Kristján Sigurðsson trésmiður frá Eyri

Kristján Sigurðsson frá Eyri fæddist á Siglufirði 4. nóvember 1902. Hann lést 16. júní 1999 (96 ára).

Foreldrar hans voru: Andrea Sæby, f. 24.10. 1883, d. 14.10. 1970 og Sigurður Jónsson, f. 23.12. 1875, d. 28.1. 1932. 

Systkini hans voru: 

  • 1) Kristinn Sigurðsson, f. 24.12. 1904, d. 25.8. 1974, 
  • 2) Kristín Björg Sigurðardóttir, f. 6.6. 1906, d. 6.4. 1997, 
  • 3) Pálína Sigurðardóttir, f. 1.8. 1908, d. 4.5. 1992, 
  • 4) Jónína Sæunn Sigurðardóttir, f. 5.11. 1910, d. 11.4. 1985, 
  • 5) Jenný Sigurðardóttir, f. 6.3. 1913, d. 12.1. 1988, 
  • 6) Jón Sigurðsson, f. 17.6. 1914, d. 12.1. 1982, 
  • 7) Haraldur Sigurðsson, f. 17.6. 1917, d. 5.6. 1976
  • 8) Fanney Sigurðardóttir, f. 30.10. 1922.
    Tvö systkini létust í æsku:
  • Ágúst og
  • Ágústa.
Kristján Sigurðsson Eyri - Ljósmynd: Kristfinnur

Kristján Sigurðsson Eyri - Ljósmynd: Kristfinnur

Kristján nam trésmíði hjá Karl Sturlaugsson og stundaði trésmíði eftir að námi lauk ásamt mörgum fleiri verkefnum. Nokkur ár vann Kristján við bátasmíði á eigin vegum. Árið 1932 réðst Kristján til Samvinnufélags Ísfirðinga sem verkstjóri og vann þar allt þar til félagið hætti störfum.

Kristján var stofnandi Verkamannafélagsins Þróttar 17. maí 1934, var vararitari og formaður 1935 og 1936. Snemma gekk Kristján í Alþýðuflokkinn og var trúr þeirri hugsjón sem flokkurinn barðist fyrir frá upphafi. Kristján var kjörinn í bæjarstjórn Siglufjarðar 1946 og sat í bæjarstjórn í 32 ár.

Hann var forseti bæjarstjórnar frá 1970 til 1974, sat 630 bæjarstjórnarfundi auk annarra nefndar- og trúnaðarstarfa fyrir bæjarfélagið. Kristján sat í fyrstu stjórn Þormóðs ramma í júlí 1970. Kristján starfaði í fleiri félögum.

Árið 1931 kvæntist Kristján Ólöf Gísladóttir frá Skarðdal, f. 19. maí 1901. Ólöf lést 6. maí 1969.

Þeim hjónum varð ekki barna auðið en áttu eina fósturdóttur, Guðmunda Óskarsdóttir. 

Nú er jarlinn á Eyri horfinn sjónum okkar og Siglufjörður verður ekki sami bærinn og hann hefur verið í mínum huga frá því ég var lítil stelpa á Melunum. Kæri fóstri minn, mikið mun ég sakna þín, að heyra þig ekki oftar segja frá gamla tímanum, eða ræða um lífið og tilveruna. Þú hafðir mjög ákveðnar skoðanir í pólitíkinni og varst hugsjónamaður í þeim efnum og fórst eftir sannfæringu þinni og þorðir alltaf að standa fyrir þínu.

Frá því ég kom til ykkar Ólafar leit ég alltaf svo upp til þín og orð þín voru mér lög, mér fannst allt rétt sem þú sagðir. Ég á svo margar minningar frá þessum tíma. Ferðalag í Stífluhólana í berjamó með ykkur Ólöfu, þá varst þú í essinu þínu. Þú vildir öllum gera gott og hjálpa og ég á þér og Ólöfu svo ótalmargt að þakka, allan þinn stuðning við mig og mína fjölskyldu. Þú kenndir mér að vera sterk og standa fyrir mínu. Þú gafst mér gott veganesti út í lífið; að trúa og treysta Guði. Þú varst börnunum mínum sem besti afi og ég leit ævinlega á þig sem minn eina sanna fóður.

Með þessum fáu orðum kveð ég þig, fóstri minn, og bið þér allrar blessunar. Þú ert kominn á leið morgunroðans og þú ert í Guðs hendi og hann leiðir þig.

