Kolbeinn Friðbjarnarson á ýmsum æviskeiðum.

Jón Kolbeinn Friðbjarnarson fæddist í Siglufirði 3. október árið 1931 og þar lézt hann á heimili sínu, Hvanneyrarbraut 2, á hvítasunnudag, 11. júní 2000. 

Kolbeinn Friðbjarnarson er yngri bróðir Stefáns, en þeir bræður voru sendir saman í sveit að Krakavöllum.

Kolbeinn fæddist í Siglufirði árið 1931. d. 2000

Hann kvæntist Guðný Soffía Þorvaldsdóttir verkakonu, árið 1958. Börn þeirra eru: 

a) Hafdís Ósk Kolbeinsdóttir fjármálastjóri Endurmenntunar H.Í., 

b) Líney Kolbeinsdóttir verkakona, 

c) Hafþór Ari Kolveinsson (Hafþór Kolbeinsson) bæjarstarfsmaður og 

d) Kolbeinn Kolbeinsson sem lést af slysförum sem barn. 

Kolbeinn Friðbjarnarson
Ljósmynd: Kristfinnur

Kolbeinn Friðbjarnarson
Ljósmynd: Kristfinnur

Fyrir hjónaband átti Kolbeinn dóttur, 

Sigríður Kolbeinsdóttir sem er búsett í Skotlandi.

Að loknu gagnfræðaprófi, 1947, vann Kolbeinn ýmis störf, bæði til sjós og lands, þar til hann fór út til Sovétríkjanna í nám. Eftir heimkomuna sneri Kolbeinn sér að störfum í þágu verkalýðsins en Kolbeinn var í stjórn verkalýðsfélaga í 30 ár. Hann var  í stjórn Verkamannafélagsins Þróttar 1961-1966 og í stjórn Verkalýðsfélagsins Vöku 1966-1998.

Formaður Vöku var hann á árunum 1976-1986. Hann sat í sambandsstjórn Alþýðusambands Norðurlands um árabil, sem og í miðstjórn þess. Hann sat einnig um árabil í sambandsstjórn VMSÍ og í sambandsstjórn ASÍ. Hann var forstöðumaður Lífeyrissjóðs verkalýðsfélaga á Norðurlandi frá upphafi, 1971-1986. Hann var gerður að heiðursfélaga í Verkalýðsfélaginu Vöku árið 1999.

Kolbeinn var kjörinn bæjarfulltrúi í Siglufirði árið 1966 á vegum Alþýðubandalagsins og sat í bæjarstjórn til ársins 1986 eða í 20 ár. Hann var jafnframt einn af stofnendum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á Norðurlandi vestra.

Kolbeinn gegndi á starfsævi sinni fjölmörgum nefndar- og trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna og Siglufjarðarkaupstað.  http://mennta.hi.is/vefir/saga/torf/2005/gudthors/stefKolb.htm  

---------------------------------------------------------  

Jón Kolbeinn Friðbjarnarson fæddist í Siglufirði 3. október árið 1931 og þar lézt hann á heimili sínu, Hvanneyrarbraut 2, á hvítasunnudag, 11. júní 2000. 

Foreldrar hans voru  Sigríður Stefánsdóttir frá Móskógum í Fljótum, f. á Krakavöllum í Flókadal 21. júní 1895, d. 2. júní 1987, og  Friðbjörn Níelsson, skósmiður, kaupmaður og bæjargjaldkeri í Siglufirði, f. 17. janúar 1887 á Hallandi á Svalbarðsströnd, d. 13. október 1952.
Systkini Kolbeins eru

1) Níels Friðbjarnarson bankamaður, f. 1918,

2) Kjartan Friðbjarnarson kaupsýslumaður, f. 1919, 

3) Anna Margrét Friðbjarnardóttir, íþróttakennari og fv. umboðsmaður Olís í Vestmannaeyjum, f. 1921,  

4) Stefán Friðbjarnarson fv. bæjarstjóri í Siglufirði og blaðamaður á Morgunblaðinu, f. 1928, 

5) Jóhann Bragi Friðbjarnarson afgreiðslumaður, f. 1935, d. 1990.

Hinn 30. desember 1958 kvæntist Kolbeinn Guðný Soffía Þorvaldsdóttir, sem lifir mann sinn. Foreldrar hennar voru Líney Elíasdóttir, húsmóðir, og Þorvaldur Þorleifsson, hafnarverkamaður í Siglufirði. Börn Guðnýjar og Kolbeins eru:

1) Hafdís Ósk Kolbeinsdóttir, f. 1957, maki Halldór Ingi Andrésson, búsett á Seltjarnarnesi. Þeirra börn eru

Guðný og

Anna María.

2) Líney Kolbeinsdóttir, f. 1958, búsett í Siglufirði. Hennar börn eru:

Davíð,

Stefán og

Kolbeinn.

3) Hafþór Ari Kolbeinsson, maki Ríkey Sigurbjörnsdóttir, búsett í Siglufirði. Þeirra börn eru:

Bryndís,

Sigurbjörn,

Kolbeinn Ari,

Fannar Örn 

Pálmar.

4) Kolbeinn Kolbeinsson, f. 1965, d. 1979. Fyrir hjónaband átti Kolbeinn dóttur, 

Sigríður Kolbeinsdóttir, f. 1948, maki John Leslei, búsett í Skotlandi. Þeirra börn eru

Katla og 

Jón.

Að loknu gagnfræðaprófi, 1947, vann Kolbeinn ýmis störf, bæði til sjós og lands, unz hann gerðist starfsmaður Lífeyrissjóðs verkalýðsfélaga á Norðurlandi 1971-1986. Síðan var hann starfsmaður Verkalýðsfélagsins Vöku til ársins 1998.

Hann var kjörinn í stjórn Verkamannafélagsins Þróttar 1961 og í stjórn Verkalýðsfélagsins Vöku, eftir sameiningu félags verkamanna og félags verkakvenna á staðnum. Formaður Vöku var hann á árunum 1976-1986. Hann sat í sambandsstjórn Alþýðusambands Norðurlands um árabil, sem og í miðstjórn þess.

Hann sat einnig um árabil í sambandsstjórn VMSÍ og í sambandsstjórn ASÍ. Kolbeinn var gerður að heiðursfélaga í Verkalýðsfélaginu Vöku á sl. ári. - Kolbeinn var kjörinn bæjarfulltrúi í Siglufirði árið 1966 á vegum Alþýðubandalagsins og sat í bæjarstjórn til ársins 1986 eða í 20 ár. Hann gegndi á starfsævi sinni fjölmörgum nefndar- og trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna og Siglufjarðarkaupstað.

Útför Kolbeins Friðbjarnarsonar fór fram frá Siglufjarðarkirkju og hófst athöfnin klukkan 14.
-----------------------------------------------

Á verði stóð hann, veðurbitinn og einn, vék fyrir engum, flýði aldrei neinn, var einn þeirra fáu, sem eiga viljann til góðs, afl til að syngja, þrek til að kveðja sér hljóðs. Hann treysti þeim mætti, sem viskunni vitni ber, gat vafið allan heiminn að hjarta sér. Sjón hans var hvöss og sálin djúp og skyggn á sigur hins góða - lífsins æðstu tign. (Davíð Stef.)

Það er tómlegt í Hvanneyrarbraut 2 nú þegar Kolli tengdapabbi situr ekki lengur í stólnum sínum tilbúinn að spjalla um heima og geima. Hvað er að frétta? gall við þegar stigið var inn fyrir dyrnar. Hann vildi fá að fylgjast með öllu, bæjarmálum, landsmálum og ekki síst hvernig við hefðum það eða hvað við værum að fást við dags daglega og spurði þá látlaust út í þær fréttir sem honum voru færðar hverju sinni.

Síðustu dagarnir sem hann lifði voru fyrstu dagar nýrra Siglfirðinga í bænum, flóttamannanna frá fyrrum Júgóslavíu. Hann spurði mikið út í hvernig ég héldi að þeim líkaði og liði og hann langaði mikið til að fá að sjá þá. En það gafst ekki tækifæri til þess frekar en svo margs annars sem ég veit að hann hefði viljað gera áður en hann yrði allur. Örlögin spyrja sennilega aldrei að því hvað við eigum ógert eða hvaða áætlanir við höfum gert í lífinu.

Kolli var sterkur persónuleiki, hafði mjög litríkar skoðanir var trúr þeim fram á síðasta andartak. Hann var skemmtilegur heim að sækja og umræðuefnin voru mjög fjölbreytt. Mjög oft var rætt um verkalýðs- og velferðarmál en ekkert sjaldnar um gamla liðna tíð eða málefni líðandi stundar.

Gaman var að rökræða við hann enda var hann sérfræðingur á því sviði. Við vorum mjög oft sammála um hlutina en þó kom nokkrum sinnum fyrir að mér fannst hann full- þrjóskur og stífur á skoðunum sínum og reyndi að koma mínum sjónarmiðum að. Eftir oft miklar rökræður og skoðanaskipti átti hann ætíð síðasta orðið.

Hann var hafsjór af fróðleik, nánast eins og gangandi alfræðiorðabók, enda hafði hann alla tíð mjög gaman af að lesa og síðasta árið gerði hann mikið af því, enda hafði sá illvígi sjúkdómur, sem hann barðist við, það í för með sér að hann gat lítið verið úti við.

Kolli var mjög nákvæmur maður. Það var sama hvað var, hann gerði allt eins nákvæmlega og hann gat og vildi að sama skapi skilja til fullnustu það sem hann kom nálægt hvort sem voru málefni eða tæki til daglegra nota. Bros leitar fram á varir mér þegar ég minnist þess að aðeins viku áður en hann dó keyptum við fyrir hann þráðlausan síma þar sem hann hafði ekki lengur heilsu til að fara um húsið.

Hann hafði ákveðnar efasemdir um að þetta tól gæti yfir höfuð virkað og það var ekki fyrr en við vorum búin að hringja í hann að hann treysti því að síminn virkaði eins og hann ætti að gera. Sama átti við um tölvurnar. Honum fannst þessi tölvuvæðing algjörlega út úr kortinu. Þessar tölvur gætu ekkert sem normal greindur maður gæti ekki gert og ef það væru vitleysingar sem ynnu við þær, kæmi bara vitleysa út úr þeim!

Kolli var maður sem auðvelt var að virða og dá. Þótt hann hafi átt sér marga andstæðinga í pólitíkinni gegnum árin held ég að allir hafi ætíð borið mikla virðingu fyrir honum og störfum hans. Hann hafði óbilandi baráttuþrek og varði allri ævinni í baráttu fyrir bættum kjörum og aðbúnaði fólks.

Nú síðasta árið barðist hann einnig við sjúkdóm sem hann varð að láta í minni pokann fyrir. Sem dæmi um baráttuþrek hans og seiglu var hann leitandi sér upplýsinga um sjúkdóminn sem hann bar og hugsanlega lyfjagjöf við honum og allt fram á vormánuði batt hann miklar vonir við að fá að prófa ný lyf sem verið er að þróa við þessum sjúkdómi, sem því miður reyndist síðan ekki mögulegt.

Það hefur verið höggvið stórt skarð í fjölskylduna, skarð sem ekki verður fyllt. Krakkarnir eiga eftir að sakna afa síns, þar sem þau áttu ætíð öruggt skjól og athvarf eftir að skóla lauk á daginn eða þegar mamma og pabbi voru of upptekin til að eiga þau.

Er afi ekki enn þá í stólnum sínum? var spurt að morgni annars í hvítasunnu af litlum manni sem ekki var enn þá búinn að átta sig fullkomlega á því að afi hans var nú kominn á annan og líklega betri stað. Annar lítið stærri spurði spurninga eins og: Er hann þá hjá Kolla okkar? Er hann laus við allar slöngurnar og alla kútana og meðulin? Hjá þeim eldri ríkti þögn og andlitin voru tómleg.

Þó ég sé nú ekki tilbúin til að segja að það sé tilgangur með dauðanum er ég nokkuð viss um að Kolli er nú á öðrum tilvistarstað hjá nöfnunum sínum tveimur sem á undan honum fóru og fá nú að njóta handleiðslu hans og visku, rétt eins og við sem lifum hann höfum notið hingað til.

Elsku Kolli, ég þakka þér fyrir skemmtilega og þroskandi samveru síðastliðin 17 ár, við eigum öll eftir að sakna þín.

Megi Guð gefa Lillý tengdamömmu styrk til að horfa fram á veginn, takast á við ókomin fjöldamörg ár í þeirri vissu að þér líði vel og þú takir á móti okkur þegar okkar tími kemur. 

Ríkey Sigurbjörnsdóttir.