Bogi Guðbrandur Sigurbjörnsson

Mbl.is  14. desember 2013 | Minningargreinar 

Bogi Guðbrandur Sigurbjörnsson var fæddur 24. nóvember 1937 að Nefstöðum í Fljótum.
Hann lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 9. desember 2013.

Foreldrar hans voru Sigurbjörn Bogason, fæddur 3. september 1906, dáinn 8. nóvember 1983 og Jóhanna Antonsdóttir, fædd 9. desember 1913, dáin, 1. nóvember 2004.

Systkini Boga, og hann eru:

 1. Anton Sigurbjörnsson, f. 1933,
 2. Guðrún Sigurbjörnsson, f. 1942
 3. Bogi Sigurbjörnsson, f. 1937 ,
 4. Kristrún Sigurbjörnsdóttir, f. 1947,
 5. Stefanía Sigurbjörnsdóttir, f. 1949,
 6. Jón Sigurbjörnsson, f. 1950 og
 7. Ásgrímur Sigurbjörnsson, f. 1956.
Bogi Sigurbjörnsson

Bogi Sigurbjörnsson

Bogi kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigurhelg Stefánsdóttir, 26. desember 1960.
Hún fæddist í Ólafsfirði 4. nóvember 1936.

Foreldrar hennar voru Jónína Kristín Gísladóttir, f. 24. ágúst 1895, d. 3. desember 1979 og Stefán Hafliði Steingrímsson, f. 9. maí 1892, d. 19. febrúar 1972. Bogi og Helga bjuggu allan sinn búskap á Siglufirði.

Þau eignuðust tvö börn:

 1. Kristín Bogadóttir, f. 1959, eiginmaður hennar er Kristján Björnsson. Þeirra börn eru: Bogi Sigurbjörn, f. 1984, Helga Sigurveig, f. 1988 og Elfa Sif, f. 1994, fyrir átti Kristján þau Örnu og Björn. Barnabörn þeirra eru orðin níu.
 2. Sigurbjörn Bogason, f. 1964, kvæntur Kristrúnu Snjólfsdóttur. Þeirra börn eru Tinna Rut, f. 1988, Alex Már, f. 1992 og Bogi, f. 2004.

Bogi bjó á Skeiði í Fljótum til 22 ára aldurs en þá flutti hann til Siglufjarðar og hóf störf í Kjötbúð Siglufjarðar og þar vann hann þar til hann hóf störf á Skattstofu Norðurlands vestra, en áður hafði hann stundað nám í Verslunarskólanum í Reykjavík árin 1964-65. Hann starfaði á Skattstofunni á Siglufirði í 41 ár samfellt og þar af sem skattstjóri í 27 ár eða þar til hann lét af stöfum vegna aldurs 30. nóvember 2007.

Bogi var alla tíð mjög virkur innan Framsóknarflokksins og sat m.a. í bæjarstjórn Siglufjarðar fyrir flokkinn frá 1970 til 1986 og þar af var hann forseti bæjarstjórnar 1982-1986. Hann var varaþingmaður Framsóknarflokksins eitt kjörtímabil og að auki gegndi hann hinum ýmsu trúnaðarstörfum innan flokksins allt til dauðadags. Til fjölda ára ritstýrði hann Einherja, málgagni framsóknarmanna í Siglufirði.

Bogi var mjög virkur í félagsstörfum og var félagi í Bridgefélagi Siglufjarðar, Blakklúbbnum Hyrnunni, Stangveiðifélagi Siglfirðinga, Skákfélagi Siglufjarðar, Lionsklúbbi Siglufjarðar og seinni árin stundaði hann golf af fullum krafti, auk þess að hafa spilað fótbolta og badminton á árum áður.

Útför Boga fer fram frá Siglufjarðarkirkju 14. desember 2013 kl. 14.

 • Ég var á ferð og flugi ástin mín,
 • og alltof sjaldan fékk ég notið þín.
 • Þvílíkar tarnir enn ég ekki skil,
 • því miklu minna hefði dugað til.
 • Og vorið leið og við tók sumarið,
 • við áttum samleið, gengum hlið við hlið.
 • Lifðum marga gleði og gæfustund,
 • við örlög grá við áttum seinna fund.
 • Lífið er vatn sem vætlar undir brú,
 • og enginn veit hvert liggur leiðin sú.
 • En þegar lýkur jarðlífsgöngunni,
 • aftur hittumst við í blómabrekkunni.
 • Og þó nú skilji leiðir að um sinn,
 • þér alltaf fylgir vinarhugur minn.
 • Ég þakka fyrir hverja unaðsstund,
 • við munum aftur eiga endurfund.
 • Alltaf fjölgar himnakórnum í,
 • og vinir hverfa, koma mun að því.
 • En þegar lýkur jarðlífgöngunni,
 • aftur hittumst við í blómabrekkunni.