  • Hneig að fósturfold
  • framaríkur ítur öldungur,
  • sem allir virða.
  • Frámætu starfi
  • og manndómi
  • gekk til grafar
  • göfugmenni.

  • Minnast munu Sæby
  • Siglfirðingar
  • vetur og sumar
  • að verki ganga,
  • hagan ístarfi
  • hugar-reifan,
  • sterkan, stæltan
  • og stefnufastan.

  • Kveður þig, 
    Sæby Siglufjörður,
  • vinir börn
  • og vandamenn,
  • biðja þér heilla
  • og bera þér
  • þúsundfalda
  • þakkar fórn.

(J.S.)

Þín fósturdóttir. Guðmunda og fjölskylda.
___________________________________________________________________

Hinsta kveðja. Látinn er í hárri elli, 96 ára, vinur minn og góðkunningi foreldra minna, Kristján Sigurðsson, verkstjóri frá Siglufirði. Mig langar að senda kveðju mína norður yfir heiði en hugur minn verður við jarðarför Stjána míns. Kristján hef ég þekkt alla mína ævi, sem eru margir áratugir. Foreldrar mínir, Una Pétursdóttir og Benedikt Sveinsson, fóru sem ung hjón í síld á Siglufirði 1915. Þar kynntust þau og bjuggu hjá fjölskyldunni að Eyrarvegi 6, Andreu og Sigurði og börnum þeirra. Besta fólk sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Foreldrar mínir settust síðan að í Reykjavík og eignuðust þrjár dætur.

Árið 1926 varð slys í togara sem verið var að losa í höfninni. Þar fórst faðir minn aðeins fertugur að aldri. Þá mundu vinirnir á Eyri á Siglufirði eftir okkur mæðgunum í Reykjavík. Þau sendu mat, gjafir og góðar óskir og Stjáni minn skrifaði bréf og bauðst til að taka mig, þá fjögurra ára, í fóstur. Hans góðu foreldrar gerðu allt sem þau gátu fyrir okkur en Andrea var yndisleg kona.

Ég fór aldrei frá móður minni en ég gleymi aldrei jólagjöfunum frá Stjána mínum á Sigló. Hann mundi eftir litlu stelpunni hans Bensa vinar síns. Eftir að ég varð fullorðin og gift kona komu enn sendingar frá honum. Ég heimsótti Stjána vin minn á elliheimilið á Siglufirði 1997. Hann fagnaði mér vel, bauð inn í herbergið sitt sem ilmaði af harðfiski og súkkulaði.

Það var yndislegt að koma og sjá hve vel var hugsað um gamla manninn og að tala um gamla tíma. Ég fylgdist lengi með vini mínum í gegnum símann. Ég var svo heppin á árum áður að fá Stjána og konu hans í heimsókn þegar þau voru í Reykjavík og kynntist þeim enn betur. Ég kveð vin minn með virðingu og þökk fyrir samfylgdina og óska honum alls hins besta á nýjum leiðum.

Systur hans og mági sendi ég samúðarkveðjur en sérstaklega sendi ég Sigríði Guðmundu, fósturdóttur Kristjáns, hlýjar kveðjur og samúð og hafi hún hjartans þakkir fyrir hve hún var honum góð dóttir.

  • Mýktu sjúka og sára und
  • svo ég finni. finni.
  • Gef þú mér nú góðan blund
  • Guð af miskunn þinni.

(Ingþór Sigurbj.)

Hvíl í Guðs friði. Ragna Benediktsdóttir
___________________________________________________________________

Vinur minn, Stjáni á Eyri, er allur. Löngum og athafnasömum æviferli er lokið. Hann fæddist í byrjun þeirrar aldar sem nú er að ljúka - í upphafi vors í íslensku, og þá sér í lagi siglfirsku atvinnulífi; „síldarævintýrið" var framundan.

Kristján fæddist 4. nóvember 1902. Árið eftir er í fyrsta sinn söltuð á Siglufirði síld sem veidd er á hafi úti (reknetasíld). Uppgangsár Siglufjarðar fara í hönd - síldin breytir á fáum árum litlu fiskiþorpi í ört vaxandi athafnabæ. Við þessar aðstæður elst Kristján upp og lærir því fljótt að taka til hendinni eins og títt var með börn og unglinga á þeim tímum.

Verkefni voru næg fyrir vinnufúsar hendur. Kristján lærði trésmíði hjá Karli Sturlaugssyni og starfaði að meira eða minna leyti við smíðar alla ævi. Hjá Samvinnufélagi Ísfirðinga starfaði hann frá 1932 sem verkstjóri við síldarsöltun á sumrin í mörg ár og síðan hjá Síldarsöltun Ísfirðinga eftir að Samvinnufélagið hætti störfum. Þá vann hann allmörg ár á vetrum sjálfstætt við bátasmíði og bátaviðgerðir auk þess sem hann annaðist viðhald margra nótabáta fyrir síldarskipin. Kristján kvæntist Ólöfu Gísladóttur frá Skarðdal, móðursystur minni, og eru því okkar samskipti og vin átta áratugagömul.

Frá barnsaldri var ég tíður gestur á þeirra heimili og velkominn alla tíð. Á unglingsárunum hafa þau mig sem kostgangara að hluta til í nokkur ár eftir fráfall föður míns, skömmu fyrir fermingu mína. Ég á þeim því mikla þökk að gjalda fyrir drengskap og vináttu. Því miður auðnaðist frænku minni ekki að fylgja honum nema hluta af hinni löngu vegferð þar sem hún fellur frá 1969. Hygg ég að það hafi verið honum mikið áfall því hann mat hana mikils. Ekki varð þeim barna auðið en hjá þeim ólst upp sem fósturdóttir Guðmunda S. Óskarsdóttir, búsett í Garðabæ.

Sem unglingur og ungur maður vann ég allnokkur hjá Samvinnufélaginu við síldarsöltun og fáein ár einnig við bátasmíði og viðgerðir hjá Stjána. Hann var sjálfur hamhleypa til vinnu - eljumaður að hverju sem hann gekk. Það var engin lognmolla í kringum hann - hann kunni því líka betur að sínir samstarfsmenn væru sér nokkuð samstiga. Verkum var því ætíð skilað á tilsettum tíma, annað var einfaldlega ekki inni í myndinni - öll verklok stóðust.

Hann gat orðið orðhvass ef honum mislíkuðu hlutirnir - þá talaði hann tæpitungulaust. Auk vinnu sinnar við smíðar og síldarsöltun tók Kristján mikinn þátt í félagsmálum, einkum verkalýðsmálum og stjórnmálum. Hann var einn af stofnendum Verkamannafélagsins Þróttar og í stjórn þess um skeið. Snemma aðhylltist hann stefnu jafnaðarmanna og gekk í Alþýðuflokkinn sem hann fylgdi alla tíð. Hann var lengi í forystu flokksins hér í bæ og sat í bæjarstjórn Siglufjarðar fyrir Alþýðuflokkinn í 28 ár eða frá 1946-1974.

Um alllangt skeið var hann í stjórn Kaupfélags Siglfirðinga meðan það var og hét. Auk alls þessa var hann um langt skeið einn af þeim sem hér stunduðu tómstundabúskap. Hann hafði nokkrar kindur sem hann sá um sjálfur að meira eða minna leyti var í forystu félags fjáreigenda og stýrði sláturhúsi þeirra meðan það starfaði.

Margar minningar koma upp í hugann frá löngum tíma - 96 ár eru langur tími og því er hvíld líka kærkomin eftir svo langa vegferð. Við Inger flytjum hans nánustu samúðarkveðjur.
Að leiðarlokum þakka ég vini mínum langa og trygga vináttu sem aldrei bar skugga á.
Blessuð sé minning hans.

Anton V. Jóhannsson.
________________________________________________________________

Kristján fæddist í Siglufirði. Foreldrar hans voru hjónin Andrea Sæby og Sigurður Jónsson. Ekki er ég fróður um ættir Kristjáns, svo þær verða ekki raktar í þessum minningarorðum. Því ættir skipta ekki öllu heldur manngildi sérhvers einstaklings. Árið 1970 á haustdögum lágu leiðir okkar Kristjáns saman í félagsskap sem okkur var báðum hugstæður, en þar á ég við Sameignarf. fjáreigenda hér í Siglufirði.

Ekki vorum við sammála í öllum málum í upphafi, en eftir því sem fram liðu stundir náðum við saman og eftir fá ár tel ég að Kristján hafi verið einn af traustustu vinum mínum og hélst allt til þess að lífsbók vinar míns var lokað. Kristján nam trésmíði hjá Karli Sturlaugssyni og stundaði Kristján trésmíðar eftir að námi lauk ásamt mörgum fleiri verkefnum. Nokkur ár vann Kristján við bátasmíði á eigin vegum. Árið 1932 réðst Kristján til Samvinnufélags Ísfirðinga, sem verkstjóri og vann þar allt þar til félagið var lagt niður.

Að vísu var aðalrekstur félagsins yfir sumarið, á meðan síldin  veiddist, hér fyrir Norðurlandi. Snemma gekk Kristján í Verkalýðsfélagið Þrótt hér í bænum og var formaður þess í tvö ár, 1935 og 1936. Kristján var ódeigur málsvari þeirra sem minna máttu sín og hélt fast fram málstað þeirra. Kristján gekk ungur að árum í Alþýðuflokkinn og var trúr þeirri hugsjón sem flokkurinn barðist fyrir frá  upphafi.

Kristján fylgdist svo vel með hverju máli að það vakti eftirtekt þeirra sem á hlýddu hversu vel svo aldinn maður gaf sér tíma til að komast inn í sérhvert mál. Kristján sat í bæjarstjórn Siglufjarðar fyrir Alþýðuflokkinn í 28 ár, frá 1946 til 1974 og fjögur síðustu árin sem forseti bæjarstjórnar, sat samtals 630 bæjarstjórnarfundi, var í mörgum nefndum og ráðum fyrir hönd bæjarins.

Kristján var talinn hrjúfur við fyrstu kynni, ég tel að það hafi verið brynja til varnar síðan hann var í fylkingarbrjósti í verkalýðs- og pólitísku starfi. Ég staðhæfi að undir brynjunni sló heitt og gott hjarta. Ég dreg í efa að þeir sem minna máttu sín hafi átt traustari málsvara en Kristján á Eyri. Þeir eru ófáir sem Kristján hefur rétt hjálparhönd um dagana, án þess að eftir hafi verið talið, né ætlast til borgunar. Á það dreg ég ekki dul að fyrirbænir þeirra sem þáðu hafi dugað jafn vel og borgun.

Kristján var geðríkur eins og dugnaðarmönnum er gjarnt, en strangheiðarlegur. Ég tel að vandfundinn sé maður honum fremri í því efni. Kristján sagði manni umbúðalaust hug sinn, hvort honum líkaði betur eða verr. Ég lærði mikið af þessum aldna heiðursmanni síðan leiðir okkar lágu saman. Ekki voru okkar fyrstu kynni á þann veg, að við yrðum kunningjar, hvað þá að það leiddi til vináttu okkar í milli.

Árið 1931 kvæntist Kristján Ólöfu Gísladóttur frá Skarðdal, f. 19. maí 1901, þeim varð ekki barna auðið, en tóku Guðmundu Óskarsdóttur í fóstur og reyndist hún fóstra sínum svo vel, sem dóttir væri. Ólöf bjó eiginmanni sínum hlýlegt heimili, enda veitti ekki af, á meðan verkalýðshreyfingin var í mótun. Þá léku oft kaldir vindar um sali. Því baráttan var oft hörð og óvægin á þeim tíma.

Ólöf lést 6. maí 1969. Kristján hélt heimili eftir lát Ólafar allt þar til 1997 að hann fór á Sjúkrahús Siglufjarðar og skömmu seinna á ellideildina og var þar þangað til fyrir rúmu ári að heilsu hans hrakaði svo hann var lagður inn á sjúkradeild Sjúkrahússins.

Eftir að Ólöf lést átti Kristján traust skjól hjá systur sinni Fanneyju og eiginmanni hennar Þórarni Vilbergssyni. Nú er Fanney ein eftir af systkinahópnum. Kristján var vel á sig kominn, bæði til sálar og líkama, allt þar til fyrir rúmu ári.

Kristján helgaði öll sín störf samborgurum sínum bæði í orði og verki, því hér í bæ hefur hann dvalið allan sinn aldur. Ég færi þér innilegar kveðjur sambýliskonu minnar Sigríðar Björnsdóttur, fyrir trygga vináttu liðinna ára. Lokaorð mín til þín, góði vinur, eru eftir Þórarin Hjálmarsson, ort til félaga okkar sem lést 1977.

  • Ég þakka okkar löng og liðin kynni
  • sem lifa, þó maðurinn sé dáinn.
  • Og ég mun alltaf bera mér í minni
  • þá mynd sem nú er liðin út í bláinn.
  • Und lífsins oki lengur enginn stynur
  • Sem leystur er frá sinnar æviþrautum.
  • Svo bið ég guð að vara hjá þér vinur
  • Og vernda þig á nýjum ævibrautum.

Hvíl í friðarfaðmi, góði vinur, og guði falinn.

Ólafur Jóhannsson.