilld. Enn eru málin rædd á heimili þeirra hjónaí Reykjavík og svo verður vonandi um ókomin ár. Áhuginn hverfur aldrei.

Bestu heillaóskir í tilefni dagsins kæri vinur.

Ólafur Nilsson
----------------------------------------------------------

Minningargrein: 23. júní 1996

Við barnabörnin viljum skrifa nokkur minningarorð um góðan afa og mann sem við fengum að njóta í mislangan tíma. Litli nafni hans sem aðeins er tæpra þriggja ára var lítill sólargeisli í lífi afa. Þeir voru nánir þrátt fyrir stutt kynni. Við systurnar höfum átt lengri samverustundir með honum og höfum margs að minnast. 

Okkur þremur þótti óumræðulega vænt um afa okkar. Hann var svo skemmtilegur og litríkur persónuleiki, aukin heldur var hann góður vinur okkar. Það var alltaf gleði og léttleiki í kringum hann því þannig vildi hann hafa það. Hann Jónas afi var ekki fyrir lofræður um sjálfan sig og var snillingur í að gera grín að sjálfum sér og sjá spaugilegu hliðarnar á hlutum sem upp komu. Við gætum, þess vegna, skrifað heila bók bara um brandarana hans og ef hann sjálfur mætti ráða yrði þessi minningargrein að hans skapi ef hún væri í léttum dúr þannig að við mættum brosa og helst skellihlæja. 

Sumar sögur sagði afi okkur aftur og aftur í gegnum árin og alltaf gátum við hlegið að þeim. Hann hafði líka sérstaka tilburði í frammi. Þeim fylgdu miklar handsveiflur og eins og allir sögumenn kunni hann að bæta frásögnina með skemmtilegum ýkjum. Fastur liður var að hefja og ljúka frásögn með yfirlýsingu um að um sanna sögu væri að ræða. Við góðar undirtektir magnaðist hann allur og á eftir fylgdu fleiri sögur. Úr varð oft mikill spuni og skemmtan fyrir okkur í fjölskyldunni. 

Eitt okkar bjó úti á landsbyggðinni um tíma og þurfti fólk að fara nokkuð langa leið til að komast í sundlaug. Afi kom í heimsókn og vildi gjarnan gleðja dótturdóttur sína með sundferð. Tilhlökkunin var mikil og miklar umræður um sund komnar af stað. Þegar komið var á áfangastað vildi ekki betur til en að sama sem ekkert vatn var í lauginni. Afi hugsaði um það eitt að barnabarnið yrði ekki fyrir vonbrigðum og fór í sund með þeirri stuttu og lét eins og laugin væri full af vatni.

Hann lét vatnsskortinn ekki aftra sér heldur gerði úr mikla skemmtan. Þessi sundlaugarferð er sú eftirminnilegasta laugarferð sem þessi fyrrnefnda hnáta hefur farið á sínum yngri árum. Þennan atburð kunni afi að nota og bjó til lifandi frásögn sem enn er í minnum höfð innan fjölskyldunnar. Hann sá alltaf spaugilegu hliðarnar á öllum málum og naut þess líka í ríkum mæli að koma okkur til að hlæja með því að skrýða hversdagsleikann fyndni og skemmtilegum frásögnum. 

Afi var alltaf tilbúinn að gera allt sem hann gat fyrir okkur og bar hag okkar fyrir brjósti. Við vissum alltaf að hann fylgdist með okkur og hafði áhuga á því sem við gerðum. Ef einhverjir dagar liðu og við höfðum ekki haft samband hringdi hann og spurði hvort allt væri í lagi. Hann hefði sennilega viljað hafa lengri tíma til að fylgjast með nafna sínum en við vitum að hann gerir það þótt á annan hátt sé. Við tvær sem eldri erum munum vera ósparar á að fræða hann um þann góða og skemmtilega afa sem við fengum tækifæri á að kynnast svo vel. Við munum reyna að viðhalda sögunum sem hann bjó til og komu sannarlega frá hjartanu. Þær munu lifa með okkur í minningunni. 

Skíði áttu mikinn þátt í lífi afa okkar og sá hann um að við lærðum plóginn og á gönguskíði og nafni hans var varla farinn að standa í fæturna þegar skíðakennslan byrjaði frammi á gangi, allt í rólegheitum, mikilvægt var að spara asann og gefa sér frekar meiri tíma í lærdóminn. Hann var góður kennari og sparaði okkur ekki hólið hvort sem það var um að ræða skíðakunnáttu okkar eða einfaldlega það annað sem við tókum okkur fyrir hendur. 

Viðmótið sem maður fékk frá honum og sem hann sýndi börnum sérstaklega, var einstaklega hlýtt. Það er börnum svo mikils virði þegar fullorðnir sýna þeim virðingu og athygli sem væru þau sjálf fullvaxin og þessa viðhorfs nutum við í ríkum mæli. Slík framkoma ætti að vera öllum sjálfsögð. 

Við systur erum mjög þakklátar fyrir að fá að eyða dýrmætum stundum með honum síðustu mánuðina í lífi hans og fyrir að hafa fengið að hjúkra honum þegar hann var sem veikastur. Það var okkur einkar ljúf skylda. Nú orðið er það fágæt reynsla að fá að vera með ættmennum síðustu andartök í lífi þeirra. 

Kynnin við þig hafa að stóru leyti gert okkur að þeim manneskjum sem við erum í dag og með þessum orðum viljum við kveðja þig, elsku afi: 

 • Öll list er tileinkuð gleðinni,
 • og ekki er til neitt háleitara eða
 • brýnna ætlunarverk
 • en að fjörga mannkynið. Margrét, Fanney og Jónas Ásgeir.