(Magnús Eiríksson)

Elsku Bogi, takk fyrir allt.

Sigurhelga Stefánsdóttir.

Síminn hrindi um miðja nótt og ég vissi hvað það boðaði. Bogi bróðir var dáinn eftir að hafa átt við langvarandi veikindi að stríða. Við Bogi höfðum svo til sömu áhugamál utan vinnunnar eins og bridge, tafl, badminton, blak, fótbolta, veiðiferðir, pólitík o.fl. og því liðu sjaldan margir dagar án þess að við hittumst til þess að gleðjast saman. Við áttum meira að segja fyrsta bílinn minn í sameign í 2 ár enda efnahagurinn ekki mikill á þeim tíma, Bogi að byggja og ég námsmaður.

Bogi var foringi framsóknarmanna í Siglufirði í marga áratugi og sat í bæjarstjórn í nokkur kjörtímabil og var forseti bæjarstjórnar um tíma. Hann sat einnig á þingi sem varaþingmaður. Bogi var öflugur fulltrúi Siglufjarðar og landsbyggðarinnar í opinberri umræðu sem ekki veitti af þegar tekist var á um málefni landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins.

Oft lét hann forustumenn Framsóknarflokksins hafa það óþvegið þegar honum þótti halla á Siglufjörð eða landsbyggðina þegar teknar voru ákvarðanir um mikilvæg málefni. Ég man vel eftir kröftuglegum mótmælum hans á fundum þegar setja átti lög um framsal og leigu á fiskveiðikvótanum og hefði betur verið hlustað á hann þá og staðan væri þá mun betri í dag varðandi þessi mál.

Hann var einlægur andstæðingur ESB-aðildar og hafði einnig mörg varnaðarorð til framsóknarmanna þegar honum fannst þeir hallast of mikið til hægri. Hann varaði eindregið við Icesave-samningnum á sínum tíma. Frægt var þegar hann tilkynnti í fréttaviðtali að hann ætlaði að leggja niður framsóknarfélagið á Siglufirði ef ríkisstjórnin stæði ekki við gerða samninga varðandi Héðinsfjarðargöng en til stóð að rifta þeim samningi.

Ég heyrði í Boga í síma nokkrum dögum áður en hann lést og var auðheyrt að hann var ánægður með sína menn í Framsóknarflokknum eftir að tillögur um skuldaleiðréttingar komu fram og þá fann ég að hugsunin var skýr þótt þrótturinn væri að dvína.

Bræðrasveitin í bridge (Bogi, Anton, Ásgrímur og Jón) frá Siglufirði var vel virk á árunum 1970 til 2000 og náði oft ágætum árangri á Íslandsmótum, Norðurlandsmótum, svæðamótum og í bæjarkeppnum. Segja má að við bræður færum á bridgemót flestar helgar yfir vetrarmánuðina og var þá kappið oft meira en forsjálnin við að komast á mótin og veður ekki látið hamla för.

Oft fóru margir dagar í þessi ferðalög og var Bogi hrókur alls fagnaðar hvar sem við vorum. Fyrir kom að við fengum okkur í tána eftir langan spiladag og þar sem við höfðum allir gaman af söng þá þróaðist skemmtunin oft í það að Bogi söng einsöng „Áfram veginn“ og mátti þá vart á milli sjá hvort þarna var á ferð Bogi eða Stefán Íslandi.

Elsku Helga, Stína, Bubbi og fjölskyldur. Við Björk vottum ykkur okkar dýpstu samúð og vitum að söknuður ykkar er mikill. Biðjum góðan Guð að styrkja ykkur en minningin um góðan fjölskylduföður lifir.

Kæri bróðir, takk fyrir allt.

 • Deyr fé,
 • deyja frændur
 • deyr sjálfur ið sama.
 • En orðstír
 • deyr aldregi
 • hveim er sér góðan getur.

(úr Hávamálum)

Hvíl þú í friði.

Jón Sigurbjörnsson

Á kveðjustundu hvarflar hugurinn um farinn veg og hve mikið ég á þér að þakka. Eftir að ég kom af miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins nú á dögunum, þar sem þín var sárt saknað, hef ég verið að hugsa um að hve mörgu leyti ég hef tekið þig mér til fyrirmyndar í lífinu. Ég fór í mína fyrstu bridskeppni með þér 12 ára gamall og eftir það hefur áhugi minn verið mikill við spilaborðið, áhugi minn á stjórnmálum og Lions smitaðist einnig frá þér.

Ég man þegar ég vann þig fyrst í skákkeppni er ég var unglingur, þá varst þú búinn að vera á Alþingi og skák okkar var frestað þess vegna, staðan var sú að þið Gummi Davíðs voruð jafnir, eftir jafna byrjun bauð ég jafntefli þar sem ég sá enga möguleika á hvorn veginn sem var, að skákin myndi vinnast, en þú vildir ekki taka því þar sem þá fannst þér að ekki væri heiðarlega teflt, en við vorum aldir upp við það að gera alltaf okkar besta og vera heiðarlegir í leik. Endaði viðureignin síðan með því að ég vann og þú þurftir að tefla aukaskákir til að verða Siglufjarðarmeistari í það skipti, ég man enn hvað mér var létt þegar þú náðir að vinna mótið.

Einnig minnist ég þess tíma er þú varst ritstjóri Einherja og ég fékk að vinna með þér að því að safna auglýsingum og hefur sú reynsla nýst mér síðar á lífsleiðinni.

Mér varð hugsað til mömmu þann dag sem þú kvaddir, hún var svo oft búin að segja að hún vildi vera komin hinumegin á undan okkur til að taka á móti okkur þegar kallið kæmi og þitt kall kom á 100 ára afmælisdeginum hennar.

Við Gurra og Gunnar sendum Helgu, Stínu, Kristjáni, Bubba, Kristrúnu og fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðjur og megi Guð fylgja ykkur.

Þinn bróðir, Ásgrímur.

Það er erfitt að setjast niður og skrifa fátækleg orð í minningu föður okkar. Okkur þótti ákaflega vænt um hann og betri pabba gátum við ekki hugsað okkur. Hann var mjög traustur maður, ráðagóður, réttsýnn og heiðarlegur. Hann var mikill fjölskyldumaður og var alltaf boðinn og búinn að hjálpa til þegar við leituðum til hans ef eitthvað bjátaði á hjá okkur. Í veikindum þeirra beggja, mömmu og pabba, kom í ljós hversu samheldin þau voru og hefur mamma núna misst sinn besta og traustasta vin.

Pabbi var mjög trúaður maður og þrátt fyrir ríka spilahefð í fjölskyldunni þá máttum við aldrei snerta spil á aðfangadagskvöld. Í minningargrein sem hann skrifaði um móður sína segir hann frá því hve ríka áherslu hún lagði á það að vera heiðarlegur og hjálpa þeim sem minna máttu sín og það hafði hann að leiðarljósi. Sterk bönd voru á milli pabba og móður hans og við trúum að það hafi ekki verið tilviljun að hann kvaddi þennan heim 9. desember sl. en þann dag hefði móðir hans orðið 100 ára.

Afabörnin voru mjög hænd að honum og oftar en ekki þegar hann koma til okkar þá tók hann í spil við þau en þá var ekkert gefið eftir. Að spili loknu var góðum sigri fagnað á viðeigandi hátt hvort það sem það var afinn eða afabörnin sem fóru með sigur af hólmi og því greinilegt að þau voru búin að læra af honum hvernig fagna á sigrum. Hann hafði mörg áhugamál, en þau voru heldur færri hjá okkur systkinunum. Stína var með honum í bridge en Bubbi var með honum í stangveiðinni.

Í stangveiðinni áttum við margar góðar stundir við Fljótaá. Fyrstu ferðina fór ég með honum sem barn og síðast veiddum við saman sumarið 2012 en þá var hann farinn að veikjast en kom þó og tók nokkur köst. Seinna þegar hann treysti sér ekki í veiðina þá hringdi síminn um leið og veiðitíma lauk og þá þurfti að gefa skýrslu um hver veiðin hefði verið, hvaða veiðistaður gaf mest, „var það á snældu?“ spurði hann svo gjarnan ef veiðin var góð.

Ég var svo heppinn að fá að starfa á skattstofunni hjá pabba í 22 ár og því með honum í leik og starfi og var það ómetanlegt. Í bridgefélaginu störfuðum við einnig saman til fjölda ára og áttum þar margar góðar stundir. Í bridge kom berlega í ljós hversu mikill keppnismaður hann var enda góður spilari og fáir sem kunna að fagna góðum sigrum betur en hann.

Elsku pabbi, við þökkum þér fyrir allt það góða sem þú gafst okkur og biðjum góðan Guð að geyma þig og ætlum að kveðja þig með þessu ljóði:

 • Á kveðjustund er þungt um tungutak
 • og tilfinning vill ráða hugans ferðum.
 • Því kærum vini er sárt að sjá á bak
 • og sættir bjóða Drottins vilja og gjörðum.
 • En Guðs er líka gleði og ævintýr
 • og góð hver stund er minningarnar geyma.
 • Farðu vel, þér fylgir hugur hlýr
 • á ferð um ljóssins stig, og þagnarheima.

(Sigurður Hansen)

Sigurbjörn og Kristín.

Elsku afi, ég sakna þín svo mikið. Þú varst alltaf svo góður við okkur þegar þú tókst okkur með að veiða og tefla og spila. Þegar við komum upp á spítala var ég alltaf svo spenntur að hitta þig.

Kveðja, Bogi Sigurbjörnsson.

 • Í bænum okkar, besti afi
 • biðjum fyrir þér
 • að Guð sem yfir öllu ræður,
 • allt sem veit og sér
 • leiði þig að ljóssins vegi
 • lát' þig finna að,
 • engin sorg og enginn kvilli
 • á þar samastað.
 • Við biðjum þess í bænum okkar
 • bakvið lítil tár,
 • að Guð sem lífið gaf og slökkti
 • græði sorgarsár.
 • Við þökkum Guði gjafir allar
 • gleði og vinarfund
 • og hve mörg var ávallt með þér
 • ánægjunnar stund.

(Sigurður Hansen)

Tinna Rut og Alex Már.

 • Áfram veginn í vagninum ek ég
 • inn í vaxandi kvöldskugga þröng.
 • Ökubjöllunnar blíðróma kliður
 • hægur blandast við ekilsins söng.
 • Nú er söngurinn hljóður og horfinn,
 • aðeins hljómar frá bjöllunnar klið.
 • Allt er hljótt yfir langferða leiðum
 • þess er leitar að óminni' og frið.

(Þýð.: Freysteinn Gunnarsson)

Takk fyrir allar samverustundirnar, elsku vinur og frændi. Þín verður sárt saknað.

Birkir Jón Jónsson.

Í dag kveðjum við föðurbróður minn og framsóknarmanninn Boga Sigurbjörnsson. Bogi var foringi, leiðtogi og mikill keppnismaður í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann átti farsælan feril sem skattstjóri fram yfir sjötugt, þegar hann fór á eftirlaun.

Bogi var einn mesti framsóknarmaður landsins og starfaði fyrir flokkinn í áratugi af mikilli hugsjón og ástríðu, sem margir mættu taka sér til fyrirmyndar nú til dags. Hann var mikill Siglfirðingur og um árabil bæjarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn í Siglufirði, varaþingmaður og ekki síst formaður Framsóknarfélags Siglufjarðar um margra ára skeið.

Eitt erfiðasta verkefni Boga var að takast á við þá ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að hætta við gerð Héðinsfjarðarganga, þvert á gefin loforð, þar sem Framsóknarflokkurinn var annar ríkisstjórnarflokkanna. Það var keppnismanninum Boga afar erfitt að sætta sig við og má segja að vægast sagt hafi hann tekið flesta ráðherra flokksins ærlega í gegn og lesið þeim hraustlega pistilinn.

Þá tók Bogi þá erfiðu ákvörðun í viðtali á RÚV að tilkynna það í beinni útsendingu að hann hygðist leggja niður Framsóknarfélag Siglufjarðar, ef ekki yrði snúið frá þessari ákvörðun. Mun þetta hafa verið einn af vendipunktunum, sem leiddu til þess að í stað þess að blása göngin af var þeim einungis frestað um 2 ár.

Þá var Bogi mjög góður bridgespilari, sem sannast með því að hann var stórmeistari, sem er viðurkenning um hæfileika hans í þessari íþrótt. Hans uppáhaldssögn var án efa 3 grönd, en í þeim samningi var hann snillingur í úrspili og fengu andstæðingar hans oft að kenna á útsjónarsemi hans við spilaborðið.

Eftir góð spil hjá Boga var alltaf mjög erfitt að spila gegn honum, þar sem hann lét andstæðingana gjarnan vita hversu flott spil þetta hefði verið hjá honum og þurfti þá harðan skráp til að þola slíkt mótlæti. Í marga áratugi var Bogi formaður stjórnar Bridgefélags Siglufjarðar þriðja hvert ár. Í þrjá áratugi hefur Bridgefélag Siglufjarðar farið í fjárleitir í Nesdal, Siglunesi og Skútudal til fjáröflunar fyrir félagið og þar var Bogi ávallt mættur fremstur í fylkingu. Að öllum öðrum ólöstuðum, þá hefur enginn unnið jafn fórnfúst starf fyrir félagið.

Auk þessa var Bogi mjög virkur í öðrum félagsstörfum, s.s. stangveiði, blaki, badminton, knattspyrnu, golfi og skák. Í veiðinni vildi hann veiða mest meðal félaga sinna, í íþróttunum vildi hann vinna, þetta viðhorf hans var í raun ekki flóknara en þetta.

Það má segja að Bogi hafi í raun verið einn af hornsteinum þessa samfélags bæði í starfi og með framlagi sínu til félagsmála. Bogi barðist ávallt manna harðast í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur, keppnisskapið var hans séreinkenni og fagnaðarlæti hans eftir góða sigra munu lifa í minningum okkar um ókomin ár.

Elsku Helga, Stína, Bubbi og fjölskyldur, við Rúna vottum ykkur okkar dýpstu samúð á þessari erfiðu stundu. Minning um góðan mann lifir í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Ólafur Jónsson.

Þegar síminn hringdi kl. 2.30 að nóttu og sagt var að vinur minn og frændi væri dáinn fannst mér myndast tómarúm. Þrátt fyrir að ég væri búinn að vita lengi að það væri tímaspursmál um lokin vegna þess sjúkdóms sem hann glímdi við. Það var svo erfitt að hugsa þér að þessi kraftmikli og virki maður væri allur. Leiðir okkar Boga hafa legið lengi saman. Hann bjó hjá foreldrum mínum á Laugarveginum þegar hann kom í Gagnfræðaskólann á Siglufirði, en þá var fjölskylda hans búsett á Skeiði í Fljótum.

Svo unnum við saman nokkur sumur á síldarplani. Margar góðar stundir höfum við átt í skákinni og blakinu þar sem oft var glatt í góðra vina hóp en um leið mikil keppni og þar leyndi sér aldrei sá mikli keppnisandi sem í Boga bjó. Á hverju sumri í mörg ár fórum við saman í ferðalag fjórar fjölskyldur á fjórum bílum og á öllum áfangastöðum var fótboltinn tekinn fram og spiluðu börn og fullorðnir og aldrei var gefið eftir í leiknum. Margar góðar stundir áttum við saman í veiði.

Fyrirtæki sem ég rak ásamt fleirum, Tréverk H/F, naut ómetanlegra krafta Boga, aldrei bar skugga á samstarf okkar. En okkar mesta samstarf var eflaust í pólitíkinni þar sem við vorum með líkar skoðanir og unnum mikið saman. Bogi var í bæjarstjórn Siglufjarðar fyrir Framsóknarflokkinn í 16 ár og ég tók við af honum sem bæjarfulltrúi. Það var líka gaman og gefandi að vinna með Boga í pólitík á landsvísu, þar sem við eignuðumst marga góða félaga og margar góðar minningar.

Þar kom fram hjá Boga þessi sterka réttlætiskennd, lengi var hann búinn að berjast fyrir því að afnema eða breyta verðtryggingunni. Hann horði upp á það í sínu starfi að fólk úti á landi sem átti eignir sem hækkuðu lítið en voru með verðtryggð lán áttu alltaf minna og minna þó að staðið væri í skilum. Ég heyrði í Boga í síma 30. nóv. eftir kynningu á skuldaleiðréttingu heimilanna.

Hann sagði: „Flott, Sigmundur er snillingur.“ Það er kannski bara eðlilegt að myndist tómarúm við fráfall svo náins, góðs og heilsteyps manns. Minningin um góðan dreng mun lifa. En mestur er þó missirinn hjá konu hans og afkomendum. Helgu, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Ég votta mína innilegustu samúð.

Skarphéðinn Guðmundsson.

Hann kom til starfa á skattstofunni á Siglufirði tæplega þrítugur að aldri. Starfið þar átti við hann og það varð hans ævistarf. Hann varð fljótt einn af sérfræðingunum sem skattstjórinn reiddi sig mest á og með árunum þekkti Bogi Sigurbjörnsson til allra starfa á skattstofunni. Svo fór að hann var skipaður í embætti skattstjórans í Norðurlandsumdæmi vestra árið 1980. Það var mikilvægt og ábyrgðarmikið starf.

Allt var það leyst með miklum sóma og gegndi Bogi embætti skattstjóra í 27 ár. Á þeim tíma upplifði hann gríðarlegar breytingar í skattframkvæmd hérlendis. Alltaf fylgdist hann vel með allri þróun mála og tók virkan þátt í að koma á nýjum skattkerfum, svo sem þegar staðgreiðsla og síðar rafræn skattskil voru tekin upp. Bogi var í hópi þeirra embættismanna sem einna lengst hafa starfað sem skattstjórar hér á landi. Engan skugga bar á þann langa embættisferil.

Bogi Sigurbjörnsson var eftirminnilegur maður og setti svip á skattstjórahópinn. Á flestum fundum ríkisskattstjóra með skattstjórum lét hann til sín taka og tjáði mönnum skoðanir sínar umbúðalaust. Hann var fylginn sér en málefnalegur og tillitssamur við félaga sína. Það sópaði að honum og málflutningurinn gat verið hvass og jafnvel beinskeyttur ef því var að skipta. Í skattframkvæmdinni var hann atkvæðamikill og verkmaður góður, harðsnúinn og ósérhlífinn.

Alltaf var hann vakinn og sofinn við allt sem hann tók sér fyrir hendur og tileinkaði sér tækninýjungar eftir því sem tímar liðu fram. Hann var réttsýnn embættismaður sem lagði áherslu á jafnræði aðila. Tók upp mál á hverjum fundi sem hann taldi að betur mætti fara. Glöggur og naskur á þegar ekki var allt eins og til var ætlast. Þau voru mörg samtölin við hann í gegnum árin.

Hann lagði áherslu á að veita framteljendum góða þjónustu og var sérstaklega umhugað að dreifðari byggðir landsins nytu hennar til jafns við þéttbýlið. Við sameiningu embætta í árslok 2009 kom hann á framfæri eindregnum skoðunum sínum um að skattstofan á Siglufirði yrði áfram starfrækt þótt í breyttri mynd yrði. Þar kom hann fram hreinskiptinn og afdráttarlaus eins og á árum áður. Á þau sjónarmið hans og fleiri var hlustað og tekið tillit til.

Þegar álagningu hvers árs var að ljúka komu starfsmenn skattyfirvalda saman til að bera saman bækur sínar. Á slíkum fundum var enginn kátari en Bogi og fáir kunnu betur að gleðjast við slík tækifæri en hann. Hann var sérlega snjall tækifærisræðumaður sem flutti ræður sínar blaðlaust og án þess að hann hefði nokkuð fyrir því, rökviss og sposkur með hnyttnum athugasemdum og kryddaði þannig tilveruna.

Fyrir réttum sex árum kvaddi hann vinnustað sinn, skattstofuna á Siglufirði, eftir langt og gifturíkt starf í meira en fjóra áratugi. Nú er góður félagi genginn sem fékk alltof stuttan tíma til að njóta efri ára eftir starfslokin. Honum fylgja góðar hugsanir og blessaðar minningar inn í austrið eilífa. Eftirlifandi eiginkonu, Sigurhelgu, börnum og öðrum ættingjum eru færðar innilegar samúðarkveðjur.

Skúli Eggert Þórðarson.

Minningarnar hrannast upp þegar ég sest niður og skrifa kveðjuorð til vinar og samherja í stjórnmálum sem taka yfir meira en fjóra áratugi. Hann var hamhleypa til vinnu áhugamálum sínum til framdráttar, ósérhlífinn og útsjónarsamur. Stjórnmál áttu mjög vel við skaphöfn hans þar sem farvegur var fyrir hugsjónir, framtak og samvinnu með andstæðingum sem og samherjum.

Hann var varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í NLV og átti von á að verða í baráttusæti á lista flokksins við alþingiskosningarnar 1984, en mál skipuðust á annan veg og tók hann ekki það sæti sem honum bauðst á listanum. Urðu það örlög mín að fylla það skarð fyrir Siglufjörð en framboð varð að hafa fulltrúa um allt kjördæmið.

Hann sat í bæjarstjórn Siglufjarðar fjögur kjörtímabil frá 1970-1986 og þar af eitt sem forseti bæjarstjórnar. Þessi ár voru Siglufirði erfið, síldin hvarf, atvinna minnkaði, fólki fækkaði og leita varð nýrra leiða í atvinnumálum. Útgerðarfélagið Þormóður rammi var stofnað og keyptir nýir skuttogarar og byggt fiskvinnsluhús.

Hitaveita Siglufjarðar var stofnsett með vatnsvinnslu úr Skútudal ásamt aðveituæð og dreifikerfi.

Skeiðsfossvirkjun var stækkuð með nýrri virkjun við Þverá og Varastöð stækkuð í Siglufirði.

Við unnum saman á þessum árum og er mér ljúft að þakka það samstarf sem aldrei bar skugga á.

Á þessum tíma tók Bogi að sér að skrifa Einherja þegar Jóhann Þorvaldsson lét af starfi ritstjóra, síðar var blaðinu breytt í kjördæmisblað.

Um tíma vorum við báðir í landstjórn Framsóknarflokksins og sátum alla miðstjórnarfundi og flokksþing. Það var aldrei lognmolla í kringum Boga og þegar fundum lauk kunni hann svo sannarlega að slappa af og taka lagið ef svo bar undir og eftir var tekið.

Við áttum einnig samleið á öðrum vettvangi svo sem í Lionsklúbbi Siglufjarðar og Stangveiðifélagi Siglfirðinga þar sem við fórum saman ánægjulegar veiðiferðir sem ég nú þakka fyrir.

Bogi starfaði sem skattstjóri fyrir NLV í 27 ár og var í því starfi mjög réttsýnn, vel liðinn og vel metinn af yfirmönnum sínum.

Bogi hefði ekki komið þessu öllu í verk ef hann hefði ekki notið stuðnings eiginkonu sinnar, Sigurhelgu Stefánsdóttur, sem studdi hann með ráðum og dáð og bjó honum fagurt heimili.

Hann leggur nú í þá ferð sem við öll þurfum að fara, en við sem eftir stöndum erum full þakklætis fyrir þau störf sem hann vann okkar byggðarlagi við mjög erfiðar aðstæður.

Við Auður sendum Sigurhelgu og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sverrir Sveinsson.

Bogi Sigurbjörnsson var foringi. Hvar sem leið hans lá, hvort sem var í starfi eða leik, valdist Bogi til forystu. Það var ekki vegna þess að hann sækti sérstaklega eftir því, heldur hafði hann í fari sínu kosti sem urðu þess valdandi að samferðamenn treystu honum og ráðum hans. Hann var vasklegur maður og allt hans fas bar vott um þrótt og myndarskap.

Bogi var upprunninn úr Fljótum, en flutti ungur til Siglufjarðar og átti þar sitt heimili síðan. Það er eftirtektarvert hvað margt af dugnaðar- og hæfileikafólki á rætur að rekja í þá harðbýlu sveit.

Að námi loknu stundaði Bogi verslunarstörf í nokkur ár, en síðan hóf hann störf á Skattstofu Norðurlands vestra. Bogi varð skattstjóri á Norðurlandi vestra og gegndi því starfi til starfsloka. Hann var nákvæmur og vandaður embættismaður. Bogi var framsóknarmaður og fljótlega var hann þar valinn í forystusveit.

Hann var bæjarfulltrúi á Siglufirði um margra ára skeið. Kosningar haustið 1979 til Alþingis bar að með skjótum hætti, framboðslisti okkar framsóknarmanna var þá valinn með uppstillingu. Eðlilegt hefði verið að Bogi skipaði eitthvert af þremur efstu sætum listans, en niðurstaðan varð sú að hann skipaði fjórða sætið, þótt heppilegra hefði verið að hann væri ofar. Eftir mikinn kosningasigur okkar, sem ekki hvað síst var Boga að þakka, varð hann fyrsti varaþingmaður flokksins í kjördæminu næsta kjörtímabil.

Eftir að Bogi gerðist skattstjóri vildi hann ekki taka sæti á framboðslista til Alþingis og taldi það ekki samræmast embætti sínu. Hann var þó ötull og ósérhlífinn í starfi flokksins í kjördæminu sem áður og lengi formaður kjördæmissambandsins. Hann átti einstaklega létt með að laða fólk til samstarfs og blanda hugsjónabaráttu með gleði og samhug. Hann hafði lag á því að gera þing okkar í héraði að ógleymanlegum hátíðum. Stjórnmálastarf á að vera og þarf að vera skemmtilegt og stjórnmálaþátttaka eftirsóknarverð. Framsóknarmenn eiga Boga mikla skuld að gjalda.

Bogi átti afbragðskonu, Sigurhelgu Stefánsdóttur, myndarbörn og glæsilegt heimili. Foreldrar Boga voru mannkosta- og greindarfólk. Frændgarð mikinn átti hann á Siglufirði og var hann mikill ættarhöfðingi. Hann var bridsmaður góður eins og margir ættingjar hans. Myndaði hann sveit með bræðrum sínum og kepptu þeir á mótum víða um land með góðum árangri.

Nú er Bogi Sigurbjörnsson horfinn af heimi. Við höfum verið samherjar og vinir meira en hálfa öld og aldrei borið skugga á. Flokkur okkar hefur misst einn af sínum bestu forystumönnum. Ég minnist hans með mikilli þökk, virðingu og eftirsjá. Við Sigrún sendum aðstandendum Boga okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Páll Pétursson.

Ég kynntist Boga Sigurbjörnssyni skattstjóra á Siglufirði fyrir 18 árum. Á þessum tíma var ég að ljúka störfum við tímabundið verkefni og vantaði atvinnu. Ég var í heimsókn á Siglufirði og var bent á að ræða við hann. Hann tók mér ljúfmannlega eins og hans var vandi og spurði hverra manna ég væri eins og stundum gengur. Þegar ég hafði greint honum frá því hallaði hann sér aftur í stólnum, setti hendur á höfðuð eins og hann gerði svo oft og sagði: „Jáá, ég vil nú gera eitthvað gott fyrir pabba þinn.

Frábær maður þótt við séum auðvitað ekki á sömu línu í pólitíkinni.“ Þetta svar er mér afar eftirminnilegt enda lýsti það manninum á svo margan hátt. Ég hóf störf hjá honum ekki löngu síðar og starfaði hjá honum samtals í fimm ár sem voru mér einkar lærdómsrík. Ég ætlaði mér aldrei að starfa þarna svo lengi og ekki búa á Siglufirði til framtíðar, en árin eru orðin býsna mörg svo segja má að þetta samtal við Boga hafi verið örlagavaldur í lífinu.

Bogi var mikill embættismaður, gætinn á fé ríkissjóðs eins og vera bar og lagði áherslu á að farið væri eftir réttum reglum. En hann var jafnframt mjög sanngjarn í öllum samskiptum og oftast tilbúinn að teygja sig langt til að ná því sem hann taldi sanngjarna og ásættanlega lausn ef svo bar undir. Þetta kom líka fram í samskiptum hans við samstarfsfólk sitt, enda held ég að hann hafi oft reynst því miklu betur en almennt er með yfirmenn á vinnustöðum.

Þegar ég hafði unnið hjá honum í tvær vikur lést faðir minn óvænt. Bogi reyndist mér ómetanlega þá á svo margan hátt og veitti mér ýmis föðurleg ráð sem voru gott nesti til framtíðarinnar. Reyndar má geta þess að útför Boga fer fram réttum 18 árum eftir andlátsdag föður míns. Bogi lagði ætíð áherslu á að vinnustaðurinn væri manns annað heimili og manni bæri að umgangast vinnustaðinn með það í huga.

Þetta er nokkuð sem hefur reynst mér vel að hafa að leiðarljósi í lífinu. Eitt af helstu persónueinkennum Boga var einstök kappsemi. Hún kom fram bæði í leik og starfi og hann leit gjarnan á þau verkefni sem þurfti að leysa sem einhvers konar keppni þar sem ná þyrfti bestu útkomunni. Hann starfaði líka í pólitíkinni með kappsemina að leiðarljósi. Hann var á margan hátt af gamla skólanum eins og það er stundum kallað. Nýtti gamla tækni við vinnu, eins og ritvél og penna, og trúði á heiðarleika í samskiptum við menn og málefni.

Hann var mjög trúr því samfélagi sem hann lifði í og bar hag þess innilega fyrir brjósti. Hann lagði sig líka fram um að vinna að bættum hag Siglufjarðar og framgangi þeirra mála sem hann taldi mikilvæg. Bogi var jafnan hrókur fagnaðar í gleðskap og á mannamótum og vissi fátt skemmtilegra en söng og glaðværð.

Fallinn er frá mjög eftirminnilegur maður sem var stór hluti af litla samfélaginu á milli fjallanna í Siglufirði. Þar er skarð fyrir skildi. Eftir standa fjölmargar góðar minningar og þakklæti fyrir ánægjuleg kynni og margar samverustundir. Ég votta fjölskyldu hans mína innilegustu samúð.

Halldór Þormar Halldórsson.

Við fráfall Boga Sigurbjörnssonar er stórt skarð höggvið í raðir bridgespilara á Íslandi. Skarðið er samt stærst í Bridgefélagi Siglufjarðar. Þar var Bogi félagi og var hann mjög stoltur af félaginu sínu sem er elsta bridgefélag landsins eða 75 ára gamalt í ár.

Bogi var snjall spilari og ófáir titlar sem hann hefur unnið til um ævina. Þeir eru svo margir að það er ekki hægt að telja þá upp hér. Rétt er þó að geta að Bogi varð Íslandsmeistari í sveitakeppni ásamt bræðrum sínum og bræðrasonum árið 1993. Mörg höfum við haft á tilfinningunni að bræðurnir frá Skeiði eins og þeir oft eru nefndir væru fæddir með spilin í höndunum. Slík var spilagleðin. Þeir hrifu líka aðra með sér. Stór þáttur í því að Bridgefélag Siglufjarðar lifir er einmitt fyrir þeirra störf.

Bogi hefur verið formaður Bridgefélags Siglufjarðar þriðja hvert ár í áratugi. Þar vann hann óeigingjarnt starf og var ötull við að fá nýja félaga í félagið. Síðustu ár hefur makker Boga verið Anton bróðir hans og náðu þeir yfirleitt mjög góðum árangri.

Við félagar Boga í Bridgefélagi Siglufjarðar erum sannfærð um að ef þeir kunna ekki bridge í himnaríki þá verður Bogi ekki lengi að kenna þeim hann. Eitt er víst að Boga verður sárt saknað sem félaga, makkers og frábærs spilara.

Félagar í Bridgefélagi Siglufjarðar votta fjölskyldu Boga og öðrum aðstandendum innilegr samúð.

F.h. Bridgefélags Siglufjarðar,

Margrét St. Þórðardóttir